halla-800x600

Halla vill að náttúran og umhverfið njóti vafans

Hugarsmíðin hún Halla okkar er 50 ára, fædd á Dalvík en býr á Akureyri þar sem hún vinnur í bókhaldi hjá Húsasmiðjunni í hálfu starfi. Halla er Vinstri-græn, hún vill að náttúran og umhverfið njóti vafans og styður ávallt þeirra málstað – vill búa börnum sínum öruggan heim.

Eftir grunnskólanám á Dalvík vann Halla í frystihúsinu þar í bæ. Hún kynntist manninum sínum honum Árelíusi á þeim árum og flutti með honum til Reykjavíkur þegar hann fór í guðfræðina í Háskólanum. Á þessum tíma vann Halla fyrir þeim auk þess sem hún sótti bókhaldsnám í kvöldskóla. Eftir að börnin þrjú voru fædd fékk Árelíus brauðið í Akureyrarkirkju og fluttu þau þá aftur norður. Halla unir hag sínum vel á Akureyri, fjármálin ganga vel og stefna þau á að eiga húsið sitt skuldlaust  fyrir 65 ára aldur. Svo er Halla virk félagslega, er í Kvenfélagi Akureyrarkirkju, Lions-hreyfingunni og styður Krabbameinsfélag Akureyrar en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir 10 árum síðan og er í dag laus við meinið. Höllu er umhugað um heilsu annarra og hefur gefið ríkulega af sér tilbaka fyrir þá hjálp sem hún fékk. Hún stundar  göngutúra með vinkonunum og finnst mest gaman að ferðast um landið sitt.

Það sem fær Höllu til að vera hluti af Vöruhúsi tækifæranna eru fyrst og fremst efni sem tengist lífsfyllingu ásamt færni. Hún trúir á mátt hugans, lærdóm og umhverfisverndar-sjónarmið. Styður flest það sem stuðlar að því að afhenda veröldina græna, væna og heilbrigða til komandi kynslóða. Svo finnst Höllu áhugavert að sjá hvernig hægt er að verða að gagni með þátttöku í sjálfboðaliðsstarfi.

Við leitum því að tækifærum fyrir Höllu í rekkunum Lífsfylling og Færni. Í rekkanum Lífsfylling, https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/lifsfylling/ getur Halla fundið margt sem við kemur félagsskap, heilbrigðum lífsháttum, samfélagsvirkni, samskiptum og viðburðum en þetta eru einmitt nöfnin á hillum rekkans. Með orðinu lífsfylling er hér fyrst og fremst gert ráð fyrir að hún felist í samneyti við aðra, hvort sem það eru einstaklingar eða með virkri þátttöku í samfélaginu, sem gefi tækifæri til aukins þroska, lífsgleði og reynslu. Tækifærin sem þarna eru miða einnig að því að einstaklingurinn taki ábyrgð á andlegri og líkamlegri heilsu sinni.

Í rekkanum Færni, https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/faerni/ eru þrjár hillur, Einstaklingsfærni, Nám og fræðsla og Sköpun. Á fyrstu hillunni, Einstaklingsfærni má t.d. finna tækifæri til þess að bæta sig í tjáskiptum, þjálfa sig í ensku, læra að syngja, markaðs-setja sjálfan sig, finna markþjálfa, búa til vefsíðu og gera SwÓt greiningu og  stunda ýmiss konar nám. Á hillu númer tvö, Nám og fræðsla, eru t.d. upplýsingar um nám við háskólana, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst, Land-búnaðarháskólann og Háskólann á Akureyri og ýmsa símenntun. Á hillunni Sköpun má t.d. finna tilvísanir á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/island-is-listaskolar/ bæði einkarekna eða opinbera listaskóla.

Til þess að sjá hvernig hægt er að verða að gagni með sjálfboðaliðsstarfi, sem Höllu finnst áhugavert, er henni bent á á hilluna Sjálfboðastarf í rekkanum Nýr starfsferill https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/nyr-starfsferill/sjalfbodastarf/ Á hillunni er að finna upplýsingar um hvernig er hægt að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Krabbameinsfélaginu og hjá AFS sem eru alþjóðleg sjálfstæð félagasamtök,  sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og bjóða upp á þvermenningarleg námstækifæri þar sem hægt er að öðlast þá þekkingu, færni og skilning sem þarf til að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. Þetta kemur heim og saman við vilja Höllu um að búa börnum sínum öruggan heim.

Foreldrar Höllu búa enn á Dalvík og yngri systir hennar, eina systkinið sem hún á, býr í Reykjavík. Halla er mikil fjölskyldumanneskja, finnst gaman og að fá börnin sín þrjú og barnabörnin tvö í heimsókn og er alltaf boðin og búin að hjálpa sínu fólki.

Maí 2021
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Maí 2021
Skip to content