Fyrirmyndin Birna Halldórsdóttir
Birna Halldórsdóttir sem er 73 ára í dag hefur farið óhefðbundnar leiðir í lífinu. Ef lýsa ætti Birnu með einu orði myndi það verða félagsvera. Allt sem hún hefur tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina hefur helgast af áhuga hennar fyrir fólki.
Birna útskrifaðist með verslunarskólapróf og hefur síðan þá bætt við sig fjölbreyttu námi í Danmörku, London, Þýskalandi og Finnlandi. Birna vann m.a. hjá Norræna félaginu í 10 ár og fór þá til námsdvalar í norður-Noregi til að kynna sér menningu Sama. Í framhaldi af þeirri dvöl ákvað hún að læra mannfræði og skrifaði að sjálfsögðu lokaritgerðina um Sama.
Árið 1991 réði Birna sig til starfa sem sendifulltrúi hjá Rauða krossinum og sá þar um dreifingu matvæla og hjálpargagna á hamfara og stríðshrjáðum svæðum svo sem Sómalíu, Aserbaísjan, Suður Súdan, Indónesíu, Haítí, Malaví, Gambíu og Eþíópíu.
En eins og svo margir aðrir varð Birna að hætta að vinna hjá Rauða krossinum þegar hún komst á eftirlaunaaldur. Fór þá í nám í Leiðsögumannaskólanum og útskrifaðist sem leiðsögumaður og bætti svo við sig meiraprófi þegar hún var sjötug.
Birna tók virkan þátt í alþjóðaverkefninu HeiM, Heritage in Motion, sem U3A Reykjavík var aðili að og hannaði ásamt fleirum gönguleið um menningararfinn sem felst í styttum í miðborg Reykjavíkur.
Birna segja fylgjast vel með hjá Vöruhúsi tækifæranna og sækir þriðjudagsfyrirlestra hjá U3A reglulega, þegar hún er ekki að þeysast um landið með útlendinga í rútu til að kynna fyrir þeim land og þjóð.
Einkunnarorð Birnu eru: Allt er fullorðnum fært!