Á Sturlungaslóð nefnist námskeið þar sem sagnamennskan fær að njóta sín og kennarar eru með Sturlungu á heilanum. Námskeiðið gagnast bæði þeim sem hafa einhverja grunnþekkingu á Sturlungu og þeim sem eru lengra komnir. Á heimasíðu námskeiðsins https://sturlungaslod.is/ segir: „Sturlunga hefur heillað marga og sumir ganga svo langt að segja að fari maður þangað inn, komist maður aldrei aftur út.“ Sturlunga varð til á 13. öld þegar innanlandsófriður ríkti á Íslandi sem lauk með því að landið missti sjálfstæði sitt og gekk á hönd Noregskonungs.
Sturlungusérfræðingar sem kenna á námskeiðinu eru þau Einar Kárason, rithöfundur og sagnamaður, Óttar Guðmundsson, rithöfundur og geðlæknir, Sigríður Sigurðardóttir, sagnfræðingur og Sigurður Hansen. Einar hefur lifað og hrærst í Sturlungu í áratugi eins og segir á heimasíðu námskeiðsins, Óttar heillaðist ungur af Sturlungum og telur þá frændur sína og vini og Sigríður ólst upp á Sturlungaslóð í Skagafirði, hún hefur meðal annars rannsakað þátt Ásbirninga í Sturlungu. Sigurður, sem er Sturlungasérfræðingur, hefur ásamt fleirum, sett upp sögu- og listasýningu í Kakalaskála að Kringlumýri í Skagafirði þar sem fjallað er um sögu Sturlunga með kastljós á sögu Þórðar kakala sem er einn af Sturlungum.
Námskeiðið er byggt upp sem vefnámskeið með röð fyrirlestra, alls 44 talsins, sem nemandi hefur aðgang að í sex mánuði frá því hann greiðir gjald fyrir námskeiðið sem er kr. 39.990. Kynningarmyndband um námskeiðið má nálgast á heimasíðu þess og þar má einnig forskoða fyrsta fyrirlesturinn.
Rekkar og hillur: