Fréttabréf í nóvember 2020
Þetta þarf alls ekki að vera alveg glatað!
Það er ljóst að við munum þurfa að lifa með Covid veirunni áfram. Spurningin sem hvert og eitt okkar stöndum frammi fyrir er hvernig ætlum við að verja þessum tíma. Verður þetta tapaður tími í Covid-þreytu og pirringi eða getur mögulega eitthvað jákvætt komið útúr þessu?
Þegar Covid faraldurinn fór að gera vart við sig á Íslandi töldu flest okkar að áhrifanna myndi gæta í einhverjar vikur og síðan myndi lífið færast í samt horf. Það þyrfti bara að bíta á jaxlinn og bíða þetta af sér. Síðan eru 8 mánuðir liðnir og á hverjum degi berast fréttir um hækkun fjölda staðfestra smita, nýgengi smita innanlands, fjölda fólks í sóttkví, á sjúkrahúsi og gjörgæsludeild. Þá eru ónefndar daglegar fréttir af neikvæðum efnahaglegum afleiðingum faraldursins svo sem uppsögnum starfsfólk og versnandi afkomu fyrirtækja. Nú þegar við förum inn í íslenska veturinn sér enn ekki fyrir endann á þessu ástandi.
Greina má meiri þreytu og pirring á meðal fólks nú en fyrr og heilbrigðisstarfsmenn hafa áhyggjur af langtíma áhrifum á líkamlegt og andlegt ástand landsmanna – ekki síst eldri borgara sem hættir fremur til að einangrast í samkomubanni. Án þess að gera lítið úr þeirri sorg sem mörg okkar eru að upplifa þá vita þau okkar sem þekkja til SVÓT greininga að ógnanir fela líka í sér tækifæri. Á meðal þeirra er að faraldurinn veitir mörgum okkar viðbótartíma til að gera eitthvað nýtt eða að sinna einhverju sem við höfum ekki haft tíma til að sinna einsog við vildum.
Með tilkomu Covid-19 uppgötvum við stútfulla dagskráin okkur er nær auð. Nær öllum fyrirhuguðum viðburðum svo sem sýningum, tónleikum, afmælum hefur verið aflýst. Dagskráin okkar er orðin nánast auð og allt í einu eigum við tíma sem við getum ráðstafað að vild - innan þeirra marka sem Covid leyfir okkur.
Það er ljóst að við munum þurfa að lifa með veirunni a.m.k. vel fram á næsta sumar og mögulega lengur. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvernig ætlum við að verja þessum tíma. Verður þetta tapaður tími í Covid-þreytu og pirringi eða getur mögulega eitthvað jákvætt komið útúr þessu?
Ein leið er að skipuleggja þennan tíma og setja sér markmið. Loksins kominn tíminn til að framkvæma margt af því sem okkur hefur lengi langaði til en ekki fundið tíma fyrir í uppbókaðri dagskrá hins daglega lífs. Aukin velta byggingavöruverslana á fyrri hluta ársins sýndi að fjölmargir nýttu fyrstu bylgju faraldursins til að dytta að heimilinu. Aðrir hafa nýtt tímann til að bæta heilsu sína t.d. með aukinni hreyfingu utandyra. Og svo er auðvita upplagt að saxa loksins á staflann, sem flest okkar eigum, af bókum og tímaritum sem lengi hefur staðið til að lesa. Þá hefur orðið sprengja í framboði á námi, námskeiðum, ráðstefnum og og alls kyns viðburðum á netinu.
Í þessu fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna fjöllum við, líkt og í fréttabréfunum í mars og apríl, um tækifæri á tímum Covid. Okkur standa fjölmörg tækifæri til boða og það er á okkar ábyrgð að nýta þau. Eftirá getum við síðan litið til baka til þessa fordæmalausu tíma og sagt:
Þetta var samt ekki alveg glataður tími!
Gangi ykkur öllum sem best!
Nú er lag – nýttu tíman
Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, gerir menntun á netinu að umtalsefni í grein sinni í Fréttablaðinu 14. október s.l. Kveikjan að greininni er áletrun, Nýttu tímann til að læra nýtt tungumál á vögnum Strætó þessa dagana. Kristín bendir á að ekki aðeins sé hægt að nýta tímann þegar ferðast er með Strætó heldur gefi veirufaraldurinn (Covid-19) okkur tíma sem megi nota m.a. til þess að öðlast nýja færni.
Í greininni eru nefnd fjölmörg erlend netnámskeið, flest ókeypis, á sviði menningar, vísinda, tækni, fræða og lista og svo íslensk eins og námskeið um Íslendingasögur, Eldfjallavöktun og hreyfingar bergkviku, Menningarnæmi í menntun, Kyngervi og samtvinnun og svo námskeiðið Sauðfé í landi elds og ísa sem er kennt í samstarfi við Landbúnaðarháskólann. Þessi íslensku námskeið eru til komin vegna edX-samstarfsins sem Háskóli Íslands er aðili að og sjá fræðimenn skólans um þau.
Vefslóðin er https://www.hi.is/edx og eru námskeiðin ókeypis og öllum opin. Einnig býður háskólinn upp á námskeið, Icelandic Online, fyrir þá sem hafa íslensku sem annað tungumál, vefslóð https://icelandiconline.com/courses
Kristín segir einnig í grein sinni að mörg netnámskeiða séu hugsuð sem framlag til að gera fólki kleift að styrkja sig í starfi og að það geti verið hvetjandi að læra með vinum og samstarfsfólki á tímum félagslegrar einangrunar.
Hugleiðsla á íslensku í gegnum app í boði Lótushússin í Garðabæ
Lótushús í Garðatorgi í miðbæ Garðabæjar er hugleiðsluskóli sem starfræktur hefur verið frá árinu 2000. Þar er boðið upp á ókeypis hugleiðslu- og sjálfsstyrkingarnámskeið hvort sem er á staðnum eða í gegnum streymi á Zoom.
Til viðbótar býður Lótushús upp á app þar sem hægt er að hlaða niður hugleiðslum í tölvu eða í smartsíma notendum að kostnaðarlausu. Hugleiðslurnar eru mislangar og taka á helstu viðfangsefnum sem nútímamanneskjan glímir við í daglegu lífi. Hugleiðslurnar eru einfaldar að uppbyggingu og henta byrjendum jafnt sem lengra komnum.
Nánari upplýsingar er að finna á
https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/lotushus-i-gardatorgi/
Viltu stunda nám í fremstu skólum heims? Ókeypis?
Kennsluveitan edX var upphaflega samstarfsvettvangur Harvard, MIT og Berkeley háskólanna í Bandaríkjunum. Í dag eru yfir 120 háskólar, stofnanir og söfn aðilar að kennsluveitunni sem veitir öllum sem vilja rafrænan aðgang að fjölmörgum netnámskeið á sviði menningar, vísinda, tækni, fræða og lista.
Öll okkar sem kunna ensku eða önnur tungumál, höfum aðgang að netnámskeiðum á öllum sviðum menningar, vísinda og tækni, fræða og lista hjá fremstu háskólum heims í gegnum kennsluveituna edX.
EdX var upphaflega samstarfsvettvangur sem komið var á fót árið 2012 á milli Harvard, MIT og Berkeley háskólanna í Bandaríkjunum. Síðan þá hafa bæst við fjölmargir samstarfsaðilar svo sem háskólar víða um heim, söfn, alþjóðastofnanir og í dag eru 120 samstarfsaðilar að EdX sem bjóða upp á u.þ.b. 2.800 námskeið. Þátttaka í námskeiðunum er yfirleitt endurgjaldslaus en ef þátttakendur vilja taka próf og fá skírteini þarf að greiða hóflegt gjald fyrir. Mörg námskeiðanna eru hugsuð sem framlag til endur- og símenntunar til að styrkja fólk í starfi og mæta ákalli vinnumarkaðarins um síaukna og breiðari þekkingu.
Til að gera þátttöku í námskeiðinu enn skemmtilegri og búa til hvata er upplagt að velja sér góðan skólafélaga úr vinahópnum til fara með í gegnum námið.
Sjá nánar:
https://voruhus-taekifaeranna.is/listing_type/okeypis-fjarnam-i-fremstu-haskolum-heims/
Að tala tungum er hollt fyrir heilann þinn
Það er aldrei of seint að læra nýtt tungumál. Þvert á móti sýna rannsóknir að það að læra nýtt tungumál hægir á öldrun heilans og gerir þig betri í þínu eigin móðurmáli. Það eru fjölmargar leiðir til að læra tungumál í fjarnámi og á þeim hraða sem hentar hverjum og einum.
Á ferðalögum erlendis er óneitanlega skemmtilegra að geta tjáð sig á tungumáli sem innfæddir skilja fremur en með handapati og andlitssvipbrigðum . Tungumálakunnátta gefur okkur möguleika til að eiga samskipti við fólk með ólíkan menningarlegan bakgrunn og sýn á lífið og bætir skilning okkar á því samfélagi sem við heimsækjum. Auk þess sýna rannsóknir að það að læra nýtt tungumál hægir á öldrun heilans og gerir þig betri í þínu eigin móðurmáli.
Það er víða hægt að læra erlend tungumál, m.a. í fjarnámi með leiðbeinanda eða í sjálfsnámi á netinu sem hentar vel á þessum tímum. Meðfylgjandi eru nokkrar tillögur um vefi þar sem hægt er að læra erlend tungumál en það eru mun fleiri möguleikar til staðar:
Duolingo er mjög góður vefur þar sem hægt er að læra nokkur tungumál ókeypis. Vefurinn notar stigakerfi til að hvetja þig áfram og sendir þér áminningu um að æfa þig. Ef að þú kannt eitthvað í tungumálinu þá getur þú getur tekið stöðupróf í stað þess að byrja frá grunni.
Sjá nánar á: http://duolingo.com/
Babbel, sem var stofnað árið 2007, er eitt af fyrstu tungumálanámsforritum heimsins og er eitt af fremstu nýsköpunarfyrirtækjum á sviði menntamála. Babbel hefur verið leiðandi í tungumálanámi á netinu og er með milljónir virkra áskrifenda. Sjá nánar á https://www.babbel.com/
Live Lingua er ein notendavænasta vefsíðan sem býður upp á tungumálanámskeið fyrir almenning. Vefurinn var hannaður af bandaríska utanríkisráðuneytinu og býður upp á mikið úrval af ókeypis námsefni í formi rafbóka og myndbandaefni á 130 mismunandi tungumálum.
Sjá nánar á: https://www.livelingua.com/
Hvenær erum við orðin of gömul?
Hvenær erum við orðin of gömul? Kennari hjá Reykjavíkurborg sem vildi vinna lengur og taldi sig hafa fullt starfsþrek tapaði máli nýlega gegn borginni um að fá að vinna eftir að hann var orðinn 70 ára.
Byggir dómurinn á ákvæði kjarasamnings um regluna um starfslok við sjötugt sem kennarinn segir að brjóti gegn mannréttindum, jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsi. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ákvæði kjarasamningsins eigi fullnægjandi stoð í lögum og undir það falli reglan um starfslok við sjötugt og að til séu fordæmi um að ákvæði um hámarksaldur sé réttlætanlegt með vísan til almannahagsmuna. Engar takmarkanir eru þó settar í lögum við því að einstaklingar sinni kennslustörfum eftir sjötugt. (Hér er stuðst við frétt á RUV.is þann 15.10.202).
Á Alþingi hefur nú verið lögð fram þingsályktunartillaga um afnám 70 ára aldurstakmörkunar til opinberra starfa. Þar er lagt til að fjármála- og efnahagsmálaráðherra hefji viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám ákvæða í lögum um takmörkun starfa opinberra starfsmanna við 70 ára aldur.
Hér má skoða þingsályktunartillögu þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi um aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum
https://www.althingi.is/altext/150/s/0582.html
Útivera, fræðsla og menning með snjallsímanum
Á tímum sem þessum er mikilvægt að stunda útivist og hreyfingu. Ekki er verra að geta um leið virkjað hugann og fræðst um sögu og menningararfinn okkar.
U3A Reykjavík býður ykkur nú leiðir sem hannaðar voru af hópum félaga og var hluti af Evrópuverkefninu HeiM, Leiðir að menningararfinum, sem samtökin taka þátt í. Þetta eru fimm léttar gönguleiðir um höfuðborgarsvæðið sem er hægt að opna á snjallsímanum sínum með snjallforritinu WIKILOC. Þar er að finna kort og leiðarlýsingar með fróðleik og myndum á nokkrum áhugaverðum áningarstöðum á leiðinni.
Vefslóðir á leiðirnar fimm eru hér að neðan.
IS1 Gönguleið í náttúrunni í Elliðaárdal.
https://www.wikiloc.com/walking-trails/gonguleid-i-natturunni-i-ellidaardal-51278815
IS2 Söguleg og menningarleg arfleifð í Laugarnesi og Kirkjusandi.
https://www.wikiloc.com/walking-trails/laugarnes-i-reykjavik-isl-48749703
IS3 Sólstöðuganga.
https://www.wikiloc.com/walking-trails/solstoduganga-i-videy-48724554
IS4 Menningarlegur og listrænn arfur í kirkjugarðinum, Hólavallagarður.
https://www.wikiloc.com/walking-trails/gengid-um-holavallagard-51329708
IS5 Reykjavík sögulegar styttur
https://www.wikiloc.com/walking-trails/reykjavik-sogulegar-styttur-50873854
Þessar slóðir eru allar með íslenskum texta en hver leið er einnig til á ensku. Hægt er að fræðast betur um verkefnið, leiðirnar og þann menningararf sem þær lýsa í niðurstöðuskýrslu U3A Reykjavík sem hlaða má niður hér:
https://drive.google.com/file/d/1arLDRcO1N7fNB7UqcFyONhHOCm3jc24o/view?fbclid=IwAR3oqOvY9CzbRR5JyOvuAwCSqf33mJKZNZH_hfTktoEWl9kYnmmPMplVR0Y
Í skýrslunni er einnig að finna leiðir samstarfsaðilanna í Alicante, Varsjá og Zagreb sem eru birtar á WIKILOC á ensku og heimatungumáli.
Hér fylgir Youtube afrit af upptöku á fræðslufundi U3A Reykjavík 29. september síðastliðinn þar sem hönnuðirnir sjálfir kynntu leiðirnar.
Slóðin á upptökuna er þessi:
https://www.youtube.com/watch?v=RsydCjnZ_9A