Fréttabréf í janúar 2023

aramotakveðja-1200x630

Áramótakveðja

Vöruhús tækifæranna óskar öllum vinum og velunnurum gleðilegs og gæfuríks nýs árs og þakkar samfylgdina á liðnu ári. Megi árið 2023 verða ykkur ár tækifæranna.

Með áramótakveðju frá stjórn Vöruhússins
Hjördís, Birna, Hans Kristján, Ingibjörg Rannveig, Jón Ragnar og Tryggvi

Lífið eftir vinnu

Þjóðin er að eldast og gangi spár Hagstofunnar eftir verða 20% landsmanna eldri en 65 ára eftir 15 ár. Árið 2064 stefnir í að fjórðungur Íslendinga verði  eldri en 65 ára. Nú er þetta hlutfall 14%.  Þetta kallar á breytt viðhorf í garð eldra fólks og endurskoða þarf alla þjónustu við þennan aldurshóp.

Guðrún Hálfdánardóttir dagskrágerðarkona og blaðamaður hefur gert mjög vandaða og fræðandi þáttaröð um hvernig það er að eldast á Íslandi.

Þættirnir eru sjö talsins og ákveðið málefni tekið fyrir í hverjum þætti.

Í fyrsta þættinum er fjallað um þessa mannfjöldaþróun og sveigjanleg starfslok.
Í öðrum þætti er mikilvægi lýðheilsu skoðað, til að mynda langir biðlistar eftir liðskiptum sem skerða lífsgæði fólks verulega. Mikill meirihluti þeirra sem bíða eftir liðskiptum á mjöðm og hné eru 65 ára og eldri. Næring skiptir miklu máli og hátt hlutfall aldraðra sem leggst inn á sjúkrahús er vannærður.
Fjármálin skipta miklu máli á efri árum og íslenska lífeyriskerfið fær háa einkunn í alþjóðlegum samanburði. Aftur á móti eru skerðingar á ellilífeyri sem ríkið greiðir út mun meiri hér en annars staðar. Fjármál eru umfjöllunarefni þriðja þáttarins.
Í fjórða, fimmta og sjötta þættinum eru búsetumál eldra fólks rædd.  Flestir vilja búa heima sem lengst og til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að auka þjónustu heim til fólks. Að þeir sem þurfa á aðstoð að halda fái hana heim. Eins að gefa fólki færi á að sækja þjónustu í dagdvalir enda slík úrræði miklu ódýrari en búseta á hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum.
Gera má ráð fyrir að milli fimm og sex þúsund séu nú með heilabilun á Íslandi og miðað við fjölgun eldra fólks má gera ráð fyrir að á milli 10 og 11 þúsund verði með heilabilun á Íslandi eftir 30 ár.  Til þess að bregðast við þarf að bregðast við þarf að bjóða upp á góða dagþjálfun og þar hafa Alzheimer-samtökin brugðist við en til þess að fá þjónustu á vegum hins opinbera þarf greining að liggja fyrir og þar eru langir biðlistar. Ef fólk er með virkan fíknisjúkdóm vandast málið enn frekar því þá er ekki hægt að fara í slíka greiningu. Engin þjónusta er í boði fyrir þennan hóp á sama tíma og neysla er að aukast hjá eldra fólki.

Miðað við höfðatölu eru fleiri hjúkrunarrými á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Samt situr fólk fast á sérgreina-sjúkrahúsum þar sem ekki finnst pláss fyrir það á hjúkrunarheimilum.  Þjónusta við eldra fólk er líka ólík eftir sveitarfélögum og hafa læknar jafnvel þurft að ráðleggja fólki að flytja til þess að það fái þjónustu heim.

En það er ekki bara nóg að fá að lifa með reisn því fólk vill líka fá að deyja með reisn. Að fólk geti ákveðið hvernig lífslokameðferð það fær. Í lokaþættinum er fjallað um lífslok og meðal annars um sorgina og makamissi.


Guðrún Hálfdánardóttir dagskrárgerðarkona og blaðamaður

Hér er hægt að hlusta á alla þættina:
https://www.ruv.is/utvarp/spila/lifid-eftir-vinnu/34006/a49pr7

Betri hreyfigeta og minni verkir með æfingum fyrir bandvef

Slakað á eftir árangursríka æfingu undir þolinmóðu eftirliti.

Með hækkandi aldri aukast líkurnar á að við þurfum að takast á við einhverskonar stoðkerfisvanda þó að það eigi ekki einungis við um eldra fólk. Stoðkerfið er það kerfi líkamans sem gerir okkur kleift að vera uppistandandi og hreyfa okkur. Stoðkerfisverkir eru algengir og geta orsakast af mörgum þáttum. Algengast er að fólk finni fyrir stoðkerfisverkjum í baki og liðum en einnig í hálsi og höfði eða í fótum og höndum. Undanfarin ár hafa stoðverkir verið töluvert rannsakaðir og skilningur á mikilvægi bandvefs líkamans aukist.

Hekla Guðmundsdóttir eigandi og stofnandi Body Reroll/Bandvefslosun skrifar hér um mikilvægi bandvefsins fyrir stoðkerfi líkamans, sína eigin reynslu eftir slys og  þróun æfingakerfis sem hentar öllum, ekki síst eldra fólki.

„Árið 2003 hófst vegferð  mín til betri líðan. Ég var að glíma við afleiðingar af bílslysi og þurfti að hætta að vinna.
 
 Ég hafði ekki  hugsað mér að vinna við heilsurækt en slysið og afleiðingar  þess fékk mig til að hugsa betur um hvað við getum gert til að fyrirbyggja stoðkerfisverki, minnka þá verki sem fyrir eru og auka alla almenna vellíðan.
 
Loks árið 2014 fór ég svo að kynnast æfingum með nuddboltum og fann hversu góð áhrif þær æfingar höfðu á mig. Í framhaldi af því langaði mig að fræðast dýpra um hvers vegna þetta virkar svona vel. Það leiddi mig síðan á slóðir bandvefs kerfisins.
 
Flestir vita að líkaminn er samsettur úr vöðvum, beinum og taugum en færri vita um hið merkilega kerfi sem bandvefurinn er.  Bandvefskerfið er kerfi sem ekki var byrjað að rannsaka að ráði fyrr en upp úr 1960. Fyrir þann tíma var bandvefurinn talinn hafa það eina hlutverk að vera nokkurs konar  pökkunarefni utan um líffærin sambærilegt plastinu sem ver sendingar fyrir hnjaski.  Í dag vitum við að bandvefskerfið gegnir miklu stærra hlutverki en það, því þetta er kerfi sem tengir allt saman í líkamanum og er í raun límið sem heldur okkur saman. 
 
Bandvefur er stoðvefur sem tengir saman mismunandi vefi og er einnig milliliður í flutningi næringarefna og taugaboða. Ef rennsli milli laga bandvefs minnkar verður vefurinn þurr og stífur. Algengar afleiðingar þess eru síðan bakverkir, höfuðverkir, skert hreyfigeta og aðrir stoðkerfisverkir.
 
Það er því til mikils að vinna að tryggja að bandvefurinn þorni ekki upp. Mikilvægt er að drekka nægan vökva, eins og vatnið okkar góða, en með því er hins vegar eingöngu hálf sagan sögð. Til viðbótar verðum við nefnilega að ná að koma vökvanum inn í vefjakerfið. Það gerum við með samblandi af teygjum, hreyfingu og nuddi.
 
Meðfram því sem ég lærði um bandvefs kerfið, hafði ég þróað æfingakerfi sem virkaði vel. Ég vildi að það gagnaðist sem flestum og því var mikilvægt að það væri þannig úr garði gert að sem flestir gætu tekið þátt. 
 
Kerfið byggir á einföldum æfingum sem henta öllum hvort sem fólk hreyfir sig mikið eða lítið. Notaðir eru mismunandi nudd boltar og hægt er að framkvæma æfingarnar standandi upp við vegg, sitjandi á stól eða liggjandi á dýnu.

Mikil áhersla er lögð á að æfingarnar séu gerðar hægt og rólega og að hlustað sé á boðin sem taugakerfið sendir svo ekki sé farið fram úr getu hvers og eins.
 
Ég er þakklát fyrir hvað þessar æfingar hafa hjálpað mér mikið finnst það forréttindi að geta hjálpað öðrum í þeirra vegferð.
 
Fyrir þá sem hafa áhuga verð ég með kynningu miðvikudaginn 4.janúar kl. 13:30 til 14:30 í húsnæði Dans og Jóga. Skútuvogi 13a, 2.hæð til vinstri.

Þetta er beint fyrir aftan litlu Bónus verslunina í Skútuvoginum. 
 
Ef þig langar að koma en þessi tímasetning hentar ekki sendu þá tölvupóst á netfangið hekla@bandvefslosun.is

Hekla Guðmundsdóttir

Hreyfing í seinni hálfleik

Kveikjan að þessum skrifum er umfjöllun í fjölmiðlun fyrir skömmu  um framtak íþróttafélagsins Fylkis að bjóða 65 ára og eldri upp á eróbik. Vaknaði við það forvitni um hvort að fleiri íþróttafélög væru með hreyfingu fyrir eldra fólk og reyndist það rétt. Hér á eftir er örstutt kynning á starfinu hjá Fylki, hjá nokkrum öðrum íþróttafélögum og hjá tveimur félögum eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu.

Aldrei er víst of oft sagt hvað hreyfing skiptir miklu máli fyrir heilbrigði einstaklingsins sama á hvaða aldri hann er og aldrei er of seint að byrja á að hreyfa sig hvort sem er eróbik, að ganga, synda, hjóla, fara í ræktina, dansa eða eitthvað annað. Og eins og segir á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins  „Með daglegri hreyfingu höldum við okkur styrkum og liprum lengur, bætum heilsuna og viðhöldum betur færninni til að lifa sjálfstæðu lífi.“

Fimleikadeild Fylkis býður upp á æfingar, eróbikk, fyrir eldra fólk  í fimleikahúsi Fylkis á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10:00-11:00 og 11:00-12:00. Nánari lýsingu á æfingunum og kostnaði er að finna í fréttabréfi sem gefið var út 6. nóvember 2022,

Hjá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur, KR, starfar Kraftur í KR sem er með hreyfingu, styrktaræfingar, fyrir eldra fólk í samstarfi við Samfélagshúsið á Aflagranda 40 tvisvar í viku, á mánudögum kl. 10:30 og föstudögum kl. 10:30. Íþróttafræðingur frá Sóltún heima sér um hreyfinguna og hentar hún bæði þeim sem geta æft standandi og sitjandi. Hreyfingin er fólki að kostnaðarlausu. KR er sagður frumkvöðull að hreyfingu fyrir eldri borgara hjá íþróttafélögunum með styrk frá Reykjavíkurborg.

Íþróttafélag Reykjavíkur, ÍR, er með námskeið í hreyfingu fyrir eldra fólk á mánudögum og fimmtudögum kl. 10-11 í ÍR heimilinu að Skógaseli 12 þeim að kostnaðarlausu.

Íþróttafélagið Víkingur er með hreyfingu, leikfimi, tvisvar í viku í Víkinni fyrir eldra fólk þar sem það hittist tvisvar í viku kl 10:30 á mánudögum og miðvikudögum yfir vetrarmánuðina og er hreyfingin endurgjaldslaus.

Knattspyrnufélagið Þróttur er með göngufótbolta sem er ætlaður eldri iðkendum og er hugsaður til að hvetja eldri borgara og aðra til þess að stunda heilbrigða hreyfingu í góðum félagsskap. Þessi íþrótt hefur notið töluverðra vinsælda í Englandi og á Norðurlöndunum.

Glímufélagið Ármann býður upp á æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum kl 11:00-12:00 og svo kaffi á eftir. Boðið er upp á alhliða æfingar og er æft er inni í fimleikasal Ármanns. Um 30 - 40 manna kjarni sækir æfingarnar og er það þeim að kostnaðarlausu og því bara að mæta og prófa. Þjálfarar eru tveir og eru þeir báðir íþróttafræðingar.

Knattspyrnufélagið Fram býður upp þjálfun fyrir einstaklinga á aldrinum 67 ára og eldri þar sem lögð er áhersla á að þjálfa upp þol, vöðvastyrk, liðleika, jafnvægi, samhæfingu og beinheilsu. Hver og einn fer á sínum hraða og byggir upp þjálfunarþætti sem aðstoð þjálfara sem er íþróttafræðingur. Þjálfunin fer fram í íþróttamiðstöð Fram í lokuðum æfingasal á mánudögum og miðvikudögum kl. 9:00 en farið út þegar vel viðrar vor og haust. Allir geta mætt og er kostnaður fyrir að taka þátt er  kr. 3000 fyrir mánuðinn janúar til maí.

Félag eldri borgar í Reykjavík og nágrenni, FEB, býður upp á hreyfingu eins og Zumba gold og námskeiðið Sterk og liðug sem kosta um kr. 20.000 hvort  fyrir átta vikur. Einnig er starfræktur gönguhópur hjá félaginu og dansleikir haldnir einu sinni í viku.

Félag eldri borgara í Garðabæ skipuleggur íþróttastarf fyrir eldri borgara í Garðabæ og er starfið styrkt af Garðabæ og félaginu . Starfið felst í Boccia og QJ-Gong, sem er ókeypis, og ss.s vatnsleikfimi og leikfimi sem kosta kr. 2.500 á mánuði. Greitt fyrir hvern mánuð í senn.

Forvitnilegt væri að taka saman yfirlit eins og hér að ofan um hvar eru starfræktir danstímar eða dansnámskeið fyrir eldra fólk því gleðin finns í dansinum. Má hér minna á hugarsmíðarnar okkar hana Stellu og Úraníus sem rokkuðu af fullum krafti komin vel á sjötugsaldurinn.
https://voruhus-taekifaeranna.is/folkid-okkar/325139/ 

Þriðja æviskeiðið - þekktu sjálfa(n) þig

Námskeið í Að8sig í Druskininkai, Litháen vorið 2018. Helga Tryggvadóttir situr fremst fyrir miðju.

Hjá samtökunum U3A Reykjavík eru þau sem eru orðin 50 ára og eldri talin vera að nálgast eða komin á þriðja æviskeiðið. Fyrsta æviskeiðið er æskan og skólaárin, annað æviskeiðið starfið og barnauppeldi og þriðja æviskeiðið tíminn til þess að ná persónulegum markmiðum, til aukinnar lífsfyllingar og/eða til þess að finna nýjar leiðir til undirbúnings fyrir virkt og ánægjulegt æviskeið á efri árum og eftirlaunatíminn nálgast. Fólk á þessu æviskeiði spyr sig spurninga eins og hvað þau vilji fá út úr lífinu á árunum og áratugunum eftir fimmtugt, eiga þau drauma sem þau langar að rætist, vilja þau breyta til, læra eitthvað nýtt eða jafnvel hefja nýjan starfsferil?

Áður en spurningunum er svarað þarf að koma til sjálfsþekking sem getur m.a. verið byggð á fyrri reynslu, áhuga, hæfni eða gildum. Hugmynd að því hvernig hægt væri að öðlast slíka sjálfsþekkingu kviknaði í Erasmus+ verkefninu BALL, sem samtökin U3A Reykjavík áttu frumkvæði að og unnu ásamt ráðgjafafyrirtækinu Evris í Reykjavík og U3A samstarfsaðilum í Alicante á Spáni og Lublin í Póllandi. Hugmyndin var að koma til móts við fólk á þriðja æviskeiðinu með aðstoð til þess að öðlast sjálfsþekkingu og geta metið styrkleika sína, ástríður og langanir. Hugmyndin var svo útfærð í öðru Erasmus+ verkefni samtakanna, Catch the BALL, með því að hanna námskeið sem á ensku var nefnt Academy of Opportunities, og var nefnt Að8sig á íslensku. Samstarfsaðilar U3A Reykjavík í Catch the BALL voru Kaunas STP, Vísinda- og tæknigarður Kaunas, Litháen, og MBM, þjálfunar- og þróunarmiðstöð í Liverpool, Bretlandi.

Grunnur námskeiðsins byggðist á handbókinni, Manual for Trainers and Facilitators, sem þróuð var í Catch the BALL verkefninu með leiðbeiningum um hvernig mætti sem best aðstoða fólk á þriðja æviskeiðinu að öðlast sjálfsþekkingu. Markmið handbókarinnar er að auka færni þeirra sem vinna með fólki yfir fimmtugt, svo sem þjálfara, starfsmanna á mannauðssviði, ráðgjafa og annarra sem eru virkir í fullorðinsfræðslu, þjálfun og ráðgjöf. Bókina má lesa og hlaða niður á slóðinni
http://catchtheball.eu/wp-content/uploads/2017/12/BALL_Manual-for-Trainers-and-Facilitators-1.pdf

Handbókin hefur m.a. undanfarin ár verið notuð á námskeiðinu Að8sig, sem fyrirtækið Framvegis, miðstöð símenntunar, fyrir stéttarfélagið Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, og er ætlað að styðja þá sem finna hjá sér þörf eða löngun til að vega og meta styrkleika sína og langanir. Spurningum er varpað fram eins og hvort staðið sé á krossgötum í lífinu eða velt fyrir sér hvaða möguleika framtíðin ber í skauti sér. Helga Tryggvadóttir, náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri, hefur séð um námskeiðin en hún tók þátt í þróun námskeiðsins i Catch the BALL.

Á ferð og flugi á þriðja æviskeiðinu

Birna Halldórsdóttir að segja frá styttum í miðborg Reykjavíkur, hér við styttu að Ingibjörgu H. Bjarnason við Alþingishúsið.

Viðtöl við tvo stjórnarmenn Vöruhúss tækifæranna, þau Birnu Halldórsdóttur og Hans Kristján Guðmundsson hafa birst á vef eSilver Tour. Til upplýsinga er eSilver Tour samstarfsverkefni fimm Evrópulanda, Frakklands, Spánar, Portugals, Grikklands og Litháens. Fyrrum samstarfsfólk U3A Reykjavík í Catch the BALL verkefninu, STP Kaunas, sem áttu m.a. stóran þátt í þróun Vöruhúss tækifæranna eru þar þátttakendur. Tilgangur eSilver Tour verkefnisins er að bæta gæði ferðaþjónustu sem er í boði fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu, sjá https://www.esilvertour.eu/  Það er gert með því að þróa nýstárlegt námslíkan og námskeið sem er sérstaklega fyrir starfsfólk stofnana og félagasamtaka sem vilja búa til ferðir fyrir eldra fólk og einnig fyrir fagfólk í ferðaiðnaði sem vill sérhæfa sig í ferðalögum fyrir þriðja æviskeiðið. Verkefnið varð til vegna breyttrar aldurssamsetningar íbúa í Evrópu þar sem eldra fólk er sífellt stækkandi hópur og ef það getur notið frítíma sinn til þess að ferðast þá er það einnig markhópur fyrir þá sem skipuleggja ferðir fyrir þennan aldurshóp.

Birna á sér fjölbreyttan starfsferil og starfaði m.a. fyrir Rauða krossinn í 25 ár þar sem hún vann við að dreifa matvælum og öðrum nauðsynjum í á illa stöddum  svæðum í Afríku og á náttúruhamfarasvæðum eins og í Indónesíu eftir flóðbylgjuna miklu (tsunami) árið 2004 og á Haítí eftir jarðskjálftann þar 2010. Við 65 ára aldur varð Birna að hætta starfi eins og reglur kváðu á um og má segja að hún hafi snúið sér í hring því hún  gerðist leiðsögumaður og hefur starfað við það síðan. Þegar hún var 70 ára bætti hún um betur og tók meirapróf í akstri. Viðskiptamenn hennar eru einkum eldra fólk og unglingar eins og skólahópar þar sem nemendur eru á aldri við barnabörn hennar. Birna á eitt gott ráð fyrir eldra fólk sem stendur á krossgötum eftir að formlegu starfi er hætt „ Við verðum að njóta lífsins með öllum litum þess miklu meira og hika ekki við að gera það sem okkur finnst gaman að gera þegar tækifæri gefst.“ Viðtalið er að finna á https://www.esilvertour.eu/news-and-events/news-20.html

Í viðtali við Hans Kristján segir hann m.a. að ferðir með eldri leiðsögumanni  séu að verða trend á Íslandi og að U3A Reykjavík standi einnig að slíkum ferðum, þar á meðal með  þátttöku í Evrópska verkefninu HeiM, Heritage in Motion, ásamt samstarfsaðilum í borgunum Alicante, Varsjá og Zagreb. Samtals voru hannaðar tuttugu og ein leið  í  verkefninu með því að nota Wikiloc app í snjallsíma við að kortleggja leiðirnar sem eru  öllum opnar. Í viðtalinu er einnig rætt við Teodoru Dilkienė, deildarforseta ferðamála hjá U3A í Vilnius sem hefur oft farið með ferðahópa frá Litháen til Íslands nú síðast í sumar sem leið. Sjá má viðtalið í heild sinni á https://www.esilvertour.eu/news-and-events/news-16.html

Óperusýningar Metropolitan hjá Sambíóunum

Metropolitan óperan í New York

Á Íslandi er að finna ótal óperuunnendur og við eigum á að skipa einvalaliði óperusöngvara í heimsklassa sem hafa heiminn undir í framgöngu sinni á óperufjölunum. Allt frá því að fyrsta íslenska óperusýningin á Rigoletto var flutt árið 1951 á sviði nýstofnaðs Þjóðleikhúss, hafa íslenskum óperuunnendum boðist fjölmörg tækifæri til að njóta óperusýninga á íslensku sviði með íslenskum flytjendum. En tækifærin eru ekki mörg og oft líður langt á milli nýrra sýninga. Margir eiga þó þess kost að fara utan til óperuhúsa austan hafs og vestan og njóta þar magnaðs flutnings á verkum eldri meistara eins og Verdi og Wagner eða yngri snillinga eins og Philips Glass, oft með íslenskum meistarasöngvurum á erlendu sviði.

Það hefur því verið afar ánægjulegt að geta notið beinna útsendinga frá sýningum Metropolitan óperunnar í New York í Sambíóunum í Kringlunni í Reykjavík eins og hægt var fyrir Covid faraldurinn. Nú hafa Sambíóin boðað að slíkar sýningar verði aftur á boðstólum á komandi síðvetri og vori. Svo vitnað sé í vefsíður Sambíóanna:

„Metropolitan óperusýningarnar eru að byrja aftur eftir rúmt tveggja ára hlé. Sýningar féllu niður árin 2020 og 2021 vegna kórónuveirufaraldursins, en munu hefjast aftur í janúar í Sambíóunum Kringlunni sem opna í desember eftir eftir að hafa gengist undir glæsilegar breytingar. Metropolitan óperurnar hafa verið sýndar í beinni útsendingu á Íslandi síðan 2010 og íslensku söngvararnir Kristinn Sigmundsson og Dísella Lárusdóttir hafa stigið á svið í þeim. Beinu útsendingarnar frá Metropolitan óperunum eru sýndar í 50 löndum um allan heim og Ísland er loksins komið inn aftur. Óperurnar eru sýndar í 940 bíóhúsum í Bandaríkjunum og 800 bíóhúsum utan Bandaríkjanna, sem eru 1.740 bíóhús samanlagt á heimsvísu“ 

Yfirlit yfir allar tíu sýningar vorsins er að finna hér á vef Sambíóanna, og er sú fyrsta óperan Fedora, eftir Umberto Giordano, sem verður sýnd 14. janúar næstkomandi kl 17:55. Í kjölfarið fylgir svo fjöldi meistaraverka, m.a eftir Wagner, Cherubini, Verdi og Strauss og endar svo á Töfraflautu Mozarts  3. júní. Ef smellt er á mynd einhverrar af þessum óperum birtast upplýsingar um þá óperu, en einnig tengill á „Season Trailer“, stiklu sem á fjórum mínútum gefur innsýn í allar óperusýningarnar.

Óperan Fedora var frumsýnd í Mílanó árið 1896. Hún er byggð á samnefndu leikriti franska rithöfundarins Victorien Sardou sem var frumsýnt í París 1882 með hina frægu leikkonu, Sarah Berhardt í titilhlutverkinu, Fedoru prinsessu. Sarah bar mjúkan flókahatt í hlutverkinu sem svo komst í tísku hjá Parísardömum og hafa slíkir hattar síðan verið kallaðir fedórur. Titilhluterkið í fyrstu frumsýningu óperunnar flutti söngkonan Gemma Bellincioni og á móti henni söng Enrico Caruso hitt aðalhlutverkið, greifann  Loris Ipanov. Óperan hlaut mikið lof og var á næstu árum sett upp í Vínarborg og París og Metropolitan í New York setti hana á svið þegar árið 1906 með Caruso í hlutverki Ipanovs.

Vöruhús tækifæranna vekur athygli ykkar á þessu einstæða tækifæri til að njóta flutnings meistaraverka óperusögunnar í beinum útsendingum frá einu af frægustu óperusviðum heimsins. Góða skemmtun!

Heimildir: Vefur Sambíóanna og Wikipedia

Sviðsmynd  úr óperunni Fedora eftir Umberto Giordano
í uppsetningu Metropolitan

Viðburðir U3A Reykjavík í janúar 2023

F.v.: Árni Árnason, Helgi Björnsson, Inga Björk Ingadóttir, Ólöf Guðný Geirsdóttir, Páll Melsted, Steinunn Hilma Ólafsdóttir, Unnur Þorsteinsdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Janúar verður viðburðaríkur hjá U3A Reykjavík. Auk fjölbreyttra fyrirlestra á þriðjudögum verður á dagskrá málþing um loftslagsmál að frumkvæði umhverfishóps og einnig heimsókn í Íslenska erfðagreiningu undir lok mánaðarins. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í dagskránni:

  • 10. janúar fjallar Inga Björk Ingadóttir, tónlistarmeðferðarfræðingur um áhrif tónlistar á fólk.
  • 14. janúar verður málþing um loftslagsmál þar sem Helgi Björnsson, jöklafræðingur fjallar um loftslag og þróun jökla, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur ræðir um vistkerfi á landi og Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sjávarlíffræðingur flytur erindi sem nefnist: Undir yfirborðið - lífríki sjávar.
  • 17. janúar er Ólöf Guðný Geirsdóttir, næringarfræðingur með erindi sem hún nefnir: Matur & hreyfing, lífsins elexír.
  • 24. janúar kynnir Árni Árnason bók sína: Ingólfur Arnarson: Arfleifð hans og Íslandssagan í nýju ljósi.
  • 26. janúar verður farið í heimsókn í Íslenska erfðagreiningu þar sem Páll Melsted, deildarstjóri tekur á móti okkur.
  • 31. janúar kemur Unnur Þorsteinsdóttir, erfðafræðingur og segir frá rannsóknum sínum en hún var nýlega útnefnd sem fimmta áhrifamesta vísindakona í heiminum.

Allir viðburðir verða auglýstir með góðum fyrirvara á heimasíðunni og í tölvupósti til félagsmanna að venju. Fylgist með og takið þátt er hvatningin til allra félagsmanna.

Skip to content