Fréttabréf í desember 2022

adventukrans-01-1200x630

Jólakveðja frá U3A Reykjavík

Það birtir í sálunni við að sjá jólaljósin kvikna á húsum og torgum og lýsa upp skammdegismyrkrið. Þá er gott að staldra við og njóta augnabliksins og gleyma önnum um stund.

Aðventan á einmitt að vera tími þar sem hvílum í núinu og njótum. Það þýðir þó ekki að við eigum að halla okkur aftur og aðhafast ekkert. Núvitund er einfaldlega það að velja að láta athyglina hvíla á líðandi stund og taka eftir hvað er að gerast á meðan það er að gerast. Mikilvægt er að grípa tækifæri og skapa tækifæri á aðventu og jólum til að njóta samveru með ástvinum og í góðum félagsskap. Þannig ræktum við tengsl við fjölskyldu og vini sem eru okkur svo mikilvæg og nærandi.

Mér er ofarlega í huga einmitt nú hvað það er ánægjulegt að sjá salinn okkar í Hæðargarði fyllast fólki á fyrirlestrunum og hvað það eru mikil viðbrigði frá undanförnum Covid árum þegar engir eða örfáir máttu koma saman. Stjórnarmenn í U3A eiga þakkir skilið fyrir að leggja sig fram um að útvega áhugaverða fyrirlesara um efni og fyrir að undirbúa vikulega flutning og útsendingu. En það var einmitt á Covid-tímanum sem við hófum að streyma og taka upp fyrirlestrana. Undirtektir félagsmanna voru svo góðar að við höldum áfram að deila fyrirlestrum til félagsmanna og nú á haustdögum njóta um 200 manns að meðaltali hvers fyrirlesturs.

Við höldum ótrauð áfram með fjölbreytta dagskrá á nýju ári. Það er tilhlökkunarefni að hitta ykkur, félagsfólk U3A Reykjavík á fyrirlestrum í Hæðargarði, í hópastarfi, í heimsóknum og á viðburðum á vegum félagsins.

Hafið það gott um jól og áramót, lýsið upp þennan myrka tíma með ljósum en líka með nærveru ykkar. Sjáumst heil á nýju ári.

Gleðileg jól!

Birna Sigurjónsdóttir
formaður U3A Reykjavík

Við viljum gera betur

Kæru áskrifendur Fréttabréfs Vöruhúss tækifæranna og U3A Reykjavík.

Við sem stöndum að fréttabréfinu höfum áhuga á að vita hvort að þið nýtið ykkur tækifærin í Vöruhúsinu og hvort að efni fréttabréfsins gagnist ykkur en upplýsingar um það hjálpa okkur að gera betur.  Biðjum ykkur því allra vinsamlegast að svara örfáum spurningum okkar með því að smella á Skoðanakönnun hér að neðan ekki síðar en n.k. laugardag, 10. desember. Niðurstöður verða birtar í fyrsta fréttabréfi næsta árs sem kemur út þann 2. janúar 2023.

Með fyrirfram þökk,
Stjórn Vöruhúss tækifæranna

Smellið hér á skoðanakönnun

... og munið á smella á hnappinn Senda þegar búið er að svara.

Jólamanía ritstjóra

Þau okkar sem eru komin á hið yndislega þriðja æviskeið eiga minningar um jólaaðventu sem var svo gjörólík  því sem við upplifum núna. Mín aðventa byrjaði þá ávallt fyrsta sunnudaginn í aðventu með heimsókn fyrir framan Rammagerðina í Hafnarstræti þó að verslunin sjálf hafi að sjálfsögðu verið lokuð eins og allt annað á sunnudögum nema leikhús og bíó. Þarna stóðum við systurnar, ásamt foreldrum okkar, og horfðum dolfallnar á hinu árlegu jólaskreytingu í glugga verslunarinnar sem okkur fannst eitthvað það fallegasta sem við höfðum á ævi okkar séð. Þessi látlausa skreyting  sem samanstóð af einum jólasveini á sleða sem dreginn var af hreindýrum í glugga Rammagerðarinnar var í mínum huga ótvírætt merki um að nú væru jólin að koma.

Nú er þetta auðvitað allt breytt. Fyrstu merkin um að hin heilaga jólahátíð sé í vændum birtast í stórverslunum strax í október. Upprisa sænsku jólageitarinnar fyrir framan IKEA er ótvírætt merki um að hátíð ljóssins sé í vændum og að manni læðist uggur um hvort kveikt verði í jólageitinni enn einu sinni þetta árið.

En ekkert minnir jafnhressilega á að jóla er að vænta og Svartur föstudagurDagur einhleypra og svo Stafrænn mánudagur sem við Íslendingar höfum innleitt í kúltúrinn okkar hratt og fyrirvaralaust. „Forboðarnir ljúfu“ einsog Birna Dröfn á Fréttablaðinu skrifar, „sem minna okkur á jólin með hvers kyns tilboðum og áminningum um hvað þarf að kaupa, hverjum er best að gefa hvað, hverju við getum ekki verið án um jólin og hvað er nauðsynlegt á jólaborðið“. Hún bendir á að Svartur föstudagur er nú orðinn heil vika þar sem fyrirtæki og verslanir bjóða upp á 10–20 prósenta afslátt og telja okkur trú um að um svakalegt tilboð sé að ræða. Fréttamiðlar greindu frá því að á Svarta föstudeginum var „Umferðin eins og villta vestrið“ og að starfsmenn árekstur.is hafi sinnt ríflega tvöfalt fleiri árekstrum þennan dag samanborið við síðustu fjóra föstudaga þar á undan.

„Hátíð ljóss og friðar fer að mestu fram í Kringlunni og Smáralind, svo ekki sé minnst á erlenda netverslun, nýjasta gereyðingarvopn íslensku krónunnar“  skrifar Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir í bakþönkum Fréttablaðsins. „En eigi skal gráta útjaskað kreditkort, heldur safna liði, fara í Kringluna og kaupa slatta af dýrum hlutum – til að segja fólki að okkur þyki vænt um það. Finna innri frið með 20 til 40 prósenta afslætti á svörtum fössara og sigla á raðgreiðslum inn í nýtt ár“.

Á sama tíma er bent á að mesti sparnaður umfram þess að ná „mega-dílum“ á ofangreindum dögum er það að kaupa ekki neitt. 100% gróði. En auðvitað erum við öll að leita að jólagjöfum fyrir allar elskurnar í lífi okkar .

Við á þessu frábæra þriðja æviskeiði erum að kljást við ofgnótt af „dóti“ heima hjá okkur sem við höfum  ýmist keypt eða verið gefið á undanförnum áratugum. Ofan á bætast tilfinningalega ómetanlegir gripir  úr dánarbúum. Hirslurnar okkar, geymslur og bílskúrar, að ógleymdum háaloftunum, eru stútfullar af alls kyns góssi sem við höfum enga þörf fyrir.  Og enn erum við hvött til að kaupa okkur meira dót á mega-tilboðum á innleiddum amerískum kaupæðisdögum. Inn í þessari háværu jóla-maníu sem dynur á okkur í öllum fjölmiðlum heyrast hjáróma raddir um afleiðingar neyslumenningar og mengunar,  loftlagsbreytinga og okkar persónulega kolefnisspor sem veldur örugglega sumum okkar jólasamviskubiti.

Ekkert okkar vill vera nirfillinn Ebeneser Scrooge í jólaævintýri Dickens eða Tröllið sem stal jólunum. Þvert á móti viljum við taka þátt í hinni árlegu ljósahátíð en ef til vill á öðrum forsendum en þeim sem lýst er hér að ofan.

Greinarhöfundur viðurkennir fúslega að kunna ekki „lausnina“ á því hvernig maður heldur ærleg jól en eftirfarandi hugsanir poppa upp:

  1. Barnabörnin okkar eiga ekki allt, einsog við, og ef til vill eigum við einhverjar „gersemar“ í skápunum okkar, í geymslunum/ bílskúrnum eða háaloftinu sem þau kynnu að meta einsog t.d.  myndir, málverk, jóla-eða mæðraplatta frá Bing og Gröndal sem hægt er að nota sem forrétta-eða desert diska, að ég tali ekki um gamlar Hansa-hillur eða tekkhúsgögn.
  2. Upplifun með okkur nánustu á tónleikum, í leikhúsi, kvikmyndasýningum, listasýningum, veitingahúsum, býr til góðar minningar sem endast árum saman
  3. En stærsta og dýrmætasta gjöfin er tími! Tími til samveru. Samvera þarf ekki að kosta mikið en gefur bæði gefanda og þiggjanda gjöf sem ekki verður metin til fjár.

Vonandi nýtast þessar hugleiðingar ritstjóra Fréttabréfsins einhverjum lesendum.

Ritstjórn Fréttabréfs Vöruhúss tækifæranna og U3A Reykjavík óskar öllum lesendum gleðilegra jóla!

Jóla(ó)ráð í boði Önnu

Anna Sigrún Bald­urs­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri og leiðtogi öldrun­ar­mála hjá vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar

Mörgum, sérstaklega þeim sem minnst af undirbúningi jólanna vita, þykir alveg ómögulegt að hann sé að einhverju marki hafinn nú í nóvember. Í þeirra huga kaupa jólagjafirnar sig sjálfar og allt annað gerist fyrir eitthvað jólakraftaverk.

Mér er hins vegar fullkunnugt um hvað felst í jólaundirbúningi og þó ég baki ekki 17 sortir (borða þær bara) þá hef ég staðið mig að því að tapa mér í jólahreingerningu. Mér fannst t.d. eðlilegt að þrífa skrúfuboxin í geymslunni um miðja nótt eina aðventuna. Mér til varnar hafði ég einmitt lesið í blaði þá snilldaraðferð að taka hausinn af ryksugunni, smeygja nælonsokk á rörið og voilá! Þið þakkið mér bara seinna. Ég hef aðeins tónað þetta niður síðustu ár en mun þó ekki láta glepjast algerlega og lækka bara ljósin og kveikja á kertum, eins og ku vera móðins. Þannig virkar þetta nú ekki, það verður að þrífa, enda skreytir maður ekki yfir skít.

Flest þau sem standa þriðju vaktina hafa fjölmargar aðrar skuldbindingar og þykir því heppilegt að undirbúningur dreifist nokkuð yfir á nóvembermánuð, svo þeir sem lítið leggja til eru beðnir að hafa sig hæga í gagnrýninni . Sá (ok, sú) sem hitann og þungan ber af öllu saman veitir ekki af því að hafa tímann fyrir sér, því ofan á að versla gjafir, koma þeim til þiggjenda, þrífa og allt það, þarf að sækja jólaskemmtanir barnanna/barnabarnanna, jólatónleika, jólahlaðborð. Og njóta alls þessa líka án þess að sofna af þreytu vegna undirbúningsins.

Annað alveg ókeypis ráð; Það kann að virðast dálítið rómantískt að pakka inn jólagjöfum á Þorláksmessukvöld, hlusta á Bubba, drekka rauðvín og borða (margar) Sörur á meðan maður pakkar inn gjöfunum. Þetta er misskilningur. Ekki þetta með rauðvínið eða Sörurnar. Ekki heldur Bubba. Það er þetta með innpökkunina. Hún er tímafrek; hver gjöf þarf að minnsta kosti 10 mínútur, 1-2 sopa af rauðvíni og lágmark 1 Söru. Áður en þið vitið af er rauðvínsflaskan grunsamlega tómleg, Sörurnar búnar og Bubbi farinn heim. Pakkið því inn hverri gjöf um leið hún er komin í hús (muna að merkja!). Þið munið þakka mér þetta líka og fá ykkur eina auka-Söru upp á það.

Úrdráttur úr þessari grein eftir Önnu Sigrúnu Baldursdóttur birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. nóvember 2022.

Vinna þarf bug á öldrunarfordómum

Geir Sigurðsson er prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands

Í vestrænni hugsun hefur viðhorf til öldrunar – og því líka til aldraðra – löngum verið neikvætt. Að vísu tíðkaðist í sumum samfélögum fyrri alda að bera nokkra virðingu fyrir eldri kynslóðunum vegna þeirrar visku sem margir meðlimir hennar höfðu tileinkað sér í krafti reynslu sinnar. En almennt var þó rík tilhneiging til að líta svo á að með hækkandi aldri yrðu til óæskilegir lestir á borð við nísku og heigulskap sem einskorðuðust nánast við þá sem eldri voru. Grískir heimspekingar fornaldar, t.d. Platon og Aristóteles, sáu einungis þann kost við öldrun að með henni drægi úr óæskilegum líkamlegum hvötum sem gerðu lítið annað en að afvegaleiða sálina. Þau sem næðu háum aldri – en á þeirra tíma var það fólk sem teldist í mesta lagi miðaldra á okkar tímum – gætu því hugsanlega einbeitt sér í meiri mæli að andlegum viðfangsefnum. Þó virðast þessir sömu heimspekingar hafa talið að fyrrnefndir lestir kæmu að mestu leyti í veg fyrir þetta.

Rómverski hugsuðurinn Cicero er einn hinna fáu sem reyndu að draga fram þá kosti sem öldrun hefur í för með sér í varnarriti sínu sem á íslensku ber titilinn Cató eldri um ellina. Þar tekur hann raunar undir með grísku heimspekingunum um að gott sé „að vera laus undan ofurvaldi fýsna og metnaðar“ (67) en andmælir þeim einnig óbeint og segir lesti á borð við önugleika og fégirni ekki vera elliglöp heldur skapbresti. Hann bendir líka á þá augljósu staðreynd að gamall maður er „að því leyti betur settur en ungi maðurinn að hann hefur þegar öðlazt það sem hinn þráir. Annar vill lifa lengi en hinn hefur lifað lengi.“ (79)

Það færi vel á því að við tileinkuðum okkur þessa visku Ciceros. Alkunna er sú þversögn að allir vilja lifa lengi en enginn vill verða gamall. Þessar ósamrýmanlegu óskir helgast fyrst og fremst af öldrunarfordómum – af því viðhorfi að það sé í einhverjum skilningi „slæmt“ að tilheyra hópi aldraðra. Í samtímanum hafa slíkir öldrunarfordómar styrkst verulega. Fyrir því eru margar ástæður. Ein snertir umræðuna um „samfélagslega öldrun“ á Vesturlöndum og víðar. Þar er einkum einblínt á „vandamálin“ sem fylgir því ferli, einkum því að aldraðir eru álitnir „fjárhagsleg byrði“ fyrir samfélagið, en sjaldnar bent á að orsökin er sú gleðilega staðreynd að nú til dags lifum við mun lengur en áður. Aðra dýpri og margbrotnari ástæðu fyrir auknum fordómum í garð aldraðra mætti kenna við „módernisma“ sem síðan á ofanverðri 19. öld hefur ýtt undir dýrkun á öllu „nýju“ og „ungu“ um víða veröld og jafnframt leitt til fordæmingar á hverju því sem tilheyrir fortíðinni eða telst „gamalt“.

Öldrunarfordómarnir eru þannig hin hliðin á æskudýrkuninni. Þeir gegnsýra samfélagsumræðuna og birtast í þeim fjölmörgu ímyndum og fyrimyndum sem haldið er að okkur á degi hverjum í fjölmiðlum og samskiptamiðlum. Við komumst því varla hjá því að tileinka okkur sjálf þetta gildismat að einhverju leyti og við tökum jafnvel upp á því að skammast okkar fyrir að eldast – eins og öldrun, það að lifa óhjákvæmilega í tíma, sé eitthvað forkastanlegt sem við eigum sjálf sök á. Þetta hvetur meðal annars til alls kyns neysluhegðunar sem snýst um að reyna að líta út fyrir að vera yngri en maður er í raun. Markaður vafasamra „yngingarlyfja“ nýtir sér þennan samfélagslega og menningarlega þrýsting að fullu og styrkir hann með því að höfða sífellt til miðaldra og eldra fólks með alls kyns auglýsingabrellum, áróðri og beinlínis lygum svo það láti blekkja sig til að verja verulegu fjármagni í slíkar vörur og jafnvel í rándýrar og varasamar lýtaaðgerðir. Enn alvarlegri birtingarmyndir öldrunarfordóma koma fram í skeytingarleysi í garð aldraðra, ekki síst á sviði stjórnmálanna þar sem öldrunarmálin hafa setið á hakanum í marga áratugi, en ekki síður á þeim stofnunum sem samfélag okkar hefur komið á fót í því skyni að ala önn fyrir þeim. Þaðan fáum við reglulega að heyra hryllingssögur sem markast einmitt af þessu skeytingarleysi en það virðist hvíla á þeirri ómanneskjulegu skoðun að ekki sé „þess virði“ að hafa of mikið fyrir þeim sem eiga hlutfallslega styttri tíma eftir af lífinu.

Öldrunarfordómar eru ekki einungis óheppilegir og gerræðislegir heldur beinlínis heimskulegir. Þeir stuðla að því að fólkinu með mestu reynsluna er að miklu leyti vikið til hliðar og samfélagið fær síður að njóta góðs af innsýn þess í eðli lífs og heims. Þeir eru einnig þeim mun furðulegri þar sem þeir sem gera sig seka um þá vonast væntanlega sjálfir til að þeir muni, þegar fram líða stundir, tilheyra hópnum sem fordómarnir beinast gegn. Auk þess er eftirtektarvert að á meðan tímar okkar markast af mikilli andspyrnu gegn fordómum gagnvart alls kyns minnihlutahópum þá séu samsvarandi fordómar gagnvart öldruðum að mestu látnir óáreittir. Loks eru þeir siðferðilega óréttmætir en tilgreina má a.m.k. fjórar röksemdir gegn því að líta á aldraða sem „byrði“ fyrir samfélagið: Fyrst ber að nefna að langt frá því allir sem tilheyra hópi aldraðra eru byrði. Um er að ræða mjög fjölbreyttan hóp. Í öðru lagi hafa aldraðir þegar lagt sitt af mörkum til samfélagsins í langflestum tilvikum. Í þriðja lagi eru margir yngri meðlimir samfélagsins mun meiri byrði með hegðun sinni og athöfnum. Og síðast en ekki síst brýtur það í bága við manngildishugsun okkar flestra að líta svo á að aðgangur að opinberri þjónustu sé háður fjárhagslegu framlagi hvers og eins.

Öldrunarfordómar eru böl sem ber að útrýma. Það dregur siðmenningarstig samfélagsins verulega niður að „verðleggja“ fólk með mismunandi hætti eftir því hversu lengi það hefur lifað – eða hversu lengi það á líklega eftir að lifa. Í siðmenntuðu samfélagi ætti svo hrottalegt verðmætamat ekki að fá að þrífast.

Eróbik, gleði og stuð hjá eldri borgurum í Fylki

Fimleikadeild Fylkis stendur fyrir æfingum fyrir eldri borgara  í fimleikahúsi Fylkis í Norðlingabraut 12, Norðlingaholti á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10:00-11:00 og 11:00-12:00.

Æfingar byggjast upp þannig að byrjað er á léttri upphitun, göngu inni í sal með æfingum um leið, með áherslu á fætur, axlir og hendur. Upphitun með léttum dansæfingum koma síðan á eftir, en upphitun varir í 10 mín. Þrek- og teygjustöðvar eru um allan sal og er hver stöð í 2 mín þar sem tveir til þrír vinna saman á stöð. Stöðvavinnan tekur 20 mín. Eftir það eru léttar teygjur og út- og inn öndun og fá púlsinn aftur í gott jafnvægi.  Einsog við er að búast eru einstaklingarnir í hópnum misvel á sig komin og allar æfingar eru hannaðar fyrir alla, hvort sem þau eru í góðu formi eða eiga við einhver líkamleg meiðsli eða aðra krankleika.

Tónlist frá 6. og 7. áratugnum er spiluð undir og jafnvel tekin létt dansspor. Unnið er með jafnvægi, æfingar með boltum, teygjum og léttum leikum í formi æfinga. Eftir æfinguna er boðið upp á kaffi og stundum eitthvað með og tekið létt spjall um lífið og tilveruna.

Þetta framtak fimleikadeildar Fylkis hefur fengið afar jákvæð viðbrögð iðkenda og vakið athygli víða. Skráningar eru hjá fimleikar@fylkir.is eða í síma 848-6967 Guðrún Ósk.

Viðburðir U3A Reykjavík í desember 2022

Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson

Í desember höldum við jólafund í sal veitingahússins Nauthóls, fimmtudaginn 8. desember kl. 15-17:00. Þar koma til okkar arkitektarnir Dennis Davíð Jóhannesson og Hjördís Sigurgísladóttir og kynna bók sína Straumar frá Bretlandseyjum – Rætur íslenskrar byggingarlistar. Bókin er afrakstur sögulegs rannsóknarverkefnis Hjördísar og Dennis. Hún fjallar um hvernig áhrif frá Bretlandseyjum hafa mótað íslenska byggingarsögu frá upphafi byggðar og fram á daginn í dag.Við njótum veitinga og eigum stund til samveru og spjalls.

Á haustönninni hefur verið mjög góð þátttaka í viðburðum U3A Reykjavík. Fyrirlestrar hafa verið fjölsóttir, salurinn oftar en ekki fullsetinn á þriðjudagsfyrirlestrum og enn fleiri notið þessa að hlusta og horfa á upptökurnar sem við sendum út. Að meðaltali eru það um 200 manns sem fylgjast með fyrirlestrum og þá teljum við saman þá sem koma í salinn og þá sem eru með í streymi  eða sjá upptökuna eftir á.

Við hefjum svo starfið á nýju ári með fyrirlestri þriðjudaginn 10. janúar í Hæðargarði þar sem fjallað verður um áhrif tónlistar á fólk. Auk þriðjudagsfyrirlestra verður umhverfishópur með stutt málþing um loftslag og umhverfi 14. janúar sem er laugardagur. Heimsókn í Íslenska erfðagreiningu er einnig á dagskrá í janúar og viðburður á vegum menningarhóps. Við kynnum janúardagskrána strax á nýju ári.

Megið þið njóta aðventunnar, jóla og áramóta sem best.
Stjórn U3A Reykjavík

Skip to content