Stella og Úraníus rokka

Stella og Úraníus rokka og róla

Hugarsmíðin okkar hún Stella Kristmannsdóttir er 55 ára fyrrverandi þjónustufulltrúi í einu af útibúum Landsbankans. Hún býr í Reykjavík, nánar tiltekið í póstnúmeri 107, og er gift Úraníusi Pálssyni einum af millistjórnendum Íslandsbanka. Saman eiga þau soninn hann Kalla sem býr í Stokkhólmi með konu og tveimur börnum. Þó skömm sé að segja frá er Stella löt að kjósa í Alþingiskosningum því henni finnst þetta alltaf enda bara í einhverju miðjumoði. Í sveitarstjórnakosningum er hún öllu líflegri og þar eiga Píratar hennar atkvæði.

Stellu og Úraníusi líður vel saman. Hún er stjarnan hans og hann hennar. Áhugamálin eru um margt þau sömu og ber dansinn þar hæst. Mætti jafnvel segja að þau lifi fyrir dansinn og eru sannkölluð dansfífl eins og sagt er. Sækja saman námskeið í allskonar dansi en mest finnst þeim gaman að dansa rock and roll og gera það af slíkri gleði og ákefð að eftir er tekið. Alveg eins og á sokkabandsárunum. Stella nýtur þess að snúa sér í hringi og Úraníus  stýrir vel þó að ekki sé hann sá léttasti á gólfinu. Stella á margar vinkonur því þær rækta tengslin vel Landsbankakonurnar, bæði fyrrverandi og núverandi. Fara saman í  leikfimi og á viðburði U3A Reykjavík sem og alla þá menningarviðburði sem þær komast yfir. Taka svo eina helgi á ári til þess að fara í sumarbústað saman og sletta rækilega úr klaufunum.

Stella missti vinnuna þegar útibúinu hennar var lokað vegna hagræðingar! Eins og hún hafði lagt á sig að sækja öll þessi námskeið til þess að verða betri í starfi og halda við ferilskránni. Allt fyrir bí? Síðan þá hefur Stella sótt um mörg störf en ekkert orðið ágengt. Ekki það að hún þurfi að hafa fjárhagsáhyggjur því Úraníus er góður skaffari en hún vill ekki vera upp á hann komin. Að vinna fyrir sínum eigin launum er hluti af sjálfsvirðingunni. Gladdi hennar hjarta þegar hún sá lýst eftir 60+ í vinnu á veitingastað og það þurfti bara að vera góður í að spjalla. Eins og Stella væri það ekki, hún sem hafði talað við kúnna Landsbankans svo hundruðum skipti og gefið þeim góð ráð. Sótti um en fékk ekki.

Nú voru góð ráð dýr og ákvað Stella því að skipta um kúrs og mennta sig sem leiðsögumaður. Þar gæti hún nýtt sér hvað hún á létt með að tala við fólk og svo gæti hún eflaust kennt ferðamönnunum nokkur dansspor í leiðinni. Landið þekkir hún líka vel því hún og Úraníus hafa í mörg ár ferðast þvers og kruss á stóra jeppanum sínum og upp um fjöll og firnindi. Upplýsingar um leiðsögunám, alls fimm skóla,  fann hún á hillunni Nám og fræðsla í rekkanum Færni í Vöruhúsi tækifæranna. Og nú er ekki eftir neinu að bíða og sækja bara um skólavist í einhverjum þeirra.

Stella er alsæl með hann Úraníus sinn. „Hann er gull af manni“ segir hún. Þau una sér vel í íbúðinni sinni á Grenimelnum sem er kannski of stór eftir að sonurinn flutti út en það þarf samt að hafa smá auka pláss þegar hann kemur í heimsókn með krílin. Stella og Úraníus eru líka dugleg að fara að heimsækja soninn í Stokkhólmi og áður en þau leggja af stað setur Stella plötuna Sakta vi går genom stan með henni sænsku Monicu Zetterlund á fóninn og svífur um gólfið með Úraníusi í hægum takti eftir tónlistinni.

Maí 2022
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Maí 2022
Skip to content