Fréttabréf mars 2020

Lífið á tímum COVID-19

Við erum að upplifa einstaka tíma. Upplifunin minnir á hamfarakvikmyndir eða vísindaskáldsögu. Á einum mánuði hefur daglegt líf okkar allra gjörbreyst.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Allt það sem við höfum talið sjálfsagt hingað til, einsog að faðmast, heimsækja vini og ættingja, sækja kvikmyndahús, leikhús og tónleika, fara í líkamsræktarstöðina, sund eða á kaffihús, er nú bannað.  Að fara út í matvörubúð er orðið að áhættuför sem þarf að undirbúa vandlega og framkvæma eftir ströngum öryggisreglum. Enn sjáum við ekki fyrir endann á faraldrinum né afleiðingar hans og það veldur mörgum óöryggi og kvíða.

Á sama tíma erum við á Íslandi afskaplega heppin í samanburði við aðra jarðarbúa sem eru eða munu kljást við faraldurinn. Við erum með góða innviði, öflugt heilbrigðiskerfi og hagkerfi sem mætt getur ófyrirséðum kostnaði. Einsog áður þegar áföll skella á þjóðinni finnum við fyrir samheldni landsmanna.

Hvert okkar þarf að leggja sitt af mörkum með því að hlíta fyrirmælum Almannavarna og að hlúa að okkur sjálfum. Það getum við m.a. gert með því að nýta þennan COVID tíma á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Mörg okkar eru sjálfsagt nú þegar að nota tímann til að hreinsa upp gamlar syndir einsog að fara í gegnum lyfjaskápinn og henda útrunnum lyfjum, taka til í sokkaskúfunni, endurraða í geymslunni og annað þess háttar.

En svo er um að gera að gera líka eitthvað skemmtilegt og fræðandi. Í fréttabréfinu að þessu sinni setjum við fram nokkrar tillögur um hvernig hægt er að nýta þennan tíma á jákvæðan hátt um leið og við látum okkur hlakka til þegar við megum aftur gera hvað eina sem okkur sýnist.

Með bestu kveðju,

Hjördís Hendriksdóttir
formaður stjórnar Vöruhúss tækifæranna
netfang: vt@voruhus-taekifaeranna.is

Búðu til þína eigin ljósmyndabók

Veldu bestu ljósmyndirnar þínar og hannaðu þína eigin ljósmyndabók/bækur til að eiga eða til að gefa öðrum. Þú getur t.d. hannað bókina á vef Pixel prentþjónustu þar sem hægt er að velja alls konar útlit, kápur og hafa hverja ljósmynd í nánast hvaða stöðu og stærð sem er á síðunni. Engin takmörk eru á fjölda mynda í bókinni. Þegar ljósmyndabókin er tilbúin færðu tilboð í prentunina.
Sjá nánar á:

https://pixeldesigner.is/ljosmyndabok.php?gclid=EAIaIQobChMImsG0jtWw6AIVgoXVCh3ZzQAmEAAYASAAEgKmpfD_BwE

Vertu heimild fyrir framtíðina

Skrifaðu um þína upplifun af COVID-19 faraldrinum.

Handritasafn Landsbókasafnsins hvetur fólk til að skrifa niður minningar og upplifanir á COVID-19 faraldrinum og safna gögnum fyrir fræðimenn og fjölmiðlafólk framtíðarinnar. Þetta séu sögulegir tímar og persónuleg gögn geta reynst mjög notadrjúg. Skriflegar heimildir teljist bestar til að tryggja varðveislu. Hægt er að setja lokunarskilmála, það er að gögnin verði ekki aðgengileg fyrr en eftir ákveðinn tíma, að hámarki 80 ár. Fólk sem sent hefur inn gögn geti ávallt farið á safnið til þess að skoða þau seinna meir.

Sjá nánar:
https://landsbokasafn.is/

Komdu með í leikfimi

Nú þegar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hafa lokað er mikilvægt að halda líkamlegu atgervi við. Ein leið er að taka þátt í leikfimi Halldóru Björnsdóttur íþróttafræðings á Rás 1 á hverjum virkum morgni kl. 9:45


Nú þegar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hafa lokað er mikilvægt að halda líkamlegu atgervi við. Ein leið er að taka þátt í leikfimi Halldóru Björnsdóttur íþróttafræðings á Rás 1 á hverjum virkum morgni kl. 9:45. Fyrir þá sem vilja æfa meira er hægt að fara inn á vef Rúv https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunleikfimi/6584/1up8t5 þar sem hægt er að taka þátt í morgunleikfimi frá árinu 2008.

Vertu símavinasjálfboðaliði
hjá Rauða krossinum

Láttu gott af þér leiða með því að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum?

Sjálfboðaliðar Rauða krossins hringja til þeirra sem þess óska. Um er að ræða vinaspjall í allt að hálftíma í senn, tvisvar í viku, á sama tíma dags, á tíma sem hentar báðum aðilum. Verkefnið er byggt upp á svipaðan hátt og heimsóknavinir Rauða krossins. Þar sem að sími er notaður eru fjarlægðir ekki hindrun og því auðvelt að eignast vini allt í kringum landið.


Þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar og vera símavinir geta skráð sig hér og skráð í athugasemdum að þeir hafi áhuga á að gerast símavinir :
https://www.raudikrossinn.is/taktu-thatt/gerast-sjalfbodalidi

Frekari upplýsingar gefur Kristína Erna Hallgrímsdóttir,
kristina@redcross.is eða í síma 570 4000.

Lærðu nýtt tungumál á vefnum

Viltu hressa uppá skóla-dönskuna eða læra nýtt tungumál frá grunni?

Babbel hefur frá árinu 2007 kennt tugumál á netinu og er eitt það fremsta á þessu sviði. Babble hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Milljónir hafa nýtt sér Babble til að læra tungumál á netinu og segjast 73% notenda hafa getað átt stutt, einfalt samtal á nýju eftir að hafa notað Babble í fimm klukkustundir.

Sjá nánar: https://uk.babbel.com/

Heimsæktu frægustu söfn heims

Fáðu þér smá menningu og menntun meðan því að fara í sýndarferðir á yfir 500 söfn og gallerí um allan heim. Á meðal safna eru British Museum, London; Guggenheim Museum, New York og Musée d’Orsay, Paris.

Sjá nánar á
https://hellogiggles.com/news/museums-with-virtual-tours/?fbclid=IwAR3Xh9GPxnZlLATyPOfZtLEZsPFnJ1A3Rz9SOemsy_iFjSmmLuFCeC8tpHE

Vertu í bandi – láttu heyra frá þér

Að lokum biðjum við ykkur um að senda okkur ábendingar og tillögur um hvað þið mynduð vilja sjá á vef Vöruhúss tækifæranna. Sendið okkur línu á vt@voruhus-taekifaeranna.is

Skip to content