Fréttabréf í júní 2022
Sumartími
Sumarið framundan virðist ætla að verða mjög gott sumar. Ekki er með því verið að lofa góðu veðri (þó að við vonum það innilega) heldur að þetta sumar verði laust undan skugga Covid faraldursins og öllum þeim takmörkunum sem honum tengjast. Liðinn er tími 2 metra fjarlægðar-skyldu í matvöruverslunum og hámhorfs á Netflix sem var helsta löglega upplyftingin á meðan bann gilti um tónleika, leikhús, veitingastaði og flest annað skemmtilegt.
Núna þegar Covid er talið frá og við megum fella grímurnar verðum við einsog kýr á vorin þegar þeim er hleypt útúr fjósinu. Til að svala uppsafnaðri ferðaþörf okkar kaupum við upp flugferðir út úr landinu þrátt fyrir fordæmalausar verðhækkanir á flugvélaeldsneyti. Fréttir berast utanúr heimi um að ófremdarástand ríki á flugvöllum víðs vegar vegna manneklu til að koma farangri og okkur sjálfum um borð í flugvélarnar.
Ferðaþjónustan hér á Íslandi, sem hefur s.l. tvö ár þurft að reiða sig á vilja innfæddra til að halda sér á floti, nýtur nú góðs af ferðagleði erlendra ferðalanga. Bílaleigurnar í landinu eru uppskroppa með bíla og gististaðir hafa bókað hverja einustu dýnu fram á haust.
Við í ritstjórn Fréttabréfs VT og U3A Reykjavík ætlum líka að fara í sumarfrí og því mun næsta Fréttabréf ekki koma út fyrr en 6. september.
Við þökkum ykkur fyrir samfylgdina í vetur og vonum að sumarfríið ykkar verði frábært hvar sem þið eyðið því.
Fyrir hönd stjórnar Vöruhúss tækifæranna,
Hjördís Hendriksdóttir
formaður og ritstjóri Fréttabréfsins
Samtök sem breyta samfélagi
Neytendasamtökin hafa barist fyrir hagsmunum neytenda í hartnær 70 ár og oft haft erindi sem erfiði. Á fyrsta starfsárinu, 1953, kom upp svokallað „Hvile vask mál“, en Hvile vask var þvottaefni sem sagt var mun betra en önnur. Samtökin mótmæltu þeim staðhæfingum og höfðaði innflytjandinn mál gegn samtökunum í kjölfarið. Neytendasamtökin töpuðu málinu í undirrétti, en unnu fyrir Hæstarétti. Þvottaefnið hvarf fljótlega af markaði í kjölfarið.
Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina bent á ýmislegt sem betur mætti fara í landbúnaðarkerfinu, svo sem ofurtolla og innflutningsbann. Einhver muna vísast eftir stóra kartöflumálinu, hvar Neytendasamtökin börðust árum saman gegn ríkisrekinni einokunarverslun sem seldi óætar kartöflur og flokkaði jafnvel sem fyrsta flokks. Steininn tók úr árið 1984 þegar sýktar og óætar kartöflur voru fluttar inn. Á einungis þremur dögum skrifuðu 20 þúsund manns nöfn sín á undirskriftarlista og kröfðust þess að innflutningur á kartöflum og grænmeti yrði gefinn frjáls. Í framhaldinu var svo einokun á innflutningi lögð af og Grænmetisverslun landbúnaðarins lögð niður.
Um svipað leyti komst upp um að framleiðendur hentu tómötum í stórum stíl á haugana til að halda uppi verði. Neytendasamtökin mótmæltu harðlega og lögðu áherslu á að verð yrði frekar lækkað og þannig hvatt til aukinnar neyslu. Framleiðendur féllust á að reyna þetta og jókst salan mikið í kjölfarið, til góða fyrir alla.
Upp komst um áralangt samráð olíufélaganna í lok árs 2001. Höfðuðu Neytendasamtökin prófmál vegna tjóns sem samráðið olli og vannst það fyrir báðum dómsstigum. Í kjölfar þessa var svo gert samkomulag við olíufélögin um að þau myndu með sama hætti bæta öðrum sem orðið höfðu fyrir tjóni og lagt fram kvittanir til Neytendasamtakanna.
Árið 2016 átti að hefja gjaldtöku fyrir notkun á rafrænum skilríkjum, sem hafði verið notendum að kostnaðarlausu. Það var ekki síst fyrir baráttu Neytendasamtakanna að algerlega var hætt við þær hugmyndir.
Meðal stórra verkefna samtakanna um þessar mundir má nefna Vaxtamálið, en árið 2019 sendu samtökin fyrirspurnir til bankanna um vaxtaákvarðanir lána með breytilegum vöxtum. Svörin þóttu ófullnægjandi og báru með sér að vaxtaákvæði lánasamninga og vaxtaákvarðanir gengju beinlínis í berhögg við lög. Í framhaldinu ákváðu samtökin að stefna bönkunum og skráðu 1500 lántakar sig til leiks. Bönkunum þremur voru birtar samtals sex stefnur í desember 2021 og málin tekin fyrir á vormánuðum 2021 þar sem óskað var ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á túlkun lagaákvæða, enda byggja þau á Evróputilskipun. Vonast er til þess að álit dómstólsins fáist á haustmánuðum 2022 og í kjölfarið úrskurði Héraðsdómur. Líklega þurfa málin að fara fyrir Hæstarétt til að fá endanlega niðurstöðu í þeim.
Neytendasamtökin láta sig stafræna neytendavernd varða og eitt stórverkefna samtakanna um þessar mundir er baráttan gegn njósnahagkerfinu. Gífurlegu magni upplýsinga er safnað um okkur, það flokkað og tengt saman með og án samþykkis okkar; um hvað okkur líkar, hvað við kaupum, andlega og líkamlega heilsu okkar, kynhneigð, staðsetningu, stjórnmálaskoðanir og svo má lengi telja. Létu Neytendasamtökin gera myndband til að vekja athygli á umfangi njósnanna. Það, ásamt upplýsingum um hvað er til ráða, má finna á www.ns.is/kettir.
Kraftur Neytendasamtakanna hefur í gegnum tíðina spornað gegn yfirburðastöðu valdhafa, sérhagsmunahópa og fyrirtækja. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagsmenn, þeim mun öflugri Neytendasamtök. Ertu félagsmaður?
Breki Karlsson,
formaður Neytendasamtakanna
Bjartur lífsstíll eldri borgara
Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra og fer með málefni eldri borgara. Hann segist vera með þrjú málefni í forgangi sem snerta eldri borgara:
- í fyrsta lagi að vinna, í samstarfi við heilbrigðisráðherra, að breytingum á þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að fólk geti búið lengur heima hjá sér, en hafi líka val um meiri þjónustu;
- í öðru lagi að vinna að því, í samstarfi við innviðaráðherra, að bæta afkomu eldra fólks sem býr við lökustu kjörin með því að bæta leigumarkaðinn fyrir þennan hóp og beina til þess fjármagni inn í almenna íbúðakerfið.
- í þriðja lagi að beita sér fyrir almennri heilsueflingu eldra fólks til að auka lífsgæði á efri árum og styðst þar við tillögur um samstarfsverkefni úr skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra frá síðasta ári.
Í kjölfar skýrslunnar lagði félagsmálaráðuneytið (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið) til fjármagn til samstarfsverkefnis Landsambands eldri borgara og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem á að stuðla að heilsueflingu eldra fólks, 60+. Verkefnið, sem nefnist Bjartur lífstíll, hófst í ársbyrjun 2022. Markmið verkefnisins eru:
- að auka lífsgæði eldra fólks í gegnum markvissa hreyfiþjálfun;
- að auka heilsulæsi eldra fólks með tilliti til hreyfingar, næringar og annarra heilsutengdra þátta;
- að auka líkur á að fólk geti búið lengur í heimahúsum.
Fyrsta verkefnið er að kortleggja framboð á hreyfingu fyrir eldra fólk um allt land. Fjölmörg góð hreyfiúrræði eru nú þegar til staðar víða um landið og verður lögð áhersla á að efla núverandi hreyfiúrræði, auka vitundarvakningu eldra fólks og aðstoða sveitarfélög þar sem þörf er á úrbótum. Verkefnið er unnið í samráði við fulltrúa fjölda aðila, svo sem sveitafélaga, embættis landlæknis, heilsugæslunnar, íþróttahreyfinga og - félaga, félaga eldri borgara og Rauða krossins. Nú er verið að prufukeyra hreyfiúrræði hjá Knattspyrnufélaginu Þrótti í Reykjavík þar sem 20 manns á aldursbilinu 60-90 ára stunduðu markvissa hreyfingu tvisvar í viku. Framtíðaráform verkefnisins eru að í öllum sveitarfélögum á landinu verði í boði hreyfiúrræði fyrir eldri borgara. Fjárfesting í forvörnum skilar sér margfalt.
Hugarsmíðin okkar, hann Starkaður
Hugarsmíðin okkar að þessu sinni er hann Starkaður Kárason, hagfræðingur, fyrrverandi starfsmaður Seðlabanka Íslands. Starkaður varð 70 ára þann 20. maí 2022 og lét af störfum um mánaðarmótin þar á eftir eins og lög nr. 70 11. júní 1996 kveða á um. Starkaður er alinn upp á Suðureyri við Súgandafjörð en býr nú með konu sinni, henni Ágústu, í Breiðholtinu í Reykjavík. Þau eru barnlaus. Hvar hann er í pólitíkinni veit enginn og er giskað á að hann láti kosningarloforð flokkanna ráða mestu um hvar hann staðsetur kjörseðilinn, enda ábyrgur maður og vill að atkvæðið fari til góðra verka.
Starkaður starfaði sem stjórnandi í Seðlabankanum í áratugi. Fyrir fimm árum breytti hann þó um kúrs að beiðni yfirmanna sinna og tók að sér að leiðbeina nýjum starfsmönnum í starfi enda kann hann allt um Seðlabankann og þykir vænt um vinnustaðinn. Starkaður veit að hann á eftir að sakna vinnufélaganna og eins þótti honum svo undurgaman og að geta í vinnunni horft á listaverkin sem prýða veggi bankans. Fannst óskiljanlegt þegar að „nektarmálverkið“ hans Gunnlaugs Blöndal, Stúlka með greiðu, mátti ekki lengur vera þar. En eins á hann ekki eftir að sakna og það er að sitja fastur í umferðinni kvölds og morgna.
Starkaður kvíðir ekki aðgerðarleysi þó að hann sé hættur formlegu starfi. Svolítið skrýtið fyrst auðvitað að hafa ekki nafnspjald sem segir hver hann er og hvað hann er merkilegur en hvað gerir það til. Nafnspjöld eru úrelt hvort sem er. Hann hefur undirbúið þennan tíma vel og reynt að sjá fyrir sér hvernig hann langaði að nýta hann. Á sér áhugamál og eru það aðallega bridds og ástkæra golfið sem hann hlakkar mest til að sinna. Og ærinn tíma mun hann fá fyrir þau. Góða konan hans, hún Ágústa, sér um heimilishaldið, tengsl við vini og vandamenn og sér jafnvel um að bóka læknisheimsóknir fyrir hann og setja í dagatalið. Ekki allir sem eiga svona frábæra konu og hvar væri hann án hennar, hugsar Starkaður. Hún hefur þó hvorki áhuga á bridds né golfi og er helst að þau mætist í Oddfellow en þar eru þau bæði virk. Saman sækja þau líka námskeið hjá Félagi eldri borgara, sérstaklega námskeið um Íslendingasögurnar og fara í ferðir með félaginu í framhaldi af þeim.
Að bara sinna áhugamálum þegar allir dagar eru laugardagar, er ekki nóg fyrir Starkað. Hefur jafnvel velt fyrir sér skrifum eins og að skrifa minningar fyrir afkomendur um æskuárin á Suðureyri en líka að skrifa um pabba og mömmu og afa og ömmu og hvað fyrir þau bar. Minnist með sárum trega þegar mamma hans raulaði Only you á sjötta áratugnum. En skrifin mega bíða. Nógur tími fyrir þau. Starkaður vill láta gott af sér leiða og sér að hann getur átt framtíð fyrir sér sem sjálfboðaliði enda telur hann sig færan í flestan sjó. Og hvar að byrja annarsstaðar en á hillunni Sjálfboðastörf í rekkanum Nýr starfsferill í Vöruhúsi tækifæranna. Nógu af að taka þar og hví ekki að hugsa út fyrir landssteinana.
Starkaður og Ágústa una sér vel í Breiðholtinu og stefna á að vera þar áfram. Búin að festa sér íbúð í Árskógum fyrir eldra fólk og sjá fram á bjarta framtíð á árunum og áratugunum framundan. Þjónustumiðstöð og gott framboð af félagsstarfi á næsta leyti og meira segja kirkja í Mjóddinni. Allt til staðar sem eldra fólk þarf!
Sumarkveðja frá stjórn U3A Reykjavík
Nú að loknu viðburðaríku starfsári á vegum U3A Reykjavík sendir stjórnin öllum félagsmönnum sumarkveðju. Auk reglulegra þriðjudagsfyrirlestra hefur menningarhópur staðið fyrir heimsóknum a.m.k. mánaðarlega, alþjóðahópur var endurvakinn, bókmenntahópur hefur hist eftir nokkurt hlé og haldin hafa verið námskeið. Nýir hópar hafa verið stofnaðir og taka til starfa í haust, umhverfishópur og HeiM-klúbbur. Vorferðir voru farnar í maí, önnur á vegum menningarhóps í Hernámssetrið í Hvalfirði og hin um Reykjanesið með leiðsögn Hjálmars Waag Árnasonar.
Við tökum okkur nú sumarhlé í félagsstarfinu en einn viðburður verður í júní, það er sólstöðuganga í Viðey með leiðsögn Þórs Jakobssonar 21. Júní og munu félagsmenn fá sendar upplýsingar um gönguna í tölvupósti þegar nær dregur.
Stjórnin hefur unnið fyrstu drög að haustdagskrá. Starfið hefst með félagsfundi þriðjudaginn 6. september og verður þar leitað eftir tillögum félagsmanna að efni fræðslufunda og viðburða á vetri komanda. Á þessum fundum fyrri ára hefur orðið til hugmyndalisti fyrir stjórn til að vinna eftir.
Í október verður haldið málþing U3A Reykjavík í tilefni af 10 ára afmæli félagsins en það var stofnað árið 2012 og er nefnd að störfum við undirbúning. Málþingið verður haldið í Tjarnarsal Ráðhússins og er vinnuheitið: Seinni hálfleikur – látum draumana rætast. Spennandi efni og áhugaverðir fyrirlesarar er markmið í undirbúningsvinnunni.
Njótum sumarsins og látum okkur hlakka til að hefjast handa í haust með fræðslu og virkni að leiðarljósi
f.h. stjórnar
Birna Sigurjónsdóttir, formaður