Fréttabréf í apríl 2022

Birna Sigurjónsdóttir heiðrar Ingibjörgu Rannveigu Guðlaugsdóttur
Birna Sigurjónsdóttir, núverandi formaður U3A Reykjavík heiðrar Ingibjörgu Rannveigu Guðlaugsdóttur, fyrsta formann samtakanna.

Háskóli jafningjafræðslunnar U3A Reykjavík fagnar 10 ára starfi

Undirbúningsnefnd samtakanna,

http://amnesty@amnesty.isÁ nýliðnum aðalfundi U3A Reykjavík, 22. mars var þess minnst að liðin eru 10 ár frá stofnun samtakanna 16. mars 2012, fyrstu U3A samtökin á Íslandi.  Á fundinum sagði Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, sem var frumkvöðull og fyrsti formaður samtakanna, frá aðdraganda að stofnun þeirra og fyrstu skrefum.

Þriðja æviskeiðið
Skammnefnið U3A stendur fyrir enska og/eða franska heitið (e. University of the Third Age) eða Háskóla þriðja æviskeiðsins á íslensku. Þetta þriðja æviskeið á við efri árin eftir fimmtugt eða sextugt, hin gullnu fullorðinsár þegar tími er kominn til að hugsa til framtíðar, starfslok nálgast og tækifæri er til að móta framtíð næstu áratuga, sinna áhugamálum og láta drauma rætast. Markmið U3A er að bjóða fólki á þessu æviskeiði vettvang til að fræðast og miðla þekkingu á óformlegan hátt meðal jafningja eins lengi og vilji og geta er fyrir hendi.

Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu og meðal fólks á efri árum um það hve mikilvægt er að vera virkur á þriðja æviskeiðinu. Það er eitt af hlutverkum U3A Reykjavík að vera vettvangur upplýsingar, þekkingar og virkni hugans. Það skiptir miklu máli að íslenskt samfélag láti sig varða mannauð og velferð þriðja æviskeiðsins og átti sig á mikilvægi þess fyrir samfélagið í heild. Því þarf að skapa aukin tækifæri fyrir þennan hóp til að þróast í starfi og leik.

Aðdragandi
Aðdragandinn að stofnun U3A Reykjavík er að Ingibjörg fór að skoða á Netinu, nokkru áður en hún hætti formlegu starfi, hvað fólk sem var hætt vinnu væri yfirleitt að gera og uppgötvaði  þá U3A hreyfinguna. Fylgdist svo með hinum ýmsu U3A samtökum og hópum víða um heim í tvö þrjú ár áður en hún ákvað að sækja ráðstefnu World U3A samtakanna í Chitrakoot, Indlandi til þess að hitta þetta skemmtilega fólk sem stóð að U3A. Ráðstefnuna sóttu um 500 – 600 manns víðsvegar að, flestir frá Indlandi en um 50 – 60 manna hópur frá löndum Breska samveldisins, Englandi, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Suður-Afríku. Þar kynntist Ingibjörg m.a. tveimur Englendingum, þeim Ian Funnell og Tom Holloway, sem voru miklir áhrifavaldar þess að Ingibjörg ákvað að láta reyna á stofnun U3A á Íslandi og mætti kalla þá guðfeður U3A Reykjavík

Stofnun
Það var svo í ársbyrjun 2012 sem Ingibjörg fékk til liðs við sig þrjár öflugar konur, Ásdísi Skúladóttur, Lilju Ólafsdóttur og Helgu Margréti Guðmundsdóttur til þess að undirbúa stofnun samtakanna þann 16. mars 2012. Áður var haldinn kynningarfundur um U3A þar sem ýmsum aðilum, sem komu að fullorðinsfræðslu og starfi eldra fólks, var boðið og voru undirtektir góðar. Átján manns gerðust félagar á stofnfundinum en urðu alls 48 þar sem þeir sem gerðust félagar fyrir fyrsta aðalfundinn töldust stofnfélagar. Starf U3A Reykjavík er byggt á hinu svokallaða breska módeli, þ.e. að samtökin eru sjálfstæð en ekki tengd eða innan háskóla eins og upphaflega franska hugmyndin var útfærð.

Undirbúningsnefnd samtakanna,

Undirbúningsnefnd samtakanna, f.v: Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Helga Margrét Guðmundsdóttir og Ásdís Skúladóttir, ásamt Ernu Steinsdóttur fyrsta gjaldkera.

Fyrstu skref
Fyrsta árið var erfitt þar sem fáir eða engir mættu á þriðjudagsviðburði og oft erfitt að fá fyrirlesara til þess að halda erindi en smám saman glæddist starfið. Samtökin voru ekki auglýst en byggt á þeirri trú að gott orðspor skilaði sér. Einnig fóru stjórnarmenn víðsvegar um eins og á félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar og kynntu starfið. Eftir þrjú ár Ingibjargar sem formaður tók Hans Kristján Guðmundsson við keflinu og fjórum árum síðar tók núverandi formaður Birna Sigurjónsdóttur við formennsku. Á þessum tíu árum sem liðin eru frá stofnun hefur U3A Reykjavík blómstrað með síaukinni starfsemi og félögum fjölgað verulega á hverju ári og náðu þúsundinu á þessu tíunda starfsári.

Alþjóðlegt samstarf
U3A Reykjavík er aðili að alþjóðasamtökum U3A hreyfingarinnar, AIUTA/IAUTA, og skipta  félagar og nemendur milljónum. Upphaf U3A má rekja til Frakklands þar sem fyrsta U3A var stofnað innan Háskólans í Toulouse 1973 í kjölfar lagabreytinga um aðgang að og samfélagsábyrgð franskra háskóla sem að einhverju leyti var afleiðing stúdentabyltinganna 1968.

Árið 2014 hófst nýtt skeið í starfi samtakanna þegar gengið var til samstarfs við önnur U3A samtök erlendis um rannsóknarverkefni í málefnum sem tengjast þriðja æviskeiðinu, virkri og farsælli öldrun og ævinámi. Samstarfsverkefnin hafa verið unnin með aðilum frá Bretlandi, Litháen, Króatíu, Póllandi og Spáni auk íslenska ráðgjafarfyrirtækisins Evris ses. Þetta eru þrjú verkefni, BALL, Be Active through Lifelong Learning og framhaldsverkefnið Catch the BALL um þriðja æviskeiðið og mikilvægi þess að undirbúa sig vel undir efri árin, og það þriðja sem er nýlokið, HeiM, Heritage in Motion, um menningararfinn í samstarfslöndunum og hvernig má kortleggja stafrænar leiðir að honum.  Verkefnin hafa verið unnin með styrk frá Erasmus+ áætlun ESB auk innlendra styrktaraðila og hafa niðurstöður þeirra vakið talsverða athygli innanlands sem utan. U3A Reykjavík rekur nú eina af afurðum þessara verkefna, Vöruhús tækifæranna.

Afmælisbarnið lengi lifi
Þegar litið er til baka yfir 10 ára starf og tilvist U3A Reykjavík má fullyrða að samtökin hafa sannað tilverurétt sinn svo um munar og fundið sína hillu í flóru framboðs fullorðinsfræðslu á Íslandi. Þau hafa þroskast og dafnað, aukið framboð sitt af fræðslu og gefið félögum sínu tækifæri á að miðla henni eins og þeir hafa talið best. Það er því full ástæða að gleðjast með afmælisbarninu og megi það lengi lifa.

Mannauður til reiðu - Auglýsti eftir 60+

Mannauður til reiðu

Jón Arnar Guðbrandsson, veitingamaður og eigandi veitingastaðarins Grazie Trattoria sem, sem nýlega hefur opnað dyr sínar, auglýsti nýlega eftir gestgjafa sem er eldri en 60 ára. Hugmyndina fékk Jón þegar hann heyrði viðtal í útvarpinu við eldri konu sem gekk illa að fá vinnu þrátt fyrir flotta ferilskrá.

Það er í raun ótrúlegt að þetta skuli vera frétt. Það er hins vegar afar algengt í þjóðfélaginu að þúsundum karla og kvenna sé í reynd  ýtt út af vinnumarkaði vegna einhverrar bábilju um að þau séu of gömul til að geta starfað. Það hefur því miður verið búin til sú mynd af fólki yfir fimmtugt, sextugt, sjötugt að þau séu ekki á garða setjandi, nánast orðin farlama og ónothæf á vinnumarkaði. Fjölmörg dæmi eru um að kennitalan ráði því hvort fólk sé kallað í atvinnuviðtal en hvorki þekking né reynsla, og virðist það bitna harðar á konum en körlum.  Það er meira að segja fest í lög að segja skuli upp opinberum starfsmanni „frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri“. Brot á mannréttindum, eða hvað?

Þegar tekið er tillit til þess að í okkar samfélagi er langlífi stöðugt að aukast, sextugur starfsmaður gæti átt 40 ára  æviskeið framundan og mörg okkar eru í fullu fjöri mikinn hluta þessa tíma. Það er því fyrir löngu kominn  tími til að vinnumarkaðurinn átti sig á því að sá mannauður, reynsla og færni, sem felst í fólki 60+ er mikill og ekki ástæða til að kasta þessum auði fyrir borð á meðan áhugi er enn fyrir því að vera í starfi. Að láta eingöngu aldur og kennitölu ráða á vinnumarkaði er óhæfa og þau sem enn hafa getu og áhuga á því að starfa eiga ekki að gjalda aldurs.

Jón Arnar Guðbrandsson á heiður skilið fyrir þetta framtak sitt og viðbrögð við auglýsingunni hafa sýnt að þarna úti er fjöldi fólks sem vill og getur unnið. Við mælum með því að vinnuveitendur og löggjafinn taki sér Jón Arnar til fyrirmyndar þegar hann segir: „Og á meðan erum við með hóp af fólki á þessum aldri, 60 ára, 70, 75, 80 ára, við alveg hestaheilsu, einangrað heima, langar að gera eitthvað en fær ekkert að gera og, þú veist, auðvitað eigum við að fá þetta fólk og hafa það með okkur,

Viðtal við Jón Arnar má sjá á rúv á slóðinni
https://www.ruv.is/frett/2022/03/16/auglysir-eftir-folki-yfir-sextugu-i-vinnu

Hér má sjá myndskeið Stöðvar 2 frá opnun veitingahúss þar sem fólk 60 ára og eldra starfar.
Segir ljótt af vinnuveitendum að segja upp sökum aldurs

Hvers vegna þú ættir ekki að borða ein eða einn?

Hvers vegna ætti þú ekki að borða ein eða einn?

„Hvers saknar þú mest eftir að þú varðst ekkja?“ spurði ég eldri konu sem missti manninn sinn fyrir tæpum tveimur árum. Svarið var afdráttarlaust: „Þess að borða daglega með manninum mínum – það er svo leiðinlegt að borða ein.“

Samkvæmt  EPIC-Norfolk rannsókninni, sem staðið hefur yfir síðan 1993, er fólk sem borðar flestar máltíðir sínar eitt í aukinni hættu á að þróa með sér ýmis efnaskiptaheilkenni svo sem háan blóðþrýsting, hátt kólesteról og sykursýki, samanborið við þá sem borða nær alltaf með öðrum.
Aðrar rannsóknir benda einnig til þess að það að borða sóló hafi neikvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu og þá sérstaklega á eldra fólk.

Rannsakendur benda á að víða í heiminum fækkar fjölskyldum og eins manns heimilum fjölgar. Á sama tíma hefur matarmynstur orðið óreglulegra, óformlegra og einstaklingsmiðaðra. Fólk sem borðar yfirleitt einsamalt er ekki bara líklegra til að upplifa einmanaleika og félagslega einangrun, heldur er það líklegra til að velja óhollari mat, borða minna af ávöxtum og grænmeti og borða á óreglulegum tímum en lélegt mataræði og óheilbrigður lífsstíll geta orsakað efnaskiptaheilkenni.

Í nýlegri Suðurkóreskri rannsókn, sem tók til 7.725 fullorðinna einstaklinga, voru þátttakendur spurðir að því hversu oft þeir borðuðu einir.  Svörin voru borin saman við heilsufarsgögn þeirra þar sem tekið var tillit til aldurs, sígarettu- og áfengisnotkunar, vikulegrar hreyfingar, menntunarstigs og starfsaðstæðna. Í ljós kom að karlar sem borða einir eru 45% líklegri til þjást af offitu og 64% líklegri til að þróa með sér efnaskiptaheilkenni.  Ógiftir karlar sem borðuðu einir voru í mestri hættu á efnaskiptaheilkenni, meira en þrisvar sinnum meiri en karlar sem sögðust venjulega borða með öðrum. Áhrifin voru minna áberandi hjá konum. Þær sem borðuðu einar að minnsta kosti tvisvar á dag voru 29% líklegri til að fá efnaskiptaheilkenni en þær sem nær aldrei borðuðu einar.

Dr. Annalijn Conklin, lektor í lyfjafræði við háskólann í Bresku Kólumbíu, hefur einnig rannsakað heilsufar sem tengist því að lifa og borða einn segist ekki vera hissa á niðurstöðum nýju rannsóknarinnar, sérstaklega þeim sem varða karlmenn.

„Karlar sem voru ekki giftir og borðuðu einir komu verr út samanborið við aðra í rannsókninni, og það endurspeglar aðrar rannsóknir sem hafa verið gerðar á félagslegum tengslum og gæðum mataræðis“, segir Conklin. „Niðurstöður sem snúa að konum eru óljósari,“ segir hún, og telur að rannsaka ætti frekar.

Conklin segir enn fremur að framtíðarrannsóknir ættu að huga að öðrum þáttum sem gætu hugsanlega skýrt sambandið milli þess að borða einn og efnaskiptaheilkenna, svo sem streitustig og svefngæði en fyrrnefnd rannsókna var ekki hönnuð þannig að er hægt sé að sjá hvort það að borða einsamall geti verið fylgifiskur streitu, svefnvandamála eða einmanaleika, segir hún, eða hvort það gæti verið öfugt.

„Við vitum að svefnleysi og streita skapa vítahring sem breytir matarhegðun og það gæti verið eitt af því sem knýr upplifunina af því að borða einn og efnaskiptaheilkenni“ segir Conklin.

Enn sem komið er er ekki vitað nákvæmlega af hverju það er fylgni á milli neikvæðrar andlegrar og líkamlegrar heilsu og þess að borða einn. En þangað til að tengslin verða ljós skulum við hafa vaðið fyrir neðan okkur og finna leiðir til að borða a.m.k. eina máltíða á dag í félagsskap annarra. Það sem við vitum er að það er bæði hollara og skemmtilegra að borða í góðum félagsskap.

Heimildir:
The EPIC-Norfolk long-term study of health and ageing
Obesity Research & Clinical Practice,Volume 12, Issue 2, March–April 2018, Pages 146-157
Dr. Annalijn Conklin University of British Columbia 

Mannréttindabaráttan og við

Mannréttindi eru allra

Amnesty International, stærstu mannréttindasamtök í heimi, hafa barist þrotlaust gegn mannréttindabrotum í rúm 60 ár og skilað árangri fyrir hundruð þúsunda þolenda um heim allan.

Í dag er Amnesty International alþjóðahreyfing um 10 milljón einstaklinga. Samtökin eru með skrifstofur í 68 löndum, meðal annars á Íslandi þar sem nú eru átta stöðugildi.

Samtökin byggja starf sitt á þeirri hugmynd að saman geti almennir borgarar breytt heiminum til hins betra. Alveg frá upphafi hefur grasrótin verið þungavigtin í aðgerðastarfi Amnesty International og sýnt svart á hvítu hversu mikilvægur samtakamáttur almennings er í mannréttindabaráttunni.

Oft lítum við á mannréttindi sem sjálfsagðan hlut því þau grundvallast af hugmyndum um mannlega reisn, sanngirni, jafnrétti, virðingu og sjálfstæði. Oftar en ekki er það aðeins þegar brotið er á réttindum okkar að við stöldrum við og veitum þeim athygli.

Því miður eru mannréttindabrot algeng. Þúsundum einstaklinga um heim allan er neitað um sanngjörn réttarhöld. Fólk er pyndað og fangelsað vegna skoðana sinna eða trúarbragða. Almennir borgarar þjást á stríðstímum. Börn eru neydd í hernað í stríðsátökum. Nauðgunum er kerfisbundið beitt sem vopni. Og Ísland er engin undantekning. Hér á landi viðgangast einnig mannréttindabrot.

Þess vegna er mikilvægt að við lítum ekki á mannréttindi sem sjálfsögð réttindi og enn mikilvægara er að mannréttindi séu vernduð samkvæmt alþjóðalögum svo að hægt sé að draga ríki heims til ábyrgðar þegar þau fremja grimmdarleg mannréttindabrot á óbreyttum borgurum.

Vala Ósk Fríðudóttir

Höfundur er Vala Ósk Fríðudóttir
fræðslustjóri Íslandsdeildar Amnesty International.

Taktu þátt!
Íslandsdeild Amnesty International býður áhugafólki um mannréttindi tækifæri til að taka þátt í mannréttindabaráttunni sem aðgerðasinnar eða mannréttindafræðarar.

Aðgerðasinnar taka virkan þátt í að krefjast réttlætis og þrýsta á stjórnvöld í gegnum skipulagðar aðgerðir og viðburði með áherslu á undirskriftasöfnun og vitundarvakningu um mannréttindi. Hjá samtökunum er starfræktur aðgerðahópur sem hittist reglulega, skipuleggur aðgerðir og vinnur að því að vekja sitt nærumhverfi til vitundar um stöðu mannréttinda í heiminum.

Mannréttindafræðarar Íslandsdeildar Amnesty International taka þátt í mannréttindafræðslu til einstaklinga og hópa í skólum og á öðrum vettvangi samfélagsins. Mannréttindafræðslan er skipulögð af fræðslustjóra samtakanna. Fræðarar fá þjálfun, stuðning og handleiðslu og sinna í framhaldinu fræðsluheimsóknum í sínu nærumhverfi.

Við getum öll lagt lóð á vogarskálina, tekið höndum saman og bætt stöðu mannréttinda hér heima og erlendis. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í aðgerðastarfi Íslandsdeildar Amnesty International hvet ég þig til að hafa samband í síma (5117900) eða gegnum tölvupóst (amnesty@amnesty.is).

Hann Mundi okkar

Mundi okkar

Hugarsmíðin hann Ingimundur Bjarnason, kallaður Mundi, er kominn á áttræðisaldur, nánar tiltekið 73 ára og er ekkjumaður sem býr í Garðabæ og á þrjú uppkomin börn. Mundi er sjónlistamaður, tók Myndlista- og handíðaskólann á sínum tíma og hefur m.a. unnið fyrir sér með kennslu í myndlist. Dugði ekki alltaf til að ná endum saman en sýningar og listamannalaun hjálpuðu til. Mundi kýs íhaldið eins og pabbi hans og afi og gott ef langafi var ekki íhald líka.

Mundi telur að hjónaband sitt hafi verið farsælt og fjölskyldan samheldin, Gróa var góð kona, börnin þrjú yndisleg og bregður öllum til mömmu sinnar. Þau hjónin byrjuðu að búa saman ung, basl fyrstu árin og erfitt fjárhagslega, sérstaklega á námsárum Munda, en þau settu það ekki fyrir sig, voru hamingjusöm saman. Mundi hefur lítið verið  í félagslífinu, hafði ekki tíma í það meðfram brauðstritinu. Vinirnir eru fáir en traustir og stundum bregða þeir fyrir sig betri fætinum karlarnir og skella sér austur fyrir fjall. Alltaf eitthvað að skoða og nú er nýi miðbærinn á Selfossi kominn á kortið!

Mundi hefur verið einn síðan konan dó fyrir ári síðan og á í vandræðum með að láta tímann líða. Finnst hann svolítið gleymdur og á bágt með að sætta sig við það. Veltir því fyrir sér hvort hann geti ekki komið myndunum sínum á framfæri á netinu. Hann vill að aðrir fái að sjá og er það hégómagirni að vilja ekki gleymast? Kannski hann geti gengið í endurnýjun lífdaga líkt og Johnny Cash, uppáhalds söngvari hans, sem var enduruppgötvaður á efri árum. Eitt síðasta lag hans, Hurt, kemur fram tárum hjá Munda enda afar sorglegt.

Vöruhús tækifæranna vakti áhuga Munda þegar auglýsingar um það birtust í sjónvarpi og dagblöðum. Opnaði síðuna https://voruhus-taekifaeranna.is/ og fann tækifærin sem hann var að gá að strax á forsíðunni. Hlutu því að vera áhugaverð sem styrkti Munda í trúnni að hann væri ekki einn. Mundi opnaði fyrst íslensku síðuna https://apolloart.is þar sem íslenskir listamenn geta selt verkin sín og leist vel á. Gerðist nú djarfur og skoðaði líka tækifærið https://elementor.com/ með leiðbeiningum um hvernig hann getur búið til sína eigin heimasíðu með myndunum sínum. Seinna tækifærið er reyndar á ensku en Mundi telur sig kunna nógu mikið hrafl í því tungumáli og hafa næga tölvufærni til þess að geta nýtt sér það. Ekkert sem stoppar Munda núna þó 73 ára sé.

Mundi vill þó líka finna tækifæri í Vöruhúsinu um hvernig á að fjármagna ævintýrið. Hafði því samband við forráðamenn hússins gegnum vefgáttina, Hafa samband og óskaði eftir upplýsingum um styrki  því það getur kostað peninga að feta nýjar slóðir eins og Mundi er að gera. Var lofað að málið yrði skoðað.  Gengur ekki að sækja um heiðurslaun listamanna því Mundi uppfyllir ekki skilyrðin sem sett eru fyrir þeim.

Mundi er sáttur í dag. Er farinn að nýta sér tækifærin sem hann fann í Vöruhúsinu og  myndirnar hans að fara í sölu á netinu. Börnin hans eru ekki síður ánægð því þau finna að Munda líður vel og karlinn hefur nóg fyrir stafni. Þau eru dugleg að heimsækja hann og fá stundum mynd með sér heim.

Viðburðir U3A Reykjavík í apríl 2022 og TUMI

Viðburðir U3A Reykjavík í apríl 2022

Frá vinstri: Guðjón Friðriksson, Breki Karlsson og merki TUMA

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur verður með fyrsta fræðslufyrirlestur aprílmánaðar fyrir okkur í U3A Reykjavík. Hann kemur til okkar í Hæðargarðinn 5. apríl kl. 16:30 og segir frá bókinni Cloacina - saga fráveitu. Í bókinni rekur Guðjón tilurð og sögu fráveitunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sú saga er um margt merkileg og áhugaverð en jafnframt flestum lítt kunn.  Næsti fyrirlestur verður svo um Neytendasamtökin 26. apríl. Breki Karlsson, formaður samtakanna ætlar kynna stefnu og starfsemi samtakanna. Báðum þessum fyrirlestrum verður streymt og þeir aðgengilegir fyrir félagsmenn í viku eftir flutning eins og verið hefur.

Menningarhópur stefnir að viðburði í apríl og verður hann auglýstur sérstaklega.

Eins og sést á þessu tökum við hlé um páska og þriðjudagsfyrirlestrar falla niður í dymbilviku og vikunni eftir páska.

TUMI
U3A Reykjavík tekur þátt í tengslaneti Fjölmiðlanefndar sem nefnist TUMI eða Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Á síðu TUMA segir að hlutverk tengslanetsins sé að auðvelda upplýsingaskipti milli þeirra aðila sem vinna að upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi og greiða fyrir samstarfi meðlima. Aðilar tengslanetsins miðla þar þekkingu, rannsóknum, verkefnum og öðrum úrræðum sem tengjast tengslanetinu. Á tímum upplýsingaóreiðu og þegar falsfréttir dynja á fólki á ýmsum miðlum skiptir miðlalæsi miklu máli og mikilvægt að geta greint á milli frétta sem byggja á góðum grunni og hinna sem eru úr lausu lofti gripnar.

Upplýsingalæsi- og miðlalæsi er skilgreint sem hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur. Á heimasíðu Fjölmiðlanefndar er að finna niðurstöður könnunar á miðlalæsi Íslendinga sem áhugavert er að skoða.

Með óskum um gleðilega páska og gjöfulan frítíma
f.h. stjórnar U3A Reykjavík
Birna Sigurjónsdóttir, formaður

Skip to content