Fréttabréf í maí 2024

Skautun kosninga 1200x630

Skautun forsetakosninga

Í nútíma samfélögum hefur pólitísk skautun mikil áhrif á kosningar, stjórnarhætti og opinbera umræðu. Þetta fyrirbæri hefur náð nýjum hæðum í mörgum vestrænum lýðræðiríkjum. Hér á landi höfum við fylgst með í forundran hvernig kosningabaráttur í lýðræðisríkinu Bandaríkjunum hafa breyst úr  sæmilega málefnalegum rökræðum yfir í subbulegan leðjuslag.  Það sem helst hefur skapað og magnað upp þessa skautun eru óvandaðar fjölmiðlaumfjallanir sem síðan rata inn í bergmálshólf samfélagsmiðla.

Í undanförnum forsetakosningum í Bandaríkjunum höfum við orðið vitni að yfirgengilegri hlutdrægni  umfjöllun miðla einsog FOX News um frambjóðendur til æðsta embættis þjóðarinnar. Ekkert hefur verið fyrir neðan virðingu miðilsins til að styðja „sinn kandídat“ og sverta mótframbjóðendur.  Afleiðingar svona kosningabaráttu hafa dregið  úr trausti almennings á lýðræðislegum gildum, á kosningum og, í vaxandi mæli, vísindalegum staðreyndum.

Forsetakosningarnar á Íslandi eru þessa stundina helsta umfjöllunarefni fjölmiðla fyrir utan eldsumbrotin á Reykjanesi. Okkar kosningakerfi krefst þess ekki að kosinn forseti sé með meirihluta atkvæða að baki sér. Þvert á móti getur þetta sameiningartákn þjóðarinnar, forseti lýðveldisins, náð kjöri með tiltölulega litlu fylgi.

Í Bandaríkjunum olli mikil skautun í aðdraganda forsetakosninga á milli Biden og Trump árið 2020 því að stuðningsmenn Trump gátu engan veginn sætt sig við lýðræðislegar niðurstöðu kosninganna og réðust á sitt eigið þing. Nær fjórum árum síðar er þessi sundrung enn til staðar í Bandaríkjunum og óljóst hvort, og þá hvernig, hægt verði að sameina þjóðina.

Hér á landi er baráttan fyrir forsetakosningarnar 1. júní  rétt að hefjast. Þó að flestir þeir sem fjalla um kosningarnar geri það á faglegan og óhlutdrægan  hátt glittir öðru hverju í  óvönduð  efnistök sem virðast hafa það eitt að markmiði að níða niður tiltekna frambjóðendur og hampa öðrum.

Menn ættu að hafa í huga að svona aðfarir að frambjóðendum geta snúist upp í andhverfu sína.

Árið 1996 bauð Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, sig fram til forseta. Ég bjó erlendis á þessum tíma og  þá var ekki jafn auðvelt að fylgjast með fréttum á Íslandi eins og í dag. Helsta fréttaveita okkar hjóna var Mogginn sem barst okkur nokkuð reglulega með gestum . Ég var búin að velja minn frambjóðanda og  það var ekki Ólafur Ragnar. Það sem fékk mig hins vegar til að skipta um skoðun voru mjög svo rætnar heilsíðuauglýsingar andstæðinga Ólaf Ragnars sem birtust í Morgunblaðinu. Það varð til þess að þegar ég mætti í sendiráðið til að kjósa forseta valdi ég Ólaf Ragnar. Ekki af því að ég hefði skyndilega fallið fyrir Ólafi Ragnari heldur af því að ég varð að nota mitt atkvæði til mótmæla þessari ógeðfelldri aðferðarfræði og framgangi andstæðinga Ólafs Ragnars.

Við eigum að velja okkur forseta á forsendum verðleika þeirra sjálfra en ekki á forsendum neikvæðni gagnvart mótherjum. Munum að hver þessara frambjóðenda gæti orðið næsti forseti okkar. Þá verðum við að sameinast að baki þeim kandídat hvað sem einhverjum fjölmiðlamönnum finnst persónulega um forsetaframbjóðandann.

Gleðilegar kosningar

Hjördís Hendriksdóttir

Heiðursmerki lífsins

Reglulega horfi ég á sjálfan mig í spegli. Oftast er það á morgnana þegar ég greiði mér og raka mig. Einnig meðan ég bursta tennurnar. Rafmagnstannburstinn minn gefur mér tvær mínútur til verksins. Á meðan þarf ég að hafa augun einhvers staðar og einfaldast er að horfa á sjálfan mig þar sem ég stend við baðvaskinn fyrir framan risastóra baðherbergisspegilinn.

Maðurinn sem blasir við mér er bara allra huggulegasti maður. Hárið er að vísu að þynnast örlítið og svolítið að grána, en andlitið er ótrúlega lítið markað árafjölda og hann ber aldurinn svo vel og er hreint út sagt: Unglegur eftir aldri.

Fullur af gleði og sátt geng ég frá tannburstanum, yfirgef spegilinn og klæði mig. Síðan sest ég við tölvuna og fletti Facebooksíðum. Alltaf blasir andlitið mitt við á sínum vísa stað á Facebook.

Um daginn tók ég upp á þeim óskunda að fara skoða myndirnar af mér í myndasafninu mínu á Facebook. Óskunda segi ég, því við mér blasti annar maður en ég sá í speglinum nokkrum mínútum áður. „Nei, þetta getur ekki verið“, hugsaði ég, þegar ég leit á fyrstu myndina, „svona lít ég ekki út. Þetta er vond mynd af mér“. Lífsreynda andlitið sem brosti við mér á myndinni var mun markaðra árum en ég. Hárið þynnra en á mér. Maðurinn var einfaldlega eldri en ég. Eða hvað?

Ég skoðaði fleiri myndir og niðurstaðan var sú að ég hlyti að myndast bara óvenju illa. Því fleiri myndir sem ég skoðaði af mér komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að finna einhvern góðan ljósmyndara til að smella af raunverulega „góðri mynd“ af mér.

Ég fór að skoða myndir af vinum mínum á Facebook, fólki á svipuðum aldri. Flestir virtust myndast illa og vera mun eldri en ég, ef ég sko miða við spegilmynd mína.

Í speglinum sjáum við okkur eins og við viljum líta út, en ekki eins og við lítum út í raun og veru.

Ég fór að skoða mig aftur í speglinum og tók tölvuna með mér. Þannig gat ég gert góðan samanburð á sjálfum mér í spegli og sjálfum mér á mynd. Hvor maðurinn er ég? Hvorum manninum vil ég líkjast?

Smátt og smátt fór ég að taka ljósmyndirnar í sátt. Þessi maður á ljósmyndunum var víst meira ég. Þroskaður maður með ótrúlega lífsreynslu, breyskur maður sem samt hefur reynt svo margt að hann hrekkur varla við þó eitthvað fari úrskeiðis á hraðferð daganna. Maður sem ber þess merki að hafa lifað! Maður sem ekki hefði viljað fara á mis við neitt af ævintýrum lífsins sem hann á að baki, né áföllunum. Hver splunkunýr dagur með fullt af nýjum verkefnum og upplifunum sem er svo gaman að fást við, einmitt með alla þessa lífsreynslu að vopni. Lífsreynslan er á við heilan verkfæraskúr.

Þessi uppgvötvun hefur reyndar haft eitt slæmt í för með sér - fyrir suma: Ég er hættur að standa upp í strætó, biðstofum og slíkum stöðum með takmarkað sætapláss, fyrir „eldra fólki“. Ég veit orðið að líklega er þetta „eldra fólk“  jafnaldrar mínir, eða fólk sem er yngra en ég sjálfur. Það getur staðið. Ég er búinn að vinna fyrir þessu sæti.

Ég hlakka til að bæta árunum við og bera þess merki. Allar hrukkurnar eru eins og heiðursmerki þess að hafa lifað og upplifað. Heiðursmerki lífsins.

Viðar Eggertsson

Perlur fyrir forvitna

Vefurinn U3A Online, sem býður netnámskeið fyrir eldra fólk, gefur út mánaðarlegt veftímarit á ensku, GEMs  for Enquiring Minds (ísl: Perlur fyrir forvitna) og hefur gert í rúm ellefu ár. Sagt er stuttlega frá U3A Online í fréttabréfi sem kom út í desember 2020 en ítarlegri upplýsingar er að finna á https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/u3a-online/   og á heimasíðu þess https://www.u3aonline.org.au/  Áskrift að U3A Online er ekki skilyrði þess að gerast áskrifandi að veftímaritinu.

Greinar eða perlur eins og þær eru nefndar í tímaritinu eru af margvíslegum toga og er þeim skipt upp í nokkra flokka, Perlur fyrir líkamlega heilsu (e:Physical Health GEMs), Perlur fyrir tilfinningalega heilsu (e: Emotional Health GEMs), Perlur fyrir félagslega heilsu (e: Social Health GEMs), Perlur fyrir vitsmunalega heilsu (e: Intellectual Health GEMs) og Skemmtilegar perlur (e: FUN GEMs), Tæknilegar perlur (e: Technical GEMs) og Aðrar áhugaverðar perlur (e: Other interesting GEMs). Yfirleitt eru fjórar greinar í hverjum flokki. Hér á eftir eru örfá dæmi um greinar sem birtust í tímaritinu í mars 2024.

Perlur fyrir líkamlega heilsu. Titill greinarinnar er Love lights up your brain and helps your heart. Þar er því haldið fram að það sé að hluta til erfðafræðilegt hversu mikið þú nýtur þess að vera ástfangin og haldir áfram að vera ástfangin eftir að mesta brumið er farið af ástinni. Elskendur ættu því í raun að senda tjákn (emojs) um heila á milli sín í stað hjarta.

Perlur fyrir tifinningalega heilsu. Greinin Foods that can help you win the battle with anxiety fjallar um sterk tengsl fæðu og kvíða og að fæði eins og korn, ávextir og jógurt geti haft áhrif á kvíða. Það sem er gott fyrir þig líkamlega er því einnig gott fyrir þig tilfinningalega.

Perlur fyrir vitsmunalega heilsu. Í greininni, Memory – what can you do to keep yours functioning?, er sagt að það að gleyma sé lykillinn að góðu minni því ef við munum of mikið þá yrði það heilanum ofraun . Geta til þess að muna fer minnkandi eftir tvítugt en við getum gert ýmislegt til þess að halda minninu við eins og að læra nýja færni.

Tæknilegar perlur.  Hér er greinin Why do ads follow me around on the internet?, þar sem gerð er grein fyrir hvers vegna auglýsingar fylgja þér eftir þegar þú ferðast um netið. Sagt er að það sé gert með  einhverskonar endurmarkaðssetningu sem leyfir auglýsendum að fylgjast með hvað þú hefur verið að skoða áður. Ekki hættulegt en geti verið pirrandi.

Hér hefur aðeins verið tæpt á efni veftímaritsins en auk greina/perla er þar einnig að finna hlekki á  ýmsar áhugaverðrar vefsíður eins og á World U3A, https://worldu3a.org/ og netverkið Pass it on https://www.passitonnetwork.org/.

Þeim sem vilja vita meira um GEMs  for Enquiring Minds  er bent á vefsíðuna, https://www.u3aonline.org.au/content/gems, þar sem hægt er að nálgast eintök veftímaritsins allt frá fyrstu útgáfu þess í desember árið 2012.

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Hollusta frá Singapore - sjötta bláa svæðinu

Nýlega bættist Singapore í röð hinna svonefndu bláu svæða í heiminum, þ.e. svæði þar sem langlífi mælist mest og öldungar lifa við áberandi góða heilsu. Svæðin, sem voru áður talin fimm, hafa lengi verið frekar einangruð og fólk hefur öldum saman lifað fábrotnu og hefðbundnu lífi, fjarri skarkala stórborgarlífsins. Þessi svæði eiga það sameiginlegt að fæða fólks byggist að langmestu leyti á grófu kornmeti, rótarávöxtum, baunum, fræjum og hnetum ásamt því grænmeti sem vex á viðkomandi svæðum, en neysla kjöts og fisks er í lágmarki.

Singapore er aftur á móti lítið borgríki með iðandi mannlíf þar sem viðskipti og tækni hafa skapað auðugt, fjölmenningarlegt nútímasamfélag með því álagi, streitu og lífstílssjúkdómum, sem fylgja stórborgarlífi. Stjórnvöld tóku í taumana fyrir nokkrum áratugum og ákváðu að vinna að því að þjóðin yrði heilbrigðust, hamingjusömust og langlífust allra. Og það tókst. Barn sem fæddist árið 1960 gat búist við því að verða 65 ára, en í dag væru ævilíkur þess 85 ár. Íbúum sem ná 100 ára aldri hefur fjölgað um helming á síðustu 10 árum, úr 700 upp í 1.500 manns. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er orðin sú lægsta sem um getur og heilbrigðiskerfi Singapore er hið besta sem þekkist.  Skipulag hverfa ýtir undir útiveru og aukin samskipti fólks og opinberir fjárstyrkir hvetja til þess að fólk byggi sér heimili nærri öldruðum foreldrum. Segja má að lífsháttum fólks í Singapore sé handstýrt með ívilnunum og stuðningi við heilbrigt líferni og skattlagningu á óhollustu.

Núðluréttur fyrir fjóra. Tekur u.þ.b. 25 mínútur

Innihaldsefni:

 • 227 g núðlur (t.d. hrísnúðlur eða linguine pasta)
 • 1 msk (sesam) olía
 • ½ kúfuð tsk rifinn engifer
 • 3-4 hvítlauksrif, söxuð
 • 200 g ferskir sveppir, saxaðir
 • 1 stór gulrót, sneidd
 • 1 rauð paprika, sneidd
 • 1 meðalstór kúrbítur, sneiddur
 • ¾ tsk laukduft
 • ½ tsk reykt paprika
 • salt og svartur pipar eftir smekk
 • saxaður vorlaukur til að strá yfir
 • ristuð sesamfræ til að strá yfir

Sósa:

 • 2/3 bolli (160 ml) grænmetiskraftur eða vatn
 • 3-4 msk tamari eða soja
 • 2 msk hrísgrjónaedik
 • 2 msk hlynsíróp (eða meira eftir smekk)
 • 1 msk maísenamjöl eða örvarrót (arrowroot)
 • rauðar piparflögur eftir smekk

 Aðferð:

 1. Sjóðið núðlurnar í saltvatni skv. leiðbeiningum á umbúðunum (ofsjóðið ekki). Hellið vatninu af núðlunum.
 2. Hitið olíuna í djúpri pönnu eða wok og steikið engifer og hvítlauk á miðlungshita í u.þ.b. tvær mínútur. (Ég notaði vel kúfaða teskeið af engifer og það var alveg mátulegt). Bætið öllu grænmetinu á pönnuna og steikið þar til það mýkist. Hrærið í svo þetta festist ekki á pönnunni, bætið örlitlu vatni á pönnuna ef þarf. Smakkið til með salti og pipar.
 3. Blandið öllu sem á að vera í sósunni í skál og hrærið vel. (Ég átti ekki hlynsíróp en notaði rúmlega eina matskeið af hunangi, það hefði mátt vera meira.) Hellið sósunni yfir grænmetið á pönnunni og látið suðuna koma upp. Látið sjóða hægt í u.þ.b. eina mínútu þar til sósan þykknar dálítið.
 4. Bætið núðlunum á pönnuna og blandið vel saman. Látið malla í 1-2 mínútur. Smakkið réttinn til eftir þörfum með meira af salti, pipar, soja eða hlynsírópi. Bætið nokkrum matskeiðum af hnetusmjöri í réttinn ef ykkur finnst sósan vera of þunn. Stráið vorlauk og sesamfræjum yfir allt saman og berið fram.

Sólveig H Georgsdóttir

Hugarsmíðar á þriðja æviskeiðinu - Hvernig gekk þetta hjá henni Siggu?

Sigríður Kristín Kristjánsdóttir, Sigga eins og hún er kölluð, er 64 ára viðskiptafræðingur og gift honum Kristjáni Atlasyni, lögfræðingi. Saman búa þau í einbýlishúsi í Garðabænum og eiga fjögur börn sem nú eru uppkomin og farin að heiman. Segja má því að Sigríður Kristín og Kristján séu það sem á amerísku er kallað  „FF (Fifty and Free eða Fimmtug og frjáls á íslensku)“. Vegna þessa og aldurs þeirra má því segja að þau teljist til 3. æviskeiðsins. Sjálf velta þau þessu ekki mikið fyrir sér en vilja njóta áranna og áratuganna framundan svo lengi sem heilsa og fjárhagur leyfir. Líta á árin sem sín „gullnu ár“.

Sigríði Kristínu hefur vegnað vel í lífinu ef svo má að orði komast. Ekki endilega efnahagslega, þó sú hlið sé í lagi, heldur ekki síður, að hún hefur lengi átt sér draum sem er jú alls ekki öllum gefið að eiga. Draumurinn hennar Sigríðir Kristínar er að stofna sitt eigið fyrirtæki og koma á laggirnar litlu gistihúsi sem hún ætlar að kalla Nornin, auðvelt að snúa á útlensku eins og á ensku The Witch og á sænsku Häxan. Svolítið hrollvekjandi en vekur athygli.

Sigríður Kristín vann í um eitt og hálft ár að undirbúningi að stofnun fyrirtækisins. Byrjaði á því að leita fanga í Vöruhúsi tækifæranna um ráðgjöf og fjárhagslegan stuðning við að stofna fyrirtæki, gerð viðskiptaáætlunar og kostnað. Sigríður Kristín kom sér líka upp öflugu tengslaneti allt frá vinkonum í saumaklúbbum til fólks á öllum stigum þjóðfélagsins og atvinnugeirum. Allt gekk þetta upp og fjármagn fékkst. Dyr gistihússins voru opnaðar fyrir gestum þann 3. júlí 2023.

Gistihúsið Nornin hefur nú verið rekið í tæpt eitt ár. Ekki svo langur tími en gistihúsið hefur sannað sig og verið nær fullbókað allan tímann. Staðsetningin í Garðabænum hefur ekki fælt ferðamenn frá, því góðar almenningssamgöngur gera þeim kleift að komast þangað sem þeir vilja. Húsið getur hýst allt að 40 gesti, er notalega og einfalt innréttað í einhversonar sænsk-norrænum stíl. Vinkona Sigríðar Kristínar, hún Anna, sér um morgunverðinn og Elsa frænka um þrifin. Sigríður Kristín er alsæl og þreytist ekki á að endurtaka að allt er sextugum fært.

Ítarleg frásögn um hana Sigríði Kristínu er að finna í í fréttabréfi janúar mánaðar árið 2022, https://voruhus-taekifaeranna.is/folkid-okkar/324059/.

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Viðburðir U3A Reykjavík í maí 2024

F.v.: Halldór Geirsson, Vilmundur Hansen, Helgi Máni Sigurðsson,Tryggvi Pálsson

7. maí - Kvikuhreyfingar og eldsumbrot á Reykjanesskaga
Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun H.Í.

11. maí - Fast þeir sóttu sjóinn - Vorferð U3A
Í kjölfar fornbáta á Suðurlandi undir leiðsögn Helga Mána Sigurðssonar sagnfræðings

14. maí - Hvað skilar góðu æviskeiði?
Tryggvi Pálsson hagfræðingur deilir persónulegum pælingum sínum.

21. maí - Sumarblóm í kerum
Vilmundur Hansen garðykju- og grasafræðingur fjallar um sumarblóm.

Skip to content