Óli Kalla á Bala
Hugarsmíðin að þessu sinni er hann Ólafur Karlsson sem er kenndur við hann pabba sinn og kallaður Óli Kalla. Hann er fæddur og alinn upp suður með sjó í húsi sem heitir Bali og því er hann líka stundum nefndur Óli Kalla á Bala. Hann býr þar enn, en nú sem rammgiftur maður með fjögur börn, eina stelpu og þrjá stráka. Óli Kalla hefur verið sjómaður, stýrimaður síðustu árin, allt sitt vinnandi líf fyrir utan árin sem hann var í Stýrimannaskólanum en nú er hann á leiðinni í land. Óli Kalla er þó hafsins maður og vill helst hafa það fyrir augum dag hvern. „Hafið bláa hafið hugann dregur…“.
Óli Kalla getur vart hugsað sér annað starf en sem tengist hafinu en nú er aldurinn að færast yfir hann vel sextugan manninn og starfsorkan að minnka. Hann sér því fram á að fara í nýtt og helst léttara starf. Konan, hún Guðrún, ýtir líka á hann að koma í land. Börnin farin að heiman og þau geti gert svo margt saman. En hvaða nýja starf sér hann fyrir sér? Óla Kalla dettur helst í hug smíðar enda handlaginn maður og hefur séð um allar viðgerðir á heimilinu, jafnvel nýsmíðar eins og rúm og borð handa barnaskaranum. Ekkert klambur þar. En hvernig verður maður smiður? Þarf stúdentspróf eða dugir gagnfræðaskólaprófið hans? Hvernig ber maður sig að til þess að komast á samning og er eitthvað efra aldurstakmark?
Óli Kalla ákvað að byrja á að leita eftir leiðbeiningum í Vöruhúsi tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is/ um hvað gera skuli enda bara heyrt gott um húsið. Eitt af markmiðum þess er jú að hjálpa fólki á hans aldri að feta nýjar slóðir í lífinu og hvað er ekki að feta nýjar slóðir ef maður skiptir um starfsvettvang. Óli Kalla á þó erfitt með að finna það sem hann leitar að í Vöruhúsinu og því ekki allskostar ánægður. Hefði viljað sjá rekka sem bæri nafnið Feta nýjar slóðir og þar undir hillur til dæmis með nöfnum eins og Að verða smiður og eða Að verða rafvirki eða bara hilluna Að verða góður fyrirlesari, fyrir þá sem vilja verða góðir í að halda fyrirlestra,. Auðvitað eru margskonar upplýsingar um tækifæri eins og í rekkunum Færni og Nýr starfsferill en Óli Kalla vill vita hvernig hann getur beinlínis notað tækifærin. Vill sjá leiðbeiningar frá A til Ö um hvar á að byrja og svo skrefin öll þar á eftir. Ekki væri verra að hafa nafn og netfang einhversstaðar á góðum stað á forsíðu sem hægt væri að skrifa til og spyrja eða jafnvel leggja gott til málanna. Að ég tali nú ekki um símanúmer því Óli Kalla á gott með að koma fyrir sig orði.
Óli Kalla telur hugmyndina að Vöruhúsinu frábæra en vildi gjarnan vita meira um rekstur þess. Hefur heyrt að þeir sem sjái um það séu í sjálfboðastarfi, en veltir fyrir sér hvort að húsið þurfi ekki líka sterka bakhjarla, gott viðskiptamódel og fjármagn. Óli Kalla varð því glaður hér um daginn þegar hann frétti að Félags- og vinnumálaráðuneytið hefði veitt Vöruhúsinu peningastyrk og bíður spenntur eftir hverju það muni breyta.
Hvað um það. Óli Kalla á Bala er bjartsýnn á framtíðina og hlakkar til að takast á við ný verkefni í landi til að geta verið meira með konu og börnum.