Fréttabréf í október 2024
Alþjóðadagur aldraðra 1. október 2024Að eldast með reisn
Alþjóðadagur aldraðra er haldinn 1. október ár hvert. Til þessa alþjóðadags var stofnað 14. desember 1990 með tilnefningu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (ályktun 45/1069) og er honum ætlað að heiðra og fagna eldra fólki, viðurkenna mikilvægi þeirra í samfélaginu, taka á þeim málefnum sem snerta velferð þeirra og varpa ljósi á þær sérstöku áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Árið 1991 samþykkti svo allsherjarþingið stefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni eldra fólks (ályktun 46/91). Síðan árið 2010 hefur hinn opni vinnuhópur Sameinuðu þjóðanna um öldrun, OEWG, (Open Ended Working Group on Aging) unnið að þróun mannréttindasáttmála eldra fólks, sem enn hefur ekki náðst samstaða um.
Einkunnarorð hins 34. Alþjóðadags aldraðra 2024 eru:
Að eldast með reisn: Mikilvægi þess að efla umönnunar- og stuðningskerfi fyrir aldraða á heimsvísu“.
Hér er sérstaklega vísað til þess að samfara stöðugri fjölgun eldra fólks í öllum heimshlutum eykst þörfin á umönnun og stuðningsþjónustu verulega, hvort sem um er að ræða alhliða heilbrigðisþjónustu eða félagslegan stuðning, launaðan jafnt sem ólaunaðan og formlegan eða óformlegan. Hér má t.d. nefna stuðning vegna sjúkdóma eins og heilabilunar.
Á heimsvísu voru 703 milljónir einstaklinga 65 ára og eldri árið 2019. Mikill munur var á fjölda einstaklinga milli heimshluta og var Austur- og Suðaustur-Asía fjölmennasta svæðið með 261 milljón 65 ára og eldri. Þar á eftir komu Evrópa og Norður-Ameríka með samtals rúmlega 200 milljónir. Mannfjöldaspá frá 2019 spáir því að árið 2050 verði þessi aldurshópur orðinn um 1550 milljónir sem samsvarar fjölgun um rúm 120%. Til samanburðar mun aldurshópnum í Evrópu og Norður-Ameríku aðeins fjölga um 96 milljónir eða 48% (Heimild: World Population Ageing 2019: Highlights (un.org). Sé Talnagrunnur Hagstofu Íslands skoðaður má sjá að árið 2023 voru 65 ára og eldri á Íslandi tæplega 58300 en lægsta mannfjöldaspá Hagstofu spáir að einstaklingum í þessum aldurshóp fjölgi í tæplega 95000 árið 2050 eða um 63%. Þar má einnig sjá að árið 2023 voru 19 einstaklingar eldri en 100 ára, þar af aðeins tveir karlar. Sé þessi staða skoðuð í spánni fyrir 2050 gætu 108 einstaklingar náð þessum aldri, þar af 28 karlar (úrvinnsla undirritaðs).
Þessi lýðfræðiþróun hefur einnig í för með sér að meðalævilengd karla og kvenna (við fæðingu) fer hækkandi. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands 2020 mun meðalævilengd kvenna hér á landi hækka úr 84,1 ári í 88,7 ár árið 2069 og meðalævilengd karla úr 80 árum í 84,4 ár í lok spátímabilsins.
Stuðningskerfi umönnunar á Íslandi sem og víða annars staðar eru ekki mjög burðug til þess að mæta þeim miklu áskorunum sem þessi fjölgun fólks á efri árum mun hafa í för með sér. Hér er því þörf á langtíma stefnu íslenskra stjórnvalda, sem hingað til hefur því miður ekki verið sterkasta hlið þeirra að mati undirritaðs.
Undirrituðum er ekki kunnugt um sérstaka viðburði eða framtak hérlendis í tengslum við þennan merkisdag eldra fólks, en upplýsingar og umfjöllun um Alþjóðadag aldraðra 2024 má finna á vefsíðum Sameinuðu þjóðanna, sjá t.d.
United Nations International Day of Older Persons - UNIDOP
UNIDOP2024_Mission Statement_final.pdf
2024 United Nations International Day of Older Persons - UNIDOP
Hans Kr. Guðmundsson
Besti vinur hundsins
Það er gott að eiga vin, vin sem elskar mann skilyrðislaust, vin sem fylgist með hverju fómáli manns af ástúð, vin sem bíður manns heima og fagnar innilega þegar maður kemur heim.
Ég er svo heppinn að eiga slíkan vin. Það er hann Ísar. Átta ára gamall smáhundur. Hann lítur á mig sem besta vin sinn. Hann heldur mér selskap og sér um að ég hreyfi mig nægjanlega á hverjum degi.
Dag hvern fer hann með mig í göngutúra svo ég fái nægja hreyfingu og útivist. Ferðir okkar saman um nágrennið verða oft ævintýraferðir þar sem við upplifum og sjáum alls konar smálegt sem oft er skemmtilegt, fallegt og athyglisvert. Þannig þjálfar hann mig í líkamlegri hreyfingu og viðheldur athyglisgáfu minni.
Mikið væri líf mitt snautlegt og viðburðasnauðara án hans, að ég tali ekki um hve heilsa mín væri bágbornari.
Það hefur verið sýnt fram á, með ýmsu móti, hvað gæludýr geta veitt mikilli jákvæðni inn í líf fólks og þá ekki síst inn í líf eldra fólks. Enda eru hundar gerðir út sem heimsóknarvinir á vegum Rauða krossins á öldrunarstofnunum til að létta lund heimilsisfólks þar og veita þeim ánægju og gleði. Það hefur stytt þeim stundirnar og veitt þeim lífsfyllingu að verða bestu vinir hundsins.
Því er stórundarlegt að það skuli viðgangast að húsfélagsfundir í fjöleignahúsum banni alfarið gæludýrahald. Þar hefur meirihlutinn ákeðið slíkt og samþykktin síðan gengið í erfðir til allra þeirra sem síðar eignast íbúðirnar.
Slíkt er í rauninni ólöglegt.
Það er einnig ólöglegt þegar fasteignasalar auglýsa að í tilteknum fjöleignahúsum sé „gæludýrahald leyft“. Eins og þannig sé og verði um aldur og ævi.
Því það gilda lög í landinu um gæludýrahald í fjölbýlishúsum. Með þessum lögum á hver og einn hudur, eða annað gæludýr, rétt á að vera borinn undir atkvæði og fá rétt til búsetu ef tveir þriðju íbúðaeigenda hússins samþykkja heimilishald hans í fjölbýlinu. Hver samþykkt gildir eingöngu um t.d. tiltekinn hund og framlengist ekki fyrir aðra hunda sem síðar kynnu að koma. Þess vegna er það brot á lögum að samþykkja alfarið hundabann í fjölbýli eða að auglýsa að í tilteknu fjölbýli sé gæludýrahald leyft. Því slíkar samþykktir eru hrekjanlegar á húsfundi fjöleignahússins.
Á Alþingi liggur fyrir frumvarp frá þingmönnum Flokks fólksins, (lagt fram fimm þing í röð án þess að fá enn þinglega meðferð) sem mun útvíkka þennan rétt fólks til að hafa „besta vininn“ hjá sér í sinni eigin íbúð. Í frumvarpinu er kveðið á um að almennt sé gæludýrahald leyft í íbúðum fjölbýlishúsa, en réttur annarra í húsinu þó tryggður séu gild málefnaleg rök fyrir að úthýsa gæludýrinu.
Þegar ég eignaðist fyrri hundinn minn, einnig smáhund, bjó ég í fjöleignarhúsi með fimm íbúðum. Ég gekk með hann 10 vikna í öðrum lófanum á milli íbúða og spurði við hverjar dyr hvort hann mætti búa hjá mér. Meira segja hún Margrét sem bjó beint á móti og hefur alltaf verið hrædd við hunda samþykkti sambýling minn. Eftir því sem dvöl hans ílengdist fór Margrét að sýna honum vaxandi athygli og ástúð. Hún varð síðar sá íbúi hússins sem marg bauðst til að passa hann ef á þyrfti að halda og bauð honum oftast inn til sín í heimsókn. Eftir að ég og hundurinn fluttum út sé ég iðulega myndir af Margréti á móti með hundum á Facebook.
Ég þekki marga sem veigra sér við að skipta um húsnæði, jafnvel þó það væri bæði hagkvæmara fyrir þá sjálfa og samfélagið, vegna þess að þeir óttast að þurfa sjá að baki besta vininum.
Ég gæti alla vega ekki hugsað mér að þurfa skilja við hundinn minn, ljúflinginn og gönguþjálfarann minn, hann Ísar.
Ég er alveg handviss um að hann Ísar vill alls ekki missa besta vin sinn -mig.
Viðar Eggertsson
Besta aðferðin við að hægja á öldrun
„Who Wants to Live Eorever“ sungu meðlimir hljómsveitarinnar Queen hér um árið. Ég veit ekki- ætli það sé nokkuð eftirsóknarvert að lifa endalaust? Líklega ekki. En það er samt í eðli okkar að vilja lifa lengi við góða heilsu og sumir eiga jafnvel erfitt með að skilja sáttir við æskuna. Vandamálið er bara að það virðast engin ráð vera óbrigðugl við að hægja á öldruninni, - eða hvað?
Sara Hägg, vísindamaður á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð segir í blaðaviðtali við Dagens Nyheter að eitt ráð sé til að hægja á líffræðilegri öldrun. Hún ætti að vita það, því rannsóknasvið hennar snýst um líkamlega öldrun fólk. Kenning Söru Hägg er að með því að fækka þeim hitaeiningum sem við innbyrðum í mat og drykk þá lengjum líftíma okkar.
Sara þessi Hägg og samstarfsfólk hennar hefur í rannsóknum sínum gert tilraunir til að hægja á öldrun bæði dýra og manna. Meðal tilraunadýrategundanna er allt frá rottum og öpum til smákvikinda eins og þráðorma og ávaxtaflugna (sem, merkilegt nokk, er algengt að nota í rannsóknum tengdar erfðum mannfólks). Þegar inntaka hitaeininga þessara dýrategunda var minnkuð um 20 til 40 prósent, frá því sem eðlilegt gat talist, jókst lífslengd þeirra um 50 til 300 prósent. Lífslengdin jókst meira hjá skordýrum og öðrum smákvikindum heldur er hjá stærri dýrum.
Ekki hafa verið gerðar sambærilegar rannsóknir á fólki, enda erfiðara að grípa með svo drastískum hætti inn í líf fólks. Þó var gerð tilraun á rúmlega 200 manns sem fengu það verkefni að minnka neyslu hitaeininga um 25 prósent í tvö ár. Niðurstaðan varð sú að neysla tilraunahópsins minnkaði í raun um helming þeirra hitaeininga sem lagt var upp með í byrjun. Engu að síður breyttust ýmsir grunnþættir í líkamsstarfseminni sem hafa áhrif á heilsu og lífslengd. Þetta átti við um starfsemi hjartans, aukinnar insúlínupptöku, lækkandi blóðsykur og minni fitusöfnun.
Halda í tvítugsaldurinn
Nokkuð er um liðið síðan þessi rannsókn var gerð. Því hafa síðar verið framkvæmdar samanburðarrannsókn á þeim sem tóku þátt í tilrauninni á sínum tíma annars vegar og hins vegar á hópi jafnaldra sem ekki höfðu tekið þátt. Ýmsir þættir, sem gefa vísbendingar um líffræðilega öldrun líkamans, voru mældir og bornir saman á milli samanburðarhópanna. Niðurstöður vísindamannanna var að þeir sem höfðu minnkað neyslu hitaeiningaríkrar fæðu ættu meiri og lengri lífslíkur en hinir. Þannig var samsvörun milli tilrauna á dýrum og okkur mannfólkinu að þessu leyti. - Minnkun á neysla fæðu með miklum fjölda hitaeininga eykur líkur á langlífi.
Á miðjum aldri breytast smám saman efnaskipti líkamans og því er mikilvægt að á því æviskeiði sé dregið úr neyslu á mat sem inniheldur mikið magn hitaeininga. Keppikeflið ætti að vera að halda sem mest óbreyttri líkamsþyngd þegar aldurinn færist yfir. Almennt er talið best að halda líkamsþyngd eins og hún er um tvítugt, það sem eftir er ævinnar. Þannig minnka líkur á kvillum eins og sykursýki-2, hjarta- og æðasjúkdómum og háum blóðþrýstingi, að mati Söru Hägg og samstarfsfólki hennar.
Þróunarfræði og eilíf æska
Þróunarfræðilega er engin ástæða til að hver ný kynslóð verði eldri en sú sem á undan gekk. Samkvæmt túlkunum þróunarfræðikenninga þurfum við í raun aðeins og ná þeim aldri að geta komið börnum okkar á legg og þar með er líffræðilegum tilgangi okkar náð. Í þessum skilningi má segja að við séum ekki gerð til að eiga langt og rólegt ævikvöld, eins og við þó flest óskum okkur.
Aldur okkar, hvers um sig, segir ekki til um á hvaða stað líf okkar er og hversu langt við eigum eftir ólifað. Líkamsklukka hvers einstaklings gengur á mismunandi hraða. Sara Hägg og kollegar hennar nota nokkra mælikvarða til þess að meta líkamlega öldrun kroppsins. Það eru fyrst og fremst mælikvarða eins og lungnastarfsemi og öndunarhæfni, gönguhraði, gripstyrkur í höndum og vitræn hæfni.
Að lokum eru vísindamenn farnir að leggja aukna áherslu á sjálfsmat hvers einstaklings á eigin líkamlegan breyskleika. Þessi matsþáttur hvers einstaklings sýndi sig vera mun veigameiri en aðeins aldurinn, þegar covid-faraldurinn geysaði og meta þurfti hversu vel sjúklingar þyldu þá gjörgæslumeðferð sem í boði var.
Grein þessi byggir á grein í Dagens Nyheter 9. september 2014, undir fyrirsögninni „Forskare: Bästa sättet att bromsa åldrandet“
Emil B. Karlsson
Öðruvísi morgungrauturfrá Bláa Svæðinu Loma Linda
Gamalt spakmæli hljóðar svo: „Snæddu morgunverð eins og konungur, hádegisverð eins og prins, en kvöldverð eins og fátæklingur.“ Samkvæmt þessu ætti fyrsta máltíð dagsins að vera sú stærsta og ekki ætti að borða oftar en þrisvar á dag. Á nokkrum Bláu Svæðanna er þessu fylgt á áþekkan hátt þannig að fyrsta máltíð dagsins byggist á próteíni og flóknum kolvetnum (úr baunum eða grænmeti), og fitu úr jurtaríkinu (úr hnetum, fræjum og olíum) og meirihluta hitaeininga á dag er neytt fyrir hádegi. Íbúar Nicoya snæða gjarnan morgunverð tvisvar og síðan léttan kvöldverð, Á eyjunum Ikaria og Sardiníu er hádegisverður stærsta máltíð dagsins og á Okinawa sleppir fólk kvöldverðinum alveg, en margir aðventistar í Loma Linda snæða aðeins tvær máltíðir á dag, aðra um miðjan morgun og hina um fjögurleytið. Margar vísindarannsóknir hafa bent til þess að inntaka meginhluta hitaeininga á fyrri hluta dags leiði til lækkunar líkamsþyngdar ásamt því að draga úr hættu á hjartasjúkdómum.
Morgunverður fólks á Bláu svæðunum getur verið mjög margvíslegur. Baunir eru algeng uppistaða í Costa Rica, en mísósúpa og hrísgrjón á Okinawa. Öldungarnir í Loma Linda snæða gjarna hrært tófú eða ríkulegan hafragraut eða ósoðna hafra með ávöxtum eða hnetum á morgnana.
Hver segir að hafragrauturinn þurfi að hafa sama sæta bragðið á hverjum morgni? Hér kemur uppskrift beint úr eldhúsi í Loma Linda. Auðvelt er að breyta henni og aðlaga eftir smekk og skapi hvers og eins.
Öðruvísi morgungrautur (fyrir tvo).
Innihald:
- 1 bolli (95 g) grófvalsaðir hafrar
- 1 gulrót eða lítil rauðrófa, rifin
- 1 ½ bolli (360 ml) vatn
- 1 bolli (15 g) saxað grænkál eða 30 g saxað spínat
- ¼ bolli (60 g) salsa eða pastasósa
- 2 msk næringarger
- ½ lárpera, skorin í bita
- 2 msk ristuð graskersfræ
- Reykt paprika og/eða mulinn rauður pipar (má sleppa)
- Salt og svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
- Hrærið saman höfrum og gulrót í litlum potti yfir meðalhita. Bætið vatninu við. Notið aðeins meira eða minna af vatni eftir því hve þykkan þið viljið hafa grautinn.
- Látið suðuna koma upp og sjóðið við hægan hita í u.þ.b. 5 mínútur.
- Hrærið grænkáli, salsa og næringargeri saman við.
- Hellið grautnum í skálar og dreifið lárperu og graskersfræjum yfir. Stráið reyktri papriku (og rauðum pipar) yfir. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk.
Tillaga: Prófið mismunandi pastasósur til tilbreytingar.
Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir
Viðburðir U3A Reykjavík í október 2024
8. október
Eiríkur Bergmann prófessor fjallar um samsæriskenningar en hann hefur nýlega gefið út bók um efnið sem heitir Weaponizing Conspiracy Theories.
15. október
Stefán Ólafsson, lektor við Háskólann í Reykjavík flytur fyrirlestur sem hann nefnir: Gervigreind á mannamáli.
16. október
Menningarhópur heimsækir Kvikmyndasafn Íslands í Hafnarfirði 16. október kl. 14:00. Eftir heimsóknina fer hópurinn saman á kaffihús.
22. október
Hvernig virka skoðanakannanir? er yfirskrift erindis Agnars Freys Helgasonar en hann er dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
29. október
Margrét Rafnsdóttir, líffræðingur kynnir bók sína Hjartarætur – sagan hans pabba, fjölskyldusögu úr Reykjavík sem nær yfir alla 20. öldina, aftur í þá 19. og fram í þá 21.
5. nóvember
Bergþóra Kvaran frá Umhverfisstofnun fjallar um umhverfisvænar byggingar.
Allir þriðjudagsfyrirlestrarnir fara fram í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík kl. 16:30.
Kveðjur frá stjórn U3A Reykjavík