Fréttabréf í mars 2023

skal-i-mars-1200x630

Skál í mars!
Hvernig rauðvín gæti hjálpað til við að halda hjartanu þínu heilbrigðu!

Nú erum við komin tvo mánuði inn í árið 2023 og þá er gott að skoða hvað áramótaheitunum líður hjá þeim okkar sem settum þau. Áramótaheitin snúa gjarnan að heilsu okkar, betra matarræði og meiri hreyfingu. Á meðal áheita sem rutt hafa sér til rúms hin síðari ár er „þurr janúar“  og í framhaldinu „edrúar“ sem stendur fyrir edrú í febrúar.

Við vitum að áfengi er ekki gott fyrir okkur, en ef þú neytir þess á annað borð og vilt ekki henda því gjörsamlega út úr lífi þínu, eins höfundur þessarar greinar vill alls ekki, þá má íhuga að velja sér lítið rauðvínsglas í stað bjórs eða gin og tónik.

Rauðvín er sérstakt að því leitinu að það er ríkt af efnasamböndum sem kallast pólýfenól en það er andoxunarefni sem getur hjálpað til við að fóðra æðar hjartans. Ákveðið pólyfenól sem  kallast resveratrol, er eitt af þeim efnum í rauðvíni sem vakið hafa  athygli vísindamanna þar sem það hjálpar til við að koma í veg fyrir skaða á æðum, minnka „slæma“ kólesterólið og hefur verndandi áhrif gegn blóðtöppum. Þá hefur og verið sýnt fram á að venjulegt glas af rauðvíni getur lækkað kólesterólmagn í blóðinu.

Árið 2015 gerðu vísindamenn í Ísrael tilraun á 224 sykursýkisjúklingum. Sjúklingunum var skipt af handahófi í  tvo hópa. Annar hópurinn drakk meðalstórt rauðvínsglas í tvö ár með kvöldmat, en hinn hópurinn drakk annað hvort hvítvínsglas eða glas af sódavatni með kvöldmáltíðinni.

Rauðvínsdrykkjuhópurinn sýndi verulegar framfarir í lækkun kólesterólstigs umfram hinn hópinn en það sem vakti meiri furðu var að fram komu aukin gæði svefns. Þá hafði rauðvínsdrykkja góð áhrif á blóðsykur hjá sumum. Rannsókn frá Spáni sýnir að rauðvínsdrykkja getur bætt viðbrögð líkamans við insúlíni, sem leiðir til þess að hann nær að hreinsa sykur úr blóðinu hraðar en ella.

En það skiptir ekki einungis máli hvað þú drekkur heldur hvenær þú drekkur það. Að drekka rauðvín með máltíð er miklu betra fyrir þig en að fá sér það eitt og sér. Samkvæmt nýlegri langtímarannsókn, þar sem vísindamenn fylgdust með 312.000 manns í að meðaltali ellefu ár, var að glas með mat leiddi af sér 14% minni hættu á að fá sykursýki af tegund 2. Það var þó aðeins verndandi ef það var drukkið með máltíð (og í hófi).

Til að létta enn frekar á samviskubiti okkar sem finnst gott að fá okkur glas af rauðvíni má benda á niðurstöður rannsókna Dr Tim Spector prófessors í faraldsfræði við King's College í London. Samkvæmt gögnum sem safnað var frá næstum 5.000 manns kom í ljós að þeir sem drukku rauðvín höfðu heilbrigðari og fjölbreyttari örverur í þörmunum en þeir sem ekki drukku – þökk sé gæðum rauðvínsþrúgunnar!

Fjölbreytni örvera þýðir að þú hefur mismunandi tegundir baktería tiltækar í þörmunum þínum sem hjálpa við efnaskiptin, ónæmiskerfinu, og þar með hjálpa meltingunni segir Tim Spector. Hann ítrekar þó eftirfarandi: „Við erum ekki að segja að áfengið sjálft sé gott fyrir þig,“ og bendir á að rannsóknin sýni jafnframt að þegar þú nálgast þrjú glös af rauðu á dag að meðaltali missir þú ávinninginn.

Greinarhöfundur telur því að eftir „þurran janúar“ og „edrú febrúar“ sé óhætt með hækkandi sól í mars að lyfta svo sem einu rauðvínsglasi yfir kvöldverðinum í þágu heilsunnar.
Skál!

Besta æviskeiðið – en hvernig?

Æviskeiðinu er gjarnan skipt í þrennt þ.e. fyrsta æviskeiðið er bernsku – og unglingsárin, annað æviskeiðið er vinnu-og framkvæmdaskeiðið og loks tekur við þriðja æviskeiðið þegar að eftirlaunaaldri er náð. Vinnu-og framkvæmdaskeiðið (frá 15 til 64 ára) mótast af mikilli virkni í starfi og framkvæmdum, byggja upp heimili, fjölskyldu og greiða niður lán sem fylgja almennt fólki á þessu æviskeiði. Á þriðja æviskeiðinu nýtur fólk aukins frelsis og sífellt fleiri njóta góðrar heilsu og geta framkvæmt nýja og spennandi hluti sem áður voru ekki á dagskrá. Bætt lífskjör og uppbygging lífeyrissjóðakerfisins á undanförnum áratugum hefur aukið velferð þeirra sem nú fara á eftirlaun en síðast en ekki síst líka afkomendanna. Á þriðja æviskeiðinu er tími til að njóta og uppskera og nýta alla möguleika og tækifæri sem gefast til að ná markmiðum eftir áhugasviði og getu hvers og eins. Fjárhagur ræður þó oft einnig miklu um það hvernig hægt er að fjölga góðu æviárunum á þriðja aldursskeiði.

Í nýlegu viðtali við Tryggva Pálsson kom þörf ábending og hvatning til þeirra sem eru á þriðja æviskeiðinu að nota sjálft fjármuni sína sem það kann að hafa aflað um ævina frekar en að skilja þá eftir sem arf til barnanna. Börnin munu einnig njóta þeirrar uppbyggingar á sviði velferðar sem byggð hefur verið upp með sama hætti og þeir sem nú eru að fara á eftirlaun og þurfa ekki aðstoð í formi arfs. Samkvæmt meðaltalinu munu börn þeirra sem nú eru að hefja sitt þriðja æviskeið almennt verða ágætlega sett fjárhagslega þegar þau sjálf fara á eftirlaun. Þriðja æviskeiðið getur því fyrir marga verið besta æviskeiðið og ein leiðin er eins og Tryggvi Pálsson bendir á að nota fremur arf barnanna til að grípa þau tækifæri sem gefast og njóta lífsins til fullnustu og láta draumana rætast.
Viðtalið má lesa í heild hér https://www.visir.is/g/20222337603d

Þau kveiktu eldinn. Þau eiga að njóta hans.

Viðar Eggertsson varaþingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands

„Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“, segir í ljóði Davíðs Stefánssonar. Það má með sanni segja um elsta hluta íslensku þjóðarinnar. Eftirlaunafólkið sem er rúmlega 50 þúsund.

Þetta er fólkið sem fæddist í og uppúr kreppunni, þraukaði af umróti seinni heimstyrjaldarinnar og byggði upp þjóðfélagið frá örbirgð til allsnægta. Fólkið sem umbreytti þjóðfélaginu frá því að vera fátæk þjóð á hjara veraldar í að vera ein af ríkustu þjóðum heims.

Þetta er fólkið sem fær á sig óæskilega og niðrandi stimpla eins og „fráflæðisvandi“. Vandi, sem er í rauninni ekkert annað en kerfisvandi sem núverandi stjórnvöld bera fulla ábyrgð á. Allt önnur kynslóð.

Þetta er fólkið sem talað er um af óvirðingu sem þurfalinga og bagga á þjóðfélaginu, þetta er þó fólkið sem borgar hæstu skattprósentuna af litlum launum sínum til þjóðfélagsins, í formi allskyns skerðinga og jaðarskatta.

Þetta er fólkið sem greiðir marga tugi milljarða til nærsamfélags síns í formi útsvars, sem er svo mikilvægt framlag að sum sveitarfélög væru ekki á vetur setjandi án þessa fólks, enda er þetta mun hærri upphæð en þetta sama fólk kostar þessi sömu samfélög. Þau eru enn miklu meira en sjálfbær, þetta fólk.

Þetta er fólkið sem er úthrópað sem ógn við þjóðfélagið af því að þeim fer fjölgandi, en þó er íslenska þjóðin sú yngsta í Evrópu og verður svo á næstu árum.

Þetta er fólkið sem fer síðast allra í Evrópu, ásamt norskum eldri borgurum, á eftirlaun. Aðeins í þessum tveim löndum er eftirlaunaaldur almennt 67 ár, sá hæsti í Evrópu.

Þetta er fólkið sem byggði upp velferðarþjóðfélagið, en á nú undir högg að sækja í velferðarþjóðfélaginu.

Þetta fólk er ekki baggi á íslensku þjóðfélagi. Þetta fólk hefur unnið langan vinnudag, á langri starfsævi og er enn að skila sínu til samfélagsins, og það af naumum tekjum sínum.

Þetta er fólkið sem reisti Ísland úr örbirgð til allsnægta, en þúsundir þeirra þurfa að hverfa aftur til þeirra kjara sem þau bjuggu við í upphafi. Þau eru aftur sett á byrjunarreitinn frá því fyrir miðbik síðustu aldar, þegar þjóðin öll var fátæk.

Hættum að tala niður til þessa fólks. Tölum við það og um það, af virðingu og ábyrgð. Við höfum ekki efni á að fara illa með þetta fólk. Við höfum ekki efni á öðru en að gera þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Þau geta ekki beðið. Hefjumst handa strax. Þau eiga það inni.

Þau kveiktu eldinn. Þau eiga að njóta hans.

Grein þessi birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. febrúar 2023 og er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Íhlaupavinna á eftirlaunaaldri

Í Svíþjóð eru til starfatorg sem eru vinnumiðlanir fyrir fólk á eftirlaunaaldri og bjóða þessum aldurshóp upp á íhlaupavinnu. Vinnan getur verið margskonar, hún getur verið í dagsstund, einu sinni í viku eða sjaldnar eða oftar allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Einstaklingar sem vilja vinna íhlaupavinnu skrá sig á starfatorgið og um leið þekkingu sína og kunnáttu, hvað þeir vilja helst vinna við, hversu mikilli vinnu þeir vilja sinna og hvenær. Upplýsingunum er síðan komið til þeirra fyrirtækja og eða einstaklinga, sem óska eftir eldra fólki í íhlaupavinnu í ákveðin verkefni. Starfatorgið sér um að rukka um greiðslu fyrir vinnu þeirra sem inna hana af hendi. Eitt slíkt starfatorg í Svíþjóð er Veterankraft, https://veterankraft.se, sem var stofnað árið 2009 í þeim tilgangi að gefa eldra fólki tækifæri á að vinna. Fyrirtækið er staðsett á um 40 stöðum í Svíþjóð og hefur hlotið viðurkenningar þar á meðal fimm ár í röð frá Dagens Industri. Til eru fleiri starfatorg í Svíþjóð og má þar nefna Veteranpoolen, https://veteranpoolen.se/ og Senior bemanning, https://www.seniorbemanning.net/, sem byggja á sömu hugmynd um vinnumiðlun eldra fólks.

Brynja Sassoon kynnti hugmyndina um starfatorg á Íslandi, en Brynja bjó um árabil í Sviþjóð og kynnist þar þjónustu Veterankraft. Hugmyndin var til umræðu og skoðunar hjá Félagi eldri borgara á Húsavík, stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík, Félagsþjónustu Norðurþings og Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra árið 2020 og var vel tekið í hugmyndina, hún sögð frábær og talin bæta lífsgæði þeirra sem eru á eftirlaunaaldri. Bið hefur orðið á að hrinda hugmyndinni í framkvæmd en Brynja vinnur nú að stofnun starfatorgs fyrir eldra fólk á Íslandi. Hafa má samband við Brynju á netfangið b.sassoon@outlook.com ef óskað er eftir frekari upplýsingum.

Lesa má ítarlegri umfjöllun um starfatorg, vinnumiðlun fólks á eftirlaunaaldri á vef stéttarfélagsins Framsýn, https://framsyn.is/2020/10/23/ahugavert-verkefni-i-skodun-starfatorg-fyrir-eldri-borgara/, á vef Vikublaðsins, https://www.vikubladid.is/is/frettir/starfatorg-bylting-fyrir-eldri-borgara á fréttatíminn.is, https://frettatiminn.is/21/06/2021/vinnumidlun-eftirlaunafolks/
og 2021 á vef Landssambands eldri borgara, https://www.leb.is/vinnumidlun-eftirlaunafolks/. Í greininni á vef Landssambandsins segir m.a. að formaður Framsýnar telji að starfatorgið þurfi að vera á nokkuð stóru svæði til þess að það gangi upp og segir „Fyrst þetta gengur vel í Svíþjóð ætti það að geta gengið hér líka.“

Leikfimi og Zumba – ný námskeið að hefjast

Nú er vorið er á næsta leiti, dagarnir lengjast og hlýir vorvindar eru farnir að blása nýju lífi í okkur öll eftir kaldan og umhleypingasaman vetur þar sem hver lægðin úr vesturheimi hefur rekið aðra með ósköpum og og marglitum viðvörunum um ófærð og veðurofsa. Á ýmsum vettvangi er okkur boðið upp á uppörvandi námskeið til þess að hrekja burt drunga vetrarins. Í janúarfréttabréfi Vöruhúss tækifæranna og U3A Reykjavík minntum við á fjölmarga möguleika sem í boði eru hjá íþróttafélögunum og öðrum samtökum. Við vonum að sem flest ykkar sem lesið þetta hafið geta notið einhverra þessara tækifæra.

Við viljum í kjölfarið fylgja þessu eftir og vekja athygli á hreyfi- og styrktarnámskeiðum Félags eldri borgara (FEB) í Reykjavík sem nú eru að hefjast. Við gefum FEB orðið:

„Áttu erfitt með að hreyfa þig eða koma þér í gang eftir harða vetrarmánuði og/eða langar þig að taka þátt í góðum hreyfitímum?“

Þá gæti leikfimin „Sterk og liðug“ verið svarið fyrir þig eða dans og leikfimitímarnir "Zumba Gold"!

Ný námskeið hefjast þriðjudaginn 7. mars

Mikil ánægja hefur verið með þessi námskeið og hafa þátttakendur verið ósparir við að hæla Tönyu fyrir skemmtilega tíma.
Okkur langar mikið að sjá nýja þátttakendur í bland við þá eldri - ekki hugsa þig um tvisvar - þú ert velkomin!

Sterk og liðug er leikfimi sem Tanya hefur þróað frá grunni og er ætlað dömum og herrum eldri en 60 ára, sem geta ekki lengur stundað hefðbundna líkamsrækt. Allir tímarnir eru sérsniðnir að þörfum þátttakenda. Þeir byrja á léttri upphitun og við tekur einföld leikfimi til að örva blóðrásina. Eftir það eru gerðar léttar rólegar styrkjandi æfingar í því markmiði að rétta úr bakinu, bæta líkamsstöðu og minnka verki í baki, hnjám og mjöðmum. Í tímunum eru notaðir lítlir Pilates boltar, teygjur með handföngum og létt handlóð

Leiðbeinandi: Tanya Svavarsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Tvisvar sinnum í viku á þriðju- og fimmtudögum kl. 10:30-11:15 í 8 vikur
Verð: 18.900 kr.

Fyrir þá sem treysta sér í aðeins meiri hreyfingu er upplagt að skella sér í Zumba Gold. Um er að ræða dans og leikfimi sem notar svipaða uppbyggingu og Zumba Fitness, en með aðeins breyttum danssporum og lækkuðum hraða, sem hentar betur dönsurum sem eru 60 ára og eldri. Fólk getur tekið því rólega með Zumba Gold og skemmt sér konunglega í leiðinni. Fólk öðlast betri líkamsstöðu og meiri úthald. Tónlistin er jafn skemmtileg og í Zumba Fitness. Í Zumba Gold hjá Tönyu lærir fólk öll grunnsporin og samhæfingu í dansinum. Fólk lærir Salsa, Merengue, Reggaeton, Cumbia, Disco, magadans, Bollywood, Reggae, Cha-cha-cha og fl. Kerfin henta jafnt konum sem körlum

Leiðbeinandi: Tanya Svavarsdóttir
Uppbygging námskeiðs: Tvisvar sinnum í viku á þriðju- og fimmtudögum kl. 9:30-10:30 í 8 vikur
Verð: 19.900 kr.

Skráning fer fram á skrifstofu FEB, í gegnum síma 588 2111 eða með því að senda póst á netfangið feb@feb.is.

Hægt er að skrá sig á heilt eða hálft námskeið.“

Við vekjum svo athygli á að í vefsetri Vöruhúss tækifæranna má finna upplýsingar um FEB og fjölmörg önnur tækifæri í rekkanum Lífsfylling og í rekkanum Fjárhagur.

Kærar þakkir til ykkar

Kærar þakkir til ykkar sem brugðust við skoðanakönnun Fréttabréfsins í desember.

Í Fréttabréfi desembermánaðar 2022 gáfum við áskrifendum bréfsins kost á að taka þátt í skoðanakönnun um Vöruhús tækifæranna og fréttabréfið. Þátttaka var því miður ekki eins og vonast hafði verið eftir og niðurstöður því ekki marktækar, enda hafa annir aðventunnar væntanlega haft eitthvað að segja um það. Kærar þakkir til ykkar sem gáfuð ykkur tíma frá jólaundirbúningnum og senduð okkur svör sem við metum mikils.

Ákveðið hefur verið að stefna að annarri skoðunarkönnun í haust  á minni annatíma og við vonumst til að fleiri sjái sér fært að svara, svo hægt verði að taka mið af niðurstöðum við stefnumótun í starfi Vöruhúss tækifæranna og val á efni í hið mánaðarlega Fréttabréf.

Viðburðir U3A Reykjavík í mars 2023

F.v.: Stefán Halldórsson, Ég lifi enn, Sigríður Hagalín Björnsdóttir., Aðalfundur U3A Reykjavík, Brynja Helgu Baldursdóttir

Að venju verða fjölbreyttir fyrirlestrar hjá U3A Reykjavík á þriðjudögum í mars. Hæst ber þó aðalfundinn 21. mars sem haldinn verður í Hæðargarði á venjulegum fundartíma. Dagskrá fundarins er hefðbundin aðalfundardagskrá og verður hún send félagsmönnum eigi síðar en 7. mars, m.a. eru á dagskrá breytingar á samþykktum félagsins.

7. mars kl. 16:30 kemur Stefán Halldórsson til okkar í Hæðargarð með erindi sem hann nefnir: Ættfræðin þín á netinu. Hann fjallar um ýmis gagnasöfn á netinu og leitaraðferðir sem geta dregið fram margs konar upplýsingar og heimildir um forfeður, formæður og aðra ættingja.
8. mars kl. 20:30 stendur menningarhópur fyrir heimsókn í leikhús á sýninguna: Ég lifi enn – sönn saga. Þetta er ný dagsetning en sýningin sem við áttum miða á í febrúar var felld niður. Fyrir sýninguna ætlar hópurinn að hittast á veitingastaðnum Jómfrúnni kl. 18:30.
14. mars kl. 16:30 fáum við Sigríði Hagalín Björnsdóttur til okkar og ætlar hún að lesa upp úr nýjustu bók sinni: Hamingja þessa heims og segja okkur frá tilurð hennar.
21. mars kl. 16:30 er aðalfundur U3A Reykjavík eins og áður er komið fram. Dagskráin er hefðbundin aðalfundardagskrá. Fundarstjóri verður Birna Bjarnadóttir.
28. mars kl. 16:30 ætlar Brynja Helgu Baldursdóttir að tala um höfundinn Enid Blyton sem var afkastamikill höfundur barnabóka sem margir þekkja.

Allir viðburðir verða auglýstir með góðum fyrirvara á heimasíðunni og í tölvupósti til félagsmanna. Fylgist með og takið þátt er hvatningin til allra félagsmanna.

Skip to content