Fréttabréf í apríl 2021

Hjordis-Hendriksdottir-1200x630

Er ég þá núna orðin gömul?

Á næstu dögum á ég tímamótaafmæli! Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að fyrir rúmum 35 árum síðan var mér boðið, ásamt þáverandi samstarfskonum mínum, í kaffi til einnar okkar þar sem þekktur miðill mætti í boði gestgjafans og las lófana okkar og spáði fyrir um framtíðina.

Miðillinn horfði á líflínuna mína í lófanum og sagði að ég myndi deyja ung. Mér snarbrá og spurði: hvenær? Miðillin starði í lófann og sagði „ 64 ára“. Ég, vel innan við þrítugt, hugsaði „tja – er það endilega svo ungt?“.

Spurðu mig núna og þá skal ég svara þér: Já – það er kornungt!
Ég klárlega skynja þetta allt öðru vísi núna.

Fyrir tæpum 10 árum síðan töldu Bretar að fólk væri orðið gamalt þegar það næði 59 ára aldri. Árið 2018 voru Bretar búnir að breyta um skoðun og töldu að fólk væri orðið gamalt þegar það yrði 70 ára. Eftir því sem lífslíkur okkar aukast breytist viðhorf  okkar um hvenær við teljum við og annað fólk sé orðið gamalt.

Í dag höfum við margfalt öflugri sjúkdómsvarnir en áður og betri aðgang að lyfjum en nokkru sinni fyrr. Við búum yfir meiri vísindalegri þekkingu sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl en áður sem heldur okkur „yngri“ mun lengur en áður.

Árið 1985 setti Richard Bass heimsmet þegar hann , 55 ára gamall, kleif Everest-fjall  sem var hans síðasta og sjöunda hæsta fjall sem hann hafði klifið í öllum heimsálfunum. Þetta heimsmet Bass er löngu fallið. Elsta manneskjan sem hefur klifraði Everest er Yuichiro Miura frá Japan, sem náði tindi Everest-fjalls árið 2013, 80 ára að aldri. Og elsta manneskjan sem hefur klifið öll fjöllin sjö í heimsálfum er Takao Arayama frá Tansaníu sem kleif síðasta þeirra 74 ára að aldri árið 2010. Reyndar er alls ekki ólíklegt að  ef bæði þessi met verði slegin innan næsta áratugar.

Hið hefðbundna viðhorf lýðfræðinga, og stefnumótandi aðila um öldrun,  er að lífslíkur fólks séu að aukast og að fólk sé að ná hærri aldri en áður. Hins vegar eru þessari aðilar síður að horfa til þess að þetta eldra fólk er ekki einungs heilbrigðara nú, líkamlega, andlega og að það mælist mun hærra  í vitrænum ástandsprófum en áður.

Með því að horfa framhjá þessum breytingum á eiginleikum þessa fólks og horfa eingöngu á aldur þess,  gefur þessari nálgun villandi mynd af framtíðinni. Mælingar á öldrun íbúa þurfa að taka til greina breytt einkenni þessa hóps.

Það felst mikill sannleikur í máltækinu „aldur er ekki bara tala  - aldur er fyrst og fremst viðhorf!“

Hjördís Hendriksdóttir
formaður Vöruhúss tækifæranna

Tæknivinur fyrir eldri borgara

Nýlega auglýsti Landsamband eldri borgara nýja lausn sem miðar að því að leiða saman eldri borgara, sem þarfnast  ráðgjafar í tæknilegum málum og yngra fólk, sem býr að þekkingu og kunnáttu á því sviði.

Tæknivinur einbeitir sér að verkefnum sem eru veigaminni en svo kalla þurfi til sérmenntað fagfólk. Ungt fólk sem lifir og hrærist í snjall-væddu umhverfi er vannýtt auðlind að mat Tæknivinar og býður það einstaklingum úr þeim hópi að skrá sig sem verktaka, „tæknivin“.
Eldri borgarar eiga þess kost að fá tæknilega aðstoð, ráðgjöf og fræðslu sem getur reynst þörf á í nútíma tækniumhverfi. Þjónustan er ýmist veitt í formi símtals eða heimsóknar. Tæknivinur getur með þessu móti einnig nýst fyrirtækjum og stofnunum sem miðla tæknilegum lausnum eða nýta þær.Verð er mismunandi eftir umfang og tímalengd þjónustunnar. Nánari upplýsingar á heimasíðu Tæknivina.

Heimasíða Tæknivinar er í vinnslu en þangað til má hafa samband í síma 8466714 eða taeknivinur@gmail.com

Menningarkort Reykjavíkur

Auðveld og ódýr leið til að njóta listmenningar í Reykjavíkurborg allt árið

Það er auðvelt og ódýrt að njóta fjölbreyttrar listmenningar í Reykjavíkurborg fyrir 67 ára og eldri. Menningarkort Reykjavíkurborgar kostar einungis kr. 1.800 á ári og veitir aðgang að Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum, Ásmundarsafni, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Árbæjarsafni, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Landnámssýningunni og Ljósmyndasafninu. Hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur fæst bókasafnskort gegn framvísun kortsins.

Auk þess veitir Menningarkortið afslætti og tilboð á fjölmarga viðburði, tónleika, og kvikmyndahús. T.d veitir kortið afslátt á miðum í Tjarnarbíó, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Sinfóníuhljómsveitina, Íslensku óperuna, Þjóðaminjasafnið, sýningar í Perlunni og Bíó Paradís. Þá veitir kortið afslátt í Viðeyjarferjuna.

Auk þess fá handhafar Menningarkorts Reykjavíkur send sérstök tilboð reglulega.

Menningarkort fyrir 67+ kostar kr. 1.800. Nánari upplýsingar um fríðindi menningarkortsins er að finna á www.menningarkort.is og á
https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/menningarkort-reykjavikurborgar-fyrir-67/

Hún Jóna okkar

Jóna

Hugarsmíðin hún Jóna okkar er 57 ára og býr í Reykjavík þar sem hún er fædd og uppalin. Hún varð ung einstæð móðir með eina dóttur sem hún sér ekki sólina fyrir. Dóttirin býr í Noregi ásamt  barnabörnunum tveimur og heimsækir Jóna þau eins oft og hún getur.

Hún Jóna gekk í  Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem leiðin lá í  Háskóla Íslands. Í háskólanum tók hún meistaragráðu í náms og starfsráðgjöf, kennsluréttindum og diplóma í jákvæðri sálfræði og hugrænni atferlismeðferð.  Jóna hefur mikinn áhuga á hverskonar námi og vill ögra sér og afla sér aukinnar þekkingar. Draumurinn er að stofna eigið ráðgjafafyrirtæki en til þess skortir hana þekkingu á hvar hún eigi að stíga niður og vill því leita sér frekari færslu. Fyrst þarf hún þó að finna 50% starf til þess að vinna fyrir sér á meðan hún þróar fyrirtækið sitt.  Ráðgjöf og stuðningur er því það sem Jóna þarfnast.

Það sem fær Jónu til þess að nýta sér Vöruhús tækifæranna eru fyrst og fremst efni sem tengist stofnun fyrirtækis, gerð viðskiptaáætlana og kostnaði við stofnun þess.  Hún vill geta sett hugmyndir á blað og tekið næstu skref í að eiga lifandi skjal sem hægt er að fara eftir. Jóna vill geta leitað til fagaðila. Hana vantar aðstoð við að setja saman viðskiptaáætlunina,  fá ráðgjöf um framkvæmdina og markaðsmál (auglýsingar, Facebook, vefsíðu og svo frv.). Hún myndi þiggja kennslumyndbönd eða fyrirlestra á netinu sem gætu aðstoðað hana við þessi skref. Henni finnst hugtökin í þessu ferli framandi og vill setja sig inn í þau en með aðstoð fagaðila.

Áður en við skoðum tækifærin í Vöruhúsinu um stofnun fyrirtækis, eins og Jónu dreymir um, skulum við skoða hvaða tækifæri þar til staðar sem geta aðstoðað Jónu við að finna sér nýtt hlutastarf. Við bjóðum henni því að skoða rekkann Nýr starfsferillhttps://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/nyr-starfsferill/ þar sem hún finnur upplýsingar sem gagnast henni við leitina.Í rekkanum er hillan Starfsleit og ráðgjöf með krækjur á m.a. Starfsmennt.isAlfred.isIðan fræðslusetur Vinnumálastofnun og Hagvangur sem býður upp á margvíslega þjónustu við atvinnuleit. Nú, ef Jónu skyldi detta í hug að leita sér að vinnu erlendis er á sömu hillu hlekkur inn á vefsíðu Evrópusambandsins með upplýsingum um lagalegan rétt hennar við vinnu erlendis, hvernig hún getur fengið menntun sína metna og um laus störf innan Evrópu.

Þegar Jóna hefur fundið hlutastarf þá er kominn tími til að skoða stofnun fyrirtækis og hvað er þá heppilegra en að fara í rekkann Stofnun fyrirtækis, https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/stofnun-fyrirtaekis/ þar sem hillurnar heita jákvæðum nöfnum eins og  AðstoðHvatningSjóðir og styrkir og Viðskiptaáætlun.

Tækifærin í rekkanum eru fjölbreytt og miða öll að sama marki, þ.e. að Jónu takist vel til og að draumur hennar rætist. Jóna leitar fyrst að tækifærum á hillunni Viðskiptaáætlun en hana þarf Jóna að semja áður en lengra er farið. Á hillunni eru t.d. upplýsingar frá Hugverkastofunni þar sem eru taldar upp reglur sem gilda um uppbyggingu viðskiptaáætlunar og hvað skuli haft til leiðbeiningar eins og samantekt um hver þú ert, starfsferill, hæfni og reynslu, hvað þú viljir gera og hversvegna hugmynd þín að rekstri muni ná árangri, sjá[HH1]   Á sömu hillu er krækja á Byggðastofnun sem veitir upplýsingar um tilgang og gerð viðskiptaáætlana og mat á hversu líkleg hún er til árangurs. Krækjan á  Dögun Capital veitir einnig upplýsingar um gerð viðskiptaáætlana og greiningu þátta eins og markaðs- og samkeppnisumhverfi og hvernig hægt sé að skoða helstu ógnanir og tækifæri á viðkomandi markaði. Með því að smella á krækjuna Landsbankinn er hægt að nálgast gátlista um hvað sé góð viðskiptaáætlun sem er nauðsynlegt að vita því góð viðskiptaáætlun lágmarkar áhættu og eykur líkur á góðum árangri.

Eftir að Jóna hefur samið viðskiptaáætlun fyrir fyrirtækið sitt kemur hillan Sjóðir og styrkir að góðu gagni. Þar skal fyrst nefna krækju á Íslandsbanka en bankinn veitir upplýsingar og veitir ráðgjöf til einstaklinga sem hyggjast stofna fyrirtæki og einnig upplýsingar um sjóði sem hægt er að sækja um styrki til sem og fyrirtæki og stofnanir sem sem veita langtíma lán til uppbyggingar fyrirtækja.  Krækjan á Rannís veitir upplýsingar um helstu samkeppnissjóði á sviði rannsókna og nýsköpunar sem Rannís hefur umsjón með. Svo er þar krækjan á  Crowberry Capital fjárfestir sem er fjárfestingasjóður sem fjárfestir í framúrskarandi teymum sem eru á byrjunarreit við að stofna eða hafa stofnað fyrirtæki. Að lokum er þar krækja á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem hefur það að leiðarljósi að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem vænta má virðisauka og arðsemi af starfseminni fyrir íslenskt samfélag og góðrar ávöxtunar fyrir sjóðinn.

Í rekkanum Stofnun fyrirtækis eru líka hillurnar Aðstoð og Hvatning . Á hillunni  Aðstoð eru m.a. krækjur inn á fyrirtæki sem  veitir faglega þjónustu á sviði fyrirtækjarekstrar og á Startup  Reykjavík sem er 10 vikna prógramm sem Arion banki styrkir þar sem einstaklingar fá stuðning og ráðgjöf við að koma viðskiptahugmynd sinni áfram. Einnig fá þeir fjárhagslegan stuðning á þeim tíma sem þeir taka þátt í þessu prógrammi. Á hillunni Hvatning má finna dæmisögur um þá sem hafa stofnað fyrirtæki eftir miðjan aldur og tekist vel til.  Dæmisögurnar eru teknar af vefnum lifdununa.is.

Að stofna fyrirtæki er í takt við lífsskoðun Jónu sem er sjálfstæðismanneskja sem trúir á einkaframtakið. Má það ef til vill rekja til þess að faðir hennar var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ræddi mikið um pólitík við hana í æsku. Bæði faðir hennar og móðir eru nú látin.

Sögulegar styttur borgarinnar

Birna, Elsa og Þórunn hjá Kötu og Stebba eftir Þorbjörgu Pálsdóttur

Landnámskonan Gunnfríður Jónsdóttir, Skálda bekkur og Ingólfur Arnarson

Heilsuefling aldraðra
Skýrsla starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytis

Við vekjum athygli á því að starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að móta tillögur um heilsueflingu aldraðra hefur nú skilað skýrslu með tillögum um mögulegar aðgerðir.

Í skýrslu hópsins segir m.a. ljóst að því markvissari og betri forvarnir og heilsuefling sem sveitarfélög og ríki vinna að í þágu aldraðra, því meiri verði lífsgæði hópsins og því minni kostnaður falli til vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Tillögur hópsins eru margþættar. Meðal annars er fjallað um aðgerðir til að stuðla að aukinni hreyfingu og virkni eldra fólks, hollara mataræði og bættu næringarástandi þeirra sem eru hrumir eða veikir. Fjallað er um aðgerðir til að aðlaga húsnæði aldraðra og umhverfi þeirra þannig að það sé öruggt og henti betur þörfum þeirra. Einnig leggur hópurinn til markvissari fræðslu og kynningu gagnvart öldruðum á þjónustu í þeirra þágu, með áherslu á leiðir til upplýsingamiðlunar sem henta aldurshópnum. Til að fylgjast betur með aðstæðum aldraðra og meta þróun í þeim efnum leggur starfshópurinn meðal annars til að bætt verði inn í árlega lýðheilsuvísa embættis landlæknis sérstökum lýðheilsuvísum sem snúa að heilsu og líðan aldraðra en í dag eru birtir lýðheilsuvísar um fullorðna  án nokkurrar frekari aldurgreiningar.

Hér má skoða lýðheilsuvísa fyrir árið 2019:  Mælaborð lýðheilsu - Embætti landlæknis (landlaeknir.is)

Á meðal þess sem mælt er er hamingja fullorðinna, stuttur svefn og streita, neysla grænmetis- og ávaxta, gosdrykkja og áfengis. Þar má líka finna lýðheilsuvísa um líkamlega og andlega heilsu Íslendinga, þunglyndislyfjanotkun og liðskiptaaðgerðir á mjöðm. Eini lýðheilsuvísirinn sem tekur sérstaklega til fólks á þriðja æviskeiðinu er biðlisti eftir hjúkrunarrýmum fyrir 67 ára og eldri. Það má því taka undir tillögu starfshóps um heilsueflingu aldraðra að bætt verði inn í árlega lýðheilsuvísa Embættis landlæknis sérstökum lýðheilsuvísum um fólk á þriðja æviskeiðinu. Með betri upplýsingar er hægt að móta og hrinda í framkvæmd hnitmiðuðum aðgerðum til heilsueflingar aldraðra.

Sjá nánar í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 25. janúar .

Skýrsluna í heild má svo hlaða niður hér: Heilsuefling aldraðra - skýrsla starfshóps

Að miðaldra upp á bak

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir

Um daginn heyrði ég nokkuð unga konu nota orðasambandið „ég er að miðaldra yfir mig“ í samhengi við að spila golf. Í framhaldinu kom ég auga á ýmsar dramatískar setningar tengdar miðjum aldri. Karl sem var ekki nógu töff á Twitter var sagður hafa miðaldrað upp á bak. Konu með áberandi flottan starfsferil var lýst sem miðaldra slæðukerlingu, og framkvæmdastjórn fyrirtækis sögð vera eitthvað svo miðaldra.

Hvenær verður fólk miðaldra og hvenær verður fólk ekki miðaldra? Doktor Google telur að fólk sé orðið miðaldra eftir 35 ára aldur og að ástandið vari til sextugs. Ef viðkomandi eru svo lánsöm að lifa þetta lengi. Þetta er mögulega skellur fyrir unga fólkið sem taldi sig nokkuð langt frá þessum hörmulegu örlögum. Kannski enn frekar í þeim tilvikum þegar viðkomandi skilgreina virði sitt út frá því að vera ekki miðaldra. Það getur leitt til alvarlegrar sjálfsmyndarkrísu meints ungs fólks, sem ég er viss um að samfélagið þarf að bregðast við með stuðningshópum og kertafleytingu, jafnvel mínútu þögn.

Þeim til huggunar bendir önnur rannsókn til þess að fólk verði miðaldra um 45 ára aldur. Þið hafið tíu ár, krakkar mínir. Kenningin um að aldur sé hugarástand fær þarna byr undir báða vængi. Fyrir þau ykkar sem vissuð það ekki þá eru hæð og þyngd líka hugarástand.

Sem betur fer þarf ég ekki að hafa áhyggjur af þessari framtíðarsýn. Enda fæddist ég að sögn dóttur minnar áttræð, borðandi kjötsúpu og hlustandi á Rás 1 í sveitinni, löngu búin að vinna þessa keppni.

Alþjóðleg samkeppni U3A félaga
Art for a new stage in life

AIUTA alþjóðleg samtök U3A félaga efna nú í vor aftur til samkeppni meðal félagsmanna um listaverk undir yfirskriftinni. Art for a new stage in life

Listaverkin geta verið í eftirtöldum  átta flokkum:Ljóð

  1. Teikning eða málverk
  2. Sköpun
  3. Söngur
  4. Ljósmyndun
  5. Dans
  6. Tíska/fatahönnun/búningahönnun
  7. Tölvutækni.

Á síðasta ári tók Júlía Leví, félagskona í U3A Reykjavík þátt í sambærilegri keppni og fékk gullviðurkenningu fyrir vatnslitamynd sína.

Þeir sem vilja tak þátt eða fá frekari upplýsingar geta sent póst á u3areykjavik@gmail.com.

Viðburðir í apríl hjá U3A Reykjavík

Jón B. Björnsson, Auður Ottesen, Þorleifur Friðriksson og Kristinn R. Ólafsson

Á þriðjudögum í apríl verða fjölbreyttir fyrirlestrar sendir út í streymi á vegum U3A Reykjavík. Við væntum þess að geta fljótlega boðið áheyrendum einnig að mæta aftur í Hæðargarð til að hlýða á fyrirlestrana og verður það auglýst sérstaklega.

Þriðjudaginn 6. apríl verður Jón Björnsson, sálfræðingur og rithöfundur með erindi um Abraham og það er alltaf tilhlökkunarefni að heyra hvernig hann fléttar saman upplýsingum um sögu, menningu og staði.

Þriðjudaginn 13. apríl verður Auður Ottesen með fyrirlestur um Vorverkin í garðinum og leiðbeinir okkur um hvernig við stöndum að því að undirbúa garðinn fyrir sumarið.

Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur ætlar síðan að vera með fyrirlestur 20. apríl og verður efnið kynnt síðar.

Við stefnum síðan að því að fá Kristinn R. Ólafsson aftur til okkar 27. apríl með framhald á erindi sínu Listin að lesa söguna.

Námskeiði í apríl frestað. Vegna samkomutakmarkana verður því miður að fresta til haustsins námskeiðinu Hér var einu sinni mjólkurbúð um leiðir að menningararfinum.

Stjórnin hvetur félagsmenn til að fylgjast með þessum áhugaverðu fyrirlestrum sem auglýstir eru á heimasíðunni U3A.is

Skip to content