starkadur-800x600

Starkaður leiðbeinir nýjum starfsmönnum í starfi

Hugarsmíðin okkar að þessu sinni er hann Starkaður Kárason, hagfræðingur, fyrrverandi starfsmaður Seðlabanka Íslands. Starkaður varð 70 ára þann 20. maí 2022 og lét af störfum um mánaðarmótin þar á eftir eins og lög nr. 70 11. júní 1996 kveða á um.  Starkaður er alinn upp á Suðureyri við Súgandafjörð en býr nú með konu sinni, henni Ágústu, í Breiðholtinu í Reykjavík. Þau eru barnlaus. Hvar hann er í pólitíkinni veit enginn og er giskað á að hann láti kosningarloforð flokkanna ráða mestu um hvar hann staðsetur kjörseðilinn, enda ábyrgur maður og vill að atkvæðið fari til góðra verka.

Starkaður starfaði sem stjórnandi í Seðlabankanum í áratugi. Fyrir fimm árum breytti hann þó um kúrs að beiðni yfirmanna sinna og tók að sér að leiðbeina nýjum starfsmönnum í starfi enda kann hann allt um Seðlabankann og þykir vænt um vinnustaðinn. Starkaður veit að hann á eftir að sakna vinnufélaganna og eins þótti honum svo undurgaman og að geta í vinnunni horft á listaverkin sem prýða veggi bankans. Fannst óskiljanlegt þegar að „nekt­ar­mál­verkið“ hans Gunnlaugs Blöndal, Stúlka með greiðu, mátti ekki lengur vera þar. En eins á hann ekki eftir að sakna og það er að sitja fastur í umferðinni kvölds og morgna.

Starkaður kvíðir ekki aðgerðarleysi þó að hann sé hættur formlegu starfi. Svolítið skrýtið fyrst auðvitað að hafa ekki nafnspjald sem segir hver hann er og hvað hann er merkilegur en hvað gerir það til. Nafnspjöld eru úrelt hvort sem er. Hann hefur undirbúið þennan tíma vel og reynt að sjá fyrir sér hvernig hann langaði að nýta hann. Á sér áhugamál og eru það aðallega bridds og ástkæra golfið sem hann hlakkar mest til að sinna. Og ærinn tíma mun hann fá fyrir þau. Góða konan hans, hún Ágústa, sér um heimilishaldið, tengsl við vini og vandamenn og sér jafnvel um að bóka læknisheimsóknir fyrir hann og setja í dagatalið. Ekki allir sem eiga svona frábæra konu og hvar væri hann án hennar, hugsar Starkaður. Hún hefur þó hvorki áhuga á bridds né golfi og er helst að þau mætist í Oddfellow en þar eru þau bæði virk. Saman sækja þau líka námskeið hjá Félagi eldri borgara, sérstaklega námskeið um Íslendingasögurnar og fara í ferðir með félaginu í framhaldi af þeim.

Að bara sinna áhugamálum þegar allir dagar eru laugardagar, er ekki nóg fyrir Starkað. Hefur jafnvel velt fyrir sér skrifum eins og að skrifa minningar fyrir afkomendur um æskuárin á Suðureyri en líka að skrifa um pabba og mömmu og afa og ömmu og hvað fyrir þau bar. Minnist með sárum trega þegar mamma hans raulaði Only you á sjötta áratugnum. En skrifin mega bíða. Nógur tími fyrir þau. Starkaður vill láta gott af sér leiða og sér að hann getur átt framtíð fyrir sér sem sjálfboðaliði enda telur hann sig færan í flestan sjó. Og hvar að byrja annarsstaðar en á hillunni Sjálfboðastörf í rekkanum Nýr starfsferill í Vöruhúsi tækifæranna. Nógu af að taka þar og hví ekki að hugsa út fyrir landssteinana.

Starkaður og Ágústa una sér vel í Breiðholtinu og stefna á að vera þar áfram. Búin að festa sér íbúð í Árskógum fyrir eldra fólk og sjá fram á bjarta framtíð á árunum og áratugunum framundan. Þjónustumiðstöð og gott framboð af félagsstarfi á næsta leyti og meira segja kirkja í Mjóddinni. Allt til staðar sem eldra fólk þarf!

Júní 2022
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Júní 2022
Skip to content