Fréttabréf í september 2024
Sumarið sem aldrei kom
Þá er haustið komið þrátt fyrir að við vorum snuðuð um sumarið hér suðvesturhorninu. Þetta er ekki bara mín tilfinning því samkvæmt Veðurstofunni var veðrið í sumar „svalt, vindhraði yfir meðallagi og óvenju blautt og þungbúið“.
Eðlilega voru þunnu sumarkjólarnir og hörskyrturnar aldrei dregin fram og fatavalið stóð mestmegnis á milli lopapeysa.
Efir að hafa verið hlunnfarin um sumarið þurfum við enn frekar að vera á varðbergi gagnvart neikvæðri árstíðabundinni tilfinningaröskun (Seasonal Affective Disorder - SAD) sem hrjáir marga á haustin og ekki síst eftir því sem aldurinn færist yfir okkur. Einkennin geta verið margskonar svo sem áhugaleysi, þreyta og orkuleysi, aukin svefnþörf, einbeitingarskortur, ofát og þyngdaraukning og margt fleira. Einkennin geta verið væg til að byrja með en orðið alvarlegri eftir því sem á líður og jafnvel kallað á lyfjameðferð.
En svo er líka til fólk sem upplifir haustið á jákvæðan hátt. Fyrir þeim er haustið kennileiti, líkt og áramót, þegar fólk setur sér áramótaheit, markmið og byrjar á einhverju nýju. Margir sálfræðingar hafa tengt þetta við eftirvæntinguna eftir því að skólarnir byrji aftur á haustin. Sem ungir krakkar lærðum við að haustið var spennandi ný byrjun með nýju skóladóti, nýju fólki, stöðum og tækifærum. Þessi eftirvænting sem fylgdi nýju skólaári hefur fylgt mörgum fram á fullorðinsárin sem upplifa tilhlökkun og eftirvæntingu á haustin. Og svo eru aðrir sem fagna því komast aftur í fasta rútínu eftir sumarið.
En hvað er til ráða fyrir þau okkar sem upplifum haustið á neikvæðan hátt?
Margt. En við sjálf verðum að grípa til ráðstafana. Til dæmis með því að hámarka dagsbirtuna í lífi okkar. Til að mynda með því að draga gardínur frá þegar dagsbirta varir, fara út í göngu og í sund. Að komast út og njóta ferska loftsins er náttúruleg leið til að hækka súrefnismagnið í heilanum og hækkun súrefnis hefur tilhneigingu til að losa meira serótónín, sem er taugaboðefni sem stuðlar að hamingju. Svo er hægt er að nota vekjaraklukkur með dagsljóslampa eða nota borðlampa sem líkja eftir náttúrulegri dagsbirtu. Svo þarf að muna að taka D-vítamín yfir veturinn og jafnvel Omega-3 fitusýrur.
Notum gamla trixið „fake it till you make it“ og „þykjumst“ hlakka til haustsins. Skipuleggjum okkur, kortleggjum markmið, plönum dagskrár með áhugaverðum viðburðum, búum til hittinga með góðu fólki og setjum okkur hófleg markmið – a.m.k. fram að áramótum þegar daginn fer aftur að lengja.
En í versta falli, ef ekkert af þessu virkar, þá er alltaf hægt að skella sér í nokkrar vikur til Tenerife 😊
Hjördís Hendriksdóttir
Ber er hver að baki ...
„Sá sem er einmana einn með sjálfum sér, er ekki í góðum félagsskap“, sagði franski heimspekingurinn Jean Paul Sartre eitt sinn.
Á dögunum mátti lesa viðtal við áttræðan mann sem þjáðist af einmanaleika því systkini hans öll voru dáin. Hans helsti vinur hafði verið bróðir hans sem var tíu árum eldri og hann hafði átt mikil og góð samskipti við alla ævi, en nú var hann horfinn yfir móðuna miklu. Hann átti að vísu börn sem hann var í samskiptum við en það nægði honum ekki. Hann þráði vin eins og hann fann í bróður sínum, jafningja sem hann gat deilt með hugsunum sínum, gleði og sorg.
Því fæstir njóta sín til fulls í eigin félagsskap. Jafnvel heldur ekki með yngri ættingjum. Það sem skiptir máli er að hitta fyrir sína líka, fólk sem deilir lífsreynslu með manni. Þó hæfilega ólíkt manni til að maður læri alltaf eitthvað nýtt af hverjum og einum.
Þegar árin færast yfir fækkar í gamla vinahópnum, eðlilega. Vinir hverfa smátt og smátt einn af öðrum og ef ekki er gáð að þá getur fólk einangrast og orðið einmana.
Það er mikilvægt að hver og einn sporni við þessari þróun og spyrni við fótum með aðgerðum. Því það eru ýmis tækifæri til að gæða lífið töfrum. Hafa augun opin fyrir ýmsum tækifærum sem gefast til að hitta annað fólk og deila með því gæðastundum.
Víða eru starfræktar opnar félagsmiðstöðvar sem bjóða upp á ýmis konar starfsemi svo sem samverustundir, létta líkamsþjálfun, fræðslustundir, ýmiskonar námskeið og jafnvel ferðalög.
Bara í Reykjavík eru reknar 17 félagsmiðstöðvar af borginni þar sem hægt er að fá hádegisverð á vægu verði og kaffiveitingar og sækja margskonar félagslíf sem oft er ókeypis eða gegn lágri þóknun. Í öðrum sveitarfélögum eru oftast einnig félagsmiðstöðvar sem þá eru starfræktar af félagi eldri borgara í samvinnu við sveitarfélagið.
Nú þegar haustar er allt félagslíf að vakna til lífsins og og um að gera að kynna sér hvað er í boði.
U3A – Háskóli þriðja æviskeiðsins í Reykjavík heldur úti öflugu og fróðlegu félags- og menningarstarfi með t.d. fyrirlestrum og ferðalögum. Þar er líka starfræktir ýmsir hópar, eins og menningarhópur, umhverfishópur, bókmenntahópur og fleiri.
Félög eldri borgara eru 56 talsins og starfandi vítt og breitt um landið og þar fer fram fjölbreitt félagsstarf. Um að kynna sér það vel.
Víða er hægt að finna ýmiskonar skipulagða heilsueflingu þar sem eldra fólk kemur saman undir stjórn menntaðs þjálfara gegn vægu gjaldi og stundum ókeypis. Þátttaka eflir bæði líkama og geð!
Það þarf ekki að taka í pyngjuna að njóta lífsins og njóta samvista með öðrum.
Þá er t.d. sniðugt að fylgjast vel með viðburðum sem boðið er upp á á Facebook, því oft er boðið upp á áhugaverða menningarstarfsemi sem er ókeypis eins og opnanir á myndlistarsýningum, að ekki sé talað um upplestra úr nýútkomum bókum þegar jólabókaflóðið hefst.
Ef fólk fær ekki næringu af samskiptum við annað fólk, visnar það og veslast upp. Umfram allt, höldum vöku okkar fyrir spennandi og skemmtilegum tækifærum til að njóta og deila gleði og samskiptum og til að læra eittvað nýtt. Lifum lífinu lifandi!
Viðar Eggertsson
Abstrakt - Aldrei of seint
Undirrituð hefur átt sér draum í nokkur ár um að fara erlendis á námskeið í að mála. Leitaði á netinu að námskeiði í málun og fann að lokum eitt sem mér leist vel á. Námskeiðið heitir Abstrakt måleri och process og er á vegum listnámsskólans Gerlesborgsskolan í Svíþjóð. Þrjú viðmið réðu hvar var leitað: að ég hefði vald á tungumálinu sem námskeiðið var á, að það væri ekki styttra en ein vika og að námskeiðið væri ekki bundið við sérstakan aldurshóp. Annað sem hafði áhrif er að ég er 85 ára og taldi mér ekki til setunnar boðið.
Gerlesborgsskolan er staðsettur innst í Botnafjorden í Bohuslän, aðeins nokkrir metrar milli skóla og hafs og er staðurinn af sumum talinn einn sá fallegasti í Svíþjóð. Skólinn hefur verið starfræktur þarna í áratugi eða síðan 1944 er hann var stofnaður af listamanninum Arne Isacsson. Arne stofnaði síðar einnig Gerlesborgsskóla í Stokkhólmi þar sem boðið er upp á tveggja ára undirbúningsnám fyrir listaháskóla. Í skólanum í Bohuslän eru haldin þriggja til sjö daga námskeið í hinum ýmsum listgreinum á sumrin.
Námskeiðið Abstrakt måleri och process höfðaði til mín þar sem ég er áhugamálari með sérlegan áhuga á abstrakt myndlist. Leiðbeinandi á námskeiðinu var listakonan Hertha Hanson sem reyndist frábær kennari og laðaði fram listræna hæfileika nemenda sinna. Námskeiðið hófst að morgni með fyrirlestri og myndasýningu um valinn abstrakt málara, sem veitti innblástur inn í vinnu dagsins. Í lok dags var afrakstri hans svo safnað saman og hann skoðaður sameiginlega af kennara og nemendum. Skrifleg heimaverkefni, einskonar sjálfshugleiðingar, voru sett fyrir hvern dag en þau las bara sá sem skrifaði. Við vorum alls 16 á námskeiðinu frá miðjum aldri og upp úr og small hópurinn ótrúlega vel saman og mikil gleði ríkti í samskiptum hans. Allur aðbúnaður kringum námskeiðið var mjög góður.
Samnemendum mínum þótti nokkuð til um hvað ég var langt að komin til þess að sækja námskeiðið og spurðu hvort að það hefði verið ferðalagsins virði. Svar mitt var hiklaust já.
Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir
Að eldast einn/ein
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) mun fjöldi fólks 60 ára og eldra á heimsvísu tvöfaldast frá árinu 2020 og verða 2,1 milljarður árið 2050. Í Bandaríkjunum eru um 13,8 milljónir fullorðnir einstaklingar eldri en 65 ára sem búa einir, eða rúmlega 28% íbúa 65 ára og eldri. Eftir að hafa skoðað talnaefni um mannfjölda á síðum Hagstofunnar eru á Íslandi árið 2023 skráðir tæplega 59 þúsund einstaklingar 65 ára og eldri eða um 15,5 % íbúa. Af þeim eru svo um 22 þúsund skráð einhleyp eða um 37%. Með fyrirvara um rétta túlkun á talnaefni Hagstofunnar er þetta mun hærra hlutfall en í Bandaríkjunum, ef gera má ráð fyrir að samsvörun sé á milli þess að vera einhleypur og að búa einn.
Fyrir nokkrum árum kynnti Dr. Sara Zeff Geber hugtakið „Solo Ager“ í bók sinni, “Essential Retirement. Planning for Solo Agers”. Hún skilgreinir slíka “eldri einhleypa” sem einstaklinga sem ekki eiga börn eða aðra aðstandendur til stuðnings á þeim árum þegar þau eru farin að þurfa aðstoð við ýmsar athafnir.
Í bók hennar kemur meðal annars fram að aldraðir Bandaríkjamenn sem búa einir og hafa ekki sterkt tengslanet standa gjarnan frammi fyrir áskorunum eins og félagslegri einangrun, einmanaleika, geðrænum vandamálum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þessi þróun heldur áfram með vaxandi hlutfalli 65 ára og eldri í landinu og heiminum öllum. Sjálfbær stjórnsýsla og stefnumótandi frumkvæði, ásamt því að eldri einstaklingar sjálfir undirbúi sig með góðum fyrirvara, eru lykilþættir í nauðsynlegum stuðningi og úrræðum til að mæta þörfum þessa vaxandi fjölda.
Dr. Sara Zeff Geber ræddi þessa stöðu á júnífundi alþjóðlega tengslanetsins Pass it on Network þar sem hún kynnti bók sína, eigin reynslu og hugmyndir. Hægt er að horfa á upptöku af þessum fundi, bæði kynningu hennar og umræðurnar á eftir. Sjá: Solo Ageing: Challenges and Triumphs in a Graying World (youtube.com). Til undirbúnings umræðunum leituðu stjórnendur netsins upplýsinga hjá tengiliðunum um það hvernig þessum áskorunum væri mætt í löndum þeirra.
Af svörunum var ljóst að hér væri um sameiginlegar áskoranir að ræða. Eldri einhleypir, reynsla þeirra af að eldast án maka eða náinnar fjölskyldu til stuðnings, er vaxandi áhyggjuefni um allan heim. Víða er þegar tekist á við þetta en alls staðar er gert ráð fyrir aukinni þörf á markvissri áætlanagerð og stuðningskerfum. Einmanaleika má telja hnattræna ógn og verulegt áhyggjuefni. Mikilvægt er að sinna ekki einungis líkamlegum þörfum, heldur ekki síður félagslegri og tilfinningalegri vellíðan allra aldraðra, þar með talið eldri einstæðra. Hefðbundið umönnunarhlutverk fjölskyldunnar er að hverfa um allan heim. Þróun kjarnafjölskyldunnar, hreyfanleiki og fólksflutningar vegna starfa og breyttur lífsstíll, allt hefur sín áhrif. Alls staðar er brýn þörf á markvissum aðgerðum.
Ýmis stuðningsúrræði voru nefnd í svörunum. Meðal opinberra aðgerða má nefna niðurgreiddar máltíðir og öldrunarheimili, félagsþjónustu fyrir aldraða, landsáætlanir um að „eldast vel“ og löggjöf til að „aðlaga samfélagið að öldrun”, sem viðurkenna sérþarfir eldri einstaklinga. Meðal samfélagsaðgerða má nefna félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara og félagsstarf á vegum félagasamtaka gegna veigamiklu hlutverki í baráttunni gegn einmanaleika og að efla tilfinningu fyrir því að tilheyra. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir þá eldri einhleypa sem skortir náin fjölskyldutengsl.
Ljóst er að eldast ein eða einn er vaxandi raunveruleiki eldra fólks um heim allan og aðstaða eldri einhleypra tengist auðvitað samfélagsbyggingu og stjórnarháttum þess þjóðfélags sem í hlut á. Ríki og samfélög eru mislangt á veg komin í að takast á við þær áskoranir sem þessu fylgja, en sameiginlegur þráður er þörfin fyrir fjölþætta nálgun. Hún hlýtur alls staðar að beinast að stuðningi hins opinbera, framtaksverkefnum á vegum samfélagsins og hugsanlega aðlögun núverandi samfélagsgerðar til að koma til móts við sérþarfir eldri einhleypra. Með því að vinna saman, deila reynslu og hugmyndum eigum við að geta tryggt öllum ánægjulega öldrun með reisn.
Aðbúnaður eldra fólks og staða þeirra í íslensku samfélagi hefur lengi verið í samfélagsumræðunni, þar sem heimilisaðstoð, hjúkrunarrými og skortur á hvoru tveggja, svo kallaður fráflæðisvandi, svelt heilbrigðiskerfi og áralangir biðlistar eru sífellt áhyggjuefni. Einmanaleiki efri áranna hefur verið nefndur, og sjá má af tölum Hagstofu Íslands að hlutfall einhleypra af aldurshópnum 65+ er hátt. Tækifæri til samveru og virkni huga og handar eru allnokkur, bæði á vegum sveitarfélaga og frjálsra samtaka. Gott dæmi er auðvitað U3A Reykjavík sem hefur nú í 12 ár boðið upp á vettvang til að fræðast og fræða aðra. Eins má nefna félög eldri borgara um allt land, starf íþróttafélaga og fleiri slík tækifæri sem byggja flest á ólaunuðu áhugastarfi. Nýverið hleyptu stjórnvöld af stokkunum átakinu “Gott að eldast” þar sem lögð er fram aðgerðaáætlun um þjónustu við aldraða og finna má gátt með fjölda heilræða og upplýsinga. Þetta er gott framtak og verður vonandi til þess að auðveldara verði að eldast einn/ein. Að mati undirritaðs er þó mikilvægasta leiðin til ánægjulegrar öldrunar að eiga samskipti við aðra í góðum félagsskap, ekki bara með sínum aldurshópi heldur þvert á kynslóðir. Öll slík tækifæri eru eflandi og vonandi mun þetta átak ríkisstjórnarinnar leiða til öflugs stuðnings við eldri einhleypa.
Hans Kristján Guðmundsson
Greinin byggir á umfjöllun um stöðu eldri einhleypra á vettvangi hins víðfeðma tengslanets Pass it on Network sem U3A Reykjavík hefur tengst um árabil, erindi Dr. Sara Zeff Geber og samantekt Osnat Lustig frá 18. maí 2024 á niðurstöðum óformlegrar könnunar meðal tengiliða netsins.
Fréttir frá Tuma
TUMI – fréttir af júnífundi 2024
TUMI = Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi.
Fjölmiðlanefnd https://fjolmidlanefnd.is/ sér um Tuma
Fimmti TUMafundur ársins var 6. júní. Fyrst á dagskrá var kynning Benediktu Bjargar Sörensen, stofnanda Ofbeldisvarnarskólans (OFSI) og doktorsnema við Háskóla Íslands (HÍ) á efninu Heilbrigð leikjamenning og forvarnir í stafrænu æskulýðsstarfi. Áherslan hjá OFSa skólanum núna eru samskipti á netinu og kynferðisofbeldi. Ennþá vantar skilgreiningar á og ramma um hugtakið stafrænt æskulýðsstarf. Börnum og unglingum duga ekki alveg, þó góðar séu, stakar skólaheimsóknir þar sem sagt er frá hættum í samskiptum á netinu, ofbeldi o.fl. Þau þurfa aðgang að fólki sem þau treysta, þegar spurningarnar vakna, sem sagt starfsfólki skóla og æskulýðsstarfs. Starfið er að nokkru leyti byggt á sænskri rannsókn, m.a. á viðhorfum þolenda. Spurningarlistar hafa líka verið notaðir hérlendis. Fræðsluefni er streymt á algengustu miðlum unga fólksins og notað sem umræðukveikjur.
Óttar Birgisson, sálfræðingur og doktorsnemi við HÍ, ræddi um sína rannsókn um áhrif netsamskipta á geðheilsu. Merki sjást um versnandi geðheilsu ungmenna. Í Bandaríkjunum hefur fjölgað greiningum á vanlíðan unglinga frá því um 2010 – 2012. Hvers vegna? Ýmsar kenningar hafa verið settar fram, en engin þeirra skýrir nema örlítinn hluta geðvandans. Rannsóknir minna á að vandinn er samþættur, enginn einn sannleikur. Aftur á móti virðist skjánotkun og samfélagsmiðlar skýra talsvert, eða um 20% af aukningunni. Athyglisvert er að í byrjun aldar sást ekki samband samfélagsmiðlanotkunar og geðheilsu. Á árunum kringum 2011 birtast tæki fyrir aukin samskipti, lækin, myndefni og myndavél, og flest ungmenni komin með síma. Í könnun árið 2015 sjást sterkar vísbendingar hjá stúlkum um samband miðlanna við einkenni þunglyndis og kvíða. Geðheilsa fer síðan versnandi hjá báðum kynjum. Á þá að banna TikTok? Óttar taldi þarft að nálgast umræðuna eins og vangaveltur um sykur. Sykur er ekki hættulegur, nema hans sé neytt í óhófi. Sama með skjánotkunina, hún þarf að vera í hófi. En hvar eru mörkin? Sé samfélagsmiðlanotkunin minni en í klukkustund á dag finnst ekkert samband við vanlíðan. Hins vegar birtist óljós mynd, þegar lengri notkun er skoðuð og hér þarf mun meiri rannsóknir. Nú er Z kynslóðin að færast inn í rannsóknarteymin! Ábending kom fram á fundinum um að börn væru síður á samfélagsmiðlum í skólanum en utan hans, og því yrði að ná út fyrir skólann. Mikilvægt er að grípa snemma inn í og, ekki síður, að annað komi í staðinn, leikjabernska í stað símabernsku. Mælt var með bókinni Anxious Generation eftir Jonathan Haidt.
Gunnar Geir Geirsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu sagði frá herferðinni Ekki taka skjáhættuna . Bílslysum fjölgar og ákveðið að benda á fráleitar hliðstæður, svo sem skrifa á ritvél undir stýri. Ætlast var til að fólk áttaði sig á fáránleikanum og sæi að ökutíminn sem fer í símann væri ekki þess virði, truflunin væri hættuleg. Aðspurður um árangur af svona herferðum, svaraði Gunnar að gengist hefði verið fyrir umferðarherferð fyrir um áratug og í árlegri viðhorfskönnunum hefði þá komið fram talsverð viðhorfsbreyting og fólk taldi sig hafa breytt hegðun.
Næsti fundur verður í haust.
Guðrún Bjarnadóttir
Hafra- og bananakökur frá Loma Linda
Loma Linda í Kaliforníu er eitt af „Bláum svæðum“ heimsins. Öldungar í Loma Linda aðhyllast „biblíufæði“ með áherslu á kornmeti, ber og ávexti, hnetur og grænmeti og þeir drekka einungis vatn. Efst á vinsældalista þeirra eru m.a. lárperur, hnetur, baunir, heilhveitibrauð, sojamjólk og hafrar. Með því að stappa saman haframjöl og banana og bæta við fáeinum öðrum innihaldsefnum getum við búið til þessar ljúffengu og hollu kökur sem eru sætar en þó sykurlausar og því hentugar þegar sætupúkinn gerir vart við sig.
Innihald:
- 2 bollar haframjöl
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk kanill
- 1 ½ tsk kakóduft
- ¼ tsk múskat
- ¼ tsk engifer
- 4 miðlungsstórir, vel þroskaðir bananar
- ⅓ bolli saxaðar valhnetur (eða saxaðir þurrkaðir ávextir að vild)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 175°C. Setjið bökunarpappír á plötu. Malið haframjölið í blandara þar til það er orðið að frekar fínu mjöli. Hellið því í skál og blandið matarsóda og kryddum saman við.
- Maukið bananana í blandaranum þar til þeir eru kekkjalausir. Hrærið þeim saman við haframjölsblönduna ásamt hnetunum (eða þurrkuðu ávöxtunum).
- Setjið kúfaða matskeið af deigi á plötuna og hafið gott bil á milli. Dýfið skeiðinni í vatn og þrýstið henni létt á hverja köku til að fletja þær út. Bakið kökurnar í u.þ.b. 15 mínútur.
Sólveig Hulsdunk Georgsdóttir
Viðburðir U3A Reykjavík í september 2024
3. september hefst vetrarstarf U3A Reykjavík með félagsfundi í Hæðargarði 31 kl. 16:30. Á dagskrá er stutt kynning á starfsemi U3A Reykjavík. Síðan verða umræður í litlum hópum þar sem félagar leggja fram sínar hugmyndir um fyrirlestra og viðburði sem þeir hafa áhuga á að settir verði á dagskrá á komandi mánuðum. Þannig verður til hugmyndabanki sem stjórn félagsins vinnur úr þegar viðburðir eru skipulagðir. Kaffi og kleinur í boði.
10. september munu Þórey Þórðardóttir framkvæmdastjóri og Vilborg Guðnadóttir verkefnastjóri hjá Landsambandi lífeyrissjóða fræða okkur um lífeyrissjóði.
17. september mun Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands koma til okkar og fjallar m.a. um íbúaþróun, fólksflutninga og vöxt byggða á Íslandi frá síðustu aldaskiptum.
24. september mun Sigrún Jónsdóttir, sviðsstjóri samskipta hjá Tryggingastofnun ríkisins kynna þá þjónustu sem Tryggingastofnun veitir lífeyrisþegum og rétt til töku ellilífeyris.
1. október mun Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri Minjaverndar segja okkur frá Minjavernd en markmiðið þeirrar starfsemi er að varðveita mannvirki og mannvistarleifar af margvíslegum toga hvarvetna á Íslandi.
Nánari upplýsingar og skráningar á fyrirlestra má finna á síðu félagsins www.u3a.
Allir fyrirlestrarnir fara fram í Hæðargarði 31, 108 Reykjavík kl. 16:30.
Kveðjur frá stjórn U3A Reykjavík