Gönguleiðir með rafrænni leiðsögn

Úr fréttabréfi
Vöruhúss tækifæranna í apríl 2020

Wapp er íslenskt gönguapp þróað af Einari Skúlasyni. Appið er ókeypis og hægt er að hlaða því niður úr App Store fyrir iPhone síma og Google Play fyrir Android síma.

Wapp leiðir notendur um meira en 230 göngu-, hjóla- og hlaupaleiðir á Íslandi. Langflestar leiðirnar eru þó gönguleiðir.

Auk þess að veita upplýsingar um leiðirnar þá fylgja með kort og myndir. Texti fylgir öllum leiðum en þær sem eru merktar sem leiðsögn innihalda mun meiri texta en þær sem eru merktar sem hreyfing. Hægt er að velja göngur eftir erfiðleikastigum, þ.e. 1) auðvelda göngu; 2) meðal-göngu og 3) erfiða göngu. Þá kemur fram í göngulýsingum hversu margir kílómetrar hver ganga er, hver mesta hækkun er og áætlaður tími sem hver ganga tekur.

Þá má benda á að appið eykur öryggi notenda. Í samstarfi við Neyðarlínuna er notendum boðið að senda Neyðarlínunni skilaboð, gjaldfrjálst, með staðsetningu á meðan á göngu stendur. Þau skilaboð eru ekki skoðuð af Neyðarlínunni nema ef einhver tilkynnir að manneskju sé saknað.

Hægt er að fá frekari upplýsingar á Wapp vefsíðunni http://wapp.is/

Skip to content