Fréttabréf í nóvember 2021
U3A Reykjavík – fræðsla og virkni
Fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu sem vill vera virkt og fræðast er U3A Reykjavík spennandi kostur! U3A eru samtök fólks á þriðja æviskeiðinu sem vill afla sér og miðla þekkingu í virku félagsstarfi. Þriðja æviskeiðið er ýmist miðað við fólk yfir 65 ára eða þá sem eru yfir fimmtugt en flestir félagar í U3A Reykjavík eru á aldrinum 65-75 ára. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku og auðvelt að gerast félagi á heimasíðu félagsins u3a.is
Starfsemin fer fram með fræðslufyrirlestrum, námskeiðum, heimsóknum í stofnanir og fyrirtæki, ferðum og hópastarfi og má þar nefna menningarhóp, alþjóðahóp og bókmenntahóp. Vikulegir fræðslufyrirlestrar í sal í Hæðargarði 31 kl. 16:30 á þriðjudögum eru kjarni starfseminnar, þeim er einnig streymt til félagsmanna og hafðir opnir í viku eftir flutning, þannig að félagsmenn geta fylgst með þeim óháð tíma og búsetu.
Fyrirlestrar eru af fjölbreyttu tagi, sem dæmi má nefna að þriðjudaginn 26. október fjallaði Hrafnkell Proppé skipulagsfræðingur um Borgarlínuna, nýtt samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu og 2. nóvember verður fyrirlestur um 60 ára hundabann í Reykjavík sem Þórhildur Bjartmarz, hundaþjálfari flytur. Með fjölbreyttu efni er leitast við að koma til móts við ólík áhugasvið félagsmanna sem nú telja um 880 manns.
Nýstofnaður menningarhópur efnir til viðburða eða heimsókna á 3-4 vikna fresti, sl. föstudag var farið í heimsókn í Rokksafnið í Reykjanesbæ og í september í fræðsluferð til Viðeyjar. Í nóvember hefst námskeið um sögu og menningu Gyðinga sem Jón Björnsson og Þorleifur Friðriksson sjá um
Í september og október voru farnar laugardagsgöngur með leiðsögn undir stjórn Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur. Göngurnar voru mótaðar í HeiM-verkefninu (Heritage in Motion) sem var Evrópusamstarfsverkefni sem U3A Reykjavík tók þátt í. Farið var í göngu um Hólvallakirkjugarð, styttur í borginni skoðaðar, gengið var um Laugarnes og um Elliðaárdal. Áætlað er að endurtaka göngurnar næsta vor. Hér má fræðast frekar um HeiM-verkefnið og gönguleiðirnar.
U3A Reykjavík er hluti af alþjóðasamtökunum International Association of Universities of the Third Age, AIUTA, með milljónum þátttakenda um allan heim."
Víða um lönd eru U3A félög hluti af háskóla á viðkomandi stað en einnig er þekkt að þau starfi sjálfstætt eins og U3A Reykjavík gerir. Alþjóðahópur U3A Reykjavík stefnir að aukinni þátttöku í alþjóðastarfi og er það starf í mótun.
Ferðalög erlendis hafa verið á dagskrá félagsins en augljóslega hafa ekki nein slík verið farin undanfarin 2 ár. Árið 2017 fór hópur í ferð til Indlands eftir námskeið félagsins um mógúlana á Indlandi, og árið 2019 var efnt til skiptiheimsóknar milli U3A Reykjavík og Eurag Prag með gagnkvæm kynni að markmiði, sjá hér.
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um starf U3A Reykjavík en nánar má fræðast um sögu félagsins á heimasíðunni u3a.is. Þar eru birtar auglýsingar um viðburði sem eru á döfinni og sagðar fréttir úr starfinu.
Innan U3A Reykjavík er starfandi Vöruhús tækifæranna en það er markaðstorg tækifæra fólks á þriðja æviskeiðinu sem vill móta framtíðina á eigin forsendum. Vöruhúsið sendir út mánaðarlegt fréttabréf.
Vilja taka þátt í samfélaginu og búa í sama skattaumhverfi og aðrir
Erna Indriðadóttir, ritstjóri Lifðu núna,
fjallar um vefinn og málefni eldri borgara.
Vefritið Lifðu núna var sett í loftið í júní árið 2014 og hefur því verið á veraldarvefnum í rúm 7 ár. Ástæðan fyrir því að það var sett á laggirnar, var sú að ég var nýflutt til Reykjavíkur eftir langa veru austur á landi og var að velta fyrir mér, hvað ég vildi helst gera. Ég ákvað að fara á námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð, fyrir konur sem höfðu áhuga á að stofna fyrirtæki og sá í því ákveðin tækifæri. Mest langaði mig að setja á laggirnar vef fyrir fólk sem er komið yfir miðjan aldur.
Mér fannst sem fjölmiðlakonu athyglisvert, hvernig alls kyns fólk sem ég hafði haft samskipti við í gegnum árin, hvarf allt í einu af opinberum vettvangi þegar það hætti störfum vegna aldurs og sást varla meir. Ég hafði líka fylgst með fólkinu mínu eldast og sá, hvað það hefur miklar breytingar í för með sér. Líkaminn breytist, hugsunarhátturinn breytist og félagsleg staða fólks breytist líka þegar það hættir störfum á vinnumarkaði. Margir skipta um húsnæði, sumir eru fátækir, aðrir hafa meiri efni og ferðast um heiminn. Eldra fólk er alls konar, bara eins og aðrir aldurshópar.
Aldursfordómar vöktu einnig athygli mína. Hvernig samfélagið missir áhuga á þeim sem ekki eru lengur þáttakendur í opinberu lífi. Hvernig talað er niður til eldra fólks og hvernig hæðst er að eldra fólki sem ákveður að taka þátt í opinberri umræðu. Það er stundum, hreinlega amast við því að það viðri skoðanir sínar á málefnum dagsins, enda sé þeirra tími liðinn og tímabært að fara af sviðinu og láta það eftir yngra fólki. Ýmiss konar aldurstakmörk, sem miða til dæmis við að fólk láti af störfum á ákveðnum afmælisdegi ættu líka að heyra sögunni til. Þetta eru fordómar. Eða höfum við sem samfélag efni á því að nýta ekki starfskrafta þeirra sem eldri eru og vilja vinna?
Ástæða þess að ég ákvað að stofna vefinn var að mig langaði að taka þátt í umræðunni um þessi mál og leggja mitt af mörkum til að gera eldri kynslóðina sýnilegri í samfélaginu. Mig langaði líka að reyna að auka fræðslu um þetta aldursskeið og eyða þannig ,vonandi, fordómum. Þetta voru háleit markmið og ennþá er langt í land, en dropinn holar steininn og ýmis félagasamtök eldri borgara hafa líka tekið virkan þátt í umræðunni.
Mikil fjölgun eldra fólks hér sem annars staðar, hefur vissulega leitt til þess að málefni eldra fólksins eru almennt meira rædd en áður, sem er fagnaðarefni. Einkum brýn mál þá stundina, svo sem eins og hjúkrunarheimilin, Covid og svo kjaramál þeirra sem eldri eru. Málefni eldra fólksins hafa líka verið töluvert rædd í kosningum á síðustu árum, en alltof oft er það hins vegar þannig að þegar stjórnmálaforingjarnir setjast niður til að ræða stjórnarmyndanir, eða meirihlutamyndanir að loknum kosningum, rata þessi mál ekki endilega inní samstarfssáttmálana. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Ég velti því oft fyrir mér hvort það sé gott að eldast á Íslandi. Ef horft er á meðaltöl í löndunum sem við berum okkur samanvið er örugglega býsna gott að eldast hér. En það eru samt of margir eldri borgarar sem hafa það ekki gott og er gert að lifa á tekjum sem eru undir lágmarkslaunum í landinu. Það er ekki viðunandi að þær kynslóðir sem hafa byggt upp okkar ríka velferðarþjóðfélag, þurfi að búa við fátækt þegar aldurinn færist yfir. Kannanir sýna að mjög stór hópur eldra fólks býr við góða heilsu, er í góðu sambandi við fjölskylduna og líður almennt nokkuð vel. Margir eru vel nettengdir. Það er ánægjulegt, en eldra fólk vill líka njóta virðingar í samfélaginu, taka þátt í því sem er að gerast og búa í sama skattaumhverfi og annað fólk. Það gerir eldra fólk því niður ekki í dag og flestir verða varir við hvernig skerðingarnar í almannatryggingakerfinu virka.
Eldra fólki mun halda áfram að fjölga og það verður brýnt að halda umræðunni áfram. Það þarf að setja mun betri lög um málefni og réttindi eldra fólks. Núverandi lög eru mörg og sundurlaus og þessi málefni heyra undir mörg ráðuneyti. Þau taka heldur ekki mið af réttindum eldra fólks, raunar er sáralítið ef nokuð á þau minnst í umræddum lagabálkum. Mismunun vegna aldurs kemur þar heldur ekki við sögu, þó hana sé að finna í öðrum almennum lögum. Það hefur hins vegar ekki reynt á þau lög ennþá. Það er alveg ljóst að það verður mikil þörf fyrir sterkan miðil á næstu áratugum, sem getur orðið baráttutæki eldra fólks fyrir réttindum sínum.
Svona veistu að þú ert miðaldra
Við höfum áður fjallað um í þessu fréttabréfi hvernig bætt lýðheilsa og auknar lífslíkur hafa riðlað okkar hefðbundnu flokkun á æviskeiðum mannsins. Stærstu breytingarnar eru á hvaða aldursbili við teljum að við verðum miðaldra, hvenær þriðja æviskeiðið hefst og hvenær við verðum öldruð.
Ekki alls fyrir löngu endurskilgreindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna sín viðmið um æviskeið þannig að þau rími betur við nútímann. Samkvæmt uppfærðri skilgreiningu stofnunarinnar er manneskjan ung til 65 ára aldurs og miðaldra til 79 ára.
Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari skrifar reglulega pistla um hvernig hún upplifir að eldast. Í stórskemmtilegum pistli hennar sem birtist í Morgunblaðinu 16. október s.l. upplýsir hún hvernig hægt er staðfesta miðöldrun á einfaldan hátt. Hún segir að þú vitir að þú ert miðaldra kona ef að þú svarar eftirfarandi spurningum játandi:
- Þú manst eftir því þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum.
- Þegar þú dvaldir sumarlangt í sveit var þar sveitasími, og já, það var hlerað.
- Þú manst eftir Húsinu á sléttunni og Dallas.
- Þú lærðir á tölvu eftir tvítugt.
- Þú áttir símboða.
- Þú lærðir á myndavél með filmu.
- Vinnufélagar þínir margir gætu hæglega verið börnin þín.
- Á föstudögum geturðu ekki beðið eftir að koma heim og horfa á sjónvarpið undir sæng.
- Þú vaknar hálfsjö um helgar þótt þú vildir sofa út.
- Þú sofnar yfir bíómyndum. Líka stundum í bíó.
- Roger Moore er þinn Bond.
- Eitt helsta tilhlökkunarefni lífsins er kaffibollinn að morgni dags.
- Þú skilur ekkert hvernig Twitter virkar.
- Þú ert nýlega búin að uppgötva nýjan takka á símanum. Að slökkva.
- Eftir bíó eða leikhús eru allir liðir stirðir.
- „Íþróttameiðsl“ gera vart við sig við minnstu áreynslu í ræktinni.
- Undarleg aukakíló laumast á líkamann, þrátt fyrir puðið í ræktinni.
- Þú færð sjokk þegar þú sérð mynd af þér því þú hélst þú værir miklu grennri.
- Það eru hár farin að vaxa út úr hökunni, enninu og nefinu.
- Þú skilur ekki alveg starfsheitið „áhrifavaldur“.
- Einu mennirnir á Tinder sem læka þig eru nánast komnir á elliheimili.
- Þér er alveg sama þótt öðrum finnst þú púkó.
- Þú notar orð eins og púkó, hosiló, sjarmerandi og lekker.
- Unglingarnir þínir rúlla reglulega augunum í návist þinni.
Niðurstaða Ásdísar er að það þýði ekkert að berjast á móti því að vera miðaldra og nær sé að fagna þessu líffskeiði. "Við miðaldra fólkið erum kannski ekki alltaf með nýjustu tæknina á okkar valdi, vitum ekki hver er heitasti rapparinn en við vitum okkar viti."
Hún Lára okkar
Hugarsmíðin hún Lára okkar er 70 ára hárgreiðslukona frá Hvolsvelli sem fluttist á Selfoss eftir námið í Iðnskólanum og stofnaði þar hárgreiðslustofu sem dóttir hennar rekur í dag. Lára er ekkja. Auk dóttur á hún son sem býr í Kaupmannahöfn og fjögur barnabörn.
Lára er framsóknarkona, trúir á landbúnað, sjálfstæðan rekstur og landið sitt. Henni finnst vinna besta meðalið en fyrir um fimm árum síðan, þegar hendur og bak þoldu ekki lengur álagið að standa uppi allan daginn tók dóttir hennar við stofunni. Þrátt fyrir það er Lára engan veginn lögst í helgan stein heldur er hún í móttöku stofunnar og tekur sína fastakúnna af og til. Reynsla hennar við að vera ekkja með tvö ung börn hefur mótað hana því það er engin afsökun að gefast upp heldur er hennar móttó að taka slaginn og standa sig. Lára telur að vinnan göfgi manninn.
Láru finnst mikilvægt að leggja til samfélagsins og trúir á einstaklingsframtakið í samstarfi við hið opinbera. Lára tilheyrir engum klúbbi eða félagsstarfi en fylgist vel með þjóðfélagsumræðunni, pólitík og sveitarstjórnarmálum. Henni finnst ekkert sérlega gaman af slúðri eða dægurmálum heldur alvöru fólki og alvöru verkefnum. Vinkonur hennar úr æsku halda þó hópinn og einnig hefur hún hitt skólasystkini sín úr Iðnskólanum á nokkrum endurfundum.
Allar umræður og fréttir af fjárfestingum, fjárhag og ráðum þar af lútandi þykir Láru spennandi. Hún fer á hin ýmsu námskeið sem efla færni og hugmyndir í viðskiptum, hefur bæði farið á netnámskeið og á námskeið í Opna Háskólann í Reykjavík í t.d. stjórnun,
fjármál minni fyrirtækja, stjórnarsetu og stefnumótun. Það sem fær Láru til að vera hluti af Vöruhúsi tækifæranna er að hún lítur á síðuna sem upplýsingagrunn, finnur fyrir trausti því síðan talar til hennar, með hennar þarfir og velvilja í huga. Vöruhúsið gefur henni tækifæri á að kynna sér réttindi, samfélagsvirkni, hvar á að leita að styrkjum og ráðgjöf við hinum ýmsu viðskiptahugmyndum sem hún fær. Helst eru það því rekkarnir Félagsleg réttindi, Lífsfylling og Stofnun fyrirtækis og hillur á þeim og tækifæri sem tala til hennar.
Foreldrar Láru eru látnir, hún á sex systkini, elsta systirin býr á Hvolsvelli og hittist stórfjölskyldan reglulega þar. Lára er ekkert endilega hrifin af börnum, en styður sín og önnur í fjölskyldunni til sjálfstæðis af heilum hug.
Allt er fullorðnum fært!
Birna Halldórsdóttir sem er 73 ára í dag hefur farið óhefðbundnar leiðir í lífinu. Ef lýsa ætti Birnu með einu orði myndi það verða félagsvera. Allt sem hún hefur tekið sér fyrir hendur í gegnum tíðina hefur helgast af áhuga hennar fyrir fólki.
Birna útskrifaðist með verslunarskólapróf og hefur síðan þá bætt við sig fjölbreyttu námi. Einu sumri varði hún í Danmörku og lærði dönsku, einu ári varði hún í London til að læra ensku og svo dvaldi hún í stuttan tíma í Þýskalandi og lærði smá þýsku. Á einhverjum tímapunkti ákvað hún að læra finnsku og fór í tvígang til Finnlands í lýðháskóla í þeim tilgangi. Í skólanum var boðið upp á svo margt skemmtilegt að minna varð úr finnskunáminu en ætlað var. Hins vegar lærði Birna bæði að vefa og ljósmyndun.
Eftir heimkomuna vann Birna ýmis störf þar til hún réði sig til Norræna félagsins þar sem hún vann í 10 ár. Í gegnum starfið eignaðist hún marga norræna vini og fór t.d. til námsdvalar í norður-Noregi til að kynna sér menningu Sama. Í framhaldi af þeirri dvöl ákvað hún að læra mannfræði og skrifaði að sjálfsögðu lokaritgerðina um Sama.
Árið 1991 réði Birna sig til starfa sem sendifulltrúi hjá Rauða krossinum. Hún er hvorki hjúkrunarfræðingur né læknir eins og flestir þeir sem farið höfðu utan á undan henni, en hún fékk það verkefni að sjá um dreifingu matvæla og hjálpargagna á hamfara og stríðshrjáðum svæðum svo sem Sómalíu, Aserbaísjan, Suður Súdan, Indónesíu, Haítí, Malaví, Gambíu og Eþíópíu.
Aðspurð að því hvers vegna hún hafi farið þá leið sem hún fór í lífinu svarar Birna: „Þetta byrjaði allt með því að rúmlega tvítug fór ég að vinna hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, og fékk meðal annars það verkefni að taka til í og raða skjölum. Ég gat ekki stillt mig um að fara að lesa og þar vaknaði áhugi minn fyrir því að geta hjálpað fólki.“
Birna segir að það að vinna hjá Rauða Krossinum hafi veitt henni mörg tækifæri. Þetta hafi ávallt verið tímabundin verkefni, þannig að á milli verkefna sótti hún námskeið, yfirleitt í Finnlandi eða Noregi, eða sótti nám Háskóla Íslands.
En eins og svo margir aðrir varð Birna að hætta að vinna hjá Rauða krossinum þegar hún komst á eftirlaunaaldur. En Birna var þó hvergi nærri hætt að vinna né að læra. Hún fór í nám í Leiðsögumannaskólanum og útskrifaðist sem leiðsögumaður. Auk þess heldur bætti hún við sig meiraprófi áður en hún þurfti að endurnýja ökuskírteinið þegar hún varð sjötug. Þannig hélt hún áfram að hitta áhugavert og skemmtilegt fólk.
Þegar U3A Reykjavík var stofnað fylgdist þessi félagsvera sem Birna er með starfi félagsins og 2019 skráði hún sig í félagið og hefur tekið virkan þátt í verkefnum eins og „HeiM verkefninu“, menningarverkefni þar sem haldið var námskeið og unnar gönguleiðir að menningararfinum með aðstoð leiðarforritsins Wikiloc.
Birna segja fylgjast vel með hjá Vöruhúsi tækifæranna og sækir þriðjudagsfyrirlestra hjá U3A reglulega, þegar hún er ekki að þeysast um landið með útlendinga í rútu til að kynna fyrir þeim land og þjóð.
Einkunnarorð Birnu eru: Allt er fullorðnum fært!
Fjölbreytt skemmtun með Menningarhópi U3A Reykjavík
Menningarhópurinn var stofnaður nú í haust og hugmyndin er að fitja upp á viðburðum um það bil einu sinni í mánuði. Annars vegar er stefnt að því að innihald viðburðanna sé einhverskonar menning í víðum skilningi þess orðs og hins vegar að þessar samverustundir gefi fólki tækifæri til að ræða saman um það sem séð var eða heyrt og kynnast og skiptast á skoðunum.
Menningarhópur hefur áður starfað innan U3A en þá með nokkuð öðru formi. Það var lokaður hópur sem fólk skráði sig í og aðeins þeir sem voru meðlimir fengu póst um væntanlega atburði. Í þetta sinn var ákveðið að sá litli hópur sem stendur að þessu reyndi að setja fram hugmyndir um eitthvað sem gæti hentað undir ofangreindum markmiðum og það síðan auglýst í öllum U3A hópnum. Allir sem áhuga hafa geta þá skráð sig en þó verða væntanlega ávallt takmörk á því hve margir geta tekið þátt, þ.e.a.s. fyrstir koma fyrstir fá.
Fyrsti viðburður haustsins var ferð í Viðey. Þar tók á móti okkur leiðsögumaður og sagði frá sögu og náttúru eyjarinnar og gekk síðan með hópinn um eyjuna og sagði nánar frá lífi og störfum þar. Þá var drukkið kaffi í Viðeyjarstofu þar sem hægt var að spjalla um það sem fyrir augu hafði borið og auðvitað margt annað. Eftir kaffi skoðuðu margir friðarsúluna og umhverfi hennar. Veðrið var yndislegt og óhætt að segja að ferðin hafi tekist vel.
Októberferð var svo farin til Keflavíkur að skoða Rokksafnið. Þar tók á móti okkur Aníta Engley Guðbergsdóttir sem sýndi okkur alla Hljómahöllina þar sem við stigum á svið þar sem margir frægari höfðu troðið upp. Aníta sagði okkur sögu hússins og allt um starfsemina sem þar fer fram. Hún kunni margar sögur af lífinu í húsinu og leiðsögn hennar var sérlega hress og skemmtileg.
Eftir Rokksafnið var svo farið í kaffi á Kökulist sem er spölkorn frá safninu. Þar var gott kaffi og úrval af kökum og brauði. Félagar úr U3A á Suðurnesjum komu til að hitta okkur þar og gott spjall var tekið við þau en líka um upplifun á Rokksafni og fleira. Almenn ánægja var með ferðina.
Framhald á starfi menningarhópsins fer svo eftir því hvernig til tekst áfram og hvernig félagsmenn taka þessu tilraunastarfi. Allir félagar eru hvattir til að taka þátt og koma á framfæri hugmyndum að viðburðum en þær má t.d. senda á ingasg@simnet.is
Fyrir hópnum fer Ingibjörg Ásgeirsdóttir en aðrir sem sem starf í hópnum eru Birna Sigurjónsdóttir, Ólafía Sveinsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir.
Viðburðir U3A Reykjavík í nóvember 2021
Fjölbreytt og ríkuleg dagskrá er á döfinni hjá U3A Reykjavík í nóvember, enda fimm þriðjudagar í mánuðinum.
- Veislan hefst 2. nóvember með því að Þórhildur Bjartmarz fjallar um sextíu ára hundabann í Reykjavík. Þórhildur er hundaþjálfari og eigandi hundaskólans Hundalíf.
- Þriðjudaginn 9. nóvember verður fyrirlestur um samskipti Íslands og Kína sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði flytur og
- Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs kemur til okkar þriðjudaginn 16. nóvember með fyrirlestur um loftslagsbreytingar.
- Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við stjórnmálafræðideild HÍ fjallar síðan um upplýsingaóreiðu 23. nóvember en hann ritaði doktorsritgerð sína um það efni.
- Loks stefnum við að fyrirlestri um smitsjúkdóma og faraldra 30. nóvember. Allir fyrirlestrar eru haldnir í sal í Hæðargarði 31 þriðjudaga kl. 16:30 auk þess sem þeim er streymt til félagsmanna og þeir aðgengilegir í viku eftir flutning.
Námskeið Jóns Björnssonar og Þorleifs Friðrikssonar um sögu og menningu Gyðinga hefst fimmtudaginn 25. nóvember og annar dagur námskeiðsins er 2. desember. Menningarnefnd verður einnig með viðburði í nóvember og verða þeir auglýstir síðar.
Fylgist með viðburðum og fréttum úr starfinu á heimasíðunni u3a.is