Fréttabréf í janúar 2022

enn-og-aftur-nytt-upphaf-1200x630

Enn og aftur - nýtt upphaf

Á áramótum skoðum við gjarnan árið sem er að líða og metum hvað var gott og hvað var kannski ekki svo gott. Í Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna í janúar 2021 skrifaði ritstjóri fréttabréfsins eftirfarandi:

Síðasta ár einkenndist af boðum og bönnum sem settu einhverjar hömlur á daglegt líf okkar flestra. Nú eru bólusetningar gegn Covid-veirunni hafnar og við sjáum fyrir endann á þessu fordæmalausa ástandi eftir einhverjar vikur.

Síðasta ár einkenndist af boðum og bönnum sem settu einhverjar hömlur á
daglegt líf okkar flestra. Nú eru bólusetningar gegn Covid-veirunni hafnar og
við sjáum fyrir endann á þessu fordæmalausa ástandi eftir einhverjar vikur.
Þangað til getum við nota tímann til að setja okkur markmið fyrir árið 2021 og skipuleggja hvernig við getum unnið að þeim. Hægt er að finna alls konar 
hugmyndir og tækifæri á vefgátt Vöruhúss tækifæranna.

Einsog sjá má hér að ofan voru miklar vonir bundnar við þá nýhafnar bólusetningar og að samfélagið myndi færast í fyrra horf. Ári síðar, eftir ítrekaðar bólusetningar, grímuskyldu, sóttkvíar og samkomu fjöldatakmarkanir, sláum við eigin smitmet dag eftir dag. Þó að flest okkar trúi því að alþjóðleg samvinna í baráttunni gegn veirunni muni gera okkur kleift að ná betri tökum á útbreiðslu hennar þá telja færri okkar að samfélagið muni færast sama horf og fyrir Covid-19.  Faraldurinn hefur haft áhrif á alla þætti samfélagsins og þegnar þess hafa aðlagað líf sitt að nýjum aðstæðum. Vinnumarkaðurinn hefur að stórum hluta færst yfir í rafræna fjarvinnu sem og skólanám. Verslun með matvöru og fatnað  hefur færst yfir á netið og ferðalögum, ekki síst vinnutengdum ferðum, hefur fækkað stórlega sem og fundum og ráðstefnur. Fjölmargar nýjar tæknilausnir hafa verið þróaðar til að mæta þessum nýju áskorunum og er líklegt að margar þessara lausna muni festa sig í sessi eftir að faraldrinum lýkur.

Þó að ritstjóri Fréttabréfs Vöruhúss tækifæranna hafi ekki reynst mjög sannspár um árið 2021 ætlar hann, í bjartsýniskasti, að endurnýta greinina frá því í janúar í fyrra og spá því að árið 2022 verði farsælla en það sem er að líða.

Það er svo undir okkur komið hvernig við aðlögum okkur í nýju og breyttu samfélagi og nýtum okkur til þess hugmyndir og tækifæri á vefgátt Vöruhúss tækifæranna.

Stjórn Vörhúss tækifæranna óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs og hvetur ykkur til að senda okkur ábendingar og tillögur á netfanginu: vt@voruhus-taekifaeranna.is

Vesenferðir og léttbrölt

Guðný Ragnarsdóttir

Léttar og skemmtilegar útivistargöngur
í umsjá Guðnýjar Ragnarsdóttur hjúkrunarfræðings

Langar þig að fara í gönguhóp sem er ekki of krefjandi?  Viltu að læra að ganga úti að vetri til á öruggan hátt?

Vesenisferðir og léttbrölt býður þig velkomna/velkominn í léttar og skemmtilegar útivistargöngur undir stjórn hjúkrunarfræðings. Göngurnar eru sniðnar að þeim sem eru til dæmis að byrja frá grunni, jafna sig eftir veikindi, eru í endurhæfingu, en Guðný sjálf nýtti sér göngur í endurhæfingu sinni eftir krabbameinsmeðferð.

Guðný segir að eftir á hafi hún kannski farið full bratt í sínar göngur þegar hún hljóp upp á tinda og yfir hálendi með „dauðan á hælunum “ einsog hún orðar það og er ekki mæla með. Hins vegar ráðleggur hún fólki að byrja rólega, ganga reglulega á eigin forsendum, njóta góðs félagsskapar og koma endurnærð/ur á líkama og sál heim eftir útiveru.

Guðný hefur tekist á við fleiri áskoranir í endurhæfingu sinni einsog myndlist og nýlega hélt hún hún fyrst opinberu myndlistasýningu  í Galleri 16 á Vitastíg á sjálfsmyndum sem hún teiknaði á meðan hún var í krabbameinsmeðferð.

Í gönguprógrammi Guðnýjar verður gengið á jafnsléttu á þægilegum stígum á mismunandi stöðum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni í 40 – 60 mínútur. Gengið verður vikulega á miðvikudögum kl. 15 í 8 vikur.

Drög að dagskrá gönguprógrammsins er sem hér segir:

26. jan Umhverfis Rauðavatn 3-4 km í 60 mín
2. feb Umhverfis Hvaleyrarvatn 3-4 km í 60 mín
9. feb Hringur í Elliðaárdal 4 km í 60 mín
16. feb Umhverfis Vífilsstaðavatn 4 km í 60 mín
23. feb Umhverfis golfvöllinn, Gróttuhringur 4 km í 60 mín
2. mars Umhverfis Reynisvatn 4 km í 60 mín
9. mars Umhverfis Tjörnina í Reykjavík og Vatnsmýrina 4-5 km í 60-90 mín
16. mars Umhverfis Grafarvoginn 5 km 60-90 mín
Þeir sem vilja skrá sig í gönguprógrammið Vesen og léttbrölt er bent á að skrá sig á www.sportabler.com/shop/vesenisferdir og velja Vesen og léttbrölt 1 vorið 2022.

Þegar allir dagar eru laugardagar

Richard F. Grace

Fyrirsögnin vísar til titils bókarinnar When Every Day Is Saturday. The Retirement Guide for Boomers eftir Richard E. Grace verkfræðing og fyrrverandi prófessor við Purdue University í Indiana fylki, Bandaríkjunum.

Viðhorfskönnun
Í bók sinni segir Richard frá könnun sem hann gerði um viðhorf og væntingar fólks til eftirlaunaáranna. Þátttakendur voru 700 Bandaríkjamenn á eftirlaunaaldri úr ýmsum starfsstéttum og með mismunandi miklar tekjur. Í könnuninni voru settar fram fullyrðingar eins og Mig langar að læra eitthvað nýtt á hverjum degi, Tekjur mínar á eftirlaunaárunum duga fyrir útgjöldum og Áhugamál eru mikilvæg fyrir mig. Þátttakendur tóku afstöðu til fullyrðinganna með því að vera sammála þeim eða ósammála. Viðhorf þeirra voru flokkuð í sex þemu og í röð eftir mikilvægi.  Þemað Frelsi og tómstundir er þar efst og því næst Fjármál, Starf, Fjölskylda og vinir, Heilsa og Hjálpa öðrum.

Vöruhúsið hans Grace fyrir eftirlaunaárin
Niðurstöður úr könnun á viðhorfum var safnað saman í einskonar vöruhús, Grace Retirement Inventory, GRI, sem á íslensku mætti nefna Vöruhúsið hans Grace fyrir eftirlaunaárin. GRI er hugsað sem leiðarvísir að farsælum eftirlaunaárum og er áherslan fyrst og fremst lögð á umskiptin sem verða þegar einstaklingur hættir í starfi og fer á efirlaun. Richard telur GRI geta sagt til um líkurnar á farsælum eftirlaunaárum en að niðurstöðurnar eigi þó mest við um fyrstu tíu árin. Erfiðara sé að spá eftir því sem tíminn líður því aðstæður breytast eins og t.d. missir maka og trúlega breytast einnig viðhorf. GRI, auk heilræða Richards, ásamt fjölmörgum frásögnum frá lífi þeirra sem tóku þátt í könnuninni er að finna í bókinni When Every Day Is Saturday. The Retirement Guide for Boomers.

Heilræði Richards
Richard telur þrennt skipta mestu máli fyrir farsæl eftirlaunaár. Í fyrsta lagi sé jákvætt viðhorf til lífsins, í öðru lagi er hvernig sá sem er á eftirlaunum tekst á við lífið og í þriðja lagi hversu miklu máli hann skiptir fyrir aðra. Í lok bókar sinnar setur Richard fram spurningar sem hann telur mjög mikilvægar fyrir farsæl eftirlaunaár, spurningar eins og Hvernig á ég að verja tíma mínum þannig að hann hafi tilgang?, Munu tekjur á eftirlaunaárunum duga fyrir gjöldunum?, Á ég að flytja þegar ég er komin á eftirlaun?, Hvernig get ég bætt heilsu mín þegar ég er komin á eftirlaun, líkamlega og andlega, bjartsýni mína og viðhorf? og Hvernig get ég notað hæfileika mína svo að þeir komi að bestum notum? Richard telur að svörin við spurningunum geti haft mikil áhrif á hvernig okkur farnast á eftirlaunaárunum.

Fyrir þá sem vilja kanna viðhorf sín til eftirlaunaáranna er bent á 2. kafla í bók Richards á slóðinni https://engineering.purdue.edu/MSE/people/Faculty/regrace/SaturdayChapter2GRI.pdf

Hún Sigga okkar

Hún Sigga okkar

Hugarsmíðin hún Sigga okkar, Sigríður Kristín Kristjánsdóttir, er fædd og alin upp í Hafnarfirði en býr nú í Garðabænum. Fór ekki langt. Sigga er 60 ára, viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem ritari forstjóra í stóru fyrirtæki. Hún er gift Stjána, Garðbæingi og lögfræðingi í Dómsmálaráðuneytinu. Sigga fylgist lítið með pólitíkinni, finnst hún snúast mest um keisarans skegg, en nýtir þó alltaf sinn kosningarétt og lítur þá helst til þess hvað komi fæðingarbænum vel. Í landspólitíkinni er það auðvitað Viðreisn því þar er hennar kona, Hafnfirðingurinn, fremst í flokki. Í bæjarpólitíkinni er hún meiri vindhani.

Sigga hefur starfað sem ritari síðan hún lauk námi og man tímana tvenna eins og að fyrir löngu var allt skrifað á ritvél og kalkipappír hafður á milli blaða. Orðið ritvél hefur vafist fyrir Siggu því af hverju vél?  Sigga er metnaðargjörn, hefur verið dugleg að sækja sér margskonar námskeið og er nú orðin mjög fær í öllu sem viðkemur tölvu og þar með verðmætari starfskraftur. Sigga er félagslynd en ekki fram úr hófi,  er í tveimur saumaklúbbum, einum úr menntó og hinum úr háskólanum. Besta vinkonan er hún Anna og hafa þær átt samleið síðan úr 1. bekk í grunnskóla og brallað margt saman. Sigga vill halda sér vel við, skokkar þegar tími gefst til, en þarf að gæta að slitgigtinni sem plagar hana í hnjánum. Sigga er líka fróðleiksfús og hún og Anna sækja flest alla viðburði hjá U3A Reykjavík á þriðjudagseftirmiðdögum, hálfgerðar ryksugur þar.

Sigga á sér draum, sem hefur blundað með henni allt frá því hún lauk námi sem er að koma á laggirnar litlu gistihúsi sem hún ætlar að kalla Nornin, auðvelt að snúa á útlensku eins og á ensku The Witch og á sænsku Häxan. Nú vill hún taka slaginn og Anna ætlar að gera það með henni því saman yrðu þær sterkari en hún ein. Anna bætir Siggu upp því hún er snillingur í matseld sem Sigga er ekki. Sigga myndi sjá um gestina, að þeim liði vel og reyndar allt annað nema þrifin. Yrði of mikið. Kannski Elsa frænka gæti hjálpað til? Þarna yrði Sigga í essinu sínu. Já, og allt fólkið sem hún myndi kynnast frá ýmsum heimshornum. Hún hefði frá mörgu að segja Stjána þegar heim kæmi.

Vöruhús tækifæranna https://voruhus-taekifaeranna.is/ er akkúrat staðurinn fyrir Siggu að láta drauminn rætast. Þegar Sigga er komin inn á síðuna smellir hún á Tækifæri í valborða efst, síðan á rekkann Stofnun fyrirtækis og því næst á hilluna Aðstoð. Á hillunni er m.a. hægt að fræðast um Startup Reykjavik prógrammið styrkt af Arion banka þar sem einstaklingar fá ráðgjöf og fjárhagslegan stuðning við að gera viðskiptahugmynd að veruleika. Áfram hélt Sigga og smellti á hilluna Sjóðir og styrkir en þar er sagt frá ráðgjöf sem Íslandsbanki veitir þeim sem hyggjast stofna fyrirtæki og vísar á sjóði sem styrkja slíkt. Eftir að hafa fengið allar þessar upplýsingar er Sigga tilbúin að gera viðskiptaáætlun fyrir gistihúsið sitt og smellir á hilluna Viðskiptaáætlun þar sem er að finna gnótt upplýsinga um hvernig skuli gera slíka áætlun. Þar eru meira að segja upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um hvað það kostar að stofna fyrirtæki. Sigga sleppir því í bili að skoða hilluna Hvatning því draumurinn drífur hana áfram. Hún er meira að segja farin að hugleiða að ganga í FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu.

Sigga og Pétur giftust ung, börnin hlóðust niður og árin liðu og þau farin að heiman. Engin barnabörn komin ennþá og er Siggu farið að langa í lítið kríli. Hjóna bandið er sí og svo, lítið um að tala lengur og oft dauft við kvöldverðarborðið en ræst hefur úr síðan Sigga ákvað að láta drauminn rætast.

Mikil þátttaka að viðburðum U3A Reykjavík

Haustið 2020 ákvað stjórn U3A Reykjavík að senda út fræðslufyrirlestra í streymi til félagsmanna. Ástæðan var auðvitað heimsfaraldurinn sem hafði síðan í febrúar komið í veg fyrir samkomur. Frá upphafi hefur þessi nýjung mælst vel fyrir og þátttakan verið framar vonum. Auglýsingar um fyrirlestra voru settar á heimasíðuna u3a.is eins og áður og einnig voru þeir kynntir í tölvupóstum til félagsmanna. Auk þess sem fyrirlestrar voru fluttir í beinu streymi hafa þeir einnig verið opnir félagsmönnum í viku eftir flutning og vefslóð verið send í tölvupósti til félagsmanna.

Eftir að samkomutakmörkunum var aflétt höfum við haldið áfram að streyma fyrirlestrunum og hafa fyrirlesarar allir tekið því vel að fyrirlestrar væru aðgengilegir eftir flutning. Nú er komin nokkur festa á þetta verklag eftir þriggja missera reynslu.

Við höfum fylgst með þeim fjölda sem tengist í beinu streymi og einnig hversu margir opna fyrirlesturinn á þeirri viku sem hann er opinn á vef. Á mynd hér að ofan má sjá meðaltal hvers mánaðar þessi þrjú misseri. Þá er talið saman þeir sem mæta í sal, þeir sem tengjast í beinu streymi og þeir sem fylgjast með fyrirlestrinum eftir á. Í heildina eru það 135 félagsmenn sem fylgjast með fyrirlestri og hæst hefur tala þeirra verið 227 manns. Alltaf eru það flestir sem tengjast eftir á eða að meðaltali um hundrað manns og allt að 184 á stökum fyrirlestri. Þetta þýðir að fyrirlestrar ná til um fjórðungs félagsmanna í einstaka tilvikum og mun fleiri hafa einhvern tíma notið þess að fylgjast með fyrirlestri sem eru eins og áður af fjölbreyttu tagi.

Það er ánægjuefni hversu vel félagsmenn hafa tekið þeirri nýjung að fylgjast með fyrirlestrum í streymi og hversu fúsir þeir hafa verið til þátttöku. Þannig hefur U3A Reykjavík tekist að vinna að því markmiði félagsins að stuðla að því að félagsmenn hafi fjölbreytilegt framboð af fræðslu.

Viðburðir U3A Reykjavík í janúar 2022

Frá vinstri: Jóhanna Jakobsdóttir, Jón Björnsson, Þorleifur Friðriksson, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir og Erla Dóris Halldórsdóttir.

Gleðilegt ár!

Við stefnum að fjölbreyttum fyrirlestrum í janúar eins og áður, sá fyrsti verður þriðjudaginn 11. janúar og þá ætlar Jóhanna Jakobsdóttir, líftölfræðingur að koma til okkar og ræða stöðuna í Covid faraldrinum.

Fimmtudaginn 13. janúar verður þriðji fundur í námskeiði Jóns Björnssonar og Þorleifs Friðrikssonar um Gyðinga, siði, sögu og menningu.

Námskeiðið heldur svo áfram 20. janúar og 27. janúar verður fundur um hugsanlegt ferðalag á Gyðingaslóðir.

Þriðjudaginn 18. janúar kemur Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur til okkar og fjallar um jákvæða sálfræði og

25. janúar verður erindi um smitsjúkdóma með áherslu á mislinga og það er Erla Dóris Halldórsdóttir doktor í sagnfræði sem flytur það.

Á heimasíðu okkar u3a.is hefur nú verið birt yfirlit yfir fyrirlestra á vegum félagsins sl. tvö ár eða frá hausti 2020: https://u3a.is/yfirlit-fyrirlestra-u3a-reykajvik/

Sjáumst á komandi ári!
Stjórn U3A Reykjavík

Skip to content