Hún Sóllilja okkar
Hún Sóllilja Elliðadóttir er hugarsmíðin okkar í júní. Sóllilja er 75 ára og hefur búið fyrir austan fjall á Selfossi nánast alla sína ævi. Kynntist ung manni, honum Jónasi, sem þar var búsettur, og eftir fyrsta dansinn þeirra var ekki aftur snúið. Nú er Jónas farinn á vit feðra sinna og Sóllilja ekkja til 10 ára. Starfið hennar fullorðinsárin hefur verið að láta öðrum líða vel með því taka fólk í nudd en þegar hún var yngri þá var hún aðstoðarmatselja hjá vegavinnuhópum og brúarsmiðum. Nú er Sóllilja komin á eftirlaun og hefur það bara gott enda hafði hún vaðið fyrir neðan sig og passaði upp á að greiða í lífeyrissjóð og spara líka. Börnin tvö, sem búa í Reykjavík, eru komin vel á aldur og svei mér ef styttist bara ekki í fyrsta langömmubarnið. Börn og barnabörn koma oft í heimsókn og nýtur Sóllilja hverrar mínútu með þeim og veitir vel.
Sóllilja er ánægð með nafnið sitt. Sól er auðvitað sólin og sólskinið og liljan er uppáhaldsblómið hennar. Sóllilja er glöð að eðlisfari, vill öllum vel, og svo bjartsýn að sumum finnst nóg um. Getur farið í taugarna á fólki þegar hún sér bara björtu hliðarnar á tilverunni. Samt er þó eitt sem hún er ekki alveg nógu ánægð með og það er að hana langar að vera meira með fólki, að hún tali nú ekki um að eignast nýja vini. Börnin og fjölskyldur þeirra eiga sitt líf eins og vera ber og sem hún vill ekki skipta sér af. Sóllilja er í ýmsum félögum og klúbbum en það er ekki nóg. Sér sig meira í fámennum vinahringum eða kvennahringum sem hafa sömu lífssýn og markmið, hittast og taka fyrir fjölbreytt efni. Að eignast vin er ekki takmarkið eins og margir halda og hafa að meira segja reynt að para hana við menn á hennar aldri.
Sóllilja er félagi í U3A Reykjavík og hefur sótt viðburði þess á þriðjudögum þegar hún hefur getað því við komið en þess á milli hlustað á streymið frá viðburðunum, sem hefur bjargað miklu í vetrarhörkum og Hellisheiði lokuð. Hún hefur líka tekið þátt í starfi menningarhóps samtakanna og dáist að starfi þeirra sem að honum standa. Vöruhús tækifæranna, https://voruhus-taekifaeranna.is hefur hún líka skoðað vel og nýtt sér tækifæri þar en er hugsi. Veit að vinnan við Vöruhúsið er unnin í sjálfboðastarfi en finnst að Vöruhúsið gæti verið svo miklu meira ef það væri rekið á öðrum forsendum. Mætti meira að segja hleypa að auglýsingum við hæfi. Sóllilja vill líka gjarnan sjá að Vöruhúsið bjóði upp á blog eða chat þar sem hægt væri að kynnast og spjalla við fólk á svipuðu reki og hún. Best að hún hafi samband við fólkið sem stendur fyrir Vöruhúsinu og láti í sér heyra. Sóllilja er bjartsýn á að á hana verði hlustað og heimur batnandi fari.