lara-800x600

Lára stefnir í bissness

Hugarsmíðin hún Lára okkar er 70 ára hárgreiðslukona frá Hvolsvelli sem fluttist á Selfoss eftir námið í Iðnskólanum og stofnaði þar hárgreiðslustofu sem dóttir hennar rekur í dag. Lára er ekkja. Auk dóttur á hún son sem býr í Kaupmannahöfn og fjögur barnabörn.

Lára er framsóknarkona, trúir á landbúnað, sjálfstæðan rekstur og landið sitt. Henni finnst vinna besta meðalið en fyrir um fimm árum síðan, þegar hendur og bak þoldu ekki lengur álagið að standa uppi allan daginn tók dóttir hennar við stofunni. Þrátt fyrir það er Lára engan veginn lögst í helgan stein heldur er hún í móttöku stofunnar og tekur sína fastakúnna af og til. Reynsla hennar við að vera ekkja með tvö ung börn hefur mótað hana því það er engin afsökun að gefast upp heldur er hennar móttó að taka slaginn og standa sig. Lára telur að vinnan göfgi manninn.

Láru finnst mikilvægt að leggja til samfélagsins og trúir á einstaklingsframtakið í samstarfi við hið opinbera. Lára  tilheyrir engum klúbbi eða félagsstarfi en fylgist vel með þjóðfélagsumræðunni, pólitík og sveitarstjórnarmálum. Henni finnst ekkert sérlega gaman af slúðri eða dægurmálum heldur alvöru fólki og alvöru verkefnum. Vinkonur hennar úr æsku halda þó hópinn og einnig hefur hún hitt skólasystkini sín úr Iðnskólanum á nokkrum endurfundum.

Allar umræður og fréttir af fjárfestingum, fjárhag og ráðum þar af lútandi þykir Láru spennandi. Hún fer á hin ýmsu námskeið sem efla færni og hugmyndir í viðskiptum, hefur bæði farið á netnámskeið og á námskeið í Opna Háskólann í Reykjavík í t.d. stjórnun,
fjármál minni fyrirtækja, stjórnarsetu og stefnumótun. Það sem fær Láru til að vera hluti af Vöruhúsi tækifæranna er að hún lítur á síðuna sem upplýsingagrunn, finnur fyrir trausti því síðan talar til hennar, með hennar þarfir og velvilja í huga. Vöruhúsið gefur henni tækifæri á að kynna sér réttindi, samfélagsvirkni, hvar á að leita að styrkjum og ráðgjöf við hinum ýmsu viðskiptahugmyndum sem hún fær. Helst eru það því rekkarnir Félagsleg réttindi, Lífsfylling og Stofnun fyrirtækis og hillur á þeim og tækifæri sem tala til hennar.

Foreldrar Láru eru látnir, hún á sex systkini, elsta systirin býr á Hvolsvelli og hittist stórfjölskyldan reglulega þar. Lára er ekkert endilega hrifin af börnum, en styður sín og önnur í fjölskyldunni til sjálfstæðis af heilum hug.

Nóvember 2021
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Nóvember 2021
Skip to content