ingi-232x174

Ingi leitar líka að tækifærum í skapandi færni

Hann Ingi er hugarsmíð okkar eins og hún Guðrún, sem sagt var frá í síðasta fréttablaði, en ólíkur Guðrúnu að mennt, starfi og áhuga og leitar því ekki sömu tækifæra í Vöruhúsinu. Þá er Ingi harður sjálfstæðismaður en Guðrún Samfylkingarkona.

Um Inga er að segja að hann er 55 ára viðskiptafræðingur og  vinnur við greiningar og ráðgjöf hjá ráðgjafafyrirtæki í Reykjavík. Hann er mjög atorkumikill og sem dæmi um það þá er hann þríþrautarmaður, hjólar mikið, hleypur árlega í Reykjavíkurmaraþoni og stundar sund. Þá er Ingi dellukall og á hinar ýmsu græjur til að greina útivistina, hreyfinguna og tækifærin í kringum sig. Ingi er félagslega sterkur og tekur þátt í félagshópum, einum úr þríþrautinni, öðrum sem tengist vinnunni, þeim þriðja sem er viskíhópur úr Háskólanum og þeim fjórða sem er úr Breiðholtinu þar sem Ingi ólst upp.

Það sem fær Inga til að vera með í Vöruhúsi tækifæranna er m.a. að vera hluti af stærra hópi fólks á hans aldri, skapandi viðhorf og nýjungar sem hann finnur þar og að húsið sé traust og lifandi upplýsingaveita. Þá telur Ingi að Vöruhúsið gefi sér tækifæri á að vita meira um lífsfyllingu og færni og þó að hann sé önnum kafinn maður þá leitar hann að viðburðum, lestrarefni um heilbrigt líf, skapandi færni og hvers kyns áskoranir. Við viljum því benda Inga á nokkur tækifæri í Vöruhúsinu sem gætu hentað honum.

Í leit Inga að viðburðum er honum bent á rekkann Lífsfylling og hilluna Viðburðir. Þar getur Ingi fundið upplýsingar um vikulega viðburði hjá U3A Reykjavík og dagskrá viðburða hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands. Lestrarefni um heilbrigt líf má finna á sömu hillu þar sem vísað er á greinar í mbl.is fyrir fólk 50+ m.a. um gildi hreyfingar. Einnig eru upplýsingar um heilbrigt líf á hillunni Heilbrigðir lífshættir  eins og um líkamsræktarstöðuna Heilsuborg, um Heilsuveru, heilbrigðisgátt/vefsíða fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar, æfingaspjöldin Hreyfispjöld sem eru einföld æfingarspjöld sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi og myfitnesspal, app á snjallsíma og vefsíða sem fylgist með matarræði og hreyfingu en trúlega á Ingi þegar þetta app miðað við græjurnar sem hann á.

Ingi leitar líka að tækifærum í skapandi færni og er þar bent á rekkann Færni og hilluna Sköpun. Á hillunni eru upplýsingar um listskóla, handverksskóla Handverkshússins, Myndlistaskóla Reykjavíkur, söngskólann Vocalist og Powertalk sem er fyrir þá sem vilja bæta tjáskiptahæfileika sína í daglega lífinu og ná betri árangri í einkalífi og starfi. Með áskorunum fyrir Inga mætti nefna „Að markaðssetja sjáfan sig“ en upplýsingar um fyrirtæki sem aðstoðar fólk við það eru á hillunni Einstaklingsfærni í rekkanum Færni.

Að lokum má nefna að Ingi er borinn og barnfæddur Reykvíkingur, á foreldra á lífi og fjögur systkini sem eru sérlega samheldin. Ingi er tvígiftur og á dreng með fyrri maka sínum en er giftur Guðmundi í dag.

Mars 2021
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Mars 2021
Skip to content