katla-oskarsdottir-800x600

Katla er metnaðargjörn og dugleg í hverju sem hún tekur sér fyrir.

Hugarsmíðin hún Katla okkar Óskarsdóttir er 55 ára kennari við einn af grunnskólum Reykjavíkur þar sem hún er búsett og hefur verið alla tíð. Katla býr ein og er barnlaus. Var áður í sambúð með Nonna bifvélavirkja og entist sú sambúð í aðeins tvö ár. Mest vegna þess að þó að Nonni væri hinn vænsti maður þá fannst Kötlu hann alltof rólegur, í raun hálfgert dauðyfli, ólíkt henni sjálfri sem vill helst vera á fullu. Hvað varðar pólitíkina er Katla mikill Evrópusinni og kýs samkvæmt því bæði til þings- og sveitarstjórna.

Katla passar vel upp á líkamann og andlegu hliðina, sofa nóg, borða hollt, hreyfa sig, virkja heilann og stunda hugleiðslu. Sem sagt allur pakkinn. Katla leikur að auki blak í frístundum með hópi vinkvenna og með sömu vinkonum sækir hún reglulega hina ýmsu menningarviðburði sem bjóðast. Er ein af svonefndum stoðum menningarlífsins í borginni. Reynir líka að sinna samfélagslegum skyldum sínum með þátttöku í allskonar félagsstarfi. Heimilisverkin tekur hún áður en hún fer til vinnu á morgnanna. Er sannkölluð ofurkona.

Katla er mjög metnaðargjörn og dugleg í hverju sem hún tekur sér fyrir. Áður en hún fór að kenna uppvartaði hún á veitingastað en fékk nóg af erfiðum og óreglulegum vöktum, skipti um og fór að vinna í leikskóla sem vakti áhuga hennar á að kenna. Dreif sig því í Kennnaraháskólann sem hún lauk með glans. Vill þó bæta við sig námi svo að hún geti orðið skólastjóri án þess að eyða of miklum tíma í það. Telur að þá fái hún ráðið meiru. Katla veltir árunum í starfslok ekki fyrir sér því hún er ákveðin að vinna að minnsta kosti til sjötugs.

Mars 2022
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Mars 2022
Skip to content