Fréttabréf í október 2022

ther-tharf-ekki-ad-leidast-1200x630
Kátar konur á smíðanámskeiði í Endurmenntun Tækniskólans

Þér þarf ekkert að leiðast
Hvernig maður kynnist nýju og áhugaverðu fólki

„Mér leiðist“ ...
sagði góð vinkona mín til áratuga þegar ég sló á þráðinn til hennar. Svarið kom mér verulega á óvart.  Upphaflega höfðum við hist í gegnum vinnurnar okkar og urðum í kjölfarið mjög góðar vinkonur. Vinkonan mín var ekki einungis afbragðs starfskraftur heldur var hún með stóra fjölskyldu, var mjög aktíf utan vinunnar, hress, jákvæð og með alveg slatta af áhugamálum. Hún var tiltölulega nýhætt að vinna vegna aldurs og hafði, að því að mér virtist, verið afar sátt við það.

Við stöllur ræddum þennan skyndilega „lífsleiða” sem hafði hellst svo skyndilega yfir hana. Smám saman læddist að mér sá grunur að “leiða-tilfinningin” væri fyrst og fremst einmanaleiki í hinu nýja hversdagslífi þegar við hættum að hitta fólk á „vinnutíma“. Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því í hversu miklum óformlegum samskiptum við erum við vinnufélagana og viðskiptavinina. Áhugamálin voru stunduð, og vinahittingar og samverustundir með fjölskyldu fóru ávallt, og halda áfram, að fara fram utan hins hefðbundna vinnutíma. Það að eiga allt í einu fimm frídaga í hverri viku getur skapað tilfinningu um eigin þarfleysi og tómleika, alla vega til að byrja með.

En hvað er til ráða?
Það er markmið Vöruhúss tækifæranna að aðstoða fólk við að takast á við tómleikann sem oft fylgir því að hætta að vinna “hefðbundna” vinnu og uppgötva um leið að það er mikil þörf fyrir þau sem langar að koma að gagni.
Sem ritstjóri Fréttabréfs Vöruhússins og U3A er ég sífellt á höttunum eftir nýjum tækifærum til að koma á framfæri við lesendur og til að bæta inn í vefgátt Vöruhússins. Í haust hoppaði ég á tækifæri í Endurmenntun Tækniskólans og skráði mig í “Trésmíði – Konur” þar sem kennt er á hand­verk­færi fyrir trésmíði, sam­setn­ingu, sam­lím­ingu, pússn­ingu og lökkun. Nemendurnir eru hópur bráðskemmtilegra kvenna á öllum aldri, hvaðanæva að sem langar að læra eitthvað nýtt. Í kaffipásunum tökum við upp iPhone-ana, en eingöngu til að sýna hver annarri verkefni sem við erum að vinna að heima í kjallaranum eða í bílskúrnum, og auðvitað fljóta þá skemmtilegar sögur með 😊

Ég fann mér annað tækifæri í haust sem ég gat ekki staðist. Nú er metfjöldi hælisleitenda á Íslandi sem er að reyna að fóta sig í ókunnu landi þar sem talað er torkennilegt tungumál a.m.k. að þeirra mati. Á vegum Rauða krossins er þessum hópi boðið upp á íslenskukennslu þar sem einn til tveir faglærðir kennarar leiða kennslustundirnar og við, sjálfboðaliðarnir, göngum á milli nemenda og aðstoðum eftir þörfum við skilning, framburð og stafsetningu orða. Að launum er ég í skemmtilegum hópi sjálfboðaliða auk þess sem ég fæ einlægt þakklæti nemendanna og  finn að það er mikil þörf fyrir mitt framlag sem er mjög gefandi.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins með íslenskunámskeið fyrir hæliskeitendur

Ég tel að engum sem hættir að vinna þurfi að leiðast eða finnast hann óþarfur. Lífið er fullt af skemmtilegum og nærandi tækifærum og það er mikil þörf fyrir fólk sem vill gefa af sér og láta gott af sér leiða. Hver og einn þarf að finna sína fjöl og móta hversdaglífið á eigin forsendum. Og þá er Vöruhús tækifæranna góður staður til að byrja. Njótið þess að vera virk á þriðja æviskeiðinu.

Hjördís Hendriksdóttir,
ritstjóri

Vöruhúsið og tækifæri til lífsfyllingar

Sofia Loren, leikkona, hefur sagt að velgengni sé tengd lífsfyllingu og gleðinni að vera til! Einn rekkinn í Vöruhúsi tækifæranna er nefndur Lífsfylling og er þar fyrst og fremst átt við samneyti við aðra, hvort sem það er maður á mann, í félagsskap eða með virkri þátttöku í samfélaginu. Á hillum rekkans, sem heita Félagsskapur, Heilbrigðir lífshættir, Samfélagsvirkni, Samskipti og Viðburðir  hvíla tækifæri til einmitt þessa. Helst eru það karlarnir sem eru hugarsmíðarnar okkar sem leita að tækifærum í Lífsfyllingu.

Fyrst má nefna hann Nonna okkar, ógiftan 60 ára gamlan bifvélavirkja, sem er leitandi sál að félagsskap. Nonna langar að eignast nýja vini og kunningja og ákvað því að byrja á að skoða hilluna Félagsskapur. Þar fann hann tækifærin Makaleit. Stefnumótasíða. Nonni skráði sig strax á Stefnumótasíðuna og á hillunni Samskipti fann Nonni tækifærið Silver Surfers sem er netspjallrás á ensku fyrir fólk á aldrinum 50+. Þar sem Nonni vill hjálpa öðrum var hann ánægður með að finna  upplýsingar um sjálfboðastarf hjá Rauða krossinum á hillunni Samfélagsvirkni.  Tækifæri til þess að hitta aðra í stað þess að hanga einn heima voru af nógu að taka á  hillunni Viðburðir, þar með taldir þriðjudagsviðburðir U3A Reykjavík.

Svo er það hann Ingi okkar, 55 ára viðskiptafræðingur, sem leitar eftir viðburðum, lestrarefni um heilbrigt líf, skapandi færni og hvers kyns áskoranir. Ingi fann upplýsingar um heilbrigt líf á  hillunni Heilbrigðir lífshættir meðal annars upplýsingar um líkamsræktarstöðina Heilsuklasi, um Heilsuveru, heilbrigðisgátt/vefsíða fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar, æfingaspjöldin Hreyfispjöld sem eru einföld æfingarspjöld, myfitnesspal, app á snjallsíma og vefsíðu þar sem Ingi getur fylgst með matarræði sínu og hreyfingu.

Menningarhópur U3A Reykjavík stefnir á viðburðaríka vetrardagskrá

Frá heimsókn í Listasafn Einars Jónssonar

Menningarhópurinn hefur nú hafið sitt annað starfsár og fyrsti viðburður vetrarins var að fara í ferð og skoða hellana í landi Ægissíðu við Hellu. Þar fengum við fróðlega og skemmtilega leiðsögn og það var áhugavert að sjá þessa manngerðu hella og heyra hvernig þeir hafa verið notaðir í gegnum tíðina.

Það verður ekki sagt að við höfum fengið gott veður því það var hellirigning og lítið skyggni. Við gengum milli hellanna í þessari úrkomu og sumir urðu gegnblautir. Við hresstumst þó þegar komið var á Stracta Hótel þar sem við fengum ljómandi góðan hádegismat og áttum skemmtilegar samræður yfir matnum.

Á heimleiðinni var stoppað á Selfossi þar sem nýi miðbærinn var skoðaður og meira spjallað yfir kaffi.

Framundan er leikhúsferð sem verið er að skipuleggja og fyrir liggja hugmyndir um fleiri viðburði en áætlað er að hópurinn skipuleggi einn viðburð í mánuði á starfstíma U3A. Lögð er áhersla á að saman fari helst ánægjuleg upplifun og tími til að setjast saman yfir mat eða kaffi. Þá gefst stund þar sem hægt er að skiptast á skoðunum um það sem heyrt var eða séð eða bara spjalla um það sem fólki liggur á hjarta.

Á síðasta starfsári var nokkuð fjölbreytt dagskrá, hópurinn fór í Viðeyjarferð, á Rokksafnið, Þjóðminjasafnið, Hernámssetrið, í kirkjur, á tónleika og fleira.

Í stýrihópnum eru: Birna Sigurjónsdóttir, Ingibjörg Ásgeirsdóttir, Ólafía Sveinsdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir. Allar hugmyndir um áhugaverða viðburði eru vel þegnar og við hvetjum ykkur til að senda okkur línu og benda á eitthvað sem gaman væri að gera saman.

Með bestu kveðjum,
Ingibjörg Ásgeirsdóttir
ingasg@simnet.is

Gæðastund á Listasafni Íslands

Listasafn Íslands býður eldri borgurum upp á viðburði sem nefndir eru Gæðastundir þar sem sérfræðingar leiða gesti um yfirstandandi sýningu á safninu og bjóða jafnframt upp á spjall um myndlist og starfsemi safnins.  Viðburði lýkur með því að boðið er upp á kaffi og bakkelsi með því sem er í boði Brauð og Co. Viðburðirnir hefjast kl. 14 og standa í eina klukkustund. Hámarksfjöldi gesta er 25 manns og má skrá sig á viðburðinn með því að senda póst á netfangið mennt@listasafn.is eða hringa í síma 515 9600. Aðgangseyrir á safnið gildir á Gæðastund.

Boðið hefur verið upp á tvær Gæðastundir sem af er hausti. Sú fyrri var 17. ágúst s.l. þar sem gengið var um sýninguna Nokkur nýleg verk undir leiðsögn sérfræðings og skoðað úrval verka sem Listasafn Íslands hefur keypt sem og eldri verk sem safnið hefur fengið að gjöf á undanförnum árum. Þann 21. september síðastliðinn voru gestir leiddir um sögu Listasafnsins frá stofnun þess árið 1884 til dagsins í dag.

Næsta Gæðastund verður 19. október næstkomandi og mun sérfræðingur þá leiða gesti um sýningu á skartgripum eftir Dieter Roth (1930–1998) sem vakti athygli fyrir nýstárlega smíði skartgripa þó að hann sé ef til vill betur þekktur  sem brautryðjandi, hugsuður, frumkvöðull, skáld, tónlistarmaður, kvikmyndagerðarmaður og myndlistarmaður.

Þann 16. nóvember n.k. verða gestir Gæðastundar leiddir um sýningu  Zanele Muholi,  suður-afrísks listamanns og aktívista. Zanele Muholi, sem er fæddur  1972 og sló í gegn snemma á 21. öldinni með myndasyrpu um líf hinsegin fólks og transfólks í Suður-Afríku. Sýningin er á vegum Tate Modern í London í samvinnu við Listasafn Íslands.

Nánari upplýsingar um safnið, sýningar og aðra starfsemi er að finna á vef Listasafns Íslands, https://www.listasafn.is/ og um Gæðastundir á https://www.listasafn.is/laera/gaedastundir/

Fjölbreytt úrval stuttra námskeiða í október og nóvember

Myndin fengin að láni úr auglýsingu frá Endurmenntunarskólanum

Endurmenntunarskóli Tækniskólans býður upp á fjölmörg námskeið í október. Á meðal þeirra eru:

  • Taulitun með shi­boriaðferðinni annars vegar og sól­ar­litun hins vegar
  • GPS staðsetningartæki og rötun þar sem þátt­tak­endur læra á átta­vita, æfa sig í að lesa og vinna á kort bæði með stefnur, vega­lengdir og staðsetn­ingar
  • Bókagerð þar sem kennt er að útbúa ýmsar bækur t.d. jap­an­bækur, harmonikku­bækur, grillpinna­bækur og bækur sem byggja á klippitækni, kaðlasaum og brotum

Nánari upplýsingar um námskeið á vegum Endurmenntunarskóla Tækniskólans er að finna í tækifærum Vöruhússins https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/324394-2/

Handverkshúsið býður sömuleiðis upp á úrval styttri námskeiða í október/nóvember, svo sem:

  • Tréskurður fyrir byrjendur og lengra komna.
  • Tiffanys glerlistanámskeið fyrir byrjendur
  • Tálgun fugla og fígura
  • Brýnsla verkfæra og margt  margt fleira

Nánari upplýsingar um Handverkshúsið má finna í tækifærum Vöruhússins https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/taktu-ther-handverk-um-hond/

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður m.a. upp á eftirfarandi námskeið?

  • Skáldleg skrif þar sem þátttakendum er kennt að stýra hugmyndum sínum í farveg og koma þeim á rétta braut
  • Hlaðvarpsgerð þar sem kennt er hvernig hlaðvarpsþættir eru framleiddir og þeim komið á framfær. Þátttakendum stendur til boða að fá aðstoð við framleiðslu hlaðvarps
  • Sturlungasaga þar sem rætt verður um helstu átök sögunnar, persónur og leikendur og fjallað um gildi Sturlungu sem heimildar um Sturlungaöld (1220-1264) sem er eitt af helstu átakaskeiðum Íslandssögunnar

Nánari upplýsinga um námskeið og endurmenntun Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands má finna í tækifærum Vöruhússins https://voruhus-taekifaeranna.is/taekifaeri/namskeid-og-endurmenntun/

Viðburðir U3A Reykjavík í október 2022

f.v.: Illugi Jökulsson, Ásta Logadóttir, Þorvaldur Þórðarson og Geir Sigurðssongsen

Í október verða fjölbreyttir og áhugaverðir viðburðir á vegum U3A Reykjavík eins og áður. Við byrjum með fyrirlestri um Churchill sem Illugi Jökulsson færir okkur þriðjudaginn 4. október. Ásta Logadóttir, sviðstjóri hjá fyrirtækinu Lotu, ætlar síðan að fræða okkur um hönnun bygginga og birtu í húsum þriðjudaginn 11. október. Þriðjudaginn 18. október kl. 16:30 kynnir og ræðir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, eldvirkni á Reykjanesskaga. Boðið verður til laugardagsgöngu um sögulegar styttur í miðborginni 22. október og þriðjudaginn 25. október mun Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum. spjalla við okkur um heimspeki öldrunar.

Málþing í tilefni af 10 ára afmæli U3A Reykjavík.

Málþingið verður haldið 15.október í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 13:00. Undirbúningsnefnd hefur fengið til leiks frábæra fyrirlesara sem flytja stutt og snörp erindi. Uppistandarinn Ari Eldjárn er síðastur á dagskrá og í lokin verður boðið upp á samveru, spjall og léttar veitingar. Félagar eru hvattir til að fjölmenna. Málþingið er opið öllum og enginn aðgangseyrir. Sjá dagskrá hér.  Opnað verður fyrir skráningu bráðlega og það tilkynnt í tölvupósti til félaga  og verður sýnileg á forsíðu U3A.is“

Fréttir af hópum

Menningarhópur stefnir að leikhúsheimsókn í október til að sjá sýninguna: Á eigin vegum í Borgarleikhúsinu. Dagsetning auglýst síðar. Af öðrum hópum er það að frétta að HeiM-klúbburinn hefur haldið fund og stefnt er að námskeiði um hönnun gönguleiða í Wikiloc-appinu nú í október. Umhverfishópur stefnir að fundi um miðjan október.  Allir fundir og viðburðir eru auglýstir á heimasíðunni U3A.is ásamt því að félagsmenn fá póst þar um.

Gleðilegan október!
Stjórn U3A Reykjavík

Skip to content