Fréttabréf í september 2021

Lyng-1200x630

Velkomin til baka

Sumarið, sem var afar misgott við okkur veðurlega séð, er nú greinilega lokið alls staðar á landinu. Nú siglum við inn í haustið, förum í berjamó, kveikjum á kertum og setjumst niður við að skipuleggja komandi mánuði sem við ætlum að gera bæði skemmtilega og fræðandi.

Einsog fram kemur í þessu fréttabréfi mun U3A Reykjavík standa fyrir vikulegum áhugaverðum viðburðum auk námskeiða, heimsóknum og hópastarfi.  Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur haustdagskrá U3A Reykjavík á www.u3a.is

Sem fyrr mun Vöruhús tækifæranna halda áfram að safna saman og koma á framfæri tækifærum sem geta nýst við að hanna sitt æviskeið á eigin forsendum. Þessum tækifærum komum við á framfæri á vefgáttinni www.voruhus-taekifaeranna.is , á facebook  https://www.facebook.com/voruhustaekifaeranna og með mánaðarlega rafræna fréttabréfinu okkar sem hægt er að gerast áskrifandi að, ókeypis, með því að skrá sig á https://voruhus-taekifaeranna.is/frettabref-mailchimp-skraning/

Allar tillögur og ábendingar eru vel þegnar og þeim má koma á framfæri á vt@voruhus-taekifaeranna.is

Kynning á starfi U3A Reykjavík á YouTube

U3A Reykjavík hefur sett saman stutt myndskeið til kynningar á fjölbreyttu starfi samtakanna sem beinist sérstaklega að fólki á þriðja æviskeiðinu, yfir fimmtugu, til fræðandi samveru. Myndskeiðið með stuttum svipmyndum af viðburðum fylgir hér: https://youtu.be/9kElidaBBGg

Njótið og deilið gjarnan. Nýir félagar velkomnir.
Sjá nánar á www.u3a.is

Sinn er siður í landi hverju ...

Hugleiðingar Helga Péturssonar formanns LEB

Oft undrast maður hversu mjög aðstæður og viðhorf geta verið gjörólík á milli þjóða, sem maður hefði að óbreyttu ekki talið að væru svo ólíkar hvor annarri.

Ég átti fund í morgunn með litlum hópi fólks frá Póllandi.  Fyrir hópnum fór ung pólsk kona, sem hefur búið hér í átta ár. Hópurinn vildi fræðast um aðstæður eldra fólks á Íslandi, lífeyrismál, húsnæðismál og þvíumlíku. Þau voru þó öll úr framhalds- og endurmenntunargeiranum í Póllandi, sem ég hugsaði svo sem ekkert sérstaklega um, fyrr en liðið var á fundinn og umræðurnar.

Við ræddum aðstæður hér á landi, lífeyrissjóðakerfið, sem er einstakt fyrir Evrópu og þó víðar væri leitað, húsnæðismál, heimahjúkrun og landsspítala heillar þjóðar, sem verður að ávallt að vera tilbúinn til að sinna öllu og öllum.

Svo barst talið að vinnuframlagi eldra fólks og kröfum okkar hér á landi um að afnema eigi skilyrt starfslok við tiltekinn aldur. Ég fór yfir það að eldra fólk vildi ráða því sjálft hvenær það hætti að vinna, ef það á annað borð vildi og gæti hætt að vinna, og umræður tengdar því.  Við ræddum líka breytingar á þessu sviði sem hljóta að vera í pípunum, það að allir verði einfaldlega að vinna lengur en nú er, lífeyristökualdur verði hækkaður og ýmsar aðrar breytingar sem munu fylgja vaxandi fjölda eldra fólks.  Við töluðum líka um að um allan heim  þyrfti að leysa þær áskoranir sem felast í auknum fjölda eldra fólks, sem ekki getur vænst því að leggjast bara upp á yngri kynslóðirnar þegar þar að kemur.  Sjálfur talaði ég um breytingar á tengslum innan fjölskyldnanna, hvernig afi og amma í dag eru bara frísk og í golfi og að samgangur milli kynslóðanna hefur minnkað.

Hin pólska Ewa, sem hér hefur verið búsett um hríð, fór að draga fram aðstæður í Póllandi mér til upplýsinga. Þar er þessu öfugt farið. Eldra fólk nýtur rótgróinnar virðingar og skipar sess í fjölskyldunni, sem ekki verður auðveldlega af þeim tekinn. Þar er það t.d. niðurlægjandi fyrir fjölskylduna ef  eldra fólki er komið fyrir á hjúkrunarheimilum. Börnum beri að sinna feðrum sínum og mæðrum, sem þau og gera, og Ewa nefndi mér dæmi um hversu mikið fólk leggði á sig til þess að standa sína plikt.  Fólk vinnur langt fram yfir sjötugt og það þykir ekkert tiltökumál.  Einn athyglisverður vinkill er á því: Fólk fer að fá lífeyri um 65 ára aldur, sem er mun lægri en hér tíðkast, en heldur honum óskertum að viðbættum atvinnutekjum. Oftar en ekki þýðir þetta nokkur góð ár fyrir eldra fólk í Póllandi.

Og svo flykkist þetta fólk í nám. Fólk á öllum aldri stundar háskólanám í Póllandi og er hvatt til þess. Gestirnir sögðu mér frá þekktum og  háöldruðum prófessorum, fólki með mikla reynslu og þekkingu, sem slegist er um að nema hjá. Ég hafði það á tilfinningunni, og hef enn, að hér á landi séum við að færast í hina áttina – þ.e að eldra fólki sé gert erfiðara fyrir að stunda nám t.d. á háskólastigi.
Þá nefndu gestirnir Háskóla þriðja æviskeiðsins í Póllandi, systursamtök Háskóla þriðja æviskeiðsins Reykjavík, þ.e. U3A Reykjavík, sem þau sögðu njóta mikilla vinsælda í sínu heimalandi.

Einmanaleiki er stór heilsuógn á þriðja æviskeiðinu

Einmanaleiki er ekki bara alvarlegt andlegt ástand því  nú hafa rannsóknir leitt í ljós að hann er einnig líkamleg heilsufarsáskorun fyrir eldri borgara. Þar sem fólk á þriðja æviskeiðinu er líklegra til að búa eitt en yngra fólk er það í meiri áhættu en aðrir hópar til að upplifa einmanaleika.

Covid hefur aukið á einmanaleika eldra fólks með því að hindra samskipti, en fjölmörg samtök eldri borgara í Evrópu benda á að einmanaleiki hafi þegar haft víðtæk áhrif á margt eldra fólk löngu fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn.

Samkvæmt nýlegri rannsókn Sciensano, sem er belgísk rannsóknastofnun, upplifa þrír af hverjum fjórum Belgum, 65 ára og eldri, sáran einmanaleika og óhamingju. Á sama tíma sýnir skýrsla hjálparsamtakanna Malteser  að því heilbrigðari og félagslyndari sem Þjóðverjar, eldri en 75 ára eru, þeim mun hamingjusamari eru þeir og líkamlega hraustari.

Það er munur á að vera einn og því að vera einmana en einvera eykur líkur fólks á því að upplifa einmanaleika. Það er flókið að mæla félagslega einangrun og einmanaleika en sterkar vísbendingar eru um að margir sem eru 60 ára og eldri séu félagslega einangraðir og/eða einmana á þann hátt að hætta steðji að heilsu þeirra. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að:

  • félagsleg einangrun auki verulega hættu á ótímabæru andláti af ýmsum orsökum;
  • félagsleg einangrun leiði til um það bil 50% aukinnar hættu á vitglöpum;
  •  léleg félagsleg tengsl auka hættu á hjartasjúkdómum um 29% og hættu á heilablóðfalli um 32%;
  • einmanaleiki tengist hærri tíðni þunglyndis, kvíða og sjálfsvíga;
  • einmanaleiki hjá hjartasjúklingum tengist allt að 4 sinnum aukinni tíðni andláta;  68% auknum líkum á sjúkrahúsvist og 57% auknum líkum á heimsóknum á bráðamóttöku.

Undanfarna daga hafa fréttir af málefnum eldri borgara tröllriðið fjölmiðlum í harðri samkeppni við Covid fréttir.  Undirbúningsvinna  fyrir stefnumótun ríkisstjórnarinnar (sem að vísu hverfur af sjónarsviðinu eftir örfáa daga) um bráðnauðsynlegar úrbætur er í gangi. Íslendingar lifa lengur en áður og hlutfall eldri borgara í íslensku samfélagi hækkar og það felur í sér áskorun.  Líkt og bent var á fyrir mörgum áratugum síðan um fyrirsjáanlegar afleiðingar loftlagsbreytinga er það fyrst núna þegar heimurinn brennur; flæðir; og fýkur burt í fellibylum sem stjórnvöld bregðast við. Sama á við um fjölgun eldri borgara í samfélögunum.  Áratugum saman hafa fræðimenn bent á um fyrirsjáanlegar afleiðingar bættrar lýðheilsu almennings og lengingu lífsaldurs.

Og hvað hafa stjórnvöld gert með þessa vitneskju?

Núna, korteri fyrir kosningar, er sett á fót nefnd um málefni eldra fólks, erlendur sérfræðingur kallaður að borðinu til að gefa frammistöðu yfirvalda í málaflokknum falleinkunn og enn ein skýrslan hefur verið skrifuð og mun hún eflaust sóma sér vel í bókasöfnum ráðuneytanna.

En hvað getum við þá sjálf gert?

Við þurfum fyrst og fremst að taka ábyrgð á okkur sjálfum. Vopnuð allri þeirri vitneskju sem við höfum undir höndum vitum við sjálf hvað við þurfum að gera. Við vitum hvaða afleiðingar okkar eigið aðgerðaleysi getur haft á líf okkar annars vegar og hins vegar hvernig andleg og líkamleg virkni getur aukið lífsgæði okkar.

Við hvetjum því alla til að taka málin í sína hendur, nýta sér Vöruhús tækifæranna og móta sitt þriðja æviskeið á sínum eigin forsendum.

Þjóðbúningasaumur, litafræði, tálgun og leðursaumur

Þjóðbúningasaumur, litafræði, tálgun og leðursaumur eru aðeins örfá dæmi um fjölda námskeiða sem í  boði eru í Heimilisiðnaðarskóla Heimilisiðnaðafélagsins nú á haustmánuðum og eru auglýst á vefsíðum félagsins. Þar eru fjölmörg tækifæri til að efla kunnáttu og færni á hinum fjölmörgu sviðum þess fjölbreytta handverks sem heimilisiðnaður er. Sjá lista yfir námskeiðin á slóðinni:

https://www.heimilisidnadur.is/is/namskeid/oll-namskeid

Ljóst er að námskeiðin eru vinsæl og sum þegar fullbókuð, þannig að ekki er seinna vænna en að slá til.

Heimilisiðnaðarfélag Íslands var stofnað árið 1913 og eru félagasamtök með um 800 félagsmenn. Hlutverk Heimilisiðnaðarfélagsins er að vernda þjóðlegan íslenskan heimilisiðnað, auka hann og efla, stuðla að vöndun hans og fegurð og vekja áhuga landsmanna á því að  framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfi kröfum nýs tíma með rætur í þjóðlegum menningararfi. Félagið rekur meðal annars Heimilisiðnaðarskólann sem stendur fyrir um 80-90 námskeiðum á ári
Þá rekur félagið einnig verlsun sem sérhæfir sig í hráefnum sem við kemur ýmsu handverki og heimilisiðnaði, s.s. þjóðbúningagerð, vefnaði, tóvinnu og litun. Þá selur verslunin einnig ýmis konar bækur tengt handverki auk þess að selja ársrit félagsins, Hugur og hönd, auk annars efnis útgefið af félaginu.

Flanerí - Hljóðvapp um menningu, sögu og samtíma

Kópavogskirkja um 1960

Njóta má gönguferða um nágrenni sitt á margan hátt. Ný áhugaverð leið til þess hefur nú verið hönnuð og hefur fengið nafnið Flanerí – Hljóðvapp

Hljóðvappið er ný menningartengd afþreying í formi hlaðvarps og hreyfingar. Hlustandinn fer í göngu þar sem hann upplifir persónulegan hljóðheim sem varpar nýju ljósi á umhverfið þar sem gengið er.

Finna má nánari upplýsingar um Flanerí á vefsíðunni https://flaneri.is

Þar er Flanerí meðal annars lýst sem hljóðgöngum um sögu og samtíma í hlaðvarpsformi sem þekkist víða um heim og flétti saman útiveru, hreyfingu, sögu, borg og upplifun. Hvert Flanerí er um hálftíma löng hljóðganga um ákveðið svæði. Hlustendur hlaða göngunni niður í símann sinn og fara svo í gönguna þegar þeim hentar. Í göngunni upplifa þau svo liðna sögu og samtíma í persónulegum hljóðheimi sem varpar nýju ljósi á það umhverfi sem gengið er um.

Frásagnir, viðtöl, umhverfishljóð, staðreyndir og skáldskapur sveipa umhverfið nýjum blæ og fara með hlustandann í ferð um kunnuglegar en jafnframt framandi slóðir

Flanerí kostar ekkert fyrir hlustandann. Það má nálgast og njóta hvenær sem hlustandanum hentar.

Hann Jói og hún Stína

Jói og Stína

Hugarsmíðirnar okkar hann Jóhann og hún Kristín eða Jói og Stína eins og þau eru kölluð eru fædd árið 1944, uppalin í Keflavík og gengu í Gagnfræðaskóla bæjarins. Stína starfaði alla tíð sem flugfreyja, fyrst hjá Loftleiðum og síðan Icelandair. Jói fór að keyra fyrir herinn um leið og hann fékk bílpróf. Hvar þau eru í pólitíkinni hafa þau ekki gefið upp, kjósa kannski bara eftir málefnum og hjartanu.

Stína er mikil heimskona, laðast að hönnun og arkitektúr. Hún er ekki mikil barnakona en stendur sína plikt, stendur með sínu fólki. Hún varð ung ólétt og setti frekari áform um nám á hilluna og þegar henni bauðst flugfreyjustarfið þá hugsaði hún sig ekki tvisvar um. Hún er ævintýragjörn, hugsar út fyrir boxið og ævinlega í lausnum. Hún er fróðleiksfús, talar dönsku og ensku og er sífellt að grúska og læra, elskar fjarnám og hvernig tæknin hefur gert henni kleift að þroska sig. Hún á góðan vinkvennahóp. Jói er úrræðagóður, snöggur að læra, einstaklega félagslyndur og hvers manns hugljúfi. Hann er óvirkur alkóhólisti og stundar AA fundi með góðum hópi karla á Suðurnesjum.

Tilkoma Vöruhúss tækifæranna opnaði annan heim fyrir Jóa og Stínu. Þar hafa þau áhuga á fréttum og ábendingum um réttindi sín, fjárhaginn, lífsfyllingu og hvers kyns færni og upplýsingar um allt þetta geta þau fundið í rekkum og á hillum Vöruhússins. Þau fóru saman í endurmenntun HI í bókmenntir áður en þau fóru á slóðir franskra bókmennta hér um árið. Jói og Stína elska að ferðast og eru fær í að gera það á mjög hagkvæman máta, eru útsjónarsöm. Þau vilja fylgjast með, lesa mikið og nýta sér tæknina töluvert í þeim efnum. Tæknikunnátta þeirra er þó í meðallagi.

Til þess að Jói og Stína vilji fá fréttabréf Vöruhússins og jafnvel mæta á viðburði hjá U3A Reykjavík, sem Vöruhúsið er hluti af, er nauðsynlegt að efni þeim tengdum séu stöðugt í fókus. Það er ekki 100% víst en þau eru ánægð með að heyra af nýjum upplýsingum, útreikningum og stöðuuppfærslum varðandi réttindi sín. Einnig hafa þau keypt sér námskeið í gegnum Vöruhúsið og finnst áhugavert að heyra af fólki víðsvegar um landið í sömu sporum og þau.

Jói og Stína, sem bæði eru komin á eftirlaun, eiga skuldlaust einbýlishús en eru ekki sérlega fjárhagslega sterk að öðru leyti, lögðu ekki mikið fyrir hér á árum áður. Börnin eru þrjú og barnabörnin átta og búa þau öll í næsta nágrenni við þau. Jói er mikill barnakall og elskar fjölskylduna sína meira en nokkuð annað og það gerir Stína líka.

Gerum eitthvað nýtt og skemmtilegt í haust

Tækniskólinn býður um á fjölbreytt úrval stuttra námskeiða þar sem flestir ættu að finna eitthvað sem þeim hefur alltaf langað til að prófa. Að læra eitthvað nýtt í haust gæti orðið að nýju áhugamáli sem gerir veturinn framundan skemmtilegri.

Fyrstu haustnámskeiðin byrja 13. – 21. september og vara allt frá 2 dögum upp í 8 vikur. Á meðal þess sem kennt verður í haust er saumanámskeið fyrir byrjendur; und­irstaða í málmsuðu; silfursmíði skartgripa; akrýlmálun á striga og/eða pappír; Lig­htroom Classic mynd­vinnslu­forrit og skrauskrift.

Nánari upplýsingar um ofangreind námskeið og fleira má finna á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/taekniskolinn-idnnam/ undir námskeið.

Félagsstarf U3A Reykjavík í haust

Fyrirlesarar septembermánaðar: Grétar Þór Eyþórsson, Annette Lassen og Sigurður Reynir Gíslason

Félagsstarf U3A Reykjavík hefst aftur eftir sumarfrí með félagsfundi 7. september í Hæðargarði 31. Þar gefst félagsmönnum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum sínum og tillögum um vetrarstarfið. Fræðslufundir verða svo eins og áður vikulega á þriðjudögum kl. 16:30.  Þeim verður streymt til félaga jafnframt því sem félagar geta mætt í salinn til að taka þátt eftir því sem sóttvarnarreglur leyfa.

Dagskráin í september er fjölbreytt: 

  • Þann 14. september kemur Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur til okkar og fjallar um kosningarnar framundan.
  • Heimsókn í Viðey er á dagskrá 11. september að frumkvæði menningarhópsins.
  • Námskeiðið: Hér var einu sinni mjólkurbúð, hefst 16. september, þar er kennt um gerð gönguleiða í Wikiloc.
  • Þann 21. september fáum við fyrirlestur um sögu íslensku handritanna sem Annette Lassen flytur.
  • Og þann 28. september flytur Sigurður Reynir Gíslason erindi um Carbfix-verkefnið, að binda kolefni í berg.
  • Gönguferðir á laugardögum verða á dagskrá í september hópastarf á vegum bókmenntahóps og menningarhóps hefst í september.

Síðar í haust verða á dagskrá heimsóknir í söfn, stofnanir og fyrirtæki og námskeið. Fyrsta námskeiðið verður í nóvember um Sögu og menningu Gyðinga sem  Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson sjá um.

Allt verður þetta auglýst þegar nær dregur bæði á heimasíðunni u3a.is og í tölvupósti til félagsmanna.

Skip to content