Fréttabréf í maí 2021
HeiM að lokum
Hönnuðir HeiM-gönguleiða HeiM verkefnisins
Frá vinstri: Einar Skúlason, Þórunn Ólafsdóttir, Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, Elsa Ísfold Arnórsdóttir, Birna Halldórsdóttir, Hörður Gíslason, Dagrún Þórðardóttir, Birgir Jónsson og Þór Jakobsson
HeiM verkefninu sem sagt hefur verið frá í fréttabréfum Vöruhúss tækifæranna er nú lokið. Síðasti viðburður þess var kynning á netinu þann 28. apríl s.l. á afurðum þess, bókinni Vegvísir um aðferðafræði og bækling um leiðir að menningararfinum í fjóum evrópskum borgum, Alicante, Reykjavík, Varsjá og Zagreb sem hannaðar voru með Wikiloc appinu í síma. Kynningin er aðgengileg á hér:
https://www.youtube.com/watch?v=R2RvXNpUhNw
Hans Kristján Guðmundsson og Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, sem hafa borið hitann og þungann af verkefninu fyrir hönd U3A Reykjavík, þakka hér með þeim sem hafa tekið þátt í verkefninu og öllum sem hafa sýnt áhuga á því. Hvetjum jafnframt alla 50+ að ganga út í vorið með símann sér við hönd og feta íslensku leiðirnar eða skrá nýjar að menningararfi sem er þeim hugleikinn.
Að hætta að vinna á eigin forsendum
Við, sem nú erum orðin 50+ og sjáum hilla undir formleg starfslok okkar, við undirbúum þau (eða ekki) við allt aðrar aðstæður og á öðrum forsendum en kynslóðirnar á undan okkur hafa að líkindum gert. Viðhorf okkar, og þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma, eru önnur og trúlega heilbrigðari.
Okkur var innprentað frá unga aldri að vinnusemi væri dyggð - því meira sem við ynnum, þeim mun dyggðugri yrðum við. Það mætti því mögulega draga þá ályktun að vinnan sé ekki einungis áhrifamesti þátturinn í daglegu lífi okkar heldur mótar okkur líka sem manneskjur.
Á stundum höfum við státað okkar af því að vinnusemi sé íslensku þjóðinn sérstaklega í blóð borin og að þess vegna séu Íslendingar svona sérlega duglegir. Og þessu til staðfestingar eru vísbendingar um að Íslendingar séu lengur á vinnumarkaði og hefji töku lífeyris seinna en nágrannaþjóðir okkar.
Það segir sig því sjálft að það að hætta að vinna er mikil áskorun. Hvað verður nú um alla áunnu dyggðina okkar? Og mun tíminn sem við verjum ekki í að vinna gera okkur að síðri einstaklingum?
Margir kvíða mjög fyrir því að láta af störfum og leita allra leiða til að fresta því eins lengi unnt er eða þangað til að manni er ýtt út fyrir þröskuldinn með nýtt gullúr um úlnliðinn fyrir vel unnin störf.
Í Morgunblaðinu 28. apríl s.l. birtist hressilegt viðtal við Theodór Magnússon, kerfisfræðing og ráðgjafa, með meiru. Hans nálgun er að mæta starfslokum sínum á bjartsýnan og jákvæðan hátt. „Ég ákvað að hætta á eigin forsendum frekar en láta henda mér út, en 6. maí verð ég sjötugur og ætla að njóta lífsins hér eftir sem hingað til,“ segir hann.
Theodór segir mikilvægt að búa sig undir það að verða gamall og er ekki alls kostar ánægður með almennt viðhorf samfélagsins til eldri borgara, og minnir á að það að verða eldri borgari sé ekki það sama og að stimpla sig út úr samfélaginu. Til að halda sér virkum tekur hann þátt í Janusar- verkefninu um heilsueflingu til að viðhalda vöðvamassa, spilar brids og leikur golf og líkir þessu við uppbyggingu starfsævinnar.
Við óskum Theodóri til hamingju með tímamótin og hvetjum hann og aðra til að njóta þriðja æviskeiðsins í botn!
Frábærir túlkendur menningararfsins Á leið um Laugarnes og Kirkjusand
Við vorum þrjú, Elsa Ísfold Arnórsdóttir, Hörður Gíslason og Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, sem ákváðum að skoða sögu- og menningararf í Laugarnesi og á Kirkjusandi við túlkun okkar á menningararfinum. Það sem heillaði okkur við þetta svæði er sú langa og fjölbreytta saga sem byggðin í Laugarnesi á og iðnaðurinn sem var áður á Kirkjusandi þó sú saga sé styttri. Ekki kom að sök að eitt okkar, Hörður, gjörþekkir svæðið og hefur tekið að sér að fræða hópa um hvað þar er að finna. Leiðin er auðfarin fyrir flesta.
Við hófum gönguna á gatnamótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar þar sem áður var sá fúli lækur, Fúlilækur og gengum síðan eftir Sundlaugarvegi og Laugarnesvegi að sjálfu Laugarnesinu þar sem við komum fyrst að tóftum Laugarnesbæjarins. Fyrsti Laugarnesbærinn var byggður þegar á landnámsöld og er sagt að Laugarnesjörðin hafi byggst út úr jörð landnámsbæjarins Vík við Aðalstræti. Sá er síðast byggði bæ á þessum stað var Sigurður Ólafsson, söngvari og hestamaður og faðir lista- og söngkonunnar Þuríðar Sigurðardóttir. Við þrjú vorum sammála um að bæjarstæði Laugarnesbæjar hefði verið vel valið, fjallasýnin þar fögur, stutt í fengsæl fiskimið í Kollafirði og hægt að stunda útróður úr Norðurvör. Nálægt bænum var kirkjugarður þar sem Hallgerður langbrók, kona Gunnars á Hlíðarenda, er sögð grafin. Fleiri tóftir eru í Laugarnesinu eins og Holdsveikraspítalinn sem danskir Oddfellowar reistu á sínum tíma og gerðu strangar kröfur um fagmennsku í rekstri. Skammt frá spítalanum var Laugarnesstofa reist en hún var aðsetur þáverandi biskups yfir Íslandi, Steingríms Jónssonar. Stofan þótti illa byggð enda sagt að danskir handverksmenn sem hana reistu hefði verið ríflega skammtað ölið meðan á vinnu þeirra stóð. Í seinni heimsstyrjöldinni stóð í kampur enskra hermanna, Laugarneskampur, en eftir stríð var hann notaður fyrir íbúðir sem þá voru af skornum skammti í Reykjavík. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar stendur nú þar sem kampurinn stóð áður.
Á Kirkjusandi voru reist hús fyrir fiskvinnslu og eitt hús fyrir kjötvinnslu. Það síðastnefnda er nú notað fyrir sviðslistadeild, myndlistadeild og kennsludeild Listaháskóla Íslands. Hús fyrir fiskvinnslu voru reist af félaginu Júpiter og Mars, síðar var Ísfélag Vestmannaeyja með fiskvinnslu þar og að lokum tók Samband íslenskra samvinnufélaga að breyta þeim í skrifstofuhúsnæði fyrir höfuðstöðvar Sambandsins sem ekki varð af. Eitt húsanna varð þó síðar að höfuðstöðvum Íslandsbanka sem nú hafa verið fluttar og bíður húsið örlaga sinna. Í fjörunni fyrir framan húsin var stórt stakkstæði til þess að þurrka saltfisk á sem var síðan fluttur til útlanda, m.a. til Spánar þar sem hann varð undirstaðan í þekktum fiskrétti. Íbúðarhús eru nú risin þar sem áður var lóð Strætó á horni Sæbrautar og Kringlumýrarbraut.
Á göngu okkar voru sagðar margar skemmtilegar sögur og minntist t.d. Elsa þess að þegar Hraðfrystihúsið á Kirkjusandi var að gera nýja vörulínu, hraðfrystar fiskblokkir, sneiddar og með raspi, þá voru ungu stúlkurnar, sem þar unnu, fengnar til að koma í ljósum sumarkjólum í vinnslusalinn til þess að sýna erlendum kaupendum hve hreinleg vinnan væri.
Hún Halla okkar
Hugarsmíðin hún Halla okkar er 50 ára, fædd á Dalvík en býr á Akureyri þar sem hún vinnur í bókhaldi hjá Húsasmiðjunni í hálfu starfi. Halla er Vinstri-græn, hún vill að náttúran og umhverfið njóti vafans og styður ávallt þeirra málstað - vill búa börnum sínum öruggan heim.
Eftir grunnskólanám á Dalvík vann Halla í frystihúsinu þar í bæ. Hún kynntist manninum sínum honum Árelíusi á þeim árum og flutti með honum til Reykjavíkur þegar hann fór í guðfræðina í Háskólanum. Á þessum tíma vann Halla fyrir þeim auk þess sem hún sótti bókhaldsnám í kvöldskóla. Eftir að börnin þrjú voru fædd fékk Árelíus brauðið í Akureyrarkirkju og fluttu þau þá aftur norður. Halla unir hag sínum vel á Akureyri, fjármálin ganga vel og stefna þau á að eiga húsið sitt skuldlaust fyrir 65 ára aldur. Svo er Halla virk félagslega, er í Kvenfélagi Akureyrarkirkju, Lions-hreyfingunni og styður Krabbameinsfélag Akureyrar en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir 10 árum síðan og er í dag laus við meinið. Höllu er umhugað um heilsu annarra og hefur gefið ríkulega af sér tilbaka fyrir þá hjálp sem hún fékk. Hún stundar göngutúra með vinkonunum og finnst mest gaman að ferðast um landið sitt.
Það sem fær Höllu til að vera hluti af Vöruhúsi tækifæranna eru fyrst og fremst efni sem tengist lífsfyllingu ásamt færni. Hún trúir á mátt hugans, lærdóm og umhverfisverndar-sjónarmið. Styður flest það sem stuðlar að því að afhenda veröldina græna, væna og heilbrigða til komandi kynslóða. Svo finnst Höllu áhugavert að sjá hvernig hægt er að verða að gagni með þátttöku í sjálfboðaliðsstarfi.
Við leitum því að tækifærum fyrir Höllu í rekkunum Lífsfylling og Færni. Í rekkanum Lífsfylling, https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/lifsfylling/ getur Halla fundið margt sem við kemur félagsskap, heilbrigðum lífsháttum, samfélagsvirkni, samskiptum og viðburðum en þetta eru einmitt nöfnin á hillum rekkans. Með orðinu lífsfylling er hér fyrst og fremst gert ráð fyrir að hún felist í samneyti við aðra, hvort sem það eru einstaklingar eða með virkri þátttöku í samfélaginu, sem gefi tækifæri til aukins þroska, lífsgleði og reynslu. Tækifærin sem þarna eru miða einnig að því að einstaklingurinn taki ábyrgð á andlegri og líkamlegri heilsu sinni.
Í rekkanum Færni, https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/faerni/ eru þrjár hillur, Einstaklingsfærni, Nám og fræðsla og Sköpun. Á fyrstu hillunni, Einstaklingsfærni má t.d. finna tækifæri til þess að bæta sig í tjáskiptum, þjálfa sig í ensku, læra að syngja, markaðs-setja sjálfan sig, finna markþjálfa, búa til vefsíðu og gera SwÓt greiningu og stunda ýmiss konar nám. Á hillu númer tvö, Nám og fræðsla, eru t.d. upplýsingar um nám við háskólana, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst, Land-búnaðarháskólann og Háskólann á Akureyri og ýmsa símenntun. Á hillunni Sköpun má t.d. finna tilvísanir á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/island-is-listaskolar/ bæði einkarekna eða opinbera listaskóla.
Til þess að sjá hvernig hægt er að verða að gagni með sjálfboðaliðsstarfi, sem Höllu finnst áhugavert, er henni bent á á hilluna Sjálfboðastarf í rekkanum Nýr starfsferill https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/nyr-starfsferill/sjalfbodastarf/ Á hillunni er að finna upplýsingar um hvernig er hægt að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Krabbameinsfélaginu og hjá AFS sem eru alþjóðleg sjálfstæð félagasamtök, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og bjóða upp á þvermenningarleg námstækifæri þar sem hægt er að öðlast þá þekkingu, færni og skilning sem þarf til að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. Þetta kemur heim og saman við vilja Höllu um að búa börnum sínum öruggan heim.
Foreldrar Höllu búa enn á Dalvík og yngri systir hennar, eina systkinið sem hún á, býr í Reykjavík. Halla er mikil fjölskyldumanneskja, finnst gaman og að fá börnin sín þrjú og barnabörnin tvö í heimsókn og er alltaf boðin og búin að hjálpa sínu fólki.
Fullorðinsfræðslan og lýðræðið LEIKN – samtök aðila í fullorðinsfærslu
Fyrr á árinu birti Fréttablaðið áhugaverða grein eftir Helga Þ. Svavarsson, formann Leiknar, sem eru samtök aðila í fullorðinsfræðslu. Þar bendir hann á mikilvægan ávinning af fullorðisinsfræðslu sem vill kannski gleymast. Helgi bendir á að samkvæmt nýlegum úttektum á lýðræði víða undir högg að sækja og svo virðist sem COVID-19 faraldurinn hafi ýtt undir þessa þróun eða í um 70 prósent ríkja heims. Einungis 8 prósent búa í svokölluðum «fullkomnum» lýðræðisríkjum samkvæmt skilgreiningu Economist tímaritsins sem fylgst hefur með þróuninni í áratugi.
Í grein Helga segir ennfremur að á undanförnum árum höfum við orðið vitni að því hvernig ólýðræðislegir valdahafar í grannríkjum okkar hafa dregið úr aðgengi almennings að menntun, haldið frá þeim upplýsingum sem eru forsendur gagnrýninnar skoðunarnmyndunar og haldið þess í stað fram röngum staðhæfingum og lygum.
Helgi minnir á að sögulega hefur menntun skipað mjög stóran sess í lýðræðismótun samfélagsing og eflingu borgaravitundar, enda hafi mörg samtök um fullorðinsfræðslu sprottið upp úr jarðvegi baráttuhreyfinga fyrir ýmis konar mannréttindum. Að mati Helga hefur fullorðinsfræðslan á Íslandi tök á að verða mjög öflugur vettvangur fyrir ræktun gagnrýninnar hugsunar, borgaravitundar og eflingu lýðræðis hér á landi. Net símenntunarmiðstöðva og fullorðinsfræðslustofnana um allt land vinni mjög mikilvægt samfélagslegt starf og hvetur hann fólk til að nýta sér það nám sem og nám sem boðið er upp á á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Einnig séu í boði alls konar námskeið hjá símenntunardeildum háskólanna og einkarekinna fræðsluaðila um allt land.
Að lokum beinir Helgi orðum sínum til stjórnvalda fyrir hönd Leiknar og segir: «Ísland hefur átt því láni að fagna að hér á landi er öflugt fullorðinsfræðslukerfi sem að mörgu leyti hefur verið vannýtt til verka. Við sem þjóð verðum að minna okkur á það hversu dýrmætt og brothætt lýðræðið er. Að mörgu leyti má segja að uppspretta lýðræðisins liggi í fullorðinsfræðslu þess tíma og því má draga þá ályktun að viðhald lýðræðisins liggi í fullorðinsfræðslu þessa tíma.»
Grein Helga má lesa í heild sinni í Fréttablaðinu
https://www.frettabladid.is/skodun/fullordinsfraedsla-sem-ahrifaafl-i-islensku-samfelagi/
og á vefsíðu Leikn
http://leikn.is/wp-content/uploads/2020/06/Manifesto-Islenska.vef_.pdf
Viðburðir í maí hjá U3A Reykjavík
Á þriðjudögum í maí verða fjölbreyttir fyrirlestrar sendir út í streymi á vegum U3A Reykjavík. Við væntum þess að geta fljótlega boðið áheyrendum einnig að mæta aftur í Hæðargarð til að hlýða á fyrirlestrana og verður það auglýst sérstaklega.
Nú liður að lokum vetrardagskrár hjá U3A Reykjavík enda vorið komið. Við höldum áfram að streyma fræðslufyrirlestrum þriðjudaga í maí kl. 16:30 eða fram að hvítasunnu en þá verður hlé á fyrirlestrahaldi þar til í haust.
Þriðjudaginn 4. maí kynnir Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kaupmannahöfn með augum Íslendings. Borgþór bjó í 11 ár í Kaupmannahöfn, fyrst um þriggja ára skeið fyrir 40 árum og síðan í átta ár frá 2010. Miklar breytingar hafa orðið á dönsku samfélagi á þessum tíma, og Kaupmannahöfn er gjörbreytt. Borgþór ætlar að spjalla vítt og breytt um Kaupmannahöfn og danskt samfélag á tímum örra breytinga.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður kemur til okkar 11. maí og kynnir skáldsögu sína Eldarnir- ástin og aðrar hamfarir sem hlaut óvænta athygli þegar jarðhræringar og eldsumbrot hófust nýverið á Reykjanesskaga. Bókin kom út örfáum mánuðum áður og lýsir að nokkru leyti svipaðri atburðarás. Hún les úr bókinni og fjallar um tilurð hennar og glímuna við jarðvísindin og skáldskapinn.
Síðasta fyrirlesturinn 18. maí flytur Ingibergur Þorkelsson eigandi og skólastjóri Dáleiðsluskóla Íslands. Hann nefnir erindið Innbyggður læknir og segir: Ímyndaðu þér að þú hafir innbyggðan lækni sem fæddist með þér. Lækni, sem getur læknað bæði líkamleg og andleg mein á einfaldan og fljótlegan hátt. Sem betur fer er þetta ekki ímyndun heldur staðreynd!
Ítarlegri kynning á fyrirlestrum og fyrirlesurum er á www.u3a.is undir viðburðir.
Eftir hvítasunnu hvílum við fræðslufyrirlestrana fram á haust en erum samt ekki alveg hætt þar sem við áætlum að efna til ferða og heimsókna á laugardögum í júní og áætlum líka að endurvekja kaffihittingana. Nánar um þetta síðar.
Kveðja frá stjórn U3A Reykjavík