Fréttabréf í september 2022

haustlauf-1200x630

Gleðilegt haust

Mörgum okkar sem eyddum sumarfríinu á Íslandi kann að finnast við hafa verið svolítið svikin. Sólskinsstundir voru færri en í meðalári, hitastigið lægra og úrkoman meiri. Þau okkar sem eyddum sumarfríinu á meginlandinu þurftum að kljást við kæfandi hita og jafnvel skógarelda.

Nú þegar dagarnir styttast og hitastigið lækkar, upplifa margir hér á norðurhveli svokallaðan „vetrarblús“ en það er árstíðabundin tilfinningaleg röskun tengd þunglyndi. Einkenni, eins og minni orka, og þyngra skap, hafa tilhneigingu til að gera vart við sig á þessum tíma en hverfa síðan aftur með vorinu.

Hvernig getum við gert komandi vetur að ”okkar besta tíma” með þeim takmörkum sem vont veður, myrkur og hálka setja okkur? Hér koma örfáar hugmyndir sem vonandi koma að einhverjum notum:

  1. Haustið er góður tími til að fara í göngutúra  í grónu umhverfi einsog t.d. í Elliðaárdal og/eða á Þingvöllum og njóta haustlitanna. Það getur verið tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum, ekki síst yngstu kynslóðinni með, til að taka fallegar myndir og að tína lauf til að þurrka og pressa og gera myndir, skreyta kort eða öskjur.
  2. Hver árstíð kallar á mismunandi mat. Á sumrin, sérstaklega ef það er hlýtt í veðri borðum við gjarnan „léttari“ mat einsog salöt. Nú þegar kólna fer í veðri er gott að borða heilnæmar og heitar súpur sem ylja kroppinn. Þó að íslenska kjötsúpan standi alltaf fyrir sínu er gaman að sé smá spennu í lifið og prófa eitthvað nýtt. Það er afskaplega fljótlegt og auðvelt að finna nýjar og spennandi uppskriftir á netinu, t.d:
    Gott í matinn
    Gerum daginn girnilegan
    Gulur, rauður, grænn og salt
    Cafe Sigrún
    Eldhúsperlur Helenu
    Sjónvarpskokkurinn Eva Laufey
  3. Forgangsraðaðu ljósinu hvenær sem þú getur. Dragðu frá gardínurnar þó að birtan sé grá en ef það skyldi nú vera sólarglæta farðu þá í göngutúr eða sestu á svalir/út í garð í vetrarúlpunni með hanska, húfu sólgleraugu og veifaðu nágrönnunum. 😊
    Auk þess má nefna ljósmeðferðir sem líkja eftir útiljósi, sem vísindamenn telja að valdi efnafræðilegri breytingu í heilanum til að draga úr einkennum sorgar og lítillar orku, og margar sundlaugar bjóða upp á. Svo er einnig hægt að kaupa sér sinn eigin dagljósaborðlampa sem gera sama gagn ef setið er fyrir framan hann 30 min. á dag.
  4. Nú þegar stórlega hefur dregið úr útbreiðslu Covid sem olli flestum okkur félagslegri einangrun sem getur haft slæm áhrif á andlega heilsu. Nú er upplagt að bæta upp tapaðan tíma undafarinna ára og skapa alls konar tækifæri til að safnast saman með vinum og fjölskyldu. Persónulegir hittingar eða nethittingar eru gefandi og andlega nærandi.
  5. Á eftir vetri kemur vor. Þó það sé full snemmt að fara að hlakka til vorsins í september þá getum við undirbúið það núna með því að planta haustlaukum og njóta þess þegar fyrstu vorblómin kíkja upp úr moldinni og gefa tilverunni lit eftir gráma vetrarins. Nú er rétti tíminn til að búa í haginn fyrir blómríkt vor og planta haustlaukunum. Það er hægt að nálgast fróðleik um haustlauka netinu, t.d. á:Garðheimar
    GarðaflóraVið minnum svo á að hægt er að finna fullt af hugmyndum og tækifærum inn á vefnum okkar https://voruhus-taekifaeranna.is/ til að gera komandi vetur heilsusamlegan, fræðandi og skemmtilegan.

Alls konar námskeið fyrir heilann í haust

Heilinn er eins og vöðvar líkamans að því leitinu að það þarf sífellt að vera þjálfa hann og halda  við hugrænum þáttum hans eins og einbeitingu, athygli, minni, skipulagsfærni og félagsskilningi.  Það á ekki síst við þegar við eldumst. Að takast á við ný og krefjandi verkefni byggir upp og viðheldur vitrænni færni. Samkvæmt Dr. John N. Morris, forstöðumanni rannsóknastofnunar Harvard í öldrunarrannsóknum, hefur heilinn okkar getu til að læra og vaxa þegar við eldumst en til þess að þurfum við að þjálfa hann reglulega.

Á haustin fara af stað alls konar námskeið og nám – bæði lengri og styttri. Eftir að COVID hopaði er hægt að mæta í eigin persónu í staðarnám og hitta og kynnast nýju fólki, en áfram er þó áfram boðið upp á alls konar fjarnám.

Námskeiðin sem boðið er upp á taka til nær allra mögulegra áhugasviða og fullvíst er að ALLIR ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hér er bent á nokkra aðila sem bjóða upp á námskeið en það eru fjölmargir aðrir sem gera það líka:

  • Tækniskólinn er á meðal þeirra sem bjóða upp á ótrúlega fjölbreytt námskeið eins og t.d.  akrýlmálun; bókagerð: forritun; GPS staðsetningartækni og rötun; húsgagnaviðgerðir; hönnun heimilis; bæklingagerð; myndvinnslu, ljósmyndun; skrautskrift; trésmíði; silfursmíði og margt, margt fleira.Lengd námskeiðanna eru allt frá einum degi til nokkurra vikna. Sjá nánar á: https://tskoli.is/leit-ad-nami/?type=N%C3%A1mskei%C3%B0
  • Landbúnaðarháskólinn býður upp á margskonar námskeið bæði í fjarnámi með Google-teams og í staðarnám í Keldnaholti. Sem dæmi um námskeið eru lífrænn landbúnaður; skipulagskenningar og skipulagslögfræði. Sjá nánar á: https://endurmenntun.lbhi.is/naestu-namskeid/
  • Fjölmennt býður upp á námskeið á sviði tónlistar og leiklistar. Viltu kannski læra á gítar, bassa, hljómborð, píanó, eða syngja í kór? Skoðaðu þá vefsíðu Fjölmenntar https://www.fjolmennt.is/is/namskeid/flokkur/tonlist-og-leiklist
  • Endurmenntun HÍ býður upp á tungumálakennsku í frönsku, ítölsku, þýsku, spænsku, kínversku, hindí, japönsku og kóresku. Einnig er boðið upp á sagnfræðinámskeið og menningarsögu, samskipta- og sálfræðinámskeið, heilaheilsu, hugleiðslu og jógaheimspeki og dáleiðslu.Þá er boðið upp á alls kyns hagnýt námskeið í Exel, tölvunámskeið (Teams and OneDrive) verkefnastjórnun, skjalastjórnun, markaðssetningu á samfélagsmiðlum og fjölmargt annað. Yfirlit yfir námskeið Endurmenntunar H.Í er að finna á:  https://endurmenntun.is/namskeid
  • U3A Reykjavík, háskóli þriðja æviskeiðsins býður upp á vikulega fræðslufundi á þriðjudögum kl. 16:30– 18:00 í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík þar sem fræðimenn á ýmsum svið fjalla um fjölbreytt efni. Auk þess er boðið upp á ýmis námskeið og heimsóknir til áhugaverðra stofnana og fyrirtækja. Árgjald er einungis kr. 2.000 og hægt er að skrá sig á https://u3a.is/felagaskraHægt er að fylgjast með dagskrá fyrirlestra og viðburða á https://u3a.is/vidburdayfirlit/
  • Vöruhús tækifæranna er vefsetur sem hefur það markmið að auðvelda fólki á efri árum að móta þriðja æviskeið sitt á eigin forsendum. Það er gert með því að vekja athygli þessa hóps á tækifærum af margvíslegum toga undir rekkunum Færni, Fjárhagur, Lífsfylling, Nýr starfsferill, Réttindi og Stofnun fyrirtækis. Skoðaðu endilega tækifærin á www.voruhus-taekifaeranna.is og fylgstu með nýjum tækifærum og viðburðum á https://www.facebook.com/voruhustaekifaeranna

Erum við að leita að þér?

Flestir einstaklingar sem hér hljóta alþjóðlega vernd vilja bæta íslenskukunnáttu sína vegna þess að hún gerir þeim kleift að aðlagast íslensku samfélagi, veitir þeim betra aðgengi að íslensku kerfi, að íslenskum vinnumarkaði og greiðir leið fólks til að sækja sér frekari menntun.

Aldrei hafa fleiri hælisleitendur verið á Íslandi. Rauði krossinn býður upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir hælisleitendur sem borið er uppi af sjálfboðaliðum. Hælisleitendum stendur til boða grunn-íslenskukennsla tvisvar í viku í 8 vikur í 40 manna hópi með einum kennara og þremur stuðningsaðilum en vegna skorts á sjálfboðaliðum komast færri hælisleitendur að í íslenskukennslu en vilja.

Kallað er eftir stuðningsaðilum sem geta skuldbundið sig til að aðstoða einu sinni í viku í tvo tíma eða tvisvar í viku eða bara aðra hverja viku – allt eftir getu og vilja hvers og eins sjálfboðaliða. Allt telur.

Að taka þátt í sjálfboðastarfinu með öðrum í skemmtilegum félagsskap annarra er mjög gefandi og breytir lífi þiggjenda til hins betra.

Vertu með og skráðu þig hjá Rauða krossinum eða hafðu samband við Þorstein Valdimarsson verkefnastjóra með tölvupósti á thorsteinn@redcross.is eða í síma 6639939

Spennandi haustdagskrá FEB

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) er búið að skipuleggja haustið alls konar viðburðum og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Föstudaginn 16. september hefst vikulegt Íslendinga-og Færeyinga sögunámskeið undir leiðsögn Baldurs Hafstað. Námskeiðinu lýkur 18. nóvember.

Á mánudögum og miðvikudögum eru enskunámskeið fyrir byrjendur og fyrir lengra komna. Leiðbeinandi er Margrét Sölvadóttir.

Á þriðjudögum og fimmtudögum eru Zumba tímar fyrir dömur og herra undir stjórn Tanya Dimitrova og sömuleiðis leikfimi fyrir þá sem treysta sér ekki til að stunda hefðbundna líkamsrækt.

Á hverjum miðvikudegi eru svo göngutúrar Gönguhrólfanna sem lýkur með kaffi og rúnstykki.

Tvær 5 daga aðventuferðir til Berlínar eru á dagskrá FEB í vetur. Sú fyrri verður farin 27. nóvember – 1. desember og sú síðari 4. desember - 8. desember. Fararstjóri er Lilja Hilmarsdóttir.

Sjálfsagt á eitthvað fleira eftir að bætast við haustdagskrá FEB og við hvetjum ykkur til að fylgjast með á viðburðardagatali FEB - Dagatal - Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB)

Blue Zones - Hin bláu svæði langlífis

Hér að ofan má sjá forsíðu vefs Blue Zones, https://www.bluezones.com,  þar sem finna má leiðir að hugmyndum um lífsstíl sem stuðlað getur að auknu langlífi, meðal annars með margs konar uppskriftum að heilsuvænu mataræði.

Hugtakið „Blá svæði“ varð til í kjölfar lýðfræðilegrar rannsóknar Gianni Pes og Michel Poulain, sem lýst er 2004 í Journal of Experimental Gerontology,  þar sem þeir fundu að í Nuoro héraði á  Sardiníu var sérstaklega mikill fjöldi karla yfir hundrað ára í þorpsklasa sem þeir síðan nefndu hið „bláa svæði“ þar sem langlífi var óvenju algengt. Dan Buettner, sem er National Geographic Fellow og höfundur fjölda metsölubóka New York Times útgáfunnar, benti í kjölfarið á önnur sérstök langlífissvæði um heim allan og nefndi þau líka „blá svæði“.

Hann stofnaði síðan fyrirtækið Blue Zones LLC sem vinnur að því að breiða út þekkingu og leiðir sem endurspegla lífsstíl og umhverfi þeirra sem lifa lengst í heiminum.  Þessi „bláu svæði“ heimsins þar sem fólk lifir lengst eru á Okinawa í Japan, Sardiníu á Ítalíu, Nicoya í Kostaríka, Ikaria í Grikklandi og Loma Linda í Kaliforníu. Bent er á að á öllum þessum svæðum tíðkist sérstakar lífstílsvenjur sem Blue Zones kallar Power 9 og finna má á slóðinni Power 9® - Blue Zones.

Hugmyndin um mikilvægi þessara „bláu svæða“ er nokkuð umdeild og má sjá stutta umfjöllun á vef Wikipediu  - Blue zone - Wikipedia. Þrátt fyrir það hvetjum við ykkur til að skoða þennan vef Blue Zones þar sem er að finna ótal áhugaverðar leiðir að heilbrigðum lífsstíl og áhugaverðum mataruppskriftum.

Háskólar þriðja æviskeiðsins
blómstra í Kína sem aldrei fyrr

Fulltrúar U3A á Íslandi og Kína mætast á AIUTA þingi í Osaka, Japan, 2016

U3A, Háskólar þriðja æviskeiðsins, eiga uppruna sinn að rekja til Frakklands. Þar var sá fyrsti stofnaður við Háskólann í Toulouse árið 1973 eða fyrir nánast hálfri öld. Þetta var gert í kjölfar breytinga á franskri háskólalöggjöf, sem fylgdu eftir þeim boðskap um samfélagsábyrgð og frelsi til náms sem stúdentar börðust fyrir í 1968 byltingum námsmanna austan hafs og vestan. Þessi hugmynd breiddist hratt út í Frakklandi og áfram í Evrópu, mest í tengslum við háskóla. 1981 var svo fyrsta U3A stofnað í Bretlandi. Breska leiðin var gerólík þeirri frönsku og byggði á sjálfstæðri jafningjafræðslu, sjálfstæð félagasamtök á ábyrgð félaganna sjálfra og án formlegra tenginga við háskólastofnanir. U3A Reykjavík sem nú er 10 ára byggir á þessu módeli. Þriðja æviskeiðið er einstaklingsbundið, en oftast er miðað við að eftir fimmtugt sé ástæða til að hyggja að áratugunum framundan , ekki síst eftirlaunaárunum og miðar U3A yfirleitt við það æviskeið. Fræðast má nánar um þessa sögu U3A á vef U3A Reykjavík á slóðinni https://u3a.is/erlenda-sagan/.

Á þessari nánast hálfri öld hafa þessar leiðir háskóla þriðja æviskeiðsins til að auka framboð á tækifærum fólks á efri árum til menntunar ævilangt tengst lýðfræðilegri þróun samfélagsins í átt að auknu langlífi og meðvitund um þann mannauð sem býr í fólki á efri árum.  Með auknu langlífi hefur fjöldi þeirra sem teljast til eldra fólks (hagstofur heimsins miða þar við 65+) farið sífellt hækkandi í samanburði við þann fjölda sem er talinn á vinnualdri (15-64). Hlutfallið er kallað á ensku „worker-to-retiree” hlutfall.

Bæði þessi U3A módel sem lýst er hér að ofan hafa dreifst um heim allan. Eins hafa víðs vegar verið stofnaðir sérstakir sjálfstæðir skólar til menntunar fólks á efri árum. Þar hefur Kína mótað sér sérstöðu og brugðist við stöðunni í kínversku samfélagi af miklum krafti og nú munu þar vera starfandi um 70.000 slíkir skólar fyrir eldra fólk með yfir 8 milljónum nemenda, sá fyrsti stofnaður árið 1983 í Shandong héraði. Stefna kínversku ríkisstjórnarinnar er að hafa slíka skóla í hverju héraði og er litið á menntun hinna eldri sem leið til þess að halda þjóðinni heilbrigðri og andlega og samfélagslega virkri á efri árum. Stefna sem við í U3A Reykjavík tökum heils hugar undir og  vekjum athygli á að World Economic Forum  (WEF) hefur fylgst með þessari þróun í Kína. Á vefsíðum WEF  er að finna áhugaverða umfjöllun um kínversku U3A skólana og sjá má hér að  neðan  stutt myndskeið frá  WEF sem gefur smá innsýn í starf þessara skóla.


Smelltu á myndina til að skoða myndskeiðið

Eins er áhugavert að sjá eldri umfjöllun frá WEF (2018) á þessari slóð:
In China, retired people are queuing up to go back to university | World Economic Forum (weforum.org)

Þar kemur meðal annars fram að árið 2018 voru  230 milljónir íbúa 60 ára og eldri í Kína.  Átakið um háskóla fyrir þá eldri tengist þróun samfélagsins þar sem lífaldur fer hækkandi og afleiðingum þriggja áratuga eins barns stefnunnar, minnkandi framleiðni og lækkandi skattstofni. Nú virðist „worker to retiree” hlutfallið vera um 5:1. og því er spáð að það lækki í 1,6:1 fram til ársins 2040. Spáð er svipaðri þróun um heim allan og til samanburðar var þetta hlutfall á Íslandi 4,1:1 árið 2020 og spáð lækkun niður í um 2,5:1 árið 2040.

U3A Reykjavík og samtök kínverskra U3A háskóla eru hvorir tveggja aðilar að alþjóðasamtökum háskóla þriðja æviskeiðsins, AIUTA. Kínverjar hafa verið mjög virkir í starfi samtakanna, m.a. boðið til ráðstefna og ýmiss samstarfs. Á upphafsmynd þessa pistils má sjá fyrrum formann U3A Reykjavík, Hans Kristján Guðmundsson, afhenda rektor eins þessara kínversku U3A háskóla bókina „Til móts við þróttmikið þriðja æviskeið”, á AIUTA ráðstefnu í Osaka, Japan, 2016. Bókin lýsir niðurstöðum Erasmus+ samstarfsverkefnisins „BALL – verum virk með ævinámi”, sem var unnið undir forystu U3A Reykjavík og Hans Kristján kynnti á þessari ráðstefnu við afar góðar undirtektir.

 

 

 

Vöruhúsið og hugarsmíðar

Hugarsmíðarnar okkar, þau Guðrún, Ingi, Palli, Halla, Dagný,  Stella og Mundi, sem sagt er frá í fyrri fréttabréfum hafa öll nýtt sér tækifæri í Vöruhúsinu til þess að bæta við sig færni, breyta til og jafnvel feta nýjar slóðir í lífinu. Það hafa þau gert með aðstoð tækifæranna sem hvíla á hillunum Einstaklingsfærni, Nám og fræðsla og Sköpun í rekkanum Færni  eins og sjá má hér að neðan.

Guðrún, 64 ára skrifstofustjóri, vildi bæta sig sem stjórnandi og nýtti sér tækifæri, nám í forystu og stjórnun,  á hillunni Nám og fræðsla. Guðrúnu langaði líka að skoða hvernig kunnátta hennar í frönsku gæti nýst henni í Evrópu í námi eða vinnu og þá komu upplýsingar um Europass á hillunni  Einstaklingsfærni að góðu gagni.

Ingi, 55 ára viðskiptafræðingur, leitaði að tækifærum í skapandi færni og fann þau á hillunni Sköpun en þar eru upplýsingar t.d. um margskonar listaskóla auk Powertalk sem kennir hvernig má bæta árangur í einkalífi og starfi. Ingi vill líka læra að markaðssetja sjálfan sig og fann upplýsingar um það á hillunni Einstaklingsfærni.

Palli, 65 ára húsasmiður sem rekur sitt eigið fyrirtæki, leitaði eftir upplýsingum um hvar hann gæti lært að smíða húsgögn því hann vildi vinna við eitthvað léttara en húsasmíðar. Upplýsingarnar um nám í smíði húsgagna fann hann á hillunni Sköpun. Hver veit nema að hann stofni nýtt fyrirtæk Pallastól?

Halla, 50 ára bókhaldari, nýtti sér tækifæri á öllum hillum rekkans Færni. Á hillunni Einstaklingsfærni fann Halla tækifæri til þess að bæta sig í tjáskiptum, þjálfa sig í ensku, læra að syngja, markaðssetja sjálfa sig, finna markþjálfa, búa til vefsíðu og gera  SVÓT greiningu. Á hillunni Nám og fræðsla fann Halla upplýsingar um ýmiss konar háskólanám og á hillunni Sköpun upplýsingar um einkarekna og opinbera listaskóla.

Dagný, 59 ára, er jógakennari sem rekur sitt eigið fyrirtæki. Sköpun, fræðsla og réttindi heilla Dagnýju og að vera skapandi og taka af skarið með velferð sína og sinna í huga er henni hugleikið.  Nytsamar upplýsingar um sköpun finnur hún á hillunni Sköpun og upplýsingar um hvaða tækifæri bjóðast um fræðslu á hillunni Nám og fræðsla.

Stella, 55 ára fyrrverandi þjónustufulltrúi, missti vinnuna og ákvað að mennta sig sem leiðsögumaður. Upplýsingar um nám í leiðsögn fann hún, alls fimm skóla, á hillunni Nám og fræðsla. Ekki má gleyma Úraníusi, manninum hennar, en saman eiga þau áhugamálið dans sem þau stunda af miklu kappi og sækja fjölmörg námskeið í.

Mundi, 73 ára listamaður, vill ekki gleymast og langar að koma myndum sínum á framfæri svo að sem flestir gætu notið þeirra og líka að búa til sína eigin heimasíðu. Tækifæri til hvorutveggja fann hann á hillunni Sköpun.

Viðburðir U3A Reykjavík í september 2022

F.v.: Erna Sif Arnardóttir, Bjarni Harðarson og Lotta María Ellingsen

Við hefjum vetrarstarfið með félagsfundi þriðjudaginn 6. september og hvetjum félagsmenn til að koma í Hæðargarð 31 og taka þátt í að móta starfið í vetur. Við höldum svo áfram fjölbreyttum og fræðandi fyrirlestrum:

  • Þriðjudaginn 13. september verður dr. Erna Sif Arnardóttir með fyrirlestur um mikilvægi svefns.
  • Þriðjudaginn 20. september kemur Bjarni Harðarson til okkar með fyrirlestur um Njálu.
  • Þriðjudaginn 27. september fáum við fyrirlestur um greiningu heilasjúkdóma sem dr. Lotta María Ellingsen heldur.

Við höldum áfram að streyma fyrirlestrum og taka þá upp svo fleiri geti notið þeirra en hvetjum ykkur sem getið til að mæta í salinn til að taka þátt í fræðast enn frekar af þeim frábæru fyrirlesurum sem koma til okkar.

Væntanlega skipuleggur menningarhópur viðburð í september og tvær gönguferðir hafa þegar verið auglýstar:

  • Gönguleið í náttúrunni í Elliðaárdal verður 8. september.
  • Hellarnir við Hellu verða skoðaðir 9. september.

Við í stjórninni hlökkum til að hitta ykkur í vetur undir formerkjum fræðslu og virkni.

Birna Sigurjónsdóttir
formaður

Skip to content