Fréttabréf í júní 2024

blom-1200x630

Vorkveðja frá stjórn U3A Reykjavík

Nú er enn  einu viðburðaríku starfsári á vegum U3A Reykjavík lokið og við það tækifæri sendir stjórnin öllum félagsmönnum kveðju og óskir um gott og gleðilegt sumar.

Fjölbreyttir þriðjudagsfyrirlestrar hafa verið á sínum stað eins og áður og ber að þakka þeim frábæru fyrirlesurum sem hafa frætt okkur og glatt. Ánægjulegt er að segja frá því að fyrirlesarar eru alla jafna fúsir til að koma til okkar og er það þakkarvert. Við heyrum líka frá félagsmönnum ánægju með fyrirlestrana og þökkum fyrir það, því stjórnin leggur fram heilmikla sjálfboðavinnu við undirbúning, frágang og útsendingu fyrirlestranna.

Hópastarfið hefur einnig verið blómlegt þetta árið, bókmenntahópur hittist reglulega og hefur gert það frá stofnun félagsins, menningarhópur hefur skipulagt heimsóknir og samveru félagsmanna mánaðarlega og nær alltaf er fullbókað á þá viðburði og umhverfishópur hefur staðið fyrir málþingum sem voru vel sótt. Fleiri hópar eru starfandi sem snúa að innra starf félagsins.

Hópur félagsmanna fór í vel heppnaða Tyrklandsferð í apríl. Ferðin var skipulögð í samvinnu við Söguferðir og Jón Björnsson var leiðsögumaður. Önnur ferð verður farin í haust á svipaðar slóðir og er nær fullbókað í hana. Vorferðin var að þessu sinni farin í maí á slóðir fornbáta á Suðurlandi með leiðsögn Helga Mána Sigurðssonar.

Þátttaka og virkni félagsmanna hefur verið mikil á starfsárinu, að jafnaði koma rúmlega 50 manns í sal til að hlýða á fyrirlestra og að meðaltali fylgjast 200 manns með upptökunum eftir á. Í einstöku tilvikum fer áhorfið hátt á fimmta hundrað þegar lagt er saman áhorf í streymi, fjöldi í sal og áhorf eftir á. Þá er ótalið áhorf félagsmanna í Landssambandi eldri borgara en í byrjun árs var gerður samningur við LEB sem felur í sér að aðildarfélög utan höfuðborgarsvæðisins fá aðgang að upptökum  og mega sýna þær í sal fyrir sitt félagsfólk.

Við tökum okkur nú sumarhlé í félagsstarfinu en hefjum starfið með félagsfundi 3. september og verður þar leitað eftir tillögum félagsmanna að efni fræðslufunda og viðburða á vetri komanda. Á þeim fundi verður til hugmyndalisti fyrir stjórn til að vinna eftir.

Njótum sumarsins og látum okkur hlakka til að hefjast handa í haust með fræðslu og virkni að leiðarljósi

f.h. stjórnar
Birna Sigurjónsdóttir, varaformaður

Fréttir frá Tuma

Hver er Tumi?
TUMI er skammstöfun fyrir Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Fjölmiðlanefnd (https://fjolmidlanefnd.is/) kom þessu samstarfsneti á laggirnar, enda er lögbundið hlutverk nefndarinnar að efla miðlalæsi og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla. Lesendur eru hér með hvattir til að kynna sér fjölbreytt hlutverk og störf Fjölmiðlanefndar. Fjöldi aðila kom að stofnun TUMA, þar á meðal Háskóli þriðja æviskeiðsins (U3A Reykjavík), og eigum við þar þrjá fulltrúa, þau Birnu Sigurjónsdóttur, Guðrúnu Bjarnadóttur og Jón Ragnar Höskuldsson. Fjarfundir eru um það bil mánaðarlega, klukkustundarlangir, og datt undirritaðri í hug að segja stuttlega frá þeim í Fréttabréfinu.

Fréttabréf  í apríl 2024
Þann 9. apríl 2024 var haldinn þriðji TUMafundur ársins. Anna Lilja Björnsdóttir, Jafnréttisstofu, sagði frá herferðinni Orðin okkar https://ordinokkar.is/ gegn hatursorðræðu. Henni var hleypt af stokkunum í lok janúar til að hvetja fólk til umhugsunar um að orð hafa áhrif. Jafnframt vakti Anna Lilja athygli á norrænni samantektarskýrslu um hatursorðræðu. Þar kom í ljós að fólk sem berst fyrir mannréttindum fær oft á sig hatursorð og kulnar jafnvel í baráttunni í kjölfarið. Málefnin sem einkum er reynt, samkvæmt skýrslunni, að þagga niður með hatursorðræðu eru flóttamenn, útlendingar, jafnrétti og opinberir aðilar.

Ingunn Lára Kristjánsdóttir lýsti athyglisverðri tilraun Ríkisútvarpsins (RÚV), en hún er ráðin samfélagsmiðlafréttamaður þar og stígur meðal annars inn í TikTokkið. Fréttastofan reynir á samfélagsmiðlum að vera hversdagsleg og einlæg. Fréttir eru settar í samhengi, orð úr venjulegu tali notuð og spurningum svarað. Aldurshóparnir, sem fylgjast annars lítið með fréttum, taka þarna talsvert eftir þeim.

Tótla Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, sagði að lokum frá Símaklefanum, en Barnaheill, Símaklefinn og Síminn taka höndum saman um að stuðla að símalausum samskiptum. Símaklefinn er eins konar kassi, sameiginlegur vörslustaður fyrir símtækin. Eins og við þekkjum flest, er jafnvel erfitt að horfa á heila mynd í sjónvarpinu án þess að fara í símann, leita að leikurum o.fl. Í þessu hvatningarátaki er Símaklefinn seldur, m.a. hjá Barnaheillum, til að styrkja átakið.

Fréttabréf í maí 2024
Fjórði TUMafundur ársins var þann 8. maí 2024. Á dagskrá voru þrjár kynningar.

Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, verkefnastjóri hjá Einhverfusamtökunum, fjallaði um snjalltæki í skólum í ljósi áherslu um skynrænan skóla og einstaklingsmiðað nám barna og unglinga á einhverfurófinu. Hún lýsti því að mikið vantaði á að tengsl snjalltækja og náms séu rannsökuð, jafnvel að einhverfir séu oft útilokaðir frá rannsóknum á áhrifum samskiptamiðla á einstaklinga. Hugtakið skjáfíkn hefur til dæmis verið dregið í efa, þar sem skjárinn veitir einhverfum margt, t.d. tækifæri til að hitta vini, hliðstæðan leik, ráð til að róa sig í álagi, auk þess sem börnin eru mun síður en neurotýpiskir krakkar, upptekin af því hvað aðrir eru að gera og hvað sé í tísku. Lítið sem ekkert hafi verið skoðuð skynræn viðbrögð nemenda á einhverfurófi við áreitum, t.d. tæknitengdum, sem neurótýpiskir skynja ekki. Guðlaug Svala vitnaði bæði til Kristy Forbes og Ásdísar Bergþórsdóttur, sem skoðað hafa ýmislegt fróðlegt, til dæmis:

https://www.kristyforbes.com.au/

https://www.facebook.com/Einhverfusamtokin/posts/%C3%A1sd%C3%ADs-berg%C3%BE%C3%B3rsd%C3%B3ttir-s%C3%A1lfr%C3%A6%C3%B0ingur-er-me%C3%B0-mj%C3%B6g-g%C3%B3%C3%B0a-grein-%C3%AD-l%C3%A6knabla%C3%B0inu/2024939354384795/

Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, kynnti nýjar kosningaleiðbeiningar, Leiðbeiningar fyrir forsetaframbjóðendur í aðdraganda kosninga https://fjolmidlanefnd.is/wp-content/uploads/2024/05/Leidbeiningar-fyrir-forsetaframbjo%CC%81dendur-i%CC%81-addraganda-kosninga.pdf. Árið 2021 var stofnaður samstarfshópur Fjölmiðlanefndar, Fjarskiptastofu, Persónuverndar, landskjörstjórnar og Ríkislögreglustjóra. Hlutverk hópsins er að tryggja að stjórnvöld bregðist við, ef út af ber við framkvæmd kosninga, en ógnirnar varða meðal annars persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi og þjóðaröryggi. Hópurinn gaf fyrst út leiðbeiningar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2022. Aðalmálið er að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum, allar auglýsingar eiga t.d. að vera merktar hvaðan þær koma. Bæði Meta og Google eru skyldug til að koma í veg fyrir að villt sé um fyrir fólki með gervigreind, en það er ekki auðvelt, auðveldara samt að greina myndefni en hljóðbrot.. Elva hvatti fólk til að láta Fjölmiðlanefnd vita, verði það vart við rætnar og vafasamar auglýsingar https://fjolmidlanefnd.is/abendingar-kvartanir/

Þórunn Jóna Hauksdóttir, deildarstjóri grunnskólamála hjá Hafnarfjarðarbæ, sagði frá tilraunaverkefni um símalausan skóla, sem Foreldraráð Hafnarfjarðar hefði óskað eftir. Byrjað var á að kanna hvernig staðan væri. Í bænum eru 9 grunnskólar og hver þeirra með sínar reglur um símanotkun. Ákveðið var að hafa símafrí í öllum skólunum í apríl 2024. Skólarnir fengu fé til að kaupa spil og fleiri tæki til afþreyingar fyrir nemendur. Breytingar virtust ekki stórvægilegar, en skoða þarf betur, enda stutt síðan. Spurningin Hvað þýðir símaleysi? vaknaði, því sími er ekki bara sími. Hann er líka strætómiði, stundatafla, strætóáætlun, mörgum börnum nauðsynlegt að geta haft eitthvað í eyrunum, hjálpartæki o.fl. Niðurstöður verða lagðar fyrir Fræðsluráð í maí. Fundargerðir Fræðsluráðs má sjá á https://hafnarfjordur.is/stjornsysla/fundargerdir/

Guðrún Bjarnadóttir

Brennur fyrir hagsmunum félaga LEB

Eins og Viðar Eggertsson, forveri minn í starfi skrifstofustjóra LEB, talaði um í pistli sínum sem birtist í febrúar fréttabréfinu, þá lét hann af störfum núna í apríl og undirrituð var svo heppin að hreppa titilinn skrifstofu- og markaðsstjóri LEB. Það er afskaplega ánægjulegt að fá tækifæri til að nýta starfskrafta sína við svo verðug verkefni sem LEB er að fást við alla daga.

Ég er fædd og uppalin í fallegu sjávarþorpi fyrir norðan, sem heitir Ólafsfjörður, og ég brenn mikið fyrir málefni landsbyggðarinnar, ekki síður en höfuðborgarsvæðisins, þar sem ég hef alið mestan minn aldur, eftir að ég varð fullorðin.
Á Ólafsfirði var gott að alast upp og þar fékk maður snemma að láta til sín taka. Ég byrjaði í fiskvinnu 13 ára gömul, eins og tíðkaðist á þeim tíma, og maður vann við hlið fullorðinna og var fljótt tekinn inn í þeirra tölu, þrátt fyrir ungann aldur. Fiskurinn var góð tekjulind fyrir okkur skólakrakkana og fleytti mér áfram í gegnum framhaldsnám, og alltaf næga vinnu að fá í öllum skólafríum.

Eftir stúdentspróf hef ég komið víða við, bæði í vinnu og námi. Í noregi hóf ég háskólanám og vann þar samhliða náminu bæði við þrif og hótelstörf. Eftir heimkomu lauk ég BA gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, með ensku sem aukafag. Síðar bætti ég við mig Diploma gráðu í rekstrar- og viðskiptafræði. Ég hef verið dugleg við að bæta á mig „fræðslublómum“ í gegnum tíðina og á síðustu árum hef ég lokið námi í mannauðsstjórnun og einnig markþjálfun við Háskólann í Reykjavík.

Ég hef alltaf haft áhuga á og verið virk í félagsstörfum. Hjá öllum fyrirtækjum sem ég hef starfað hjá sl. 30 ár hef ég setið í stjórnum starfsmannafélaganna og eftir stjórnarsetu verið trúnaðarmaður, en því hlutverki gegndi ég t.d. hjá Valitor í 12 ár. Auk þess hef ég stundað sjálfboðaliðastörf bæði fyrir Rauða krossinn og AFS (skiptinemasamtök).

Með auknum þroska og hækkandi aldri gerir maður sér grein fyrir hversu mikilvægt það er að vera þátttakandi í eigin lífi og taka þátt í hvers konar hagsmunabaráttu, bæði fyrir eigin hönd og annarra. Ég er mjög áhugasöm um að leggja hagsmunabaráttu eldri borgara lið, jafnhliða daglegum verkefnum sem koma inn á borð skrifstofu- og markaðsstjóra LEB. Þau mál sem brenna mest á okkur núna og komu berlega í ljós á síðasta landsfundi sem var haldinn núna í maí, eru kjaramál þeirra verst settu og húsnæðismál. Þessum málaflokkum hefur ekki verið gert nægjanlega hátt undir höfði af ráðamönnum þjóðarinnar og þessi mál verða því í brennidepli í starfi LEB á næstu mánuðum og misserum.

Mínar helstu áherslur í starfi eru að öðlast góða þekkingu á málefnum eldri borgara til að geta sem best unnið að þeim hagsmunum sem brenna á okkur núna. Einnig hef ég það markmið að gera LEB og það góða starf sem unnið er innan þess raða, í félögum um allt land, sýnilegra t.d. með öflugu markaðsstarfi, í von um að bæta slagkraft sambandsins.
Ég hlakka mjög til þess að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem koma inn á borð skrifstofu- og markaðasstjóra LEB og að eiga samstarf og samskipti við allt það góð fólk, víðs vegar um landið, sem skipar stjórnir og nefndir á vegum félaga innan raða LEB.

Oddný Árnadóttir, skrifstofu- og markaðsstjóri LEB.

Hugarsmíðar á þriðja æviskeiðinu – Stella rokkar

Stella Kristmannsdóttir er 57 ára fyrrverandi bankamær sem missti vinnuna vegna hagræðingar eins og sagt er. Stella er gift honum Úraníusi Pálssyni, bankamanni og jafnaldra og saman búa þau í 107 í Reykjavík. Stella og Úraníus eiga einn son sem býr erlendis ásamt konu og börnum svo ekki eru þau að þvælast fyrir eða taka tíma frá áhugamáli Stellu og Úraníusar sem er að dansa og aftur dansa. Bæði telja þau sig til þriðja æviskeiðsins þó ung séu að árum þar sem þau eru komin á seinni helminginn.

Þegar Stella missti vinnuna þá varð hún döpur en hristi það af sér og fór að sækja um öll þau störf sem hún taldi sig geta unnið en allt kom fyrir ekki. Röng kennitala. Stella ákvað því að venda kvæði sínu í kross og gerast leiðsögumaður. Fann upplýsingar um skóla fyrir nám í leiðsögn í Vöruhúsi tækifæranna og áður en hún vissi var hún byrjuð í náminu og lauk því með láði. Ekki leið á löngu áður en Stella varð vinsæll leiðsögumaður meðal ferðamanna sem allir vildu Stellu fá og hafa.

Eins og áður segir finnst Stellu og Úraníusi gaman að dansa og mest finnst þeim gaman að dansa rokk og ról og gera það af slíkri gleði að eftir er tekið. Sannkölluð dansfífl. Úr varð að þau ákváðu að gera áhugamálið að atvinnu og stofna dansstúdíó með þriðja æviskeiðið í huga. Enga gömlu gömludansa hér heldur bara rokk og ról og svo kannski smávegis diskó. Töldu sig kunna fjármálin vel vegna starfa í banka og upplýsingar um stofnun fyrirtækis fundu þau í Vöruhúsi tækifæranna. Stella ákvað að hætta í leiðsögunni ef dæmið gengi upp en Úraníus vildi hafa vaðið fyrir neðan sig og halda áfram að vinna í bankanum.

Dansstúdíóið varð að veruleika. Stella og Úraníus fundu heppilegt húsnæði í Borgartúninu og ekki vafðist fyrir þeim að skíra barnið, Stjörnur tvær skildi það heita og skilji hver sem vill. Stella og Úraníus eru einu kennararnir, allavega svona til að byrja með, en nota myndbönd eins og þetta til þess að sýna að aldur skiptir ekki máli ef dansgleðin er til staðar. Dansstúdíóið varð strax vinsælt og flykktist þriðja æviskeiðið að, sumir meira að segja í hvítum búningi, algalla, eins og goðið sjálft, Elvis Presley. Mikið um hopp og hnykki en svo auðvitað rómantíska dansa inn á milli eins og vangadansinn vinsæla við síðasta lag kvöldsins. Stella og Úraníus eru alsæl og hyggja jafnvel á útrás ef allt gengur eftir.

Ítarlega umfjöllun um Stellu, líf hennar, langanir og þrár má lesa í fréttabréfi sem kom út í maí 2022, sjá https://voruhus-taekifaeranna.is/frettabref/frettabref-i-mai-2022/

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Vetrarkartöflusalat frá Íkaríu

Ljósmynd: bluezones.com

Íslenskar kartöflur eru óneitanlega fremur dapurlegar síðustu vikurnar áður en ný uppskera kemur á markað og þá er um að gera að lyfta kartöflunum á hærra plan með því að færa þær í ferskan og skemmtilegan búning.

Gríska eyjan Íkaría er eitt af „bláu svæðum“ heims. Eitt af því sem einkennir útfærslu Íkaríubúa á Miðjarðarhafsmataræði er notkun ferskra villtra kryddjurta, t.d. rósmarín, salvíu og oregano í te og matreiðslu einfaldra hráefna á borð við kartöflur, en þessar jurtir eru þvaglosandi og stuðla þannig að lækkun blóðþrýstings. Íkaríubúar fá sér líka gjarnan blund um miðjan daginn, en rannsóknir hafa sýnt að reglubundinn miðdegisblundur dregur talsvert úr dánarlíkum vegna hjartasjúkdóma.
Þetta ljúffenga salat er saðsamt sem meðlæti eða léttur hádegismatur. Salatið er einfalt og fljótlegt að gera eins og var hentugt fyrr á tímum þegar konur unnu úti á akri og höfðu ekki tíma fyrir langa og flókna matreiðslu.

Vetrarkartöflusalat fyrir fjóra til sex. Tekur um 25 mínútur

Innihaldsefni

 • 900 g kartöflur, skornar í 4-6 bita eftir stærð
 • 1 dl saxað ferskt dill
 • 1 ½ dl góð jómfrúar ólífuolía
 • 3-5 msk rauðvínsedik
 • salt og pipar
 • 5 dl klettasalat, grófsaxað
 • 5 dl spínat, grófsaxað
 • 1 gulur laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 lítill grænn salatshaus eða romainesalat, skorið niður
 • 1 radísa, skorin í þunnar sneiðar

Aðferð

 1. Flysjið kartöflurnar, skerið þær í bita og setjið í sjóðandi saltvatn og sjóðið þar til þær eru tilbúnar, hellið af þeim.
 2. Blandið dilli, ólífuolíu, ediki, salti og pipar saman í lítilli skál og pískið vel saman (ég fannn ekki ferskt dill svo ég notaði tvær kúfaðar teskeiðar af þurrkuðu dilli. Ég notaði aðeins 3 msk edik en bætti 1 msk af dijon sinnepi, smá rósmaríni, 1 tsk af laukdufti og 1 tsk af hvítlauksdufti saman við af því að mér finnst það svo gott). Setjið kartöflurnar í stóra skál, hellið sósunni yfir þær og blandið vel.
 3. Bætið spínati, lauk og grænu salati saman við rétt áður en salatið er borið fram, stráið radísusneiðum yfir.

Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir

Viðburðir U3A framundan

Starf U3A liggur niðri yfir sumarmánuðina og hefst aftur þriðjudaginn 3. september kl. 16:30 í Hæðargarði 31 þar sem kallað verður m.a. eftir tillögum félagsmanna um starfið 2024/2025.
Ritstjórn Fréttabréfsins fer einnig í sumarfrí og næsta fréttabréf kemur  út 3. september.  Sú breyting verður á að einungis skráðir félagsmenn U3A munu fá Fréttabréfið sent til sín í tölvupósti. Þeir sem vilja gerast félagar og fá aðgang að öllum viðburðum U3A  geta skráð sig á https://u3a.is/felagaskra/

Fréttabréfið verður áfram aðgengilegt öllum á vefsíðu U3A.is

Sumarkveðjur frá stjórn U3A Reykjavík

Skip to content