Fréttabréf í júní 2023

halendi-1200x630

Líf og fjör á þriðja æviskeiðinu

Einkunnarorð Vöruhúss tækifæranna eru Mótum þróttmikið þriðja æviskeið. Vöruhús tækifæranna var einmitt stofnað til þess að setja fram og gera sýnileg tækifærin eða “vörur“, sem auðvelda fólki á þriðja æviskeiðinu, 50 ára og eldra, að finna og velja sér tækifæri til þess að feta nýjar slóðir í lífinu á einn eða annan hátt og láta drauma sína og óskir rætast.

Í Vöruhúsinu eru rekkar og hillur þar sem má finna margvísleg tækifæri sem eru í boði en fjölbreytileiki einstaklinga sem leita nýrra tækifæra er að sama skapi mikill. Markmið okkar sem nú störfum í stjórn Vöruhúss tækifæranna er að auka enn frekar samstarf við þá fjölmörgu aðila sem setja fram áhugaverð tækifæri sem henta vel fólki á þriðja æviskeiðinu. Mikilvægt er að þessi tækifæri séu gerð sýnileg fyrir notendur Vöruhússins. Þannig geta allir sem kynna sér Vörhúsið tekið markviss skref til þess að stækka  tengslanet sitt með því að hagnýta sér ólík tækifæri sem þar eru í boði og auka með því eigin virkni og lífsgleði.

Stundum þarf hvatningu frá vinum til að virkja sig til þátttöku en reynslan af Vöruhúsinu sýnir að margir fara af stað af sjálfsdáðum og finna þar ný tækifæri og hugmyndir sem gefa þeim bæði lífsfyllingu og kjark til að takast á við margvísleg ný verkefni. Í vaxandi mæli  er orðið algengara að fara fyrr á eftirlaun en áður var venjan  og sumir skipuleggja  sveigjanlegri starfslok og skert starfshlutfall í lok starfsferilsins.

Þegar fólk ákveður að loka dyrum að hinni föstu atvinnu sem það hefur stundað þá opnast mörg ný tækifæri svo sem í formi nýrrar menntunar eða sköpunar ellegar að velja sér nýjan starfvettvang eða gerast sjálfboðaliði. Líf og fjör eru grunngildi fyrir alla á þriðja æviskeiðinu og við það grunngildi vill Vöruhúsið styðja og markvisst vinna að því að fjölga tækifærum og upplýsingum um þau á komandi starfsári nýrrar stjórnar Vöruhússins.

Sumarkveðjur frá stjórn Vöruhúss tækifæranna,
Tryggvi Axelsson, formaður

Frá formanni U3A Reykjavík

Árið 2019 gerðist ég félagi í Háskóla þriðja æviskeiðsins, U3A Reykjavík , fyrir áeggjan fyrrum kollega míns. Ég hafði ekki heyrt af þessu félagi fyrr og fannst hugmyndafræðin á bak við U3A afar spennandi og jákvæð. Mín fyrsta hugsun var að það væri alveg tilvalið fyrir foreldra mína að ganga í U3A Reykjavík og njóta þess sem félagið býður félagsmönnum uppá.

Ég var þó með svolítið blendnar tilfinningar um að ganga sjálf í félagið en þær sneru alfarið að því að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég sjálf væri nú komin á hið svokallaða þriðja æviskeið.  Ég uppgötvaði að ég var fórnarlamb eigin aldursfordóma. Ímynd mín af eldri borgurum litaðist af fréttum um neyðarástand á spítölum vegna fráflæðisvanda sem skapast vegna eldra fólks og myndum sem fylgdu með af rýrum fótum í allt of rúmum inniskóm sem eltu göngugrind. Sagt var frá því að þessi hópur stækkaði sífellt vegna betri lýðheilsu og hækkandi lífaldurs, og væri efnahagsleg byrði á þjóðfélaginu.

Fólk sem nú er á þriðja æviskeiðinu samsamar sig ekki þessari mynd sem dregin er upp af okkur.  Við erum almennt heilsuhraustir og reynslumiklir einstaklingar sem vilja halda áfram að vaxa og þroskast og vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Fljótlega fór ég þó að mæta á þriðjudagsfyrirlestra U3A með pabba.

U3A félög í yfir 60 löndum fylgja þeirri hugmyndafræði stuðla að því að  félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegu framboði af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Í vaxandi mæli er verið að koma á samstarfi milli þessa U3A félagasamtaka, t.d. með „stúdenta-skiptum“.

Síðustu ár hef ég starfaði fyrst og fremst að verkefni félagsins, Vöruhúsi tækifæranna, sem er markaðstorg tækifæra fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu og auðveldar þessum hóp að fá hugmyndir um leiðir til þess að móta sitt eigið þriðja æviskeið sem gæti alveg verið okkar skemmtilegasta æviskeið.

Það kom mér þægilega á óvart þegar óskað var eftir því að ég tæki að mér formennsku stjórnar U3A Reykjavík. Þann stutta tíma sem ég hef verið formaður hef ég kynnst betur þeirri miklu sjálfboðavinnu sem liggur að baki þess að halda úti U3A Reykjavík sem ekki væri hægt nema með vinnu stjórnarmeðlima og annara félaga.

Ég mun leggja mig fram um að verða ekki eftirbátur forvera minna í þessu starfi; Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur, Hans Kr. Guðmundssonar og Birnu Sigurjónadóttur sem eiga heiðurinn að því félagið hefur nú yfir 1200 félagsmenn.

Ég hlakka til að vinna með ykkur öllum á komandi starfsári,

Hjördís Hendriksdóttir
formaður U3A Reykjavík

Skiptinám á þriðja æviskeiðinu
Ný tækifæri til virks ævináms hjá Erasmus+ áætlun ESB

Birgir Jónsson fræðir UPUA skiptinema 60+ um sögu og jarðfræði Hvalfjarðar. Mynd: Hans Kr. Guðmundsson

Ísland tekur þátt í Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins (ESB), en þátttaka Íslands í þessari samstarfsáætlun á sviði mennta-, æskulýðs- og íþróttamála er á grundvelli aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Áætlunin styrkir fjölbreytt samstarfsverkefni menntastofnana og samtaka á öllum stigum náms, frá leikskóla til háskóla, æskulýðsstarfs, starfsmenntunar og fullorðinsfræðslu. Á undanförnum árum hafa Íslendingar notið þessara styrkja í ríkum mæli og segja má að styrkir til skiptináms séu nánast sjálfsögð tækifæri fyrir íslenska háskólanema í dag og fjöldi erlendra skiptinema sækir heim íslenska skóla á ári hverju. Ennfremur má gera ráð fyrir að virk þátttaka hérlendra aðila í evrópskum verkefnum um þróun og stefnumótun hafi ekki síður auðgað nýsköpun í starfi þeirra.

U3A Reykjavík hefur frá árinu 2014 stofnað til og tekið þátt í samstarfi um þróun viðhorfs til ævináms á efri árum og áherslu á mikilvægi þess að vera virk á þriðja æviskeiði lífsins þegar eftirlaunaaldurinn nálgast. Þessi verkefni eru: BALL (Verum virk með ævinámi) 2014-2016, Catch the BALL (Gríptu boltann) 2016-2018, og HeiM (Leiðir að menningararfinum) 2018-2021. Þessi verkefni voru unnin í samstarfi við U3A samtök og stofnanir víðs vegar um Evrópu með frábærum árangri og má fræðast nánar um þau á vef U3A Reykjavík, https://u3a.is/erlent-samstarf/.

Öll þessi verkefni voru unnin undir merkjum fullorðinsfræðslu Erasmus+. Í nýju Erasmus+ áætluninni sem nær frá 2021 til 2027 hefur verið bryddað upp á mikilvægum nýjungum í fullorðinsfræðslu þar sem í fyrsta sinn er boðið upp á hreyfanleikastyrki til skiptináms fyrir fólk á efri árum. Þetta er ánægjuleg nýjung, en slíkar námsferðir hafa ekki verið í boði fyrir þennan aldurshóp námfúsra sem vill nýta sér möguleika til ævináms á þriðja æviskeiðinu. Hér að neðan er sagt frá slíkri skiptinámsheimsókn frá Universidad Permanente (U3A) við Alicanteháskóla, sem var einna fyrstur evrópskra skóla þriðja æviskeiðsins til að nýta sér þetta nýja tækifæri til nemendaskipta. Það var ánægjulegt og lærdómsríkt fyrir U3A Reykjavík að vera móttökuaðili fyrir þessa heimsókn fyrrum samstarfsaðila og samtökin stefna að því að endurgjalda hana þegar tækifæri gefst aftur til að sækja um þegar slíkir styrkir verða næst auglýstir til umsóknar í október næstkomandi. Hægt mun vera að sækja um  skiptiheimsóknir bæði fyrir hópa og einstaklinga og þarf umsækjandi  að vera stofnun eða samtök sem sinna fullorðinsfræðslu. Lengd heimsóknar getur verið allt að einum mánuði með vel skilgreindum námsmarkmiðum. Nánari upplýsingar um Erasmus+ má finna á vef Rannís (rannis.is).

U3A Reykjavík og Vöruhús tækifæranna óska ykkur sem eruð að nálgast þriðja æviskeiðið til hamingju með nýjan möguleika í virku ævinámi.

Heimsókn eldri skiptinema frá Alicante

Myndir: Vigdís Pálsdóttir

Samtökin U3A Reykjavík fengu góða gesti í heimsókn vikuna 8. til 14. maí s.l. Gestirnir voru sjö skiptinemar á sjötugs og áttræðisaldri frá Permanent University, UPUA, við Alicante-háskóla og einn starfsmaður háskólans. Heimsóknin var fjármögnuð af styrk frá Erasmus+ menntaáætlunni um  hreyfanleikastyrki fyrir skiptinema á efri árum, sjá umfjöllun  hér að ofan. Undirbúningshópur á vegum U3A Reykjavík setti saman viðamikla dagskrá fyrir heimsóknina sem fullnægði kröfum styrkveitanda um hvað skyldi læra af henni.

Heimsóknin tókst með ólíkindum vel og var hópur skiptinema afar virkur og skemmtilegur, vel undirbúinn og fróðleiksfús og naut undirbúningshópur U3A Reykjavík þess að vera í samvistum við þá. Farið var um víðan völl og fengu nemendurnir að kynnast meðal annars jarðsögu Íslands og eldvirkni landsins, stjórnkerfi Íslands og fortíð, íslensku samfélagi nútímans, erfðarannsóknum og fjarkennslu, bókmenntum og menningararfinum. Skiptinemar fengu einnig nasasjón af sundlaugamenningu Íslendinga með heimsókn í Vesturbæjarlaugina eldsnemma að morgni. Sýningin í Hörpu How to become Icelandic in 60 minutes á næst síðasta degi heimsóknarinnar hitti beint í mark og lærðu skiptinemarnir mottó Íslendinga "Þetta reddast". Ekki skal gleyma að skiptinemar buðu undirbúningshópnum í spænska veislu í lok heimsóknar sinnar  og leystu gesti sína út með gjöfum. U3A Reykjavík bauð á móti til dögurðar og gaf gestunum  viskustykki með myndum sem tengjast íslenskri náttúru hönnuð af listakonunni Heklu.

Hans Kristján Guðmundsson, fyrrverandi formaður og stjórnarmaður U3A Reykjavík hafði forystu fyrir undirbúningshópi U3A Reykjavík, Vigdís Pálsdóttir á heiðurinn af ljósmyndum allra viðburða í heimsókninni og Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur, sá um leiðsögn þegar farið var með nemana út úr bænum. Eins og segir hér að framan tókst heimsókn þessara eldri skiptinema frá Alicante afar vel og vonandi gefst tækifæri á að endurgjalda hana. Félagar í U3A Reykjavík hafa fengið senda ítarlega lýsingu á heimsókn skiptinemanna og eins má lesa um hana á heimasíðu samtakanna U3A.is.

Hún Sóllilja okkar

Mynd: Hrefna Sigurjónsdóttir

Hún Sóllilja Elliðadóttir er hugarsmíðin okkar í júní. Sóllilja er 75 ára og hefur búið fyrir austan fjall á Selfossi nánast alla sína ævi. Kynntist ung manni, honum Jónasi, sem þar var búsettur, og eftir fyrsta dansinn þeirra var ekki aftur snúið. Nú er Jónas farinn á vit feðra sinna og Sóllilja ekkja til 10 ára. Starfið hennar fullorðinsárin hefur verið að láta öðrum líða vel með því taka fólk í nudd en þegar hún var yngri þá var hún aðstoðarmatselja hjá vegavinnuhópum og brúarsmiðum. Nú er Sóllilja komin á eftirlaun og hefur það bara gott enda hafði hún vaðið fyrir neðan sig og passaði upp á að greiða í lífeyrissjóð og spara líka. Börnin tvö, sem búa í Reykjavík, eru komin vel á aldur og svei mér ef styttist bara ekki í fyrsta langömmubarnið. Börn og barnabörn koma oft í heimsókn og nýtur Sóllilja hverrar mínútu með þeim og veitir vel.

Sóllilja er ánægð með nafnið sitt. Sól er auðvitað sólin og sólskinið og liljan er uppáhaldsblómið hennar. Sóllilja er glöð að eðlisfari, vill öllum vel, og svo bjartsýn að sumum finnst nóg um. Getur farið í taugarna á fólki þegar hún sér bara björtu hliðarnar á tilverunni. Samt er þó eitt sem hún er ekki alveg nógu ánægð með og það er að hana langar að vera meira með fólki, að hún tali nú ekki um að eignast nýja vini. Börnin og fjölskyldur þeirra eiga sitt líf eins og vera ber og sem hún vill ekki skipta sér af. Sóllilja er í ýmsum félögum og klúbbum en það er ekki nóg. Sér sig meira í fámennum vinahringum eða kvennahringum sem hafa sömu lífssýn og markmið, hittast og taka fyrir fjölbreytt efni. Að eignast vin er ekki takmarkið eins og margir halda og hafa að meira segja reynt að para hana við menn á hennar aldri.

Sóllilja er félagi í U3A Reykjavík og hefur sótt viðburði þess á þriðjudögum þegar hún hefur getað því við komið en þess á milli hlustað á streymið frá viðburðunum, sem hefur bjargað miklu í vetrarhörkum og Hellisheiði lokuð. Hún hefur líka tekið þátt í starfi menningarhóps samtakanna og dáist að starfi þeirra sem að honum standa. Vöruhús tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is hefur hún líka skoðað vel og nýtt sér tækifæri þar en er hugsi. Veit að vinnan við Vöruhúsið er unnin í sjálfboðastarfi en finnst að Vöruhúsið gæti verið svo miklu meira ef það væri rekið á öðrum forsendum. Mætti meira að segja hleypa að auglýsingum við hæfi.  Sóllilja vill líka gjarnan sjá að Vöruhúsið bjóði upp á blog eða chat þar sem hægt væri að kynnast og spjalla við fólk á svipuðu reki og hún. Best að hún hafi samband við fólkið sem stendur fyrir Vöruhúsinu og láti í sér heyra. Sóllilja er bjartsýn á að á hana verði hlustað og heimur batnandi fari.

Starfsemi menningarhópsins

Mynd: Vigdís Pálsdóttir

Menningarhópurinn er nú u.þ.b. að ljúka sínu þriðja starfsári. Eins og áður var stefnt að því að skipuleggja einn viðburð í hverjum mánuði. Þátttaka í samkomunum hefur verið mjög góð, nánast alltaf uppbókað.

Vart hefur orðið við að margir halda enn að menningarhópurinn sé lokaður og viðburðir aðeins fyrir „þá sem eru í hópnum.“ Svo er ekki! Viðburðir eru auglýstir á heimasíðu og í pósti og allir U3A félagar geta skráð sig þar til uppbókað er. Alltaf eru nefnilega einhverjar fjöldatakmarkanir, misjafnar eftir því hver dagskráin er. En lítum aðeins yfir starfsemi vetrarins:

Haustið byrjaði með ferð til þess að skoða hellana í landi Ægissíðu við Hellu. Veðrið var heldur leiðinlegt en við létum það ekki á okkur fá og það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að skoða hellana og fræðast um sögu þeirra. Á eftir fengum við okkur fínan hádegismat á Stracta hóteli og þar urðu líflegar samræður yfir matnum.

Næst var ferð í leikhús að sjá Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur. Við vorum svo lánsöm að fá hana til þess að koma og borða með okkur á Kringlukránni fyrir sýningu og þar sagði hún okkur frá verkinu og tilurð þess. Það bætti verulega við þessa leikhúsupplifun.

Í nóvember fórum við svo á Hótel Holt og fengum góða leiðsögn Geirlaugar Þorvaldsdóttur um listasafnið sem þar er og var safnað af upphaflegum eigendum hótelsins. Þessu fylgdi gott kaffi og meðlæti og tækifæri til að kynnast og spjalla.

Í jólamánuðinum þótti við hæfi að fara í heimsókn í Dómkirkjuna þar sem presturinn tók á móti hópnum og fræddi um sögu kirkjunnar. Endað var á góðum hádegisverði.

Árið 2023 hófst með hádegistónleikum í Hörpu þar sem óperusöngkonurnar Hrafnhildur Björnsdóttir og Karin Thorbjörnsdóttir  fluttu okkur fagra tónlist. Eins og venjulega þurfti líka að nærast og njóta góðrar samverustundar og það var gert á veitingastaðnum Hnoss á jarðhæðinni í Hörpu.

Leikhúsferð var skipulögð í febrúar og miðar keyptir á sýningu þann 11. febrúar en með stuttum fyrirvara felldi leikhópurinn þá sýninguna niður og frestaði fram til 8. mars. En þá var farið í leikhúsið að sjá Ég lifi enn undir stjórn Ásdísar Skúladóttur sem einnig er ein höfunda og leikara í verkinu. Þessari ferð fylgdi matur á Jómfrúnni.

Þann 26. apríl fórum við í opinbera heimsókn til Hjálpræðishersins þar sem Ingvi Kristinn Skjaldarson tók á móti okkur og fræddi um starf Hersins. Það gerði hann afar ljúflega og skemmtilega og fékk góðar undirtektir og svo margar spurningar að loks varð að slíta fundi og fara undir hans leiðsögn í skoðunarferð um nýja glæsilega húsið þeirra. Það var svo ekki slæmt að enda á kaffi og úrvali af stríðstertum á kaffihúsi Hjálpræðishersins. Þar sátu þó nokkrir lengi og spjölluðu um starf Hersins og reyndar allt mögulegt annað.

Í maí stóð til að fara í ferð til Vestmannaeyja, búið að skipuleggja daglanga dagskrá og alveg uppbókað í ferðina og kominn biðlisti. Því miður fór það svo dapurlega að vegna veðurs og ölduhæðar var óhjákvæmilegt að fresta ferðinni. Af ýmsum ástæðum var ákveðið að reyna ekki aftur við Eyjaferð fyrr en í haust.

En til þess að enda starfsárið ekki með þessu þá er framundan ferð í óperubíó þann 3. júní. Til stendur að sjá beina útsendingu frá Metropolitan óperuhúsinu á Töfraflautunni eftir Mozart. Fyrir sýningu komum við saman á Kringlukránni og fáum okkur snarl og ræðum um landsins gagn og nauðsynjar.

Í starfshópnum sem skipuleggur viðburði hópsins eru: Birna Sigurjónsdóttir, Ólafía Sveinsdóttir, Ingibjörg Ásgeirsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir. Við þiggjum með gleði allar ábendingar um það sem betur mætti fara og hugmyndir um viðburði sem þið hefðuð áhuga á að fá á dagskrá. Kærar þakkir fyrir góðar samverustundir á starfsárinu.

Fyrir hönd hópsins,
Ingibjörg Ásgeirsdóttir
ingasg@simnet.is

Viðburðir U3A Reykjavík í júní 2023

F.v.: Jón Björnsson, Þorleifur Friðriksson, Töfraflautan og Ullarævintýri

Nú þegar sumar er á næsta leiti lýkur viðburðaríku starfsári hjá U3A Reykjavík. Í fyrstu viku júní eru síðustu viðburðirnir á dagskrá. Þeir eru:

  • 1. júní kl. 16:30 Kynning á tveimur ferðahugmyndum í Hæðargarði 31. Það eru félagarnir Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson sem kynna annars vegar ferð á Gyðingaslóðir og hins vegar ferð til istanbul.
  • 3. júní Menningarhópur skipuleggur heimsókn í Óperubíó þar sem sýnd er Töfraflautan eftir Mozart. Sýningin er frá Metropolitan óperunni og sýnd í Kringlubíó.
  • 7. júní Vorferð U3A Reykjavík, Ullarævintýri á Suðurlandi, heimsóttir verða nokkrir staðir á Suðurlandi þar sem unnið er með íslensku ullina.
    Allir viðburðir eru auglýstir á heimasíðu og þar er hægt að skrá sig. Félagar fá einnig sendan tölvupóst þar sem viðburðurinn er kynntur.Bestu óskir um gott og gleðilegt sumar.
    Starf U3A Reykjavík hefst aftur í haust með félagsfundi 5. september.Með kveðju
    Stjórn U3A Reykjavík
Skip to content