Fréttabréf í maí 2023

ad-slast-vi-kerfid-1-1200x630

Að slást við kerfið
Um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks

Fullorðin kona sem hafði annast fullorðinn maka sinn heima í 10 ár viðurkenndi að það hefði tekið á. Það er erfitt að horfa upp á lífsförunaut sinn fjara út en það sem henni fannst erfiðast var að „slást við kerfið.“ Þetta þekkja þeir sem þurfa eða hafa þurft að aðstoða og sjá um fullorðna aðstandendur sína. Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 2021 sýnir að 42% eldri borgara sem þurfa á aðstoð að halda fá hana frá börnum sínum og þá helst frá dætrum sínum. Þetta getur verið mikið álag á umönnunaraðilana sem eru gjarnan í fullri vinnu utan heimilis. En ekki síður getur þetta verið mjög þungbært fyrir þann sem fær aðstoðina að þurfa að vera upp á góðmennsku ættingja sinna kominn.

Ráðherra félagsmála fer með málefni aldraðra fyrir hönd ríkisins en önnur ráðuneyti og þó nokkrar stofnanir koma einnig að málaflokknum. Um 80% af þjónustu við eldra fólk er framkvæmd af sveitarfélögum um allt land sem byggir á eigin tekjum sveitarfélaga. Þar af leiðir að sveitarfélögin bjóða upp á mismunandi þjónustu þannig að eldra fólki er mismunað eftir búsetu. Upplýsingar um réttindi eldra fólks og hvaða úrræði standi þeim til boða eru ekki nægilega aðgengilegar. Það hefur verið samdóma álit nær allra sem komið hafa að málaflokknum síðustu áratugi.

Í Fréttabréfinu okkar í desember s.l. sögðum við frá drögum að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumálaráðherra sem nefnist Gott að eldast og felst í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Eitt af meginmarkmiðum aðgerðaáætlunarinnar er að gera fólki kleift að búa sem lengst heima hjá sér en til þess er nauðsynlegt að samþætta þá þjónustu sem mismunandi aðilar veita eldri borgurum

Þann 13. júní 2021 samþykkti Alþingi þingsályktun um að „fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“

Í greinargerð með tillögunni segir að þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila, og að lög og reglur um málaflokk aldraðra séu flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Hagsmunafulltrúa aldraðra sé ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.

Hagsmunafulltrúa aldraðra beri að hafa frumkvæðiseftirlit með persónulegum högum allra eldri borgara, sérstaklega með tilliti til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað þeirra. Jafnframt skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Ályktunin var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum og ráðherrum og fyrir um ári síðan var starfshópur skipaður í samræmi við ofangreinda þingsályktun, en hópurinn hefur enn ekki skilað opinberlega niðurstöðum. Við fyrstu sýn virðist manni ályktun Alþingis nokkuð skýr og þörf. Þó hefur starfshópurinn upplýst ráðherra um að hann setji „spurningarmerki“ við það að setja á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Ekki hefur spurst út hver rök starfshópsins eru fyrir að samþykkja ekki að embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks verði komið á og það verður fróðlegt að sjá þau þegar starfshópurinn skilar niðurstöðum sínum opinberlega. Rétt er að geta þess að starfshópurinn tekur undir að bæta megi upplýsingagjöf til eldra fólks en það höfum við jú vitað í áratugi og þurfti varla ársvinnu starfshóps á vegum hins opinbera til að komast að þeirri niðurstöðu. En svona er kerfið og við höldum áfram að „slást“ við það.

Nýtum tæknina okkur í hag!
Skúli B. Geirdal, verkefnastjóri hjá fjölmiðlanefnd

  • Fyrir 7 árum var enginn á TikTok.
  • Fyrir 12 árum höfðum við ekki heyrt um SnapChat eða Zoom.
  • Fyrir 15 árum fengum við ekki eina einustu tilkynningu í símana okkar frá Instagram, Messenger og WhatsApp.
  • Fyrir 20 árum lifðum við í heimi án Facebook, YouTube, Twitter, Spotify og Iphone.
  • Fyrir 25 árum síðan notuðum við ekki Wi-Fi eða Bluetooth!

Umhverfið sem ég fæddist inn í fyrir 30 árum síðan er gjörbreytt því sem við horfum upp á í dag. Já það þarf ekki að leita lengra aftur til þess að finna tímann þegar að við vorum ekki öll sítengd við netið, með fleiri klukkutíma á dag í skjátíma (símar, spjaldtölvur, sjónvörp, fartölvur o.fl.) og með áreiti samfélagsmiðla á bakinu öllum tímum sólarhringsins.

  • Ég fékk að taka út líkamlegan og andlegan þroska í friði frá pressu samfélagsmiðla.
  • Ég fékk að leika mér á skólalóðinni án þess að hafa áhyggjur af því að myndir eða myndbönd væru tekin af mér og send áfram.
  • Ég fékk boð um að vera með eftir skóla þótt ég væri ekki með aðgang á samfélagsmiðlum.
  • Ég fékk tækifæri til þess að virkja ímyndunaraflið og sköpunarkraftinn þegar að mér leiddist því ég var ekki með allt afþreyingarframboð heimsins í vasanum.

Var allt betra í þá gömlu góðu daga? Þegar að við reyktum inni, keyrðum um án bílbelta og flengdum óþæg börn... meti það nú hver fyrir sig, en ég ætla ekki að ganga alveg svo langt. Nýjar, stórar áskoranir munu alltaf líta dagsins ljós og við verðum að vera tilbúin að takast á við þær sem samfélag.

Lærum að nota tæknina okkur í hag
Þótt við sem eldri erum höfum fæðst inn í heim þar sem hvergi var nettenging þá er staðan í nútímasamfélagi sú að þessi nýja tækni er orðin órjúfanlegur hluti af okkar lífi og tilveru. Sama á hvaða aldri við erum þá erum við öll að læra á þessa tækni sem er komin til að vera. Mistök eru eðlilegur hluti í lærdómsferli. Ef við lítum í eigin barm getum við öll lært af mistökum okkar, og annarra, og gert betur. Verum tilbúin til þess að læra, aðstoða aðra, vera fyrirmyndir og betri við hvert annað. Þessa nýju tækni má nota á alveg stórkostlegan hátt ef við erum tilbúin til þess að nota hana á ábyrgan hátt. Með fræðslu þá valdeflum við okkur sjálf gagnvart tækninni. Í staðinn fyrir að láta teyma okkur áfram af algóritmum og láta mata okkur af afþreyingu og upplýsingum skulum við taka stjórnina. Þannig nýtum við tæknina í okkar þágu sem samfélag.

Nokkrar punktar úr rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd fyrir aldurshópinn 60 ára og eldri:

  • 78% nota Facebook oft á dag eða daglega
  • 84,5% nota fréttamiðla á netinu dagalega
  • 51,3% fá fréttir frá samfélagsmiðlum daglega
  • Aldurshópurinn 60 ára og eldri er sá hópur þar sem flestir nota sjónvarp, útvarp, dagblöð, tímarit og vikublöð til að nálgast fréttir
  • Elsti aldurshópurinn (60+) telur sig í mestum erfiðleikum með að bregðast við falsfréttum og er líklegri en þeir sem yngri eru til að gera ekkert þegar að þær verða á vegi þeirra. Á móti er yngsti aldurshópurinn sá sem er líklegastur til þess að leita ráða hjá öðrum.

Við óttumst það sem við þekkjum ekki og forðumst helst það sem við kunnum ekki. Tækninýjungum fylgja áskoranir og það er undir okkur komið að bregðast við þeim. Ef við gerum ekki neitt þá missum við smám saman tökin. Ef við nálgumst efnið fyrirfram sem neikvætt þá verður niðurstaðan í okkar huga næstum örugglega neikvæð. Við verðum að nálgast efnið með opnum huga og horfa á bæði tækifærin og áskoranirnar. Nýja tækni tileinkum við okkur með því að læra inn á hana. Í lærdómsferlinu gera allir mistök og það sýnir styrk fremur en vanmátt að leita sér aðstoðar.

Það er gott að fá börnin og barnabörnin í heimsókn til þess að hjálpa til með tæknina en höfum þó í huga að með því að láta alltaf aðra gera hlutina fyrir okkur þá missum við af tækifærinu til þess að læra að gera þá sjálf. Fáum þau til að aðstoða okkur frekar en að gera allt fyrir okkur. Þegar að við erum ósjálfbjarga erum við berskjölduð og þá bjóðum við hættunum frekar heim.

Einmitt útaf þessari berskjöldun herja netþrjótar sérstaklega á eldri aldurshópa í netveiðum sínum. Hér koma nokkur dæmi:

  • Með fölskum notendareikningum á samfélagsmiðlum þar sem þeir þykjast vera gamlir vinir eða ættingjar í vanda.
  • Með fölskum tölvupóstum sem settir eru upp eins og þeir séu að koma frá þekktum fyrirtækjum. „Þú þarft að uppfæra uppfæra upplýsingarnar um sendinguna þína...“ eða „þú hefur borgað of mikið og átt inneign sem þú getur nálgast með því að...“
  • Með því að búa til falskar fyrirtækjasíður og senda okkur skilaboð um að við höfum unnið í gjafaleiknum þeirra.

 Með tíð og tíma hafa þessi svindl orðið sífellt meira sannfærandi og skrifuð á betri íslensku. Um 90% af rafrænum innbrotum byggja á því að plata fólk. Því er mikilvægt að vera vel á verði, virkja gagnrýnu hugsunina og skoða skilaboðin mjög vel:

  • Hvert er netfang sendanda? Það er mikilvægt að skoða frá hvaða netfangi tölvupóstar eru sendir. Passar netfangið við fyrirtækið sem segist vera að senda póstinn?
  • Er um lélega þýðingu að ræða í póstinum? Stendur „útsýni“ í staðinn fyrir „view“ á hnappinum sem inniheldur hlekkinn? Er um bjagað mál að ræða í póstinum sjálfum.
  • Er erindið sennilegt? Áttir þú von á sendingu eða endurgreiðslu? Ertu kannski ekki með áskrift hjá Netflix, en ert samt allt í einu að fá póst um að þú eigir þar inni peninga? Er þetta fyrirtæki sem venjulega sendir þér tölvupósta? Allt sem vekur hjá okkur efasemdir á netinu er nóg til þess að við ættum að staldra aðeins við áður en við bregðumst við. Stoppa – hugsa – athuga

Nokkur góð ráð:

  • Hafa beint samband við fyrirtækið sem er að senda þér póstinn sem vekur hjá þér grunsemdir. Ekki smella á hlekki í póstinum heldur farðu inná heimasíðu viðkomandi fyrirtækis beint í vafra eða með hjálp leitarvélar. Finndu þar netfang eða símanúmer og hafðu beint samband við starfsfólk. Ekki svara póstinum sem þú fékkst heldur finndu rétt netfang á heimasíðu fyrirtækisins eða farðu inná www.cert.is til að tilkynna. Með því að tala beint við starfsfólk viðkomandi fyrirtækis er oftast hægt að finna fljótt út úr því hvort pósturinn kom frá þeim eða ekki.
  • Ekki opna hlekki. Ekki smella á neitt í pósti sem vekur hjá þér grunsemdir. Tilkynntu hann frekar til viðkomandi fyrirtækis eða www.cert.is.
  • Vertu alltaf með varan á. Rétt eins og að spenna beltin áður en þú keyrir af stað. Höfum kveikt á gagnrýnu hugsuninni okkar þegar að við erum á netinu.
  • Notum löng og flókin lykilorð. Pössum okkur að nota ekki alltaf sama lykilorð og breytum þeim af og til.
  • Ekki senda viðkvæmar persónuupplýsingar. Ekki senda símanúmerið þitt áfram í gegnum spjall á samfélagsmiðlum. Ekki senda myndir af skilríkjum eða kortanúmerum. Ekki deila lykilorðum með öðrum.
  • Leitum aðstoðar hjá öðrum. Það er gott ráð að spyrja fólkið sem maður treystir í kringum sig áður en maður bregst við tölvupósti sem að vekur hjá manni grunsemdir.
  • Hjálpumst að. Látum vita þegar að netveiðar og svindl verða á vegi okkur. Tilkynnum slík tilfelli og deilum því áfram t.d. inni á spjallhópum sem við erum í til þess að vara aðra við. Tilkynnum netöryggisatvik inná www.netoryggi.is.Listarnir hér að ofan eru auðvitað ekki tæmandi. En þar er að finna ýmis góð ráð til að hafa í huga. Fyrir frekari upplýsingar um netöryggi þá mæli ég með síðunni www.netoryggi.is hjá CERT-IS, þar er að finna fróðleik ásamt netföngum til að tilkynna vefveiðar og svindl.Frekari upplýsingar um rannsókn Maskínu fyrir Fjölmiðlanefnd má finna hér. Þá langar mig að lokum til þess að benda á nýja vefinn sem Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi var að opna www.midlalaesi.is. Enn sem komið er þá er fræðsluefnið sem þar er að finna helst ætlað börnum og ungmennum. Engu að síður mæli ég með áhorfi á fræðslumyndböndin sem þar er að finna fyrir alla þá sem að umgangast börn í dag. Hvort sem það eru börn þín, barnabörnin eða barnabarnabörnin. Þar er einnig að finna hugtök úr netheimum þar sem við höfum tekið saman stuttar skilgreiningar á ýmsum hugtökum eins og t.d. spjallmenni, upplýsingaóreiða, algóritmi og djúpvefur. Það er auðvelt að týnast í umræðunni þegar að hún inniheldur mörg orð sem maður skilur ekki, inná www.midlalaesi.is er að finna þessa stuttu netorðabók sem er ætluð að hjálpa okkur að fóta okkur í þessum nýja veruleika.

 

Skúli B. Geirdal

Að gerast götulistamaður á efri árum

Þessi mynd tekin af vefsíðunni https://mistakermaker.org</br>en með því að skrifa LATA 65 sem leitarorð birtist mjög mikið af skemmtilegu myndefni.

LATA 65 er listasmiðja þar sem fólk á þriðja æviskeiðinu, yfir fimmtugu, gerist götulistamenn, veggjakrotarar, og  lífgar upp á umhverfi sitt með myndum og litum. Smiðjan byrjar á því að fólkið sækir vinnustofu þar sem það lærir aðferðir veggjalistamanna undir handleiðslu þeirra. Á vinnustofunni er meðal annars kennd saga veggjakrots í Bandaríkjunum frá 1970 og þróun þess yfir í að kallast borgarlist auk þess sem þau læra tæknileg hugtök og að fara með spraybrúsa og annað sem til þarf eins og að teikna og klippa stensla og búa til sitt eigið fangamark til þess merkja myndir sínar með. Eftir vinnustofuna er farið út í borgina með spreybrúsa, grímur og hanska og hafist handa en þar bíður þeirra veggur sem má spreyta sig á. Hópurinn er yfirleitt ekki fjölmennari en 15 manns og aldurinn getur verið er allt frá 50 ára í allt að 102 ára. Hópar eldri götulistamanna hafa fengið nöfn eins og Veggjakrotaömmur (Graffiti Grannies) og sagt hefur verið að LATA 65 hóparnir séu trúlega áhugaverðustu veggjakrotsgengi heims.

Með LATA 65 er meðal annars leitast við að brjóta niður staðalmyndir af eldra fólki og aldursfordóma og sýna fram á að aldur er bara tala. Það getur þó tekið á fyrir eldra fólk að stíga út fyrir þægindarammann og taka þátt í slikum verkefnum en af umsögnum þeirra sem hafa gert það að dæma er það vel þess virði eða eins og einn þátttakandi sagði „Borgin mín fékk litinn aftur.“
LATA 65 byrjaði í Lissabon árið 2012 sem átaksverkefni fyrir aldraða í tengslum við borgarhátíð sem þá var haldin þar. Markmið hátíðarinnar var að kynna nútíma götulist  sem tæki til félagslegra, menningarlegra og efnahagslegra umbreytinga í borginni.  Hugmyndina að LATA 65 átti Lara Seixo Rodrigues, arkitekt og sýningarstjóri,  og kviknaði hún þegar Lara tók eftir  áhuga eldra fólks að fylgjast með þegar götulistamenn voru að verki á hátíðinni. Haft er eftir Lara að það sé bæði mögulegt og æskilegt að vekja, hvetja og efla eldra fólk í gegnum borgarlist. Má því segja að LATA 65 hvetji til virkra efri ára.

Hugmyndin um LATA 65 hefur síðan farið víðar og verkefninu komið á fót  í fleiri borgum í Portúgal sem og í Valencia á Spáni, Aberdeen í Skotlandi, Sao Paulo í Brasilíu og Houston í Texas í Bandaríkjunum.

Virkni og vellíðan
Fyrsta keppnin á Íslandi í götugöngu fyrir 60 ára og eldri

Þátttakendur í verkefninu Virkni og Vellíðan fá tækifæri til að stunda hreyfingu í því félagi sem stendur næst heimili þeirra í Kópavogi. Helsta markmiðið með verkefninu er  að stuðla að bættri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu bæjarbúa í Kópavogi og að stuðla jafnframt að farsælli öldrun. Verkefnið er á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við íþróttafélögin þrjú, Breiðablik, Gerplu og HK. Nánar um verkefnið má lesa Virkni og Vellíðan | Kópavogsbær (kopavogur.is)

Vakin er  athygli á að þann 11. maí næstkomandi stendur Virkni & Vellíðan fyrir fyrstu keppni í GÖTUGÖNGU fyrir 60+ sem haldin hefur verið á Íslandi. Leiðin sem verður gengin er 3.4 km sem byrjar niðri við Breiðablik og gengið verður um Kópavogsdalinn. Keppnin er hugsuð fyrir alla 60 og eldri á Íslandi og hefst kl. 15. Hvatt er til að sem  flestir mæti og taki þátt. Allir eru velkomnir.

Keppt verður í fjórum aldursflokkum sem eru: 60-69 ára, 70-79 ára, 80-89 ára og 90+

Gefin verða vegleg verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki fyrir sig.

Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi hreyfingar eldra fólks og hversu fjölbreytt heilsuefling eru í boði víðsvegar um landið.

Slóð á skráningu  keppninnar er hér:
https://netskraning.is/virkni-og-vellidan/
Nauðsynlegt er að allir sem eru 60 ára og eldri skrái sig.

Sjá stærri mynd

Umhverfishópur U3A Reykjavík

Mynd: Hrefna Sigurjónsdóttir

Umhverfishópur U3A Reykjavík var stofnaður haustið 2022, í hópnum eru 25 skráðir félagar. Á fundi hópsins var settur stýrihópur sem í eru auk undirritaðrar Jórunn Erla Eyfjörð, Emma Eyþórsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Valborg E. Baldvinsdóttir. Helsta markmið hópsins er að stuðla að vernd umhverfis og loftslags með því að vekja athygli á leiðum til umhverfisverndar og efna til aðgerða sem bæta umhverfi og vinna gegn loftslagsvá.

Málþing
Hópurinn hefur í tvígang skipulagt stutt málþing, það fyrra 14, janúar 2023 um náttúru Íslands og vernd hennar á tímum loftslagsbreytinga og hið síðara 18. apríl  s.l. um stöðu líffræðilegs fjölbreytieika á heimsvísu (biodiversity).

Á fyrra málþinginu fluttu þrír fyrirlesarar stutt erindi, Helgi Björnsson, jöklafræðingur og prófessor emeritus við HÍ, um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á freðhvolf jarðar, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur og prófessor við HÍ, um náttúru Íslands á 21. öld: hverjar gætu helstu ógnanir orðið? og Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun,  sem nefndi erindi sitt: Undir yfirborðið – lífríki sjávar.

Lífríki jarðar í hættu var yfirskrift síðara málþingsins . Þá fluttu tveir fyrirlesarar stutt erindi: Snorri Sigurðssonsson, líffræðingur og sviðsstjóri á Náttúrufræðistofnun Íslands fjallaði um  helstu niðurstöður  COP-15 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fjölbreytileika lífsins sem haldin var  Montreol í Kanada í desember 2022 og hvað þær  þýða fyrir Ísland.  Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur flutti síðan erindið: Féþúfan Ísland:  náttúrusala og neysluskipti. Hún brást við erindi Snorra og hugleiddi stöðuna á Íslandi. Bæði málþingin voru fjölsótt.

Grey4Green
Julie Kermarec og René Biasone frá Umhverfisstofnun komu á fund umhverfishópsins 30. mars sl. og kynntu verkefni sem heitir Grey4Green, alþjóðlegt samstarfsverkefni (ERASMUS+) sem hófst á þessu ári með það að markmiði að þróa sjálfboðaliðaverkefni í náttúruvernd meðal fólks sem er eldra en 60 ára til að stuðla að félags-, menntunar- og persónulegri þróun. Fyrsti liður í verkefninu er þjálfunarnámskeið sem verður haldið á Kýpur í byrjun maí fyrir starfsmenn og kennara sem vinna með þessum tiltekna aldurshópi og að umhverfismálum. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar (á ensku) um verkefnið á þessari vefsíðu: https://grey4green.eu/about/. Umhverfishópurinn mun fylgjast áfram með framgangi þessa verkefnis og taka þátt eftir því sem færi gefst.

Older people and the climate – benefits for both.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið ásamt félags og vinnumarkaðsráðuneytið hefur fengið styrk frá norrænu ráðherranefndinni fyrir verkefnið Older people and the climate – benefits for both. Það verkefni skiptist í þrjá hluta þar sem fyrsti hlutinn er samantekt um það starf sem aldraðir vinna þegar á þessu sviði í öllum Norðurlöndunum. Annað skrefið er að skipuleggja og efna til málstofu í Reykjavík í haust 27.-28. september þar sem fyrirlesarar og áheyrendur taka þátt í vinnustofu með áherslu á eldra fólk í loftslagsmálum. Þriðji hlutinn er síðan að gera skýrslu með grunnupplýsingum, samantekt frá málstofunni og ráðleggingum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um hvers vegna og hvernig þau ættu að styðja sjálfboðaliðahópa aldraða á sviði loftslagsmála og hvernig megi efla og viðhalda norrænu samstarfi í þessum málum. Hugmyndin fyrir málstofuna er að hafa tvo frá hverju landi til að halda fyrirlestur eða taka þátt í pallborðsumræðum, viðfangsefnið væri þá loftslagsbarátta fyrir eldra fólk, bæði einstaklingar sem hafa stofnað samtök/hópa eða gert verkefni tengt því eða einstaklingar sem taka þátt í slíkum samtökum/hópum. Umhverfishópurinn fylgist áfram með þessu verkefni og stefnir að þátttöku í málstofunni í haust.

Allar hugmyndir að verkefnum og fyrirlestrum umhverfishóps eru vel þegnar og hægt að koma þeim á framfæri á netfanginu u3areykjavik@gmail.com eða með því að óska eftir aðild að hópnum og síðu hópsins á Facebook.

Birna Sigurjónsdóttir
Í stjórn U3A Reykjavík
skogarsel@simnet.is

 

Viðburðir U3A Reykjavík í maí 2023

F.v.: Gunnar Svavarsson, Páll Einarsson, Guðrún Helgadóttir, Gísli Jökull Gíslason

Við höldum áfram þriðjudagsviðburðum til 23. maí en þá er síðasti fyrirlestur á þriðjudegi, vorferðirnar marka svo lok starfsársins 2022-2023. Sumarhlé tekur við í júní, júlí og ágúst og þráðurinn síðan tekinn upp með félagsfundi í byrjun september.

Eftirfarandi viðburðir eru á dagskrá í maí:

2. maí  kl. 16:30 kemur Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH ohf. til okkar í Hæðargarð 31 og kynnir stöðu dagsins á uppbyggingu Landspítala við Hringbraut.

9. maí kl. 16:30 kemur Páll Einarsson, professor emeritus til okkar í Hæðargarðinn. Að þessu sinni flytur hann fyrirlestur sinn á ensku, ástæðan er að gestir á fundinum eru skiptinemar frá UPUA í háskólanum í Alicante. Þeir eru hér í heimsókn í viku og U3A Reykjavík tekur á móti þeim og skipuleggur fræðsluprógramm fyrir þá. Við viljum einnig kynna fyrir þeim starfsemi okkar, þar á meðal þriðjudagsfyrirlestur. Fyrirlestur Páls er að sjálfsögðu einnig ætlaður félögum U3A Reykjavík. Páll nefnir fyrirlestur sinn:
The volcanic and seismic activity of Iceland, a hotspot on a plate boundary.

16. maí kl. 16:30 kemur Guðríður Helgadóttir (Gurrý) á fund okkar í Hæðargarðinn. Hún er garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins, og jafnframt líffræðingur frá Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn nefnir hún: Vor í bæ – ræktað af lífi og sál.

23. maí kl. 16:30 fáum við fyrirlestur um netsvindl sem gjarnan beinist að eldri borgurum. (Gísli) Jökull Gíslason hjá Lögreglunni ætlar að fjalla um þetta efni.

24. maí verður farin vorferð menningarhóps til Vestmannaeyja. Uppbókað er í ferðina.

7. júní verður farin vorferð U3 A Reykjavík sem að þessu sinni er: Ullarævintýri á Suðurlandi, Lagt verður af stað frá Hæðargarði kl. 9:00 miðvikudaginn 7. júní og áætluð heimkoma er kl. 17:30. Hægt er að skrá sig í ferðina hér: https://u3a.is/vidburdir/ullaraevintyrir-vorferd-u3a-reykjavik-7-juni/

Allir viðburðir verða auglýstir með góðum fyrirvara á heimasíðunni og í tölvupósti til félagsmanna. Fylgist með og takið þátt er hvatningin til allra félagsmanna.

Skip to content