Fréttabréf október 2021

Kosningaloforð í þágu eldri borgara

Í aðdraganda síðustu kosninga til Alþingis skrifaði Sigmundur Ernir ritstjórnargrein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni „Skömm“. Þar fjallar hann um Íslending á níræðisaldri  sem er nýfluttur heim til Íslands eftir að hafa búið í Noregi. Heimflutti eldri borgarinn segist upplifa það sem skömm að vera aldraður á Íslandi og að sér finnist að komið sé fram við þennan aldurshóp eins og einhverja umframframleiðslu sem ekkert pláss væri fyrir,þessu væri öfugt farið hjá vinum hans og fyrrum kollegum í Noregi sem hlakki til efri áranna og viti upp á hár hvað biði þeirra. Öllum beri þeim saman um að þeir hafi aldrei haft það betra en einmitt eftir að þeir komust á eftirlaun.

Í grein sinni vitnar Sigmundur Ernir  ummæli Stefáns Ólafssonar prófessors í félagsfræði sem mest og lengst hefur rannsakað efnahag íslenskra ellilífeyrisþega. Í sjónvarpsþættinum Kjör aldraðra á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sagði Stefán að Íslendingar eigi heimsmet í skerðingaráráttu almannatryggingakerfisins.  Í þættinum var einnig fjallað um þá sem eru að láta af störfum um þessar mundir og eru að uppgötva margir hverjir að þeir muni búa við fátækt út ævina. Sigmundur Ernir bendir á að einkum og sér í lagi eigi þetta við um konur sem hafi unnið láglaunastörf og margar hverjar slitrótt vegna barneigna og uppeldisstarfa. Að mati Sigmundar Ernis er almannatryggingakerfið að koma fram við þennan hóp landsmanna af óvirðingu og skrifar „Hafi það skrimt á lægstu laununum allan sinn starfsaldur, sem vel að merkja er undir framfærsluviðmiðunum hins opinbera, má heita nóg að það fái 75 prósent af því kaupinu í ellilaun.“

Undanfarna áratugi hafa stjórnmálamenn lofað úrbótum og leiðréttingum til eldri borgara en minna hefur orðið um efndir. Loforðaflaumurinn fyrir síðust Alþingiskosningar slær þó sennilega öll fyrri met enda er þetta stækkandi hópur með 74.000 kjósendur 60 ára og eldri, og því til mikils að vinna.  Landsamband eldri borgara (LEB) hefur tekið saman yfirlit yfir kosningaloforðin í ár sem sjá má hér að neðan. Þeir sem vilja fræðast frekar um samantektina geta skoðað ítarlegri umfjöllun á vefsíðu LEB:

https://www.leb.is/wp-content/uploads/2021/09/LEB-Samanb-Ahersluatridi-og-stefnumal-stjornmalafl-2021-22.09.21.pdf

Sjá hér samanburðartöflu yfir áhersluatriði Landssambands eldri borgara og stefnumál stjórnmálaflokkanna 2021:

https://www.leb.is/wp-content/uploads/2021/09/LEB-Samanburdartafla-2021-22.09.21.pdf

Áhugavert, og í raun alveg nauðsynlegt, er fyrir stjórn LEB að taka stöðuna á ofangreindum málum að fjórum árum liðnum, og vonandi séu þá sem flest þessara loforða séu komin í framkvæmdarfarveg.

Opið bréf til OEWGA
Vinnuhópur Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna
um öldrun

Við vekjum athygli á að U3A Reykjavík hefur ásamt 222 öðrum samtökum um heim allan undirritað opið bréf til Vinnuhóps Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um öldrun með það að markmiði að vernda og efla mannréttindi eldra fólks, “UN Open-Ended Working Group on Aging – OEWGA“.

Upphaf bréfsins er í lauslegri þýðingu á þessa leið:                                    

„Sem málsvarar mannréttinda með ólíkan bakgrunn og frá ýmsum heimshornum viljum við sjá heim þar sem við öll getum notið réttinda og virðingar og elst með reisn. OEWGA vinnuhópurinn getur gert þessa sýn að veruleika með því að framfylgja umboði sínu til að fjalla um tillögur að alþjóðlegum lagagerningi sem ætlað er að efla og vernda réttindi og reisn eldra fólks og leggja fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tillögu með meginatriðum slíks gernings.”

Ennfremur er í bréfinu bent á að vinnuhópurinn hefur  ekki náð tilætluðum árangri og hvatt er til aukinnar samstöðu innan hans. Einnig eru lögð fram tilmæli um leiðir til úrbóta.

Bréfið sem sent var 20. september síðastliðinn má nálgast hér með lista yfir þau samtök sem undirrituðu:

Open Letter to the UN General Assembly’s Open-Ended Working Group on Ageing – The Global Alliance (rightsofolderpeople.org)

OEWGA vinnuhópurinn var settur á fót af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með samþykkt 65/82, 21. desember 2010. Nánari upplýsingar um vinnuhópinn má sjá hér:

Open-Ended Working Group (OEWG) on Ageing | United Nations For Ageing

U3A Reykjavík fylgist með þessu starfi sem öðru því sem gerist í málefnum eldra fólks á alþjóðavettvangi m.a. þátttöku í erlendu samstarfi og aðild að ýmsum alþjóðlegum tengslanetum. Um það má fræðast nánar á vefsíðu samtakanna á slóðinni:

https://u3a.is/erlent-samstarf/

Laugardagsgöngur U3A Reykjavík

U3A Reykjavík býður félögum sínum upp á nokkrar laugardagsgöngur í haust sem voru hannaðar í alþjóðlega HeiM verkefninu sem samtökin áttu aðild að. Laugardagsgöngurnar hefjast kl. 11 fyrir hádegi og geta aðeins 20 manns geta tekið þátt. Nauðsynlegt er að skrá sig í göngurnar.

Laugardaginn 25. september s.l. var gengið um Laugarnes og Kirkjusand og tóku 16 félagar þátt að meðtöldum leiðsögumanni, Herði Gíslasyni, en hann gjörþekkir svæðið sem gengið var um. Var staðnæmst á nokkrum vel völdum stöðum á Laugarnesinu sem á sér langa sögu allt frá landnámsöld þegar fyrsti  Laugarnesbærinn var byggður. Frá Laugarnesi var gengið upp Laugarnesveginn og að  gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar þar sem  Fúlatjörn var áður við sjávarborðið. Á sömu gatnamótum  byggði kanadiski herinn vegleg mannvirki á stríðsárunum m.a. fangelsi sem hýsti m.a. ritstjóra eins bæjarblaðsins. Atvinnustarfsemi blómstraði á Kirkjusandi í byrjun 20. aldarinnar fyrir ofan stakkstæði á fjörukambinum og litu athafnamenn þess tíma hýru auga til áætlana, sem ekki urðu af, um byggingu hafnar við Kirkjusand. Fléttaði Hörður persónulegum sögum inn í leiðsögnina sem gaf henni lit og m.a. innsýn inn hvernig kaupin voru gerð á eyrinni á þeim tíma.

Laugardaginn 9. október n.k. verður gengið um kirkjugarðinn Hólavallagarð þar sem listrænn og sögulegur menningararfur, minningarmörk, er skoðaður. Minningarmörkin sem eru skoðuð í göngunni eru járnkrossar á leiðum í elsta hluta garðsins og verður sagt krossunum og þeim sem undir þeim hvíla. Gangan mun taka innan við klukkustund og er auðveld yfirferðar.

Laugardaginn 16. október n.k. verður gengið á milli styttna í miðborginni og má lýsa göngunni sem göngu um evrópska og íslenska menningar-og listasögu. Gangan hefst og henni lýkur á Arnarhóli, við styttu Ingólfs Arnarsonar og fylgir síðan eftir tímalínu sögunnar. Listaverkin og höfundar þeirra eru stuttlega kynntir.

Ítarlegri upplýsingar um göngurnar er að finna á slóðunum

https://u3a.is/heim-gonguleidir/

Ný tækifæri til heilsueflingar – OsteoStrong®

Við vekjum athygli á nýju tækifæri til heilsueflingar sem nú er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Á vefsíðunni  OsteoStrong Iceland – The Ultimate Biohack er að finna allar upplýsingar um OsteoStrong® kerfið, hvað í því felst og hvernig má búast við bættri heilsu við ástundun þess. Þar er einnig hægt að bóka fría prufutíma.

Þar segir m.a. að hér sé á ferðinni einstakt kerfi til að auka styrk beinagrindarinnar og með aðeins 60 sekúndna átaki, einu sinni í viku, geta notendur styrkt beinagrindina að meðaltali um 14.7% á hálfu ári. Á einu ári geta þeir aukið styrk sinn um 70% en jafnvægi getur aukist um 77% eftir aðeins fimm skipti. Margir losna við stoðkerfisverki, verki í baki og liðamótum ásamt því að fá betri líkamsstöðu.

Bent er á að OsteoStrong® kerfið sé ekki líkamsræktarstöð heldur tækifæri til að bæta almenna heilsu með því að styrkja beinagrindina. Ennfremur segir þar að OsteoStrong® virki fyrir fólk á öllum aldri án tilliti til íþróttalegs atgervis. Á aðeins 10 mínútum í viku má búast við að sjá hraða þéttingu vöðva og beina. Það er sársaukalaust að stunda OsteoStrong®, tekur fljótt af og árangur er mælanlegur.

Alþjóðlegur dagur eldra fólks – Stafrænt jafnræði

Vöruhús tækifæranna óskar öllum til hamingju með nýliðinn alþjóðadag eldra fólks, 1. október, sem hefur verið alþjóðlegur dagur eldra fólks síðastliðin 30 ár eftir að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tileinkaði daginn okkur fullorðna fólkinu.

Þema ársins 2021 er “Digital Equity for All Ages” eða „Stafrænt jafnræði í þágu allra æviskeiða “. Nánar má fræðast um þetta þema og starf í þágu eldra fólks á vef Sameinuðu þjóðanna: International Day of Older Persons | United Nations.

Viðburðir U3A Reykjavík í október 2021

Fyrirlesarar októbermánaðar:
Sólveig Ásgrímsdóttir, Kristján Eiríksson og Gunnar Hrafn Jónsson 

Félagsstarf U3A Reykjavík fór vel af stað eftir sumarfrí með vikulegum fræðslufundum ásamt því að menningarhópur stóð fyrir heimsókn í Viðey og farið var í laugardagsgöngu um Laugarnes og Kirkjusand. Góð þátttaka hefur verið í öllum viðburðum og greinilegt að félagsmenn eru tilbúnir að taka þátt í öflugu félagsstarfi.

Í október eru einnig framundan fjölbreyttir viðburðir:

  • 5. október verður Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur með fyrirlestur um ADHD hjá eldra fólki,
  • 9. október verður laugardagsganga um Hólavallakirkjugarð,
  • 12. október fáum við fyrirlestur um Esperanto og þjóðleysishyggjuna sem Kristján Eiríksson flytur.
  • 16. október verður laugardagsganga um sögulegar styttur í Reykjavík
  • 19. október er komið að fyrirlestri um Afghanistan þar sem Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður og fyrrverandi Alþingismaður fjallar um ástandið þar fyrr og nú.
  • 22. október efnir menningarhópur til heimsóknar í Rokksafnið í Reykjanesbæ.
  • 26. október verður Borgarlínan á dagskrá ef allt gengur eftir.

     

Allir þessir viðburðir verða auglýstir þegar nær dregur, bæði á heimasíðu og með tölvupósti til félagsmanna. Þriðjudagsfyrirlestrum verður streymt eins og verið hefur ásamt því að félagsmenn geta komið í salinn í Hæðargarði 31 kl. 16:30. Fjöldi gesta í salnum hefur verið miðaður við 40 manns í samræmi við reglur um sóttvarnir. Skráning er nauðsynleg bæði til að mæta á fyrirlestra í hæðargarði og til að taka þátt í heimsóknum og gönguferðum.

Námskeiðið um skráningu gönguleiða í Wikiloc var fellt niður vegna ónógrar þátttöku en við áætlum að bjóða það aftur á vordögum.

Markmið U3A Reykjavík er að stuðla að virkni félagsmanna og fjölbreyttri fræðslu og það er von okkar að flestir félagsmenn finni eitthvað við sitt hæfi í starfinu nú sem áður.

Sjá nánar á vef samtakaana U3A.is

Með kveðju frá stjórn U3A

Skip to content