Um Vöruhúsið
Tilgangur, uppbygging og rekstur
Einkunnarorð Vöruhúss tækifæranna eru Mótum þróttmikið þriðja æviskeið. Í samræmi við einkunnarorðin er leitast við að vöruhúsið bjóði upp á tækifæri, “vörur“, sem auðvelda fólki á þriðja æviskeiðinu, fimmtíu ára og eldra, við að feta nýjar slóðir í lífinu á einn eða annan hátt og láta drauma sína og óskir rætast. Tækifærin eru af margvíslegum toga og líkt og í vöruhúsi í raunheimum eru þau flokkuð og sett á hillur í sex rekkum sem bera heitin Færni, Fjárhagur, Lífsfylling, Nýr starfsferill, Réttindi og Stofnun fyrirtækis. Í vöruhúsinu er hægt að nálgast þau stafrænt þegar hverjum og einum hentar. Öll eiga þau að miða að því að þriðja æviskeiðið verði þróttmikið og tími til þess að njóta og nýta sjálfum sér og samfélaginu til heilla. Vöruhúsið er einstakt því það tengir saman þá sem vilja nýta tækifærin og þá sem bjóða þau.
Vöruhús tækifæranna er rekið af sjálfstæðri stjórn með eigin fjárhag í umboði óhagnaðardrifinna samtaka, U3A Reykjavík. Helstu verkefni stjórnarinnar er að þróa virkni vefgáttarinnar, viðhalda og endurnýja vöruframboð vöruhússins, tækifæranna, sinna markaðssetningu þess, afla tekna og styrkja til að tryggja sjálfbæran rekstur þess. Vinna stjórnarinnar og annarra sem koma að rekstri vöruhússins er unnin í sjálfboðavinnu.
Stjórn Vöruhúss 2021 – 2022 skipa: Hjördís Hendriksdóttir, formaður, Ástríður Sif Erlingsdóttir, varaformaður, Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir, fundarritari, Jón Ragnar Höskuldsson, gjaldkeri og tæknimaður og Hans Kristján Guðmundsson, meðstjórnandi.
Vöruhúsið verður til
Hugmyndin að Vöruhúsi tækifæranna varð til við vinnslu evrópska samstarfsverkefnisins BALL, Be Active through Lifelong Learning (2014 – 2016) og áttu félagar í U3A Reykjavík, University of the Third Age (Háskóli þriðja æviskeiðsins), sem ýttu BALL verkefninu úr höfn, hugmyndina. Henni var svo hrundið í framkvæmd í framhaldsverkefni BALL, Catch the BALL. Leiðbeiningar BALL verkefnisins, sem settar eru fram í bókinni Til móts við þróttmikið þriðja æviskeiðið, snúast um að til þess að svo megi verða þurfi að hefja undirbúning þess snemma. Vöruhús tækifæranna styður við þennan undirbúning. Auk Vöruhúss tækifæranna varð Menntastofa tækifæranna til í Catch the BALL (2016-2018) en hún inniheldur námskeiðslýsingu fyrir þá sem leiðbeina og aðstoða fólk sem vill uppgötva styrkleika sína og þarfir og þrár við undirbúning að þróttmiklu þriðja æviskeiði.
Bæði BALL og Catch the BALL verkefnin voru styrkt af Erasmus+ menntaáætlun ESB. Styrktaraðilar á Íslandi voru Landsvirkjun, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, nú hluti af Sameyki, Bandalag háskólamanna. VR-stéttarfélag og Reykjavíkurborg
Viðurkenningar
Vöruhús tækifæranna hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar. BALL verkefnið, þar sem hugmynd að vöruhúsinu varð til, var veitt gæðaviðurkenning Erasmus+ á sviði fullorðinsfræðslu árið 2016 og matsnefnd um Catch the BALL verkefnið fór fór hún sérstaklega lofsamlegum orðum um Vöruhús tækifæranna. Árið 2018 var Vöruhús tækifæranna valið í úrslitahóp í alþjóðlegri keppni Silver Eco and Aging Well um viðurkenningu fyrir verkefni sem miða að lausnum, þjónustu, nýsköpun og öðru því sem best getur leitt til farsællar öldrunar. Af 45 verkefnum sem tóku þátt var Vöruhús tækifæranna meðal þeirra 21 sem tilnefnd voru til úrslita og hlutu þrjú viðurkenningu.