Fréttabréf í maí 2022

Hvernig viltu búa

Hvernig vilt þú búa?

Í grein í Kjarnanum þann 24. febrúar 2022, reifar Þorbjörn Guðmundsson, formaður kjaranefndar LEB, Landssamband eldri borgara, búsetuform eldra fólks  og segir þar m.a. „Það sem brennur helst á eldra fólki er skortur á fjár­hags­legu öryggi og fjöl­breyttum búsetu­formum sem tryggi öryggi og sam­veru.“ Einnig að fjölgun eldra fólks og að það vilji búa sem lengst heima kalli á nýjar áherslur og lausnir. Til þess að geta búið heima þurfi húsnæðið að henta því, dagleg þjónusta sé í nágrenninu og umhverfið bjóði upp á útiveru sumar sem vetur t.d. með yfir­byggðum garði.

Nýjar lausnir – Lífsgæðakjarnar
Segir Þorbjörn að LEB hafi lagt áherslu á að byggðir verði lífsgæðakjarnar sem einskonar millistig og nefnir þar uppbyggingu Hrafnistu á Sléttuveg í Reykjavík, sjá https://slettan.is/myndband/ og kjarna, Boverian, sem eru til í Svíþjóð og Danmörku.  Skilgreinir Þorbjörn lífsgæðakjarna sem byggðakjarna „... þar sem saman fer val­frjáls búseta eldra fólks og fjöl­þætt þjón­usta s.s. í tengslum við heil­brigð­is­kerfið og hjúkr­un­ar­heim­ili.“ Í kjörnunum er versl­un, heilsu­gæsla, veit­inga­staðir, hár­greiðslu­stofur og aðstaða fyrir öfl­uga heilsu­efl­ingu, félagsstarf og tóm­stund­ir.

Lífsgæðakjarnar - Bovieran
Í Skandinavíu, Svíþjóð, Danmörku og Noregi, eru lífsgæðakjarnarnir, Bovieran, með yfirbyggðum görðum. Nafnið er skammstöfun á Bo vid Rivieran og vísar til hugmyndar sem sænskur byggingarmeistari til 35 ára, Göran Mellberg, fékk árið 1989 um að líkja eftir loftslaginu við Rivieruna með með því að hafa yfirbyggðan garð með pálmatrjám og öðrum framandi plöntum í miðju kjarnans. Það var þó ekki fyrr en 2007 sem tæknin gerði það mögulegt að raungera hugmyndina. Garðurinn er hjarta lífsgæðakjarnans og staður þar sem íbúar þeirra og gestir geta hist og átt góðar stundir saman allt árið í kring.

Hugmyndin um lífsgæðakjarna með yfirbyggðum garði náði fljótt fótfestu í Svíþjóð og eru nú nær 30 slíkir kjarnar þar og fer fjölgandi, í Danmörku risu þeir fyrstu 2020 og nú er farið að byggja þá í Noregi. Aldur íbúa í Bovieran kjörnunum er 55 ára og eldri í Svíþjóð og Danmörku og 50 ára og eldri í Noregi.

Áhugasömum er bent á heimasíður Bovi­eran í Skandinavíu, https://bovieran.se/ í Svíþjóð, https://bovieran.dk/ í Danmörku og https://bovieran.no/ í Noregi.

Frjáls félagasamtök

Sjálfboðaliði

Bergþór Pálason í kynningarátaki VT vorið 2022

Ertu félagi?

Alþjóðadagur frjálsra félagasamtaka er haldinn 27. febrúar ár hvert. Markmiðið með því að halda sérstaklega upp á daginn er annars vegar að hvetja fólk til að taka virkan þátt í starfi félagssamtaka sem því hugnast og hins vegar að hvetja til samstarfs á milli félagssamtaka og opinbera geirans.

Af þessu tilefni skrifaði Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla – samtaka þriðja geirans, grein þar sem hann bendir á hvernig frjáls félagasamtök „snerta með einum eða öðrum hætti líf flestra í landinu – annað hvort í gegnum beina þátttöku í þeim eða með því að njóta góðs af starfi þeirra.“ Hann bendir einnig á hvernig frjáls félagasamtök hafa tekið að sér mikilvæg hlutverk í þjónustu við almenning og  þá sérstaklega þá þjóðfélagshópa sem eiga einhverra hluta vegna undir högg að sækja.
Jónas Guðmundsso, formaður Almannaheilla
Jónas Guðmundsson, formaður Almannaheilla

Jónas minnir á að frjáls félagasamtök bregðast gjarnan hratt við þegar óvæntir atburðir gerast og  koma að því að bjarga fólki og verðmætum, en auk þess gegna þau „ekki síður hlutverki við að efla andlegt líf í landinu, gera það innihaldsríkara og þróttmeira.“
Rannsóknir sýna að lífsfylling felst fyrst og fremst í samneyti við aðra, hvort sem það er maður á mann, í félagsskap, eða með virkri þátttöku í samfélaginu. Um leið er þátttaka líka tækifæri til aukins þroska, lífsgleði og reynslu.

Í vefgátt Vöruhúss tækifæranna, undir rekkanum Lífsfylling, má finna hugmyndir að ýmis konar félagsstarfi, svo sem félagsstarfi eldri borgara, Háskóla þriðja æviskeiðsins (U3A), sjálfboðastarfi Rauða krossins, bókmennta-leshringjum, mannréttindasamtökum og kór eldri kvenna svo eitthvað sé nefnt.
Við hvetjum lesendur til að kynna sér frjálsu félagasamtökin en ekki síður að benda okkur hjá Vöruhúsi tækifæranna á félagasamtök sem þið teljið að við ættum að vekja athygli á.

Réttur til vinnu / Réttur til að vinna ekki

Réttur til vinnu / Réttur til að vinna ekki

U3A Reykjavík hefur verið í virkum tengslum við hið alþjóðlega tengslanet „Pass it on Network“, PION, sem tengir saman fulltrúa frá öllum heimshornum til samtals og samstarfs um málefni sem brenna á okkur sem nálgumst og/eða erum á þriðja æviskeiðinu 50+/60+ um stöðu og tækifæri til þess að lifa virku lífi á efri árum. Í nafni netsins „Látum það berast“ felst í raun markmiðið að læra hvert af öðru og heyra af góðum verkefnum og árangri sem náðst hefur, til hugsanlegrar eftirbreytni heima fyrir.

Hans Kristján Guðmundsson hefur verið tengill U3A Reykjavík við þetta tengslanet í nokkur ár og miðlað upplýsingum heim og heiman um starf okkar, hér heima og í erlendu samstarfi, og tekið þátt í reglulegum  netfundum og viðburðum PION.

Um nokkurt skeið hefur PION mánaðarlega skipulagt gagnvirkan samtalsvettvang um þessi mál, opinn öllum, undir heitinu Global PIONeers 50/50 Online Conversation. Þetta eru klukkustundar langir fundir sem skiptast þannig að stjórnendur og framsögumenn nýta fyrri helming tímans og seinni hlutinn er ætlaður skoðanaskiptum þátttakenda, sem yfirleitt skipta tugum, um málefni samtalsins. Nú síðast var yfirskriftin „Right to Work / Right not to Work“, þar sem Hans Kristján hafði framsögu um stöðu þessara mála hér á Íslandi. Þessir fundir eru teknir upp og eru  aðgengilegir á Youtube-rás tengslanetsins. Á eftirfarandi tengli má finna upptöku af þessum fundi auk fyrri funda. Sjá:  https://www.youtube.com/channel/UC_-55GxEnB35Fy4zN19vmGA

Sjálfboðavinna Mæðrastyrksnefnda á Íslandi

Föt og leikföng

Tilurð Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur nær aftur til ársins 1928 þegar til hennar var stofnað í kjölfar hörmulegs sjóslys fyrir utan Sandgerði þar sem fimmtán skipsverjar drukknuðu. Hinn 20. apríl 1928 stofnuðu 22 konur frá 10 kvenfélögum stofnuðu Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur sem hafði það markmið að aðstoða ekkjur skipverjanna og föðurlaus börn þeirra.

Frá árinu 1939 hefur Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur starfað sem sjálfstæð stofnun sem berst fyrir réttlátri og mannúðlegri félagsmálalöggjöf og hefur starf nefndarinnar haft mikil áhrif, jafnt á almenningsálitið sem og á löggjöfina og framkvæmd laganna.

Starf nefndarinnar hefur breyst í áranna rás og í takt við tímann. Stöðugt fjölgar heimsóknum þeirra sem leita til nefndarinnar. Auk matarúthlutana eru námsstyrkir veittir úr sérstökum Menntunarsjóði og stuðningur  veittur vegna tómstundaiðkunar barna.

Það eru ekki lengur aðeins einstæðar mæður sem leita til Mæðrastyrksnefndarinnar, við hafa bæst karlmenn, bæði einstæðir og með forsjá barna, en einnig er áberandi hve öryrkjum og eldri borgurum hefur fjölgað á síðustu árum.

Í dag eru Mæðrastyrksnefndir starfandi á fimm stöðum á landinu, þ.e. á Akranesi, Akureyri, Hafnafirði, Kópavogi og Reykjavík.

Allt starf á vegum Mæðrastyrksnefnda er unnið í sjálfboðavinnu.

Sjá nánar á vef Vöruhúss tækifæranna

Hugarsmíðin hún Stella okkar

Stella og Úraníus rokka

Hugarsmíðin okkar hún Stella Kristmannsdóttir er 55 ára fyrrverandi þjónustufulltrúi í einu af útibúum Landsbankans. Hún býr í Reykjavík, nánar tiltekið í póstnúmeri 107, og er gift Úraníusi Pálssyni einum af millistjórnendum Íslandsbanka. Saman eiga þau soninn hann Kalla sem býr í Stokkhólmi með konu og tveimur börnum. Þó skömm sé að segja frá er Stella löt að kjósa í Alþingiskosningum því henni finnst þetta alltaf enda bara í einhverju miðjumoði. Í sveitarstjórnakosningum er hún öllu líflegri og þar eiga Píratar hennar atkvæði.

Stellu og Úraníusi líður vel saman. Hún er stjarnan hans og hann hennar. Áhugamálin eru um margt þau sömu og ber dansinn þar hæst. Mætti jafnvel segja að þau lifi fyrir dansinn og eru sannkölluð dansfífl eins og sagt er. Sækja saman námskeið í allskonar dansi en mest finnst þeim gaman að dansa rock and roll og gera það af slíkri gleði og ákefð að eftir er tekið. Alveg eins og á sokkabandsárunum. Stella nýtur þess að snúa sér í hringi og Úraníus  stýrir vel þó að ekki sé hann sá léttasti á gólfinu. Stella á margar vinkonur því þær rækta tengslin vel Landsbankakonurnar, bæði fyrrverandi og núverandi. Fara saman í  leikfimi og á viðburði U3A Reykjavík sem og alla þá menningarviðburði sem þær komast yfir. Taka svo eina helgi á ári til þess að fara í sumarbústað saman og sletta rækilega úr klaufunum.

Stella missti vinnuna þegar útibúinu hennar var lokað vegna hagræðingar! Eins og hún hafði lagt á sig að sækja öll þessi námskeið til þess að verða betri í starfi og halda við ferilskránni. Allt fyrir bí? Síðan þá hefur Stella sótt um mörg störf en ekkert orðið ágengt. Ekki það að hún þurfi að hafa fjárhagsáhyggjur því Úraníus er góður skaffari en hún vill ekki vera upp á hann komin. Að vinna fyrir sínum eigin launum er hluti af sjálfsvirðingunni. Gladdi hennar hjarta þegar hún sá lýst eftir 60+ í vinnu á veitingastað og það þurfti bara að vera góður í að spjalla. Eins og Stella væri það ekki, hún sem hafði talað við kúnna Landsbankans svo hundruðum skipti og gefið þeim góð ráð. Sótti um en fékk ekki.

Nú voru góð ráð dýr og ákvað Stella því að skipta um kúrs og mennta sig sem leiðsögumaður. Þar gæti hún nýtt sér hvað hún á létt með að tala við fólk og svo gæti hún eflaust kennt ferðamönnunum nokkur dansspor í leiðinni. Landið þekkir hún líka vel því hún og Úraníus hafa í mörg ár ferðast þvers og kruss á stóra jeppanum sínum og upp um fjöll og firnindi. Upplýsingar um leiðsögunám, alls fimm skóla,  fann hún á hillunni Nám og fræðsla í rekkanum Færni í Vöruhúsi tækifæranna. Og nú er ekki eftir neinu að bíða og sækja bara um skólavist í einhverjum þeirra.

Stella er alsæl með hann Úraníus sinn. „Hann er gull af manni“ segir hún. Þau una sér vel í íbúðinni sinni á Grenimelnum sem er kannski of stór eftir að sonurinn flutti út en það þarf samt að hafa smá auka pláss þegar hann kemur í heimsókn með krílin. Stella og Úraníus eru líka dugleg að fara að heimsækja soninn í Stokkhólmi og áður en þau leggja af stað setur Stella plötuna Sakta vi går genom stan með henni sænsku Monicu Zetterlund á fóninn og svífur um gólfið með Úraníusi í hægum takti eftir tónlistinni.

Tónleikar kvennakórsins Senjóríturnar og kóngsins

Bubbi og Senjóríturnar

Þann 9. apríl s.l. hélt Senjórítukórinn,  sem er afsprengi eldri kvenna út úr Kvennakór Reykjavíkur, tónleika í samstarfi við Bubba Morthens í Langholtskirkju.

Það er mikill metnaður í starfi Senjórítanna og þær hafa reglulega haldið tónleika, tekið þátt í kóramótum og farið í söngferðalög. Á meðal þeirra sem sungið hafa með kórnum eru t.d. Raggi Bjarna heitinn og Bragi Valdimar Skúlason í Baggalúti.

Silja Aðalsteinsdóttir, sem er í forsvari fyrir Senjórítukórinn, og Bubbi hafa verið vinir í rúma fjóra áratugi og leiddi sú vinátta til  samstarfs kórsins og kóngsins einsog hann er gjarnan kallaður.  Á tónleikunum söng kórinn, undir stjórn Ágotu Joó, fjölmörg lög Bubba bæði með honum og án hans. Bubbi talaði sjálfsagt fyrir hönd margra áheyrenda þegar hann sagði að seint hefði hann átt von á því að hlusta á kór kvenna „á besta aldri“ syngja lag hans Fjöllin hafa vakað í þúsund ár í kirkju. Það er óhætt að segja að bæði kórinn og áheyrendur, sem fylltu Langholtskirkju, hafi „fílað“ tónleikana botn.

Nánari upplýsingar um Senjórítukórinn má finna í Vöruhúsi tækifæranna undir rekkanum Lífsfylling 

Umhverfishópur U3A Reykjavík

Umhverfismál

Stefnt er að því að stofna umhverfishóp U3A félaga 12. maí. Fundurinn verður auglýstur og til hans boðað eins og annarra viðburða á vegum félagsins. Áhugasamir félagar munu þar leggja línurnar að því hvernig hópurinn hyggst vinna.

Markmiðið er að stuðla að vernd umhverfis og loftslags með því að vekja athygli á leiðum til umhverfisverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá. Einnig verða félagsmenn hvattir til að láta til sín taka í umhverfismálum og reglulega birtar hvatningar og ábendingar um umhverfisvænan lífsmáta.  Hópurinn verður tengiliður U3A út á við varðandi umhverfismál og gerir væntanlega  tillögur að fyrirlestrum á vegum U3A Reykjavík á þessu sviði.

Frumkvæði að stofnun umhverfishóps fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu kemur upphaflega frá Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneyti ásamt hugmynd um að verkefnið verði norrænt samstarfsverkefni með þátttöku sambærilegra hópa á Norðurlöndunum. Þessi hugmynd er enn í mótun.

Viðburðir U3A Reykjavík í maí 2022

Fyrirlesarar í maí 2022

F.v: Berglind Ásgeirsdóttir, Rakel Garðarsdóttir, Hadís Hanna Ægisdóttir og Borgný Katrínardóttir

Í maí verða enn fleiri og fjölbreyttari viðburðir í boði fyrir félagsmenn U3A Reykjavík en áður. Allir viðburðir eru auglýstir á heimasíðu félagsins u3a.is og auk þess fá félagsmenn sendan tölvupóst  tveim til þremur dögum fyrir hvern viðburð með skráningartengli og öllum upplýsingum.

Fyrst skal tilgreina þriðjudagsfyrirlestrana sem allir eru í Hæðargarði 31 kl. 16:30.

  • 3. maí heyrum við erindi Berglindar Ásgeirsdóttur, sendiherra um Rússland og nágannalöndin en Berglind var sendiherra í  Moskvu árin 2016-2020.
  • 10. maí kemur til okkar Rakel Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri og fjallar um matarsóun sem er mikil í öllum vestrænum löndum.
  • 17. maí fáum við fyrirlestur um Suðurskautslandið, lífríki, loftslagsbreytingar og leiðtoga sem Hafdís Hanna Ægisdóttir, líffræðingur flytur.
  • 24. maí  er komið að síðasta fræðslufyrirlestri vorsins sem nefnist: Spóinn er kominn og það er Borgný Katrínardóttir, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands sem fræðir okkur um spóann sem hún hefur rannsakað.

HeiM göngur
Hinar vinsælu gönguferðir HeiM-verkefnisins verða endurteknat nú í maí, sú fyrsta var reyndar 30. apríl um Hólavallakirkjugarð með leiðsögn Ingibjargar R. Guðlaugsdóttur og komust færri að en vildu. 7. maí verða styttur miðborgarinnar heimsóttar með leiðsögn Birnu Halldórsdóttur, 14. maí verður gengið um Elliðaárdalinn með leiðsögn Birgis Jónssonar og Dagrúnar Þórðardóttur og 19. maí er gangan í Laugarnesi og um Kirkjusand með leiðsögn Harðar Gíslasonar. Síðasta gönguferðirn er síðan sólstöðuganga í Viðey 21. júní og er kvöldganga, hana leiðir Þór Jakobsson.

Umhverfishópur
Stefnt er að því að stofna umhverfishóp U3A félaga 12. maí. Markmiðið er að stuðla að vernd umhverfis og loftslags með því að vekja athygli á leiðum til umhverfisverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá.

Vorferðir
Menningarhópur stefnir að heimsókn í Herminjasafnið í Hvalfirði eftir miðjan maí og verður dagsetning tilkynnt síðar.
Vorferð U3A Reykjavík verður farin þriðjudaginn 31. maí um Reykjanesið, nánar tiltekið: Krýsuvík, Nátthaga (nýja hraunið), Grindavík (léttur hádegisverður), Hafnir, Ásbrú og Reykjavík. Lagt af stað kl. 9 og komið aftur um kl. 14.30.

Sumarhlé
U3A Reykjavík gerir hlé á starfsemi sinni yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst með þeirri undantekningu að farið verður í sólstöðugöngu í Viðey 21. júní eins og áður er komið fram.
Stjórn U3A Reykjavík óskar öllum félagsmönnum góðs og gróðurríks sumars.

Skip to content