nonni-800x600

Nonni vill styrkja félög sem safna fyrir aðstoð við börn og konur

Hugarsmíðin hann Nonni okkar er 60 ára gamall bifvélavirki og heitir fullu nafni Sigurjón Kristmannsson. Hefur búið í Kópavogi í um þrjátíu ár en á ættir sínar að rekja til Djúpavogs. Nonni er ógiftur og býr einn. Á tvær sambúðir að baki sem gengu ekki upp. Dóttir varð til í þeirri fyrri. Vinnur hjá bílaverkstæðinu Við reddum því í Kópavogi og hefur gert s.l. 20 ár. Pólitískar skoðanir Nonna eru ekki sterkar eða öfgakenndar né er hann mikið fyrir að flíka þeim. Kýs helst í takt við það sem vinnufélagarnir gera. Oftast eru það Píratar sem verða fyrir valinu.

Nonni er hlédrægur, feiminn að eðlisfari og óframfærinn. Hefur sig því ekki í frammi þá sjaldan hann fer á mannamót og hangir helst heima. Finnst þó gaman að hitta kunningjana á barnum af og til um helgar en er ekki alltaf ánægður með sjálfan sig á eftir. Annars er það sjónvarpið og útvarpið og þá auðvitað Fyrir forvitna. Nonni vill hjálpa og styður mörg og margvísleg góðgerðafélög með mánaðarlegum greiðslum. Helst vill hann styrkja félög sem safna fyrir aðstoð við börn og konur. Má ekkert aumt sjá, vill þá koma til aðstoðar. Hugsar líka hlýtt til móður sinnar, systra og systurbarna fyrir austan og sendir þeim eitthvað smáræði við og við. Nonni er ekki mikið fyrir sport. Gengur í og frá vinnunni og lætur það duga. Skeytir engu þó vinnufélagarnir séu að gera grín að honum og hvetja hann til þess að koma með sér í ræktina. Finnst hún bara vera fyrir vöðvatröll. Hefur skoðað Karlar í skúrum í Hafnarfirði og veltir fyrir sér að líta við hjá þeim. Ekki sakaði ef hann skyldi þekkja einhvern karlana.

En Nonni er einmanna og hefur nú ákveðið að gera skurk í sínum málum. Sambúðarkona nr. tvö hafði á sínum tíma bent honum á Vöruhús tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ sem hún hafði heimsótt þegar hún ákvað að verða færari í sínu starfi. Nonni kíkti inn í Vöruhúsið, renndi yfir nöfn rekkana sem þar eru og fannst best að kynna sér fyrst tækifærin í rekkanum Lífsfylling. Kannske gæti hann kynnst einhverjum eða jafnvel eignast nýja kunningja og eða vini. Nonni ákvað því að byrja á hillunni Félagsskapur í rekkanum. Þar fann hann tvennt sem hann ákvað að skoða betur, Makaleit. Stefnumótasíða og Paris- félag þeirra sem eru einir. Nonni skráði sig strax á Stefnumótasíðuna og sem félaga í Paris. Heilmikið afrek fannst honum og var ánægður með sig. Sá fram á betri tíma.

Nonna hélt áfram og nú var það hillan Samskipti þar sem hann fann upplýsingar sem hentuðu honum eins og um Silver surfers, netspjallrás fyrir fólk á aldrinum 50+ og slóð á sálfræðinga sem aðstoða við samskiptavanda. Auðvitað margt annað í boði þar eins og hvernig hann gæti lært á Zoom eða umgengist stjúpbörn. Áfram hélt Nonni og opnaði á tækifæri um sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum á hillunni Samfélagsvirkni. Spennandi fannst Nonna og vel í takt við hugsun hans að hjálpa öðrum. Á hillunni Viðburðir sá Nonni mörg tækifæri til að hitta aðra, ekki bara hanga heima, t.d. viðburði hjá U3A Reykjavík á þriðjudagskvöldum. Nonni er ekki ennþá alveg tilbúinn í hilluna Heilbrigðir lífshættir. Nóg um hvatninguna hjá vinnufélögunum sem eru sífellt að gefa honum smá pillur um holdafarið og stirðleikann. En hver veit? Kannski kemur hann þeim að óvörum?

Nonni saknar fjölskyldu sinnar á Djúpavogi, bæjarins og umhverfisins sem hann telur það fallegasta á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hann vill þó ekki flytja austur aftur vegna uppkominnar dóttur sinnar sem býr ein í Kópavogi með litla strákinn sinn sem Nonni elskar út af lífinu. Hann vill vera til taks á stundinni ef eitthvað kemur upp á.

Febrúar 2022
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Febrúar 2022
Skip to content