palli-800x600

Palli vill í húsgagnasmíði

Hugarsmíðin okkar hann Palli er 69 ára borinn og barnfæddur Ólsari og húsasmiður að mennt. Giftur Sölku, sannri Reykjavíkurmey og bókmenntafræðingi og saman eiga þau einn son. Eftir nokkurra ára vinnu hjá öðrum stofnaði Palli sitt eigið fyrirtæki, Pallahús, sem hann rekur enn í dag. Palli var alinn upp á miklu krataheimili en hefur síðustu ár kosið Flokk fólksins því hann vill standa með lítilmagnanum og þeim sem búa við bág kjör. Kratinn situr enn í honum.

Palli er léttur í lund, afkastamikill og með afbrigðum félagslyndur, er í Karlakórnum Kára og í kirkjukór Ólafsvíkur, Rotary, Átthagafélagi Ólafsvíkur og þjálfar að auki 7. flokk drengja í fótbolta. Grípur líka í verk fyrir vini og vandamenn og hefur meira segja velt fyrir sér að bjóða sig fram í bæjarpólitíkina. Palla finnst hann vera að byrja að finna fyrir aldrinum og langar að minnka við sig. Hugmyndin er að láta elsta soninn taka við verkstæðinu en Palli er hikandi. Vill ekki verða „backseat driver“. Salka unir sér vel í starfi sínu á bókasafninu og á ennþá þrjú ár í eftirlaunin.

Palli hafði heyrt um Vöruhús tækifæranna en skilið sem svo að það væri bara fyrir háskólamenntað fólk. Ákvað samt að kíkja þar inn og viti menn hann fann einmitt það sem hann var að leita eftir, að vinna með tré en eitthvað léttara en húsasmíðar. Helst vildi hann læra að smíða húsgögn. Upplýsingar um nám í smíði húsgagna fann hann á hillunni Sköpun í rekkanum Færni í Vöruhúsinu, en þar er vísað á Handverkshúsið sem býður upp á stutt vönduð námskeið með þaulreyndum leiðbeinendum í m.a. húsgagnasmíð. Palli var ekki lengi að skrá sig. Kannski hann stofni bara nýtt fyrirtæki, Pallastóll?

Nánasta fjölskylda Palla er stór og telur um 40 manns, forelda Palla, fráskilinn soninn, þrjú barnabörn, systkini og þeirra fólk og aðra vandamenn sem búa öll á Ólafsvík. Hjónabandið hefur verið nokkuð gott því þó að þau hjónin séu ekki alltaf samstíga sameinast þau í ást sinni á syninum og börnunum hans.

Desember 2021
Fréttabréf Vöruhúss tækifæranna - Desember 2021
Skip to content