Fréttabréf í desember 2020

latum-ekki-covid-stela-jolunum-1200x630

Látum ekki Trölla stela jólunum

Nú í aðdraganda jóla þá eru samkomutakmarkirnar vegna Covid farnar að reyna verulega á úthaldið okkar. Kærkomnar fréttir af væntanlegum bóluefnum gegn veirunni hafa víða leitt til afslappaðri hegðunar gagnvart smitvörnum sem sjá má m.a. á fjölgun smita á Íslandi undanfarna daga.  Æsandi fréttir um „risa-afslætti í takmarkaðan tíma“ fær mörg okkar til slá þessu  öllu upp í kæruleysi og taka okkur stöðu í löngum biðröðum fyrir framan verslanir þar sem engin leið er að virða 2 metra regluna.

En einsog við höfum séð þá gefur Covid-veiran enga afslætti. Það þarf ekki mikið út af að bregða til að illa fari. Sættum okkur við að þessi jól og áramót verða að einhverju leyti öðru vísi en fyrri þó að þau þurfi ekki endilega að vera síðri. Okkur stendur svo margt til boða til að njóta um jólin sem við höfum kannski ekki mátt vera að fyrr. Í stað þess að þeytast á milli jólaboða getum við verið í náttfötunum langt fram á dag og lesið bækur, hlustað tónlist og horft á jólamyndir.

Svo þegar við förum loksins úr náttfötunum og erum búin að greiða okkur þá getum við kveikt á Zoom-inu eða Facetime og spjallað við ættingja og vini. Og ekki síst er svo hægt kveikja á tölvunni og leggjast yfir öll tækifærin sem okkur standa til boða á nýju ári og finna má m.a. í þessu fréttabréfi og á Vöruhúsi tækifæranna.

Það er mikilvægt að við springum ekki á limminu í aðdraganda jóla og gætum að okkur. Annars er hætt við að veiran steli þeim.

Stjórn Vöruhúss tækifæranna óskar ykkur öllum gleðilegra jóla.

Og koma svo! Hreyfa sig!

Ný vara, Hreyfispjöld, er komin á hillu í rekkanum Heilbrigðir lífshættir. Hreyfi­spjöldin eru „...ein­föld æfing­arspjöld sem auka styrk, þol, lið­leika og jafn­vægi“ einsog segir í vörulýsingunni Spjöldin, sem eru 50 talsins, eru í hentugri stærð með myndum og skýringum og henta bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Upphaflega voru þau hönnuð með eldra fólk í huga en henta öllum aldurshópum. Ekki þarf útbúnað þegar æft, en aðeins eigin líkamsþyngd.

Höfundar spjaldanna, Anna Björg Björnsdóttir og Gerður Jónsdóttir, eru mjög ánægðar með viðbrögð sem þær hafa fengið eins og að þetta sér frábær hugmynd og auðveld í notkun. Þær stöllur hafa stundað margskonar íþróttir eins og knattspyrnu, bardagaíþróttir og fimleika og eru með mastersgráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sjá nánar á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/hreyfispjold/

Lærðu að tala ensku án erfiðis

Nú þegar samkomutakmarkanir eru í gildi vegna Covid og ferðalög erlendis eru á bið þá getur þetta verið rétti tíminn til þess bæta talfærni sína í ensku. Pareto ehf., sem er viðurkennd fræðslustofnun, býður upp á námskeið í fjarnámi í talþjálfun á ensku sem kallast Enska án erfiðis.

Námskeiðið spannar þrjú stig skv. evrópska tungumálarammanum þ.e. A1, A2 og B1 og hentar því bæði þeim sem hafa frekar lítinn grunn en ekkert síður nemendum sem geta lesið og skrifað ensku en skortir talþjálfun. Lögð er áhersla á að nemandinn skilji talað mál, geti tjáð sig á afslappaðan og þægilegan hátt en jafnframt bætt framburð.

Sjá nánar á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/thjalfun-i-ensku-talmali-a-netinu/

Hverju breytir Covid 19 til framtíðar?

Það verður líf eftir Covid-19 faraldurinn en hvernig verður það og hvað mun breytast?  Svörin við þessum spurningum má finna í erindi sem Lucas van Wees, forseti European Accociation for People Managment (EAPM), hélt hjá félaginu Mannauði og Sigrún Kjartansdóttir framkvæmdastjóri þess segir frá í viðtali á vísir.is þann 17. nóvember s.l.

Helstu niðurstöður úr erindinu eru að fjarvinna muni aukast, vinnutími verði sveigjanlegri og vinnuumhverfi að störf muni breytast eða verða lögð niður og að ný og breytt störf komi í þeirra stað. Hin nýju störf munu krefjast nýrrar færni og hæfni. Þeir sem stjórna fyrirtækjum og mannauðsdeildum þurfa að vera vel vakandi yfir því hvernig starfsmönnum þeirra líður og hvernig þeir sem stjórnendur geti unnið betur með styrkleikum þeirra. Starfsmenn þurfa að skoða starf sitt og fjölskyldulíf upp á nýtt og huga vel að símenntun og  „...að tileinka sér nýjustu tækni og þá færni og þekkingu sem framtíðin kallar á.“

Í viðtalinu segir Sigrún segir að Wees telji sig vera af Baby Boomers kynslóðinni (fædd á árunum 1946-1964) sem nú megi kalla Baby Zoomers því í kjölfar Covid-19 faraldursins hafi þeir sem aðrir orðið að læra betur á kosti netsins.

Sjá nánar á:  Aðeins toppurinn á ísjakanum sjáanlegur í kjölfar Covid - Vísir (visir.is)

Á íslensku má alltaf finna svar

Nú getum við talað við snjallsímann okkar á íslensku með aðstoð Emblu

Embla er nýtt og spennandi app fyrir iPhone og Android snjallsíma. Þú getur talað við Emblu á íslensku, spurt hana spurninga og hún svarar um hæl. Hún skilur ýmsar algengar spurningar og svarar þeim eftir bestu getu. Með tíð og tíma – og kannski með þinni aðstoð – mun hún læra að svara fleiri tegundum spurninga.
Embla getur spáð fyrir um veðrið, svalað forvitni þinni um fólk sem hefur verið í fréttum og frætt þig um fyrirtæki, stofnanir og fyrirbæri. Þar að auki kann Embla nokkra brandara, en deila má um hversu góðir þeir eru.
Embla svarar spurningum á borð við: Hvernig er veðrið í Borgarnesi? Hvar er næsta stoppistöð? Hvenær kemur strætó númer 14 á Hlemm? Hvar er ég? og Hvað er langt í Melabúðina? Hún getur líka sagt þér hvað klukkan er, reiknað einföld stærðfræðidæmi og breytt upphæðum á milli gjaldmiðla.

Hægt er að sækja Emblu fyrir iOS í Apple App Store og fyrir Android í Google Play Store.
Fyrirtækið Miðeind ehf hefur hannað Emblu, sem er í stöðugri þróun.Hún byggir á íslensku máltæknivélinni Greyni. Miðeind vinnur að máltækni og gervigreind fyrir íslensku. Tæknin gerir kleift að vinna með íslenskan texta og talmál í tölvum, símum og öðrum tækjum. Meðal annars má nota hana til að vinna upplýsingar upp úr texta, lesa yfir stafsetningu og málfar, þýða texta milli íslensku og annarra tungumála, svara spurningum, búa til samantektir o.m.fl. Hugbúnaður Miðeindar er opinn og nýtist almenningi, atvinnulífi og rannsakendum.

Á tímum snjallvæðingar hefur íslenskan átt undir högg að sækja og þegar þróun tækninnar í daglegu lífi okkar leiðir til þess að við getum talað við tækin okkar er hætta á því að tungumál sem fáir tala verði undir í samkeppninni og að við verðum að nota ensku til að tölvan, eða ryksugan, skilji okkur þegar við skipum fyrir.  Máltækniáætlun stjórnvalda fyrir íslensku, 2018–2022, hefur það að markmiði að tryggja að hægt verði að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu. Miðeind tekur þátt í þessari fimm ára máltækniáætlun stjórnvalda og er aðili að sjálfseignarstofnuninni Almannarómi.

Nokkur skjáskot af svörum Emblu sem eru skrifuð á skjáinn um leið og hún segir frá.

Sjá nánar á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/embla/

U3A Online námskeið

Vöruhús tækifæranna býður nú upp á tengingu við U3A Online þar sem hægt er að sækja netnámskeið á ensku af margvíslegum toga eins og um heimsmálin, skriftir og jafnvel lífstíl. Námskeiðin, sem taka einkum mið af eldra fólki, eru próflaus og verði stillt í hóf.

Boðið er bæði upp á sjálfsnám og nám undir handleiðslu kennara. Hægt er að stunda námið hvar og hvenær sem er og allt sem þarf er tölva, spjaldtölva eða sími og nettenging. Verði er stillt í hóf. Meira um U3A Online er að finna í vöruhúsinu undir https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/u3a-online/.

Rauði krossinn leitar eftir sjálfboðaliðum til að tala

Viltu vera með fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu „Tölum saman“ sem er verkefni á höfuðborgarsvæðinu fyrir flóttafólk sem vill æfa sig í að tala íslensku.

Flestir einstaklingar sem hér hljóta alþjóðlega vernd vilja bæta íslenskukunnáttu sína vegna þess að hún gerir þeim kleift að byggja upp sterk og varanleg tengsl við Íslendinga. Kunnáttan veitir þeim betra aðgengi að íslensku kerfi, að íslenskum vinnumarkaði og greiðir leið fólks til að sækja sér frekari menntun. Þú getur aðstoðað þessa einstaklinga með því að verða tungumálavinur.

Tungumálavinir eru sjálfboðaliðar í verkefninu Tölum saman. Sjálfboðaliðar hitta einstaklinga eða pör sem nýlega hafa hlotið alþjóðlega vernd með það að markmiði að æfa íslensku. Hægt er að notast við óformlegt spjall eða aðrar æfingar sem henta hverju sinni. Það má til dæmis leggja áherslu á orðaforða sem tilheyrir ákveðinni iðn eða menntun eða orðaforða sem auðveldar samskipti foreldra við skólakerfið. Sjálfboðaliðar geta einnig stutt við þau sem eru í formlegu íslenskunámi með því að aðstoða við heimanám. Þetta eru bara hugmyndir að þeim fjöldamörgu leiðum sem hægt er að fara þegar æfa á íslensku.

Hlutverk sjálfboðaliðans er ekki að vera kennari. Sjálfboðaliðarnir eru venjulegir Íslendingar, eins og þú, sem hafa áhuga á að deila orðaforða íslenskrar tungu með öðrum. Hægt er að hittast á bókasafni eða á heimili viðkomandi og gert er ráð fyrir að verkefnið vari í 6 mánuði. Hist er hverja viku, klukkutíma í senn.

Hvaða kröfur gerum við til tungumálavina?
- Að þú sért 20 ára eða eldri
- Að þú hafir brennandi áhuga fyrir því að deila tungumáli þínu með öðrum
- Að þú skiljir og deilir mannúðlegum gildum okkar
- Að þú hafir eina klukkustund lausa á viku yfir 6 mánaða tímabil

Hvað getum við boðið þér?
- Sértæka þjálfun til að koma þér af stað
- Opin aðgang að öllum námskeiðum Rauða krossins, einnig skyndihjálparnámskeiðum
- Skemmtilega og þroskandi reynslu sem sjálfboðaliði
- Tækifærið til að hitta fólk sem er svipað þenkjandi
- Starfsreynslu til að setja á ferilskrá þína

Vilt þú gerast tungumálavinur? Sendu inn umsókn hér eða sendu okkur póst á immigrantsupport@redcross.is

Allt starf Rauða krossins á Íslands byggir á grunni sjálfboðins starfs. Með því að taka þátt í starfinu getur þú veitt fjölda manns von um betra líf. Rauði krossinn leggur áherslu á málefni innflytjenda í starfi sínu og lýtur starfið bæði að því að aðstoða innflytjendur með sérstökum verkefnum sem aðstoða þau við að fóta sig betur í íslensku samfélagi og að því að fá innflytjendur til liðs við Rauða krossinn og taka virkan þátt í starfi félagsins.

Saga guðanna

Tækifærin leynast  víða

Vöruhús tækifæranna er íslenskt markaðstorg í þeim skilningi að vera vettvangur sem býður íslenskum notendum að skoða og nýta tækifæri til þess að auðga og njóta lífsins þriðja æviskeiðinu. Í tæknivæddum heimi með snjalltækni og rafrænum samskiptamöguleikum verður markaðsframboð tækifæranna eðlilega mun víðtækara og framboð tækifæra á erlendum vettvangi jafnnýtanlegt og væri það í boði á heimavettvangi. Vöruhús tækifæranna mun því ekki heykjast á að bjóða tækifæri erlendis frá sem við teljum geta átt brýnt erindi til íslenskra notenda.

Þegar hugmyndin að Vöruhúsi tækifæranna var þróuð í evrópsku samstarfi með styrk frá Evrópusambandinu var jafnframt evrópskt vöruhús einnig þróað undir nafninu , „Warehouse of Opportunities“. Við bjóðum ykkur að heimsækja evrópska vöruhúsið þar sem finna má fjölmörg tækifæri og upplýsingar sem gætu nýst íslenskum notendum. Evrópska vöruhúsið opnast á slóðinni

WarehouseOfOpportunities.eu

Betur sjá fleiri augu en bara stjórnar!

Við í stjórn Vöruhúss tækifæranna, Hjördís, Guðrún Barbara, Jón Ragnar, Hans  Kristján, Hanna og Ingibjörg Rannveig, viljum leita samstarfs við ykkur um áframhaldandi þróun Vöruhúss tækifæranna svo það  þjóni sem best fólki á þriðja æviskeiðinu.

Samstarfið felst í því að fá til liðs við okkur nokkra aðila sem funda með stjórninni öðru hverju og ræða tillögur og ábendingar um tækifæri bæta ætti við í Vöruhúsið og möguleg umfjöllunarefni í mánaðarlegu fréttabréfi Vöruhússins.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í þessu samstarfi biðjum við þig um að senda okkur línu á netfangið vt@vöruhús-tækifæranna.is Eins erum við þakklát ef þú lætur okkur vita á sama netfang hvaða tækifæri kæmu þér best að gagni við að nýta árin eftir fimmtugt til fullnustu.

Skip to content